Sleppa aðallóðsun
Apríl 2014 | Ver þú hughraustur og öruggur

Ver þú hughraustur og öruggur

Apríl 2014 Aðalráðstefna

Megum við - hver og einn okkar - hafa hugrekki til þess að bjóða tíðarandanum byrginn, hugrekki til að standa fast á því sem rétt er.

Kæru bræður, hve dásamlegt það er að hitta ykkur aftur. Ég bið um himneska hjálp við að tala til ykkar.

Utan þessarar Ráðstefnuhallar hafa þúsundir komið saman í kapellum og öðrum húsakynnum hvarvetna um heim. Við sameinumst í einum tilgangi, því okkur hefur verið treyst fyrir því að hafa prestdæmi Guðs.

Við erum hér á jörðu á merkilegum tíma sögunnar. Tækifæri okkar eru næstum ótakmörkuð og áskoranirnar fjölmargar, og sumar bundnar við okkar tíma.

Við lifum í heimi þar sem siðferðisgildum hefur að miklu leyti verið varpað fyrir róða, syndinni er svívirðilega stillt upp til birtingar og freistingarnar til þess að fara af hinum krappa og þrönga vegi eru allsstaðar umhverfis. Við okkur blasir stöðugur þrýstingur og lævís áhrif, sem rífa niður það sem er siðsamlegt og reyna að festa í sessi innantóma lífsspeki og breytni veraldlegs samfélags.

Sökum þessa og annarra áskorana, stöndum við stöðugt frammi fyrir ákvörðunum sem hafa áhrif á örlög okkar. Þörf er á hugrekki til að taka réttar ákvarðanir - hugrekki til að segja nei þegar það á við og hugrekki til að segja já þegar það er viðeigandi, hugrekki til réttrar breytni, því svo ber að gera.

Þegar stefna samfélags er á hraðri leið frá þeim gildum og reglum sem Drottinn hefur gefið okkur, munum við næsta víst þurfa að taka upp hanskann fyrir trú okkar. Höfum við hugrekki til að gera slíkt?

J. Reuben Clark yngri forseti, sem í mörg ár var meðlimur í Æðsta forsætisráðinu, sagði: „Þau tilfelli eru ekki óþekkt, að þeir sem taldir voru trúaðir … hafi óttast að verða fyrir athlægi trúlausra félaga sinna með því að lýsa algjörlega yfir trú sinni og fundið sig tilneydda til að draga í land hvað trú þeirra varðar, gera lítið úr henni, þynna hana alveg út eða þykjast jafnvel láta af henni. Slíkir eru hræsnarar.“1 Enginn okkar óskar eftir slíkum stimpli, en erum við samt hikandi við lýsa yfir trú okkar í ákveðnum aðstæðum?

Við getum fullnægt þeirri þrá okkar að gera það sem rétt er með því að fara á rétta staði og taka þátt í athöfnum sem eru í samhljóm við anda Drottins og sem hafa góð áhrif á hugsanir okkar..

Ég man eftir að hafa lesið fyrir nokkru ráðgjöf föður til sonar, er hann fór að heiman í skóla: „Ef þú áttar þig einhvern tíma á að þú ert á stað þar sem þú ættir ekki að vera, farðu þá burtu!“ Ég gef ykkur öllum þetta sama ráð: „Ef þú áttar þig einhvern tíma á að þú ert á stað þar sem þú ættir ekki að vera, farðu þá burtu!“

Öll hljótum við köllun hugrekkis. Þörf er á hugrekki alla daga lífs okkar - ekki aðeins við örlagaríka atburði, heldur oftar við að taka ákvarðanir eða bregðast aðstæðum í umhverfi okkar. Skoska ljóðskáldið og rithöfundurinn Robert Louis Stevenson sagði: „Vitnin eru fá að daglegu hugrekki. Það er ekki síður göfugra, þótt engar trommur séu slegnar fyrir ykkur eða enginn mannfjöldi hrópi nafn ykkar.“2

Hugrekki á