2010–2019
Við höfum mikla ástæðu til að fagna
Október 2013


Við höfum mikla ástæðu til að fagna

Þegar þið vakið yfir öðrum og þjónið á yfirlætislausan og einfaldan hátt, eruð þið á virkan hátt að taka þátt í starfi sáluhjálpar.

Þegar tengdafaðir minn lést, kom fjölskyldan saman til að taka á móti fólki sem kom til að votta okkur samúð. Allt kvöldið, á meðan ég spjallaði við fjölskyldu og vini, sá ég að10 ára gamalt barnabarn mitt, Porter, stóð oft nálægt tengdamóður minni ‒ ömmu sinni. Stundum stóð hann fyrir aftan hana og vakti yfir henni. Einu sinni tók ég eftir því að hann tók undir arm hennar. Ég horfði á hann strjúka hönd hennar, knúsa hana og standa við hlið hennar.

Þessi sýn vildi ekki úr huga mér fara í nokkra daga á eftir. Mér fannst ég eiga að láta Porter vita að ég hefði tekið eftir þessu. Ég sendi honum tölvupóst og lýsti því sem ég hafði séð og hvernig mér leið. Ég minnti Porter á sáttmálana sem hann hafði gert þegar hann skírðist og vitnaði í orð Alma í Mósía, kapítula 18:

„Og þar sem þið þráið að komast í hjörð Guðs og kallast hans lýður og eruð fús til að bera hver annars byrðar, svo að þær verði léttar –

„Já, og eruð fús að syrgja með syrgjendum, já, og hugga þá, sem huggunar þarfnast, og standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem þið kunnið að vera, já, allt til dauða, … svo að þið megið öðlast eilíft líf‒

… Sé þetta hjartans þrá ykkar, hvað hafið þið þá á móti því að láta skírast í nafni Drottins til að vitna fyrir honum, að þið hafið gjört sáttmála við hann um að þjóna honum og halda boðorð hans, svo að hann megi úthella anda sínum enn ríkulegar yfir ykkur?“1

Ég útskýrði fyrir Porter að Alma hefði kennt, að þeir sem vilji skírast þurfi að vera tilbúnir að þjóna Drottni með því að þjóna hvert öðru — allt til æviloka! Ég sagði: „Ég veit ekki hvort þú gerir þér grein fyrir því, en kærleikurinn og umhyggjan sem þú sýndir ömmu þinni var hluti af því að halda sáttmála þína. Við höldum sáttmála okkar á hverjum degi þegar við erum góð, sýnum kærleika og hugsum hvert um annað. Ég vildi bara að þú vissir að ég er mjög stolt af þér fyrir að halda sáttmála þinn! Er þú heldur sáttmálann sem þú gerðir þegar þú skírðist, verður þú reiðubúinn að meðtaka prestdæmið. Sá viðbótar sáttmáli mun veita þér fleiri tækifæri til að blessa aðra og þjóna þeim og mun búa þig undir sáttmála sem þú munt gera í musterinu. Þakka þér fyrir að vera svona gott fordæmi fyrir mig! Þakka þér fyrir að sýna mér hvernig þeir eru sem halda sáttmála sína!“

Porter svaraði til baka: „Amma, takk fyrir skilaboðin. Ég vissi ekki að ég væri að halda sáttmála þegar ég var að knúsa ömmu, mér hlýnaði í hjarta mínu og leið rosalega vel. Ég veit að það var heilagur andi sem var í hjarta mínu.“

Ég fann einnig hlýju í mínu hjarta þegar ég skildi að Porter hafði tengt það að halda sáttmála sína við loforðið um að „andi hans sé ætíð með [okkur]“2‒loforð sem hlýst með því að meðtaka gjöf heilags anda.

Systur, er ég hef heimsótt ykkur víða um heim, hef ég tekið eftir því að margar eruð þið eins og Porter. Þið standið hljóðlega sem vitni Guðs, syrgið með syrgjendum og huggið þá sem huggunar þarfnast, án þess að verða þess áskynja að þið eruð að halda sáttmála ykkar ‒ þá sem þið gerðuð í skírnarvatninu og í musterinu. Þegar þið vakið yfir öðrum og þjónið á yfirlætislausan og einfaldan hátt, eruð þið á virkan hátt að taka þátt í sáluhjálparstarfi, því verki Guðs „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“3

