Sleppa aðallóðsun
Apríl 2014 | Sefur þú í gegnum endurreisnina?

Sefur þú í gegnum endurreisnina?

Apríl 2014 Aðalráðstefna

Það er of mikið í húfi fyrir okkur sem einstaklinga, fjölskyldur og kirkju Krists til að vera hálfvolg þegar kemur að þessu helga starfi.

Ameríska smásagan “Rip Van Winkle” varð sígild á augabragði fyrir nærri 200 árum. Aðalsögupersónan, Rip, er ekki metnaðarfullur maður sem hefur náð góðum árangri í að forðast tvennt: Vinnuna og eiginkonuna sína.

Dag einn þegar hann er á rölti í fjöllunum með hundinn sinn, hittir hann hóp af mönnum klædda í einkennileg föt sem eru að drekka og spila á spil. . Rip þáði nokkra sopa af áfengi þeirra, verður syfjaður og lokar augum sínum í augnablik. Þegar hann opnar augun aftur kemst hann að því, sér til mikillar undrunar, að hundur hans er farinn, riffillinn hans er ryðgaður og hann hefur nú sítt skegg.

Rip kemst loks til baka í þorpið og kemst að því að allt hefur breyst. Eiginkona hans er látin, vinirnir farnir og myndin af George III konungi hefur verið tekin niður og í staðinn er komin mynd af ókunnugum manni – George Washington hershöfðingja.

Rip Van Winkle hafði sofið í 20 ár! Af þessu leiddi að hann hafði misst af einum mest spennandi tíma í sögu þessa lands – hann hafði sofið í gegnum amerísku byltinguna.

Dr. Martin Luther King yngri notaði þessa sögu í maí 1966 sem líkingu í ræðu sinni “Don’t Sleep Through the Revolution.”1

Mig langar að nota þetta sama þema í dag og velta upp spurningu til allra sem bera prestdæmi Guðs: Ert þú að sofa af þér endurreisnina?

Við lifum á tíma endurreisnarinnar

Stundum höldum við að endurreisn fagnaðarerindisins sé nokkuð sem er lokið, nú þegar að baki – Joseph Smith þýddi Mormónsbók, hann hlaut prestdæmislyklana, kirkjan var skipulögð. Í raun er endurreisnin áframhaldandi ferli sem við erum mitt í. Hún innifelur „[allt], sem Guð hefur opinberað, [allt], sem hann nú opinberar“ og „hann muni enn opinbera margt stórfenglegt.“2 Bræður, sú spennandi þróun sem á sér stað í dag er hluti af því sem greint var frá fyrir löngu varðandi undirbúninginn sem mun ná hámarki við síðari komu frelsara okkar, Jesú Krists.

Þetta er eitt markverðasta tímabil í sögu heimsins! Fornir spámenn þráðu að sjá okkar tíma.

Hvaða upplifanir munum við geta miðlað um framlag okkar á þessum þýðingarmikla tímabili í lífi okkar og framlagi í starfi Drottins þegar þessu dauðlega lífi lýkur? Munum við geta sagst hafa rúllað upp ermunum og þjónað af öllu okkar hjarta, mætti, huga og styrk? Eða þurfum við að játast að hafa aðallega verið áhorfendur?

Það eru sennilega margar ástæður fyrir því að auðvelt er að syfja við að byggja upp ríki Guðs. Leyfið mér að nefna þrjár helstu. Ég býð ykkur að hugleiða, líkt og ég geri, hvort einhver þeirra á við um ykkur. Ég bið ykkur að íhuga hvað þið getið gert til að breytast til batnaðar ef þið sjáið svigrúm til betrumbóta.

Eigingirni

Fyrst er það eigingirni.

Þeir sem eru eigingjarnir leita fyrst og fremst eigin hagsmuna og skemmtunar. Eigingjörn manneskja spyr: „Hvað fæ ég?“

Bræður, ég er viss um að þið sjáið að þess konar viðhorf er andstætt þeim anda sem þarf til að byggja upp ríki Guðs.

Þungamiðja forgangs okkar verður eigin viðurkenning og skemmtun þegar við leitumst eftir að þjóna okkur sjálfum fram yfir óeigingjarna þjónustu.

Liðnar kynslóðir tókust á við mismunandi sjálfsdýrkun en í dag veitum við þeim mikla samkeppni. Er það nokkur tilviljun að orðabók Oxford hafi nýlega lýst yfir að „sjálfsmynd“ sé orð ársins?3

Við höfum öll eðlilega þrá fyrir viðurkenningu og það er alls ekkert að því að slappa af og njóta lífsins. Þegar kjarni hvatningar okkar er sá „að hagnast á því og hljóta lof heimsins“4 þá missum við af þeirri endurleysandi og gleðilegu upplifun sem verður þegar við gefum rausnarlega af okkur í starfi Drottins.

