Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Sannir hirðar

Sannir hirðar

Október 2013 Aðalráðstefna

Heimiliskennslan er svar við mörgum bænum og gerir okkur kleift að sjá breytingarnar sem eiga sér stað í lífi fólks.

Í Ráðstefnuhöllinni í Salt Lake City, nú í kvöld, og á stöðum nær og fjær, eru þeir saman komnir sem hafa prestdæmi Guðs. Þið eruð sannlega „konunglegt prestafélag“ ‒ já, „útvalin kynslóð,“ líkt og Pétur postuli lýsti yfir.1 Mér er heiður af þeim forréttindum að ávarpa ykkur.

Í uppvexti mínum ók fjölskylda mín til Provo Canyon á hverju sumri, um 72 kílómetra suður og örlítið austur af Salt Lake City, þar sem við dvöldum í bjálkakofa fjölskyldunnar í nokkrar vikur. Við strákarnir hlökkuðum ætíð til þess að fara að ánni til að veiða eða synda í hylnum, og við reyndum að auka hraða bílsins örlítið. Á þeim tíma ók faðir minn á 1928 árgerð af Oldsmobile. Ef hann ók á yfir 55 kílómetra hraða á klukkustund, sagði móðir mín: „Hægðu á þér! Hægðu á þér!“ Ég sagði aftur á móti: „Stígðu á bensíngjöfina, pabbi! Stígðu á hana!“

Pabbi ók á 55 kílómetra hraða á klukkustund alla leiðina upp að Provo Canyon eða þangað til við komum að bugðu á veginum og hlé var gert á ferðalagi okkar vegna sauðahjarðar. Við fylgdumst þá með hundruðum sauðkinda fara fram hjá okkur, augljóslega án hirðis, og nokkrum hundum geltandi við fætur þeirra er þær fóru hjá. Langt fyrir aftan kindurnar sáum við svo hirðinn á hesti sínum ‒ sem ekki hafði beisli, heldur múl. Endrum og eins mókti hann álútur í hnakknum, því hesturinn vissi hvert fara skyldi og geltandi hundarnir sáu um verkið.

Sýn þessi var allt önnur en sú sem ég sá í Munchen, Þýskalandi, fyrir mörgum árum. Hún átti sér stað á sunnudagsmorgni, á leið okkar á trúboðsráðstefnu. Þegar ég leit út um gluggann á bifreið trúboðsforsetans, sá ég hirði með staf í hendi, fara fremstan í flokki fyrir sauðum sínum. Þeir fylgdu honum eftir hvert sem hann fór. Ef hann fór til vinstri, fylgdu þeir honum eftir þangað. Ef hann fór til hægri, fylgdu þeir honum eftir í þá átt. Ég gerði samanburð á hinum sanna hirði, sem fer fyrir sauðum sínum, og þeim hirði sem sallarólegur var fyrir aftan sauði sína.

Jesús sagði: „Ég er góði hirðirinn og þekki mína [sauði].“2 Hann sá okkur fyrir fullkomnu fordæmi um hvað sönnum hirði bæri að gera.

Bræður, sem prestdæmishafar Guðs berum við ábyrgð sem hirðar. Drottinn hefur af visku sinni séð okkur fyrir leiðsögn um hvernig við getum verið hirðar fjölskyldna kirkjunnar, hvernig við getum þjónað, kennt og vitnað fyrir þeim. Það gerum við með heimiliskennslunni og hún snýst um það sem ég hyggst ræða um nú í kvöld.

Biskup hverrar deildar í kirkjunni hefur umsjá með verkefnum prestdæmishafa sem heimiliskennara, er vitja heimila meðlima kirkjunnar í hverjum mánuði. Þeir fara tveir saman. Þar sem það er mögulegt, ætti ungur maður, sem er prestur eða kennari í Aronsprestdæminu, að fara með fullorðnum manni, sem hefur Melkísedeksprestdæmið. Þegar þeir fara inn á þau heimili sem þeir bera ábyrgð á, ætti Aronsprestdæmishafinn að taka þátt í kennslunni sem fer fram. Slík þátttaka býr þessa ungu menn undir trúboð, sem og ævilanga prestdæmisþjónustu.

Heimiliskennslan er svar við nútíma opinberun, sem kveður á um að þeir sem vígðir eru prestdæminu, skuli „kenna, útskýra, hvetja, skíra ... og vitja heimilis sérhvers meðlims og hvetja þá til að biðja upphátt og í leynum og rækja allar skyldur við fjölskyldu sína, ... að vaka stöðugt yfir söfnuðinum, vera með honum og styrkja hann‒ Og sjá um að hvorki tíðkist misgjörðir í kirkjunni, harka í garð hver annars, lygi, rógburður, né illt umtal.“3

David O. McKay forseti sagði: „Heimiliskennslan er ein af okkar brýnustu og mest gefandi tækifærum til að næra og innblása, til að ráðleggja og leiðbeina börnum föðurins. ... Hún er guðleg þjónusta, guðleg köllun. Það er skylda okkar sem heimiliskennara að bera ... andann inn á hvert heimili og í hvert hjarta. Ef við elskum starfið og gerum okkar besta, mun það veita dyggum og [göfugum kennara] barna Guðs ómælda gleði og ánægju.”4

Í Mormónsbók lesum við að Alma hafi vígt „alla presta þeirra og kennara, og enginn var vígður, sem ekki var réttvís maður.

Og þeir vöktu yfir fólki sínu og nærðu það á öllu, sem réttlætið snertir.”5

Við værum vitrir, er við sinnum ábyrgð okkar í heimiliskennslunni, ef við leggðum á okkur að skilja erfiðleika allra í hverri fjölskyldu, svo kennsla okkar skili árangri og veiti nauðsynlegt liðsinni.

Einnig er líklegra að heimiliskennsla beri meiri árangur, ef heimsókn er skipulögð með fyrirvara. Ég ætla að segja ykkur frá atviki sem ég upplifði fyrir nokkrum árum, sem útskýrir það. Á þeim tíma var Framkvæmdanefnd trúboðsins skipuð Spencer W. Kimball, Gordon B. Hinckley og Thomas S. Monson. Kvöld eitt buðu bróðir og systir Hinckley meðlimum nefndarinnar, og eiginkonum þeirra, til kvöldverðar á heimili sínu. Við höfðum rétt lokið dásamlegri máltíð, þegar kveðið var dyra. Hinckley forseti lauk upp dyrunum og sá annan heimiliskennara sinn fyrir utan dyrnar. Heimiliskennarinn sagði: „Ég veit að ég kem óviðbúið og hef ekki félaga minn með mér, en mér fannst ég eiga að koma í kvöld. Ég vissi ekki að þú værir með gesti.“

Hinckley forseti bauð heimiliskennaranum vingjarnlega að koma inn fyrir, fá sé sæti og kenna þremur postulum, og eiginkonum þeirra, kirkjulega skyldu sína. Nokkuð óttasleginn gerði heimiliskennarinn sitt besta. Hinckley forseti þakkaði honum fyrir komuna og hann hvarf skjótt á braut.

Ég nefni enn eitt dæmi um hvernig óviðeigandi er að framkvæma heimiliskennslu. Marion G. Romney forseti, sem var ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu fyrir nokkrum árum, sagði stundum frá heimiliskennara sínum sem eitt sinn vitjaði heimilis Romneys á köldu vetrarkvöldi. Hann hélt á hattinum sínum, settist niður taugaspennur, er honum var boðið það, og flutti boðskapinn. Þegar hann stóð upp, sagði hann: „Jæja, bróðir Romney, það er kalt úti og ég skildi bílinn eftir í gangi, ef hann skildi ekki fara í gang aftur. Ég kom bara við, svo ég gæti sagt biskupinum að ég hefði lokið heimsóknum mínum.“6

Ezra Taft Benson forseti sagði á fundi með prestdæmishöfum, eftir að hafa sagt frá þessari reynslu Romneys forseta: „Við getum gert betur en þetta, bræður ‒ mun betur!“7 Ég er því sammála.