Við höfum gert helga sáttmála sem „dætur í ríki [Drottins].“4 Við erum á hinum „krappa og þrönga vegi, sem liggur til eilífs lífs,“5líkt og Nefí nefndi það. Við erum allar á mismunandi stað á veginum. En við getum unnið saman og hjálpað hver annarri „að sækja fram, [staðfastar] í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna.“6

Jeanne þjónar sem leiðbeinandi í Stúlknafélaginu. Fyrir nokkrum mánuðum frétti hún af nokkru sem unglingarnir í deildinni ætluðu að gera á næstunni: Þeir ætluðu að ganga upp á svonefndan Malans tind. Hún var spennt því hún hafði nýlega sett sér það markmið að ganga á þetta fjall.

Þegar hún kom að göngustígnum kom Ashley, góð vinkona hennar, til hennar. Hún tók undir arm Jeanne og bauð henni að ganga með sér og sagði: „Ég skal fara með þér.“ Ashley, sem þá var 16 ára átti við líkamlega erfiðleika að stríða, sem gerðu henni erfitt með að klífa mjög hratt. Hún og Jeanne gengu rólega og virtu fyrir sér sköpunarverk himnesks föður: Steinana á fjallstindinum fyrir ofan þær og blómin allt í kringum þær. Síðar sagði Jeanne: „Ég var ekki lengi að gleyma því takmarki mínu að komast á tindinn, því þetta breyttist fljótlega í annars konar ævintýri — ævintýri sem snerist um að benda á fegurðina meðfram stígnum, flest sem mér hefði væntanlega yfirsést, ef ég hefði bara einblínt á það takmark mitt, að ná upp á tind Malans.“

Jeanne og Ashley héldu áfram göngu sinni, langt á eftir öllum hópnum, en brátt bættist Emma í hópinn, önnur stúlka úr deildinni sem ákvað að bíða og ganga með þeim. Emma jók á ánægju þeirra. Hún kenndi þeim lag og veitti þeim aukinn styrk og hvatningu. Jeanne rifjaði upp: „Við sátum og hvíldumst, við sungum, við töluðu og við hlógum. Ég kynntist Ashley og Emmu mun betur þannig, en ég hefði annars gert. Þetta kvöld snerist ekki um fjallið ‒ heldur um eitthvað miklu meira. Það snerist um að hjálpa hver annarri á veginum, eitt skref í einu.“

Er Jeanne, Ashley og Emma gengu, sungu, hvíldust og hlógu saman, voru þær sennilega ekki að hugsa: „Núna erum við að halda sáttmála okkar.“ En þær voru einmitt að halda sáttmála sína. Þær voru að þjóna hver annarri af elsku, samúð og skyldurækni. Þær voru að efla trú hver annarrar, er þær hvöttu og þjónuðu hver annarri.

Öldungur Russell M. Nelson kenndi: „Þegar okkur verður ljóst að við erum sáttmálslýður, vitum við hverjar við erum og hvers Guð væntir af okkur. Lögmál hans er ritað í hjörtu okkar.“7

Marina Kuysena er sáttmálsdóttir Guðs sem veit hver hún er og hvers Guð væntir af henni. Þegar hún bauð mig velkomna inn á heimili sitt í Omsk, Rússlandi, hélt ég að ég væri komin til að þjóna henni, en brátt varð mér ljóst, að ég var þarna til að læra af henni. Marina snerist til trúar á kirkjuna og lifir eftir leiðsögninni í Lúk 22: „Styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.“8 Hún trúir á orð okkar lifandi spámanns, Thomas S. Monson, sem sagði:

„Nú er tíminn fyrir kirkjuþegna og trúboða að koma saman, að vinna saman, að þjóna í víngarði Drottins við að leiða sálir til hans. …

… Þegar við störfum í trú mun Drottinn sýna okkur hvernig styrkja má kirkju hans í þeim deildum og greinum sem við tilheyrum. Hann mun vera með okkur og verða virkur félagi í trúboðsstarfi okkar.