Hver er lausnin?

Eins og ætíð er svarið að finna í orðum Krists:

„Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.

Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins, mun bjarga því.“5

Þeir sem af öllu hjarta gefa frelsara okkar líf sitt og þjóna Guði og náunganum, uppgötva auðlegð og fyllingu lífsins sem hinir eigingjörnu og sjálfselsku finna aldrei. Hinir óeigingjörnu gefa af sér. Þetta geta verið litlar kærleiksgjafir sem hafa mikil áhrif til góðs: Bros, handtak, faðmlag, tíma varið í að hlusta, blíðleg orð hvatningar eða tjáning umhyggju. Allar þessar góðmennsku gjörðir geta breytt hjörtum og lífum. Geta okkar til að elska Guð og þjóna öðrum mun aukast ríkulega þegar við notfærum okkur hin ótakmörku tækifæri til að elska og þjóna náunga okkar, þar á meðal maka okkar og fjölskyldu.

Þeir sem þjóna öðrum munu ekki sofa af sér endurreisnina.

Ánetjun

Ánetjun er önnur ástæða þess að við gætum gengið í svefni á þessum mikilvæga tíma heimsins.

Við verðum oft ekki vör í byrjun. Ánetjun er þunnt lag af endurteknum gjörðum sem vefa sig upp í þykka hlekki vanans. Neikvæðir ávanar geta orðið gagntakandi ánetjun.

Þessi bindandi keðja ánetjunar getur birst í mörgum myndum eins og klámi, áfengi, kynlífi, eiturlyfjum, tóbaki, fjárhættuspili, mat, vinnu, Alnetinu eða sýndarveruleika. Satan, sameiginlegur óvinur okkar, á sér mörg uppáhalds verkfæri sem hann notar til að ræna okkur af himneskum möguleikum okkar í að ná markmiði okkar í ríki Drottins.

Það syrgir okkar himneska föður að sjá hversu viljugir sumir af göfugu sonum hans rétta fram úlnliði sína til að setja á sig voðalegar keðjur ánetjunarinnar.

Bræður, við höfum hið eilífa prestdæmi hins almáttuga Guðs. Við erum synir hins hæsta og möguleikar okkar eru ólýsanlegir. Okkur er ætlað að svífa frjálslega um himnana. Okkur er ekki ætlað að vera hlekkjaðir við jörðina, fangelsaðir í eigin spennitreyju.

Hver er lausnin?

Mikilvægast er að skilja að það er miklu auðveldara að koma í veg fyrir ánetjun heldur en að lækna hana. Með orðum frelsarans: „[Leyfið] engu slíku aðgang að hjörtum yðar.“6

Ég fékk ásamt Monson forseta tækifæri fyrir nokkrum árum að skoða Air Force One – hina stórglæsilegu flugvél sem forseti Bandaríkjanna notar. Leyniþjónustan var með vandvirka öryggisskoðun og ég brosti örlítið þegar hún leitaði á okkar kæra spámanni áður en við fórum um borð.

Aðalflugstjórinn bauð mér síðan að setjast í flugmannssætið. Það var ótrúleg upplifun að sitja á ný við stýrið á þessari dásamlegri flugvél, samskonar vél og ég hafði flogið í svo mörg ár. Minningar um flug yfir höf og heimsálfur fylltu hjarta mitt og huga. Ég sá fyrir mér spennandi flugtök og lendingar á flugvöllum um heim allan.

Ég setti hendur mínar næstum því óafvitað á hinar fjórar eldsneytisgjafir B747 flugvélarinnar. Á þeim tímapunkti heyrðist fyrir aftan mig ástkær og óyggjandi rödd – röddin hans Thomas S. Monsons.

„Dieter,“ sagði hann, „ekki einu sinni hugleiða það.“

Ég játa ekki neitt en vera má að Monson forseti hafi lesið hugsanir mínar.

Við skulum hlýða á kærleiksrík varnaðarorð áreiðanlegra fjölskyldumeðlima, vina, okkar ástkæra spámanns og ætíð frelsarans þegar við freistumst til að gera það sem við ættum ekki að gera.

Besta vörnin gegn ánetjun er að byrja aldrei.

Hvað um þá sem eru ánetjaðir í dag?

Fyrst og fremst gerið ykkur ljóst að það er von. Leitið aðstoðar frá ástvinum, kirkjuleiðtogum og menntuðum ráðgjöfum. Kirkjan býður upp ámeðferð með aðstoð staðarleiðtoga, Alnetsins7 og, á sumum svæðum, fjölskylduþjónustu SHD.

