Sleppa aðallóðsun
Október 2013 | Þið eruð ekki lengur gestir

Þið eruð ekki lengur gestir

Október 2013 Aðalráðstefna

Í þessari kirkju eru engir ókunnugir eða útlægir. Það eru einungis bræður og systur.

Flest höfum við einhvern tíma verið í aðstæðum sem voru okkur ókunnar, þar sem við kunnum ekki alveg við okkur og vorum óörugg. Sú staða kom upp í fjölskyldu okkar fyrir um fimm árum, þegar Monson forseti kallaði mig til að þjóna sem aðalvaldhafi kirkjunnar. Þetta kall gerði flutning fjölskyldunnar óhjákvæmilegan, frá þeim fallega stað sem við höfðum notið í rúma tvo áratugi. Við hjónin munum enn eftir fyrstu viðbrögðum barna okkar þegar þau fréttu af breytingunum. Sextán ára sonur okkar sagði: „Það er ekkert vandamál. Þið getið farið; ég verð eftir!“

Hann skipti fljótt um skoðun og ákvað að fylgja okkur og tók þessu nýja tækifæri einlæglega og með opnum örmum Þessar nýju aðstæður undanfarin ár, hafa reynst ánægjulegar og lærdómsríkar fyrir fjölskyldu mína, sérstaklega vegna hlýrrar móttöku og góðvildar Síðari daga heilagra. Er við höfum búið í mismunandi löndum höfum við lært að meta það, að eining heimafólks Guðs um allan heim er raunveruleg og áþreifanleg.

Köllun mín hefur leitt til þess að ég hef ferðast víða um lönd og hún hefur gefið mér það einstaka tækifæri að vera í forsæti á mörgum fundum. Þegar ég horfi yfir hina ýmsu söfnuði, sé ég oft kirkjuþegna sem eru fulltrúar hinna ýmsu þjóða, tungumála og menninga. Eitt af því sem er stórkostlegt við þennan ráðstöfunartíma fagnaðarerindisins er að hann er ekki takmarkaður við landfræðilegt svæði eða hóp þjóða. Hann er hnattrænn og nær yfir allan heiminn. Hann er undirbúningur fyrir stórkostlega endurkomu Guðssonarins með þvi að safna saman „börnum [hans] frá öllum fjórum skautum jarðar.“1

Þó að fjölbreytnin sé að aukast á meðal kirkjuþegnanna, þá nær heilög arfleifð okkar út yfir fjölbreytileika okkar. Sem þegnar kirkjunnar hefur okkur verið veittur aðgangur að húsi Ísraels. Við erum bræður og systur, samarfar, sama andlega ætternis. Guð lofaði Abraham því að „allir þeir, sem meðtaka þetta fagnaðarerindi, skulu kenndir við nafn [hans] og teljast niðjar [hans], og þeir munu rísa á fætur og blessa [hann] sem föður sinn.2

Loforð hefur verið gefið öllum sem gerast þegnar í kirkjunni. „Þess vegna eruð þér ekki framar gestir og útlendingar, heldur samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.“3

Orðið ókunnugur er frá latneska orðinu extraneus, sem þýðir exterior eða „utanaðkomandi.“ Af ýmsum ástæðum gefur það oftast til kynna einhvern sem kemur „utan frá“, hvort sem það er vegna uppruna, menningar, skoðanamismunar eða trúar. Við sem lærisveinar Jesú Krists sækjumst eftir því að vera í heiminum en ekki af heiminum og þá finnst okkur við stundum vera utanaðkomandi gestir. Við vitum, betur en margir, að sumar dyr geta verið lokaðar þeim sem álitnir eru öðruvísi.

