2010–2019
Viltu verða heill?
Október 2013


Viltu verða heill?

Er við gjörum iðrun og snúumst til Drottins verðum við heil og sekt okkar er hreinsuð burt.

Á tíma mikilla hátíðarhalda í Jerúsalem yfirgaf frelsarinn mannfjöldann í leit að þeim sem erfiðast áttu. Hann fann þá við Betesda, fimm súlnagangna laug við sauðahliðið sem var þekkt fyrir að laða að sér hina þjáðu.

Í Jóhannesarguðspjalli lesum við að hjá lauginni „lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra, sem biðu hræringar vatnsins.

En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræringu vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann“ (Jóh 5:3–4).

Heimsókn frelsarans er dregin upp í fallegu málverki eftir Carl Bloch sem ber heitið Kristur læknar hina sjúku við Betesdalaug. Bloch málar Krist þar sem hann lyftir færanlegu fortjaldi varlega og sést þá „sjúkur maður“ (Jóh 5:7) sem liggur nærri lauginni og bíður. Hér á orðið sjúkur við einhvern sem ekki hefur kraft og undirstrikar miskunn og náð frelsarans, sem kom hljóðlega til að þjóna þeim sem ekki gátu hjálpað sér sjálfir.

Þjáði maðurinn á málverkinu liggur í þvögu á gólfinu í skugganum, örmagna og kjarklaus eftir að hafa þjáðst af heilsubresti í 38 ár.

Þegar frelsarinn lyftir brún tjaldsins með annarri hendinni, heilsar hann með hinni og spyr beinskeyttrar spurningar: „Viltu verða heill?“

Maðurinn svarar: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast fer annar ofan í á undan mér“ (Jóh 5:6–7).

Jesús veitir djúpstætt og óvænt svar við hinni, að því er virðist, óyfirstíganlegu áskorun mannsins:

„Statt upp, tak rekkju þína og gakk!

Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk“ (Jóh 5:8–9).

Lúkas segir frá öðrum ljúfum atburði, þegar frelsarinn var á leið til Jerúsalem og mætti tíu líkþráum mönnum. Vegna sjúkdóms síns „stóðu [þeir] álengdar“ (Lúk 17:12). Þeir voru hornreka — óhreinir og óvelkomnir.

„Jesús, meistari, miskunna þú oss!“ sárbændu þeir (Lúk 17:13) eða þrábáðu, með öðrum orðum. Er ekki eitthvað sem þú getur gert fyrir okkur?

Hinn mikli læknir, fullur samúðar, vissi að trú þyrfti að vera undanfari kraftaverka og því sagði hann þeim: „Farið og sýnið yður prestunum“ (Lúk 17:14).

Kraftaverkið gerðist er þeir héldu af stað í trú. Getið þið ímyndað ykkur yfirþyrmandi gleðina þegar þeir sáu með eigin augum að líkamar þeirra hreinsuðust, greru og lifnuðu við með hverju skrefinu sem þeir tóku?

„En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu.

Hann féll fram á ásjónu sína að fótum [meistarans] og þakkaði honum. …

Síðan mælti Jesús við hann:, Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.‘“ (Lúk 17:15–16, 19).

Í mínu fyrra starfi sem læknir og skurðlæknir einbeitti ég mér að því að lagfæra og bæta efnislíkamann. Jesús Kristur læknar líkama, huga og anda og lækning hans hefst með trú.

Munið þið þegar trú ykkar og gleði var barmafull? Munið þið eftir því andartaki þegar þið funduð vitnisburð ykkar, eða þegar Guð staðfesti fyrir ykkur að þið væruð sonur hans eða dóttir og að hann elskaði ykkur afar heitt ‒ og ykkur fannst þið heil? Ef sá tími virðist glataður, þá er hægt að finna hann aftur.

Frelsarinn segir okkur hvernig við getum orðið heil ‒ eða læknast:

„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“ (Matt 11:28–30).

„Kom síðan og fylg mér“ (Lúk 18:22) býður okkur að skilja eftir hið gamla líf og veraldlegar þrár og gerast nýjar verur, „hið gamla [er orðið] að engu, sjá, nýtt er orðið til“ (2 Kor 5:17), jafnvel með nýju trúföstu hjarta. Og við erum gerð heil á ný.

„Nálgist mig og ég mun nálgast yður. Leitið mín af kostgæfni og þér munuð finna mig. Biðjið og yður mun gefast, knýið á og fyrir yður mun upplokið verða“ (K&S 88:63).

Er við nálgumst hann, þá verður okkur ljóst að jarðlífið á að vera erfitt, og að það sé enginn annmarki á sáluhjálparáætluninni að „andstæður [séu] í öllu“ (2 Ne 2:11) Andstæður eru ómissandi þáttur í jarðlífinu og styrkir vilja okkar og bætir val okkar. Hverfulleiki lífsins hjálpar okkur að móta eilíft samband við Guð — og greypa mynd hans í svip okkar, er við gefum honum hjörtu okkar (sjá Alma 5:19).