…Sýnið trú … er þið íhugið í bæn hver í fjölskyldu ykkar, af vinum ykkar, nágrönnum og kunningjum þið mynduð vilja bjóða á heimili ykkar til að kynnast trúboðunum, til að kynna þeim boðskap endurreisnarinnar.“9

Maria fylgdi þessari ráðgjöf með því að vaka yfir og þjóna þeim systrum sem hún hafði verið beðin að heimsóknarkenna og lagði á sig meira en verkefnið krafðist. Hún á marga vini sem eru lítt virkir og sem enn hafa ekki heyrt boðskap hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Dag hvern iðkar hún trú og biður þess að vita hver þarf á hennar hjálp að halda og síðan fylgir hún þeim leiðbeiningum sem hún fær. Hún hringir í fólk, tjáir kærleika sinn og segir við vini sína: „Við þurfum á þér að halda.“ Hún hefur fjölskyldukvöld í íbúðinni sinni í hverri viku og býður nágrönnum, kirkjuþegnum og trúboðum að koma — og hún gefur þeim að borða. Hún býður þeim með sér í kirkju, bíður eftir þeim og situr hjá þeim þegar þau koma.

Maria skilur nýlega áminningu öldungs Jeffrey R. Hollands um að „boð sem knúið er af kærleika okkar til annarra og til Drottins Jesú Krists … mun aldrei verða túlkuð sem móðgun eða sem áfellisdómur.“10 Hún er með lista yfir fólk sem segist hafa verið móðgað og hún heldur áfram að þjóna því. Hún getur sagt þeim, af því að hún ber kærleika til þeirra: „Ekki láta móðgast. Það er fáranlegt!“

Maria er lærisveinn Jesú Krists sem heldur sáttmála. Þótt hún hafi ekki prestdæmishafa á heimili sínu finnur hún kraft Guðs sérhvern dag, er hún uppfyllir musterissáttmála sína, sækir fram á veg, stendur stöðug allt til enda og hjálpar um leið öðrum að taka þátt í sáluhjálparstarfinu.

Sjáið þið ykkur sjálfar í sáluhjálparstarfi, þegar þið heyrið slíkar reynslusögur. Íhugið um stund einhverja aðra dóttur Guðs, sem þarf á hvatningu að halda til að komast aftur á sáttmálsveginn eða örlitla hjálp til að haldast á veginum. Spyrjið föður ykkar á himnum um hana. Hún er dóttir hans. Hann þekkir hana með nafni. Hann þekkir einnig ykkur og hann mun segja ykkur hvers hún þarfnast. Verið þolinmóðar og haldið áfram í trú, biðjið fyrir henni og farið eftir innblæstrinum sem þið hljótið. Þegar þið farið eftir innblæstrinum, mun andinn staðfesta að fórn ykkar sé Drottni þóknanleg.

„Systir Eliza R. Snow ... var þakklát fyrir framlag systranna til styrktar hver annari. ... Hún sagði þeim, að enda þótt kirkjan héldi ekki skrá yfir sérhverja fórnargjöf þeirra í þágu hinna nauðstöddu, þá héldi Drottinn fullkomna skrá yfir frelsandi starf þeirra:

‚ ... Joseph Smith forseti sagði að þetta samfélag væri skipulagt til að bjarga sálum. Hvað erum [við að gera] til að „leiða þá aftur til baka sem hafa villst frá?‒Að verma hjörtu þeirra sem hafa kulnað í fagnaðarerindinu?‒Önnur bók er skráð um trú ykkar, góðmennsku, góð verk ykkar og orð. Önnur skrá er haldin. Ekkert fer forgörðum.’”11

Ammon, í Mormónsbók, talar um þá miklu ástæðu sem við höfum til að fagna: Hann segir: „Og nú spyr ég: Hvaða miklar blessanir hefur [Guð] veitt okkur? Vitið þið það?

Ammon er uppnuminn og bíður því ekki eftir svarinu. Hann segir: „Sjá, ég svara fyrir ykkur. … þetta er blessunin, sem okkur hefur hlotnast; við höfum orðið verkfæri í höndum Guðs til að vinna þetta mikla verk.“12

Við erum sáttmálsdætur í ríki Drottins og við höfum tækifæri til að vera verkfæri í höndum hans. Er við tökum þátt í starfi sáluhjálpar hvern dag á lítinn og einfaldan hátt ‒ vökum yfir hver annarri, styrkjum og kennum ‒ munum við geta tekið undir yfirlýsingu Ammons:

„En sjá. Gleði mín er algjör, já, hjarta mitt er barmafullt af gleði, og ég vil fagna í Guði mínum.

Já, ég veit, að ég er ekkert, styrkur minn er veikur. Þess vegna miklast ég ekki af sjálfum mér, en ég miklast af Guði mínum, því að með hans styrk get ég gjört allt.“13

Um þetta vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.