Heimiliskennslan er meira en vélræn heimsókn einu sinni í mánuði. Við berum ábyrgð á að kenna, innblása og hvetja, og ef við vitjum þeirra sem ekki eru virkir, leiðum við þá til virkni og endanlegrar upphafningar sona og dætra Guðs.

Okkur til framdráttar í starfi, miðla ég þessari vitru leiðsögn, sem vissulega höfðar til heimiliskennara. Hún kemur frá Abraham Lincoln, sem sagði: „Ef þú vilt vinna mann á þitt band, sannfærðu hann þá fyrst um að þú sért einlægur vinur hans.“8 Ezra Taft Benson forseti sagði:„Verið framar öllu einlægir vinir þeim einstaklingum og fjölskyldum sem þið kennið.... Vinur gerir meira en að koma í heimsókn af skyldurækni í hverjum mánuði. Vinur hefur meiri áhuga á að hjálpa fólki en að ávinna sér lof. Vinur sýnir umhyggju. Vinur [sýnir kærleika]. Vinur leggur við hlustir og vinur veitir liðsinni.“9

Heimiliskennslan er svar við mörgum bænum og gerir okkur kleift að sjá breytingarnar sem eiga sér stað í lífi fólks.

Dæmi um það er Dick Hammer, sem kom til Utah í Kreppunni miklu. Hann kynntist og giftist ungri Síðari daga heilagra konu. Hann stofnaði Dicks-kaffi í St. George, Utah, sem varð vinsæll samkomustaður.

Willard Milne, vini mínum, var falið að vera heimiliskennari Hammer-fjölskyldunnar. Þar sem ég þekkti Dick Hammer líka vel, því ég hafði prentað matseðilinn fyrir kaffihúsið hans, spurði ég vin minn, bróður Milne, þegar ég fór til St. George: „Hvað er að frétta af Dick, vini okkar?”

Svarið var yfirleitt: „Hann kemur til, en hægt er það.“

Þegar Willard Milne og félagi hans vitjuðu heimilis Hammer-hjónanna í hverjum mánuði, tókst þeim alltaf að flytja trúarboðskapinn og miðla vitnisburði sínum með Dick og fjölskyldunni.

Árin liðu og dag einn hringdi Willard í mig með góð tíðindi. „Bróðir Monson,“ sagði hann, „Dick Hammer hefur snúist til trúar og ætlar að láta skírast. Hann er 90 ára og við höfum verið vinir öll okkar fullorðinsár. Mér hlýnar um hjartarætur við þessa ákvörðun hans. Ég hef verið heimiliskennari hans í mörg ár.“ Það var ánægjuhreimur í rödd Willards þegar hann færði mér þessi gleðilegu tíðindi.

Bróðir Hammer var vissulega skírður og ári síðar fór hann í hið fallega St. George musteri og tók þar á móti musterisgjöf sinni og blessunum innsiglunar.

Ég spurði Willard: „Lést þú einhvern tíma hugfallast á svo löngum tíma sem heimiliskennari hans?”

Hann svaraði: „Nei, það var alls erfiðis virði. Þegar ég varð vitni að gleði Hammer-fjöldskyldunnar, fylltist ég þakklæti í hjarta, fyrir þær blessanir sem fagnaðarerindið hefur fært þeim og þau forréttindi að fá að hjálpa á einhvern hátt. Ég er hamingjusamur maður.“

Bræður, það verða forréttindi okkar yfir árin að heimsækja og kenna mörgum mismunandi einstaklingum ‒ þeim sem eru lítt virkir og þeim sem eru fyllilega virkir. Ef við erum samviskusamir í köllun okkar, munu okkur gefast mörg tækifæri til að blessa aðra. Heimsóknir okkar til þeirra sem hafa dregið sig í hlé frá kirkjustarfi, geta verið lykillinn sem að lokum lýkur upp dyrunum að endurkomu þeirra.

Við skulum, með það í huga, ná til þeirra sem við berum ábyrgð á og leiða þá að borði Drottins, til að nærast á orði hans og njóta samfélags anda hans, svo þeir verði „ekki framar gestir og útlendingar, heldur ... samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.“10

Ef einhver ykkar hefur orðið andvaralaus í heimiliskennslunni, segi ég við þann, að nú er besti tíminn til að endurhelga sig því að framfylgja skyldum heimiliskennslunnar. Ákveðið nú að gera hvaðeina nauðsynlegt til að ná til þeirra sem ykkur hefur verið falið að bera ábygð á. Stundum þarf líka að ýta svolítið við félaga ykkar í heimiliskennslunni, til að hjálpa honum að finna tíma til að fara með ykkur, og ef þið haldið því áfram, munuð þið ná árangri.

Bræður, starf okkar í heimiliskennslunni er viðvarandi. Starfið mun engan endi taka fyrr en Drottinn okkar og meistari segir: „Nú er nóg að gert.“ Það eru líf sem lýsa má. Það eru hjörtu sem snerta má. Það eru sálir sem frelsa má. Við njótum þeirra helgu forréttinda að lýsa, snerta og frelsa þær dýrmætu sálir sem okkur er falið að annast. Það ættum við að gera af trúmennsku og af fúsu og glöðu hjarta.

Að lokum segi ég frá einstæðu dæmi sem sýnir hvernig heimiliskennarar við eigum að vera. Líf kennara eins er fullkomnara öllum öðrum. Hann kenndi um líf og dauða, um ábyrgð og örlög. Hann lifði ekki til að láta þjóna sér, heldur þjónaði hann öðrum, ekki til að þiggja, heldur til að gefa, ekki til að bjarga eigin lífi, heldur til að fórna því í þágu annarra. Hann sagði elsku fegurri en losta, fátækt dýrmætari en fjársjóð. Um kennara þennan var sagt, að hann hafi kennt eins og sá, er vald hefur, en ekki eins og fræðimennirnir.11 Lögmál hans var ekki skráð á stein, heldur í hjarta mannsins.

Ég á hér við afburðakennara, já, Jesú Krist, son Guðs, frelsara og lausnara alls mannkyns. Í Biblíunni er sagt að hann hafi „[gengið] um, [og gjört] gott.“12 Þar sem hann er okkar óbrigðula leiðsögn og fyrirmynd, ættum við að gera okkur hæfa fyrir guðlega hjálp hans í heimiliskennslu okkar. Líf verða blessuð. Hjörtu verða hugguð. Sálir verða frelsaðar. Við verðum sannir hirðar. Ég bið þess að svo megi verða, í nafni hins mikla hirðis, Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. 1 Pét 2:9.

  2. Jóh 10:14.

  3. Kenning og sáttmálar 20:42, 47, 53–54.

  4. David O. McKay, í Priesthood Home Teaching Handbook, uppfærð útgáfa (1967), ii, iii.

  5. Mósía 23:17–18.

  6. Vitnað í Marion G. Romney, ræða haldin á heimiliskennslunámskeiði fyrir prestdæmishafa, 9. ágúst 1963.

  7. Ezra Taft Benson, „To the Home Teachers of the Church,” Ensign, maí 1987, 50.

  8. Abraham Lincoln, í David Decamp Thompson, Abraham Lincoln, the First American (1895), 226.

  9. Ezra Taft Benson, Ensign, maí 1987, 50.

  10. Efe 2:19.

  11. Sjá Matt 7:28–29.

  12. Post 10:38.