Munið ætíð að þið getið brotist úr viðjum ávanans með aðstoð frelsarans. Það kann að vera löng og erfið ferð en Drottinn mun ekki gefast upp á ykkur. Hann elskar ykkur. Jesú Kristur leið friðþæginguna til að hjálpa ykkur við að breytast, frelsa ykkur úr greipum syndar.

Mikilvægast er að halda áfram að reyna – stundum getur það tekið nokkrar tilraunir áður en árangur næst. Ekki því gefast upp. Ekki missa trú. Haldið hjarta ykkar nærri Drottni og hann mun veita ykkur kraftinn til að frelsast. Hann mun gera ykkur frjáls.

Kæru bræður mínir, haldið ykkur ætíð fjarri þeim ávönum sem gættu leitt til ánetjunar. Þeir sem gera það munu geta helgað hjarta sitt, mátt, huga og styrk í þjónustu við Guð.

Þeir munu ekki sofa af sér endurreisnina.

Samkeppni í forgangsröðun

Þriðja hindrunin sem kemur í veg fyrir að við tökum að fullu þátt í þessu starfi eru hin mörg forgangsatriði sem keppast um athygli okkar. Sumir okkar erum svo önnum kafnir að okkur líður eins og vagni sem dreginn er af 12 dráttardýrum – sérhvert þeirra togar í sína átt. Mikið af orku er eytt en vagninn hreyfist ekki.

Oft setjum við mestu vinnuna í áhugamál, íþrótt, starfsáhugamál eða samfélags- eða pólitísk málefni. Allt er þetta gott og gilt en höfum við næginlegan tíma og orku til að sinna því sem ætti að hafa hæsta forgang?

Hver er lausnin?

Enn á ný er lausnina að finna í orðum frelsarans:

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.

Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.

Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“8

Allt annað í lífinu ætti að vera á eftir þessum tveimur forgangsatriðum .

Það er auðvelt, jafnvel í þjónustu í kirkjunni, að verja miklum tíma í að láta ekki hug og hjarta fylgja starfi lærisveinsins.

Bræður, við höfum sem prestdæmishafar skuldbundið okkur til að vera menn sem elska Guð og nágranna okkar og eru fúsir til að sýna þann kærleik í orði og verki. Það er kjarninn í því að vera lærisveinn Jesú Krists.

Þeir sem gera þetta munu ekki sofa af sér endurreisnina.

Vakningarkall

Páll postuli ritaði: „Vakna þú sem sefur, og rís upp frá dauðum, og þá mun Kristur lýsa þér.“9

Kæru vinir, við vitum að þið eruð synir ljóssins.

Leyfið ykkur ekki að vera eigingjarnir! Leyfið ekki venjur sem geta leitt til ánetjunar! Leyfið ekki samkeppni í forgangsröðun að svæfa ykkur svo þið verðið sinnulausir eða hlutlausir gagnvart blessunum lærisveinsins og göfugri prestdæmisþjónstu!

Það er of mikið í húfi fyrir okkur sem einstaklinga, fjölskyldur og kirkju Krists til að vera hálfvolg þegar kemur að þessu helga starfi.

Lífi lærisveins Jesú Krists er ekki hægt að sinna einu sinni í viku eða einu sinni á dag. Það er lífsháttur sem stöðugt þarf að sinna.

Loforð Drottins til sinna sönnu prestdæmishafa er nánast of stórbrotið til að skilja.

Þeir sem eru staðfastir Melkísedeksprestdæminu og Aronsprestdæminu og efla kallanir sínar „eru helgaðir af andanum til endurnýjunar líkama sínum.“ Því mun allt sem faðirinn á verða gefið þeim.10

Ég vitna að hreinsandi kraftur friðþægingar Jesú Krists og breytingarkraftur heilags anda geta læknað og frelsað mannkyn. Það eru okkar forréttindi, okkar helga skylda og gleði að hlýða kalli frelsarans, að fylgja honum af fúsu geði og hjartans einlægni. Við skulum „[hrista] af [okkur] hlekkina, sem fjötra [okkur og koma] fram úr myrkrinu og [rísa] úr duftinu.“11

Við skulum vera vakandi og þreytast ekki á að gjöra gott því við erum að „leggja grunninn að miklu verki,“12 já, að búa okkur undir endurkomu frelsarans. Bræður, við munum ekki sofa af okkur endurreisnina, ef við færum ljós fordæmis okkar fram sem vitni um fegurð og kraft hins endurreista sannleika. Um það ber ég vitni og veiti ykkur blessun mína í hinu helga nafni meistara okkar, já, Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir