2010–2019
Við göngum aldrei ein
Október 2013


Við göngum aldrei ein

Sá dagur mun koma að þið standið til hliðar og horfið yfir erfiðleikatíma ykkar og gerið ykkur grein fyrir því að hann var alltaf þar við hlið ykkar.

Kæru systur, andinn sem við finnum hér í kvöld endurspeglar styrk ykkar, trúrækni og góðmennsku. Með orðum meistarans: „Þér eruð salt jarðarinnar. …Þér eruð ljós heimsins.“1

Þegar ég hugleiddi þetta tækifæri sem mér gefst hér til að tala til ykkar, var ég minntur á þann kærleika sem elskuleg kona mín, Francis, bar til Líknarfélagsins. Í lífi sínu þjónaði hún í ýmsum köllunum innan Líknarfélagsins Þegar við vorum bæði um 31 árs gömul var ég kallaður sem forseti Kanadatrúboðsins. Á því þriggja ára tímabili sem sú köllun stóð yfir var Frances í forsæti yfir öllum Líknarfélögunum á þessu stóra svæði, sem samanstóð af fylkjunum Ontario og Quebec. Hún eignaðist sumar af sínum bestu vinkonum í því starfi og það sama má segja um kallanir hennar sem hún gegndi seinna í Líknarfélaginu í okkar eigin deild. Hún var trúföst dóttir himnesks föður, ástkær félagi minn og besti vinur. Ég sakna hennar meira en orð fá lýst.

Ég ann einnig Líknarfélaginu. Ég ber ykkur vitni um, að það var skipulagt í gegnum innblástur og er mjög mikilvægur hluti af kirkju Drottins hér á jörðinni. Það væri ómögulegt að reikna út allt það góða sem hefur komið frá þessum samtökum og öll þau líf sem hafa verið blessuð vegna þess.

Líknarfélagið samanstendur af úrvali kvenna. Sumar ykkar eru einhleypar ‒ kannski við nám, kannski í vinnu - en lifið þó fullu og auðugu lífi. Sumar eruð þið uppteknar mæður vaxandi barna. Enn aðrar hafið þið misst menn ykkar, vegna skilnaðar eða dauða, og berjist við að ala upp börn ykkar án aðstoðar eiginmanns eða föður. Svo eru þær ykkar sem þegar hafið alið börn ykkar upp, en hafið uppgötvað að þörf þeirra fyrir aðstoð ykkar er áframhaldandi. Margar eigið þið fullorðna foreldra sem þarfnast þess kærleika sem aðeins þið getið veitt.

Hvar sem við erum stödd í lífinu þá koma þær stundir, að við þurfum öll að takast á við áskoranir og erfiðleika. Þótt þeir séu ólíkir, eru þeir okkur öllum sameiginlegir.

Margar þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir eru vegna þess að við búum í þessum jarðneska heimi, sem byggður er allskonar einstaklingum. Stundum spyrjum við í örvæntingu, „Hvernig get ég einblínt á það himneska þegar ég þarf að stýra í gegnum þennan jarðneska heim?“

Þær stundir koma er þið gangið á þyrnistráðum vegum, mörkuðum vandamálum. Þeir tímar kunna einnig að koma, er ykkur finnst þið ótengdar — jafnvel einangraðar - frá Honum sem allar góðar gjafir gefur. Þið hafið áhyggjur af að þið gangið einar. Ótti kemur í stað trúar.

Þegar þannig er ástatt, grátbið ég ykkur að muna eftir bæninni. Ég ann orðum Ezra Taft Benson forseta varðandi bænina: Hann sagði:

„Alla ævi hef ég metið mest af öllu það ráð sem ég fékk, að treysta á bænina. Það hefur orðið óaðskiljanlegur hluti af mér — akkeri, stöðug orkuuppspretta og grunnurinn að þekkingu minni á guðlegum hlutum…

…Þó að mótlæti komi, getum við fundið huggun í bæninni, því að Guð mun færa sálinni frið. Þann frið, þann anda friðsældar sem er mesta blessun lífsins.“2

Páll postuli sagði:

„Gjörið…óskir yðar kunnar Guði.

Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“3

Hversu dýrðlegt loforð! Friður er það sem við leitum að, það sem við þráum.

Við vorum ekki sett á þessa jörð til að ganga ein. Þvílík undraverð uppspretta krafts, styrks og huggunar er fyrir hendi fyrir okkur öll. Hann, sem þekkir okkur betur en við þekkjum okkur sjálf, hann, sem sér heildarmyndina og þekkir upphafið frá endinum, hefur fullvissað okkur um, að hann muni vera þar til staðar og veita aðstoð, ef við bara biðjum hann um hana. Við eigum loforðið: „Biðjið ávallt og trúið, og allt mun vinna saman að velfarnaði yðar.“4

Er bænir okkar stíga til himna, gleymum þá ekki orðunum sem frelsarinn kenndi. Þegar hann stóð frammi fyrir óbærilegri þjáningu í Getsemane og á krossinum, bað hann til föðurins: „Verði…ekki minn heldur þinn vilji.“5 Jafn erfitt og það kann stundum að vera, er það líka okkar að treysta því að himneskur faðir viti best hvenær og hvernig veita eigi þá aðstoð sem við leitum eftir.