„Gjörið þetta í mína minningu“ (Lúk 22:19) er það sem frelsarinn bað um þegar hann kynnti það sem við köllum sakramentið. Þessi helgiathöfn með brauði og vatni endurnýjar helga sáttmála sem við höfum gert við Guð og býður krafti friðþægingarinnar inn í líf okkar. Við læknumst er við látum af venjum og lífsstíl sem herðir hjörtu og hálsa. Við verðum heil er við leggjum niður „uppreisnarvopn [okkar]“ (Alma 23:7) og gerumst einstaklingar með „sjálfræði“ (K&S 58:28), ekki lengur blinduð af speki Satans eða sigruð af ósamhljóma hávaða hins veraldlega heims.

Er við gjörum iðrun og snúum til Drottins verðum við heil og sekt okkar er hreinsuð burt. Vera má að við undrumst rétt eins og Enos: „Hvernig má það vera?“ Drottinn svarar: „Vegna trúar þinnar á Krist. … Far því nú, trú þín hefur gjört þig heilan“ (Enos 1:7, 8).

Corrie ten Boom, heittrúuð og kristin hollensk kona, fann slíka lækningu, þótt hún hafi verið kyrrsett í útrýmingarbúðum í Seinni heimstyrjöldinni. Hún þjáðist mikið en lifði af ólíkt ástkærri systur sinni, Betsie, sem lést í einum búðanna.

Eftir styrjöldina talaði hún oft opinberlega um reynslu sína, lækningu og fyrirgefningu. Fyrrverandi Nasistavörður, sem hafði verið í einum af hræðilegu búðunum í Ravenbrück í Þýskalandi, þar sem Corrie hafði verið haldið fanginni í, kom til hennar við eitt slíkt tækifæri og gladdist yfir boðskap hennar um fyrirgefningu Krists og kærleika.

„,Hversu þakklátur ég er fyrir boðskap þinn, fraulein,‘ sagði hann., Að hugsa sér, eins og þú segir, hann hefur tekið syndir mínar burtu!‘

Hönd hans var útrétt til að taka í mína,“ sagði Corrie. „Og ég sem hafði svo oft prédikað … þörfina á að fyrirgefa, hélt að mér hönd minni.

Á sama tíma og reiðar og hefnigjarnar hugsanir suðu innra með mér, sá ég í þeim syndirnar. … Drottinn Jesús, bað ég, viltu fyrirgefa mér og hjálpa mér að fyrirgefa honum.

Ég reyndi að brosa, [og] ég átti erfitt með að rétt út hönd mína. Ég gat það ekki. Ég fann ekkert, ekki einu sinni örlítinn neista af hlýju eða kærleika. Því fór ég aftur með hljóða bæn. Jesú, ég get ekki fyrirgefið honum. Veittu mér þína fyrirgefningu.

Er ég tók í hönd hans gerðist nokkuð ótrúlegt. Það virtist sem straumur streymdi frá öxl minni niður handlegg minn og til hans, á sama tíma og kærleikur fyllti hjarta mitt til þessa ókunnuga manns, slíkur að nánast yfirbugaði mig.

Þarna komst ég að því að lækning heimsins er hvorki háð okkar fyrirgefningu né góðmennsku, heldur hans. Þegar hann segir okkur að elska óvini okkar, þá gefur hann okkur ekki bara boðorð heldur líka sjálfan kærleikann.“1

Corrie ten Boom varð heil.

Thomas S. Monson forseti hefur sagt: „Það er líf eitt sem styður þá sem erfitt eiga eða eru hlaðnir sorg og harmi — já, Drottinn Jesús Kristur.“2

Ef ykkur finnst þið vera óhrein, ekki elskuð, óhamingjusöm, óverðug eða ekki heil, munið þá að „hvaðeina sem ósanngjarnt er í lífinu má færa í réttar skorður fyrir friðþægingu Krists.“3 Hafið trú á tímasetningu og tilgangi frelsarans fyrir ykkur. „Óttast ekki, trú þú aðeins“ (Mark 5:36).

Verið fullviss um að frelsarinn leitar enn eftir að laga sálir okkar og lækna hjörtu okkar. Hann stendur við dyrnar og knýr á. Við skulum bregðast við með því að biðja á ný, gjöra iðrun, fyrirgefa og gleyma. Við skulum elska Guð og þjóna náunga okkar og standa á helgum stöðum með hreint líf. Lamaði maðurinn við Betesdalaugina, líkþrái maðurinn á veginum til Jerúsalem og Corrie ten Boom, urðu öll heil. „Viltu verða heill?“ Rís upp og gakk. „Náð [hans] nægir“ (2 Kor 12:9) og þið munuð ekki ganga einsömul.

Ég veit að Guð lifir. Ég veit að við erum öll börn hans og hann elskar okkur fyrir það sem við erum og fyrir það sem við getum orðið. Ég veit að hann sendi son sinn í heiminn til að verða friðþægingarfórn fyrir allt mannkyn og að þeir sem meðtaka fagnaðarerindi hans og fylgja honum munu heilir verða — „á sínum tíma og á sinn hátt og samkvæmt [hans] eigin vilja“ (K&S 88:68), fyrir hans ljúfu náð. Um þetta vitna ég, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Corrie ten Boom, The Hiding Place (1971), 215.

  2. Thomas S. Monson, „Meeting Life’s Challenges,” Ensign, nóv. 1993, 71.

  3. Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að trúboðsþjónustu (2004), 52.