Fólki Guðs hefur ávallt verið boðið að annast alla þá sem eru gestir eða kunna að vera öðruvísi. Til forna átti ókunnugur rétt á sömu gestrisni og ekkja eða munaðarleysingi. Á sama hátt og þau var gesturinn í viðkvæmri stöðu og líf hans eða dauði gat verið háður því hvort hann fengi vernd frá samfélaginu á staðnum. Ísraelsþjóð var með mjög nákvæmar leiðbeiningar varðandi þetta málefni. „Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi.“4

Í jarðneskri þjónustu sinni var Jesús dæmi um þann sem fór langt út fyrir einfaldar væntingar um gestrisni og umburðarlyndi. Hann veitti þeim samúð og virðingu sem voru útilokaðir frá samfélaginu, þeim sem var hafnað og álitnir óhreinir af þeim sjálfumglöðu. Þeir fengu jafnan hlut af kenningum hans og þjónustu.

Sem dæmi má nefna að frelsarinn fór á móti hefðbundnum venjum þess tíma, er hann ávarpaði konuna frá Samaríu og bað hana um vatn. Hann settist niður til að neyta matar með heiðingjum og skattheimtumönnum Hann hikaði ekki við að nálgast holdsveika manninn, snerta hann og lækna. Þegar hann dáðist að trú rómverska hundraðshöfðingjans sagði hann við fólksfjöldann, “ Sannlega segi ég yður, ekki einu sinni í Ísrael hef ég fundið svo mikla trú.“5

Jesús hefur beðið okkur um að virða lögmál hins fullkomna kærleika, sem er algild og skilyrðislaus gjöf. Hann sagði:

„Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama?

Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama?

Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.“6

Í þessari kirkju eru engir ókunnugir eða útlægir. Það eru einungis bræður og systur. Sú vitneskja sem við höfum um eilífan föður gerir okkur næmari fyrir þeim bræðra- og systraböndum sem ættu að vera til staðar milli allra karla og kvenna á jörðunni.

Setning í bókinni esalingarnir lýsir því hvernig prestdæmishafar geta komið fram við þá einstaklinga sem litið er á sem ókunnuga. Það var nýbúið að leysa Jean Valjean úr fangelsi. Uppgefinn eftir langt ferðalag og nær hungurmorða og þyrstur kom hann inn í lítinn bæ og leitaði að stað þar sem hann gæti fengið mat og skjól fyrir nóttina. Þegar fréttir af komu hans breiddust út, lokuðu íbúarnir dyrum sínum fyrir honum, einn af öðrum. Hvorki hótelið, gistiheimilið né jafnvel fangelsið vildi bjóða honum inn. Honum var hafnað, hann rekinn á brott og útskúfaður. Hann féll að lokum saman fyrir framan dyr biskupsins í bænum, algerlega uppgefinn.

Þessi góði kirkjunnar maður var sér vel meðvitaður um bakgrunn Valjean, en bauð flækingnum inn á heimilið sitt með þessum samúðarfullu orðum.

„,Þetta er ekki mitt hús, þetta er hús Jesú Krists. Þessar dyr krefjast ekki nafns af þeim sem hér ganga inn, frekar hvort þeir hafi sorgir. Þú þjáist, þú ert hungraður og þyrstur; þú ert velkominn. … hvaða þörf hef ég á því að vita nafn þitt? Þar að auki barst þú nafn sem ég þekkti, áður en þú sagðir mér þitt.’

[Valjean] opnaði augun í forundran.

,Er það? Vissir þú nafn mitt?’

,Já‘ svaraði biskupinn, ‚þú ert kallaður bróðir minn.“‘7

Í þessari kirkju eru deildir okkar og sveitir ekki eignir okkar. Þær tilheyra Jesú Kristi. Hverjum sem kemur inn í samkomuhús okkar ætti að líða vel. Mikilvægi þeirrar ábyrgðar að bjóða alla velkomna hefur aukist. Heimurinn sem við búum í gengur nú í gegnum tímabil mikilla umróta. Vegna aukins aðgengis að farartækjum, aukins samskiptahraða og alþjóðavæðingar fjármálakerfisins, er jörðin að verða að einu stóru þorpi þar sem fólk og þjóðir mætast, tengjast og blandast innbyrðis sem aldrei fyrr.

Þessar miklu breytingar á heimsmælikvarða þjóna tilgangi almáttugs Guðs. Samansöfnun hans útvöldu frá fjórum heimshornum jarðarinnar er ekki einungis að gerast vegna þess að það er verið að senda trúboða til fjarlægra landa, heldur einnig með flutningi fólks frá öðrum svæðum inn í borgir ykkar og hverfi. Án þess að vera meðvitaðir um það eru margir leiddir af Drottni til staða þar sem þeir geta heyrt fagnaðarerindið og komið inn í söfnuð hans.

Það er mjög líklegt að næsta manneskja sem snýst til trúar á fagnaðarerindið í deild ykkar verði einhver sem kemur ekki úr venjulegum hópi vina ykkar og kunningja. Þið sjáið það kannski á útliti hennar, tungumáli, klæðaburði eða litarhætti. Þessi persóna gæti hafa alist upp í annari trú með ólíkan bakgrunn eða lífsstíl.

Að bindast vináttu er mikilvæg ábyrgð prestdæmisins. Sveitir Aronprestdæmisins og Melkísedespresdæmisins eiga að vinna að því í samvinnu við systurnar, undir leiðsögn biskupsins, að hver og einn sé boðinn velkominn af kærleika og góðvild. Heimilis- og heimsóknarkennarar eiga að vera vakandi fyrir því að enginn gleymist né sé hunsaður.

Við þurfum öll að vinna saman að því að byggja upp andlega einingu innan deilda okkar og greina. Dæmi um fullkomna einingu mátti sjá á meðal heimamanna Guðs í Ameríku eftir að Kristur heimsótti þá. Skráð er að ekki hafi „[verið] þar Lamanítar eða yfirleitt nokkrir -ítar, heldur voru allir eitt, börn Krists og erfingjar að Guðsríki.“8

Einingu er ekki hægt að öðlast með því að hunsa eða einangra kirkjuþegna sem virðast vera öðruvísi eða veikgeðja, og umgangast einungis þá sem eru eins og við. Þvert á móti er einingu náð með því að bjóða þá nýju og þá sem hafa sérþarfir velkomna og þjóna þeim. Þessir kirkjuþegnar eru blessun fyrir kirkjuna og veita okkur tækifæri til að þjóna náunga okkar og þar af leiðandi að hreinsa hjörtu okkar.

Bræður mínir, það er skylda ykkar að ná til þeirra sem koma inn um dyr kirkjubygginga ykkar. Bjóðið þá velkomna með þakklæti og án fordóma. Ef ókunnugir ganga inn á fund hjá ykkur, heilsið þeim hlýlega og bjóðið þeim að sitja með ykkur. Takið vinsamlegast fyrsta skrefið til að sýna að þeir eru velkomnir og elskaðir, frekar en að bíða eftir að þeir komi til ykkar.

Eftir að hafa boðið þá velkomna, hugleiðið þá leiðir til að halda áfram að þjóna þeim. Ég heyrði eitt sinn af deild þar sem tvær stórkostlegar Líknarfélagssystur ákváðu að læra táknmál eftir skírn tveggja heyrnarlausra systra, svo að þær gætu átt auðveldara með að eiga samskipti við þessa nýju trúskiptinga. Þetta er stórkostlegt dæmi um kærleika gagnvart trúsystkinum sínum!

Ég ber vitni um að enginn er gestur hjá himneskum föður. Það eru engir sem ekki eru honum dýrmætir. Ég vitna með Pétri er ég segi að „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“9

Ég bið þess að þegar Drottinn safnar sauðum sínum saman á síðasta degi, að hann segi við hvern og einn okkar, „gestur var ég, og þér hýstuð mig.“

Þá munum við segja við hann: „Hvenær sáum vér þig gest og hýstum þig?“

Og hann mun svara okkur og segja: „Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“10

Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. 1 Ne 22:25.

  2. Abraham 2:10; skáletrað hér.

  3. Efe 2:19.

  4. 3 Mós 19:34.

  5. Matt 8:10; sjá einnig Matt 8:2–3; Mark 1:40–42; 2:15; Jóh 4:7–9.

  6. Matt 5:46–48.

  7. Victor Hugo, Les misérables, þýtt af Isabel F. Hapgood, 5 bindi (1887), 1:73.

  8. 4 Ne 1:17.

  9. Post 10:34–35.

  10. Matt 25:35, 38, 40.