Mér þykir vænt um orð skáldsins:

Ekki veit ég hvernig eða hvenær.

en það veit ég að Guð svarar bænum.

Ég veit að sitt loforð hann gefur,

um að bænir verði ávallt heyrðar,

og fyrr eða síðar við svarið hljótum.

Ég bið því og bíð í ró.

Ég veit ei hvort bænarsvarið,

komi á þann hátt sem ég vænti,

en honum einum fel ég bænir mínar,

því hann veit betur en ég.

Ég veit hann verður við minni bón,

og sendir mér svarið besta.6

Að sjálfsögðu er bænin ekki einungis fyrir erfiðleikatíma. Okkur er ítrekað sagt í ritningunum að „biðja án afláts“7 og að hafa bæn í hjarta.8 Orð kunnuglegs sálms leggja fyrir okkur spurningu sem við ættum öll að spyrja okkur sjálf daglega: „Hóf þín dagsins hugsun fyrsta, hjartans bænarmál?“9

Við höfum bænina samhliða ritningarlestrinum til að hjálpa okkur að takast á við veröld sem reynist okkur oft erfið. Orð sannleika og innblásturs, sem finna má í hinum fjóru helgiritum okkar, eru mér dýrmæt. Ég verð aldrei þreyttur á að lesa þau. Ég finn alltaf andlega upplyftingu þegar ég les í ritningunum. Þessi helgu orð sannleika og kærleika veita mér leiðsögn og beina mér leiðina til eilífrar fullkomnunar.

Þegar við lesum og hugleiðum ritningarnar, munum við heyra andann hvísla ljúflega í sál okkar. Við getum fundið svör við spurningum okkar. Við lesum um þær blessanir sem hlýðni við boðorð Guðs veita. Við öðlumst öruggan vitnisburð um himneskan föður og frelsara okkar Jesú Krist og kærleika þeirra til okkar. Þegar ritningarnám tengist bænun okkar, getum við vitað með fullvissu að fagnaðarerindi Jesú Krists er sannleikur.

Gordon B. Hinkley forseti sagði: „Megi Drottinn blessa hvert og eitt okkar, að við endurnærumst af hans heilaga orði og teygum af því þann styrk, frið og þekkingu, sem er æðri öllum skilningi‘ (Fil 4:7).”10

Um leið og við minnumst bænarinnar og tökum okkur tíma til að snúa til ritninganna, þá hljótum við óendanlegar blessanir og byrði okkar verður léttari.

Mig langar til að deila með ykkur frásögn af því hvernig himneskur faðir svaraði bænum konu einnar og veitti henni þann frið og fullvissu sem hún sárlega leitaði eftir.

Erfiðleikar Tiffany byrjuðu á síðasta ári, þegar hún fékk gesti heim til sín á þakkargjörðardaginn og svo aftur á jólum. Eiginmaður hennar hafði verið í læknanámi og var nú á seinna kandídatsári sínu. Hann varð að vinna langa vinnudaga og því gat hann ekki hjálpað henni eins mikið og þau hefðu bæði viljað, og margt af því sem varð að klára yfir hátíðarnar, fyrir utan að annast börnin þeirra fjögur, lenti á Tiffany. Þetta fór næstum að verða henni ofraun, og við það bættist að hún fékk þær fréttir að einstaklingur, nákominn henni og kær, hefði greinst með krabbamein. Álagið og áhyggjurnar fóru að sliga hana og hún upplifði vanmáttarkennd og depurð. Hún leitaði læknishjálpar en ekkert breyttist. Hún missti alla matarlyst og byrjaði að léttast, sem hún mátti vart við, svo grönn sem hún var. Hún leitaði friðar í ritningunum og bað um lausn frá þessum drunga sem var að hellast yfir hana. Þegar hún fékk hvorki frið né hjálp, fannst henni Guð hafa yfirgefið sig. Fjölskylda hennar og vinir báðu fyrir henni og reyndu örvæntingarfull að aðstoða hana. Í tilraun til að halda henni líkamlega hraustri komu þau með uppáhaldsmat hennar til hennar, en hún gat einungis fengið sér smá bita en síðan ekki meir.

Svo var það dag einn að vinkona hennar reyndi, árangurslaust, að freista hennar með mat sem hún hafði alltaf haldið upp á. Þegar ekkert virkaði sagði vinkona hennar: „ Það hlýtur að vera eitthvað sem hljómar vel í þínum eyrum.“

Tiffany varð hugsi eitt augnablik og sagði svo: „Það eina sem mér dettur í hug er heimabakað brauð.“

Það var hins vegar ekki við höndina.

Næsta dag hrindi dyrabjallan hjá Tiffany. Eiginmaður hennar var heima og fór til dyra. Þegar hann kom til baka hélt hann á heimabökuðu brauði. Tiffany var furðulostin þegar hann sagði henni að kona að nafni Sherrie, sem þau þekktu varla, hefði komið með það. Hún var vinkona Nicole, systur Tiffany, sem bjó í Denver, Colorado. Sherrie hafði verið stuttlega kynnt fyrir Tiffany og manni hennar nokkrum mánuðum áður, þegar Nicole og fjölskylda hennar heimsóttu Tiffany um þakkargjörðarhátíðina. Sherrie, sem bjó í Omaha, hafði þá komið heim til Tiffany til að hitta Nicole.

Núna, mánuðum seinna, hringdi Tiffany í Nicole systur sína, með ljúffengt brauð í hendinni, til að þakka henni fyrir að senda Sherrie til sín í þessum miskunnarerindum. En Nicole sagðist ekki hafa staðið að þessari heimsókn og vissi ekkert um hana.

Öll sagan kom í ljós þegar Nicole hafði samband við Sherrie, vinkonu sína, til að komast að því hvað hefði fengið hana til að koma með þetta brauð. Það sem hún frétti var innblástur fyrir hana, Tiffany, Sherrie og einnig fyrir mig.

Þennan sérstaka morgun, þegar brauðið var afhent, fannst Sherrie hún eiga að baka tvö brauð í stað þess eina sem hún hafði ákveðið að baka. Hún sagði að sér hefði fundist hún eiga að taka aukabrauðið með sér í bílinn þennan dag, þó að hún hafi ekki vitað hvers vegna. Eftir að hafa snætt hádegisverð hjá vinkonu sinni byrjaði eins árs dóttir hennar að gráta og vildi fara heim að sofa. Sherrie hikaði þegar hún fékk mjög skýra tilfinningu um að hún þyrfti að fara með þetta auka brauð til systur Nicole, Tiffany, sem bjó hinum megin í bænum, 30 mínútna akstur þangað. Þar sem hún vildi koma þreyttri dóttur sinni heim og þar sem henni fannst kjánalegt að koma með brauð til nær ókunnugra, reyndi hún að færa fram skynsamleg rök gegn þessari hugsun, Hins vegar var þessi hugsun, að fara heim til Tiffany, mjög sterk svo að hún fylgdi henni.

Þegar hún kom til Tiffany, kom maður hennar til dyra. Sherrie minnti hann á að hún væri vinkona Nicole, sem hann hefði hitt stuttlega um þakkargjörðarhátíðina, afhenti honum brauðið og fór.

Svona gerðist það, að Drottinn sendi nær ókunnuga manneskju þvert yfir bæinn með sendingu, ekki bara brauðið sem óskað var eftir, heldur einnig með skýr skilaboð um kærleika sinn til Tiffany. Ekki er hægt að skýra það sem gerðist á neinn annan máta. Hún þurfti virkilega á því að halda að finna að hún var ekki ein — að Guð væri meðvitaður um hana og hefði ekki yfirgefið hana. Þetta brauð, sem hana langaði svo í, kom til hennar frá einhverjum sem hún þekkti varla, einhverjum sem hafði enga vitneskju um þörf hennar, en sem hlustaði á hvatningu andans og fylgdi henni. Þetta var augljóst tákn fyrir Tiffany um að himneskur faðir vissi af þörfum hennar og elskaði hana nægilega til að senda henni hjálp. Hann svaraði hjálparbeiðni hennar.

Kæru systur, himneskur faðir ann ykkur, hverri og einni. Sá kærleikur breytist aldrei. Útlit ykkar, eignir eða fjármagnið á bankabók ykkar, hefur ekki áhrif á hann. Hann breytist ekki vegna hæfileika ykkar eða kunnáttu. Hann er einfaldlega þarna. Hann er þar fyrir ykkur þegar þið eruð sorgmæddar, glaðar, kjarklausar eða fullar vonar. Kærleikur Guðs er þar fyrir ykkur, hvort sem þið teljið ykkur eiga hann skilið eða ekki. Hann er einfaldlega alltaf þar.

Þegar við leitum til himnesks föður í gegnum innilegar, einlægar bænir og ákafan ritningarlestur, þá mun vitnisburður okkar verða sterkur og rótfastur. Við munum vita af kærleika Guðs til okkar. Við munum skilja að við göngum aldrei ein. Ég lofa ykkur því að sá dagur mun koma að þið standið til hliðar og horfið yfir erfiðleikatíma ykkar og gerið ykkur grein fyrir því að hann var alltaf þar við hlið ykkar. Ég veit að þetta er sannleikur fyrir brotthvarf míns eilífa félaga ‒ Frances Beverly Johnson Monson.

Ég færi ykkur blessun mína. Ég læt ykkur eftir þakklæti mitt fyrir allt það góða sem þið gerið og fyrir það hvernig þið lifið lífi ykkar. Að þið megið vera blessaðar með öllum góðum gjöfum er bæn mín í nafni frelsara okkar og lausnara, já, Drottins Jesú Krists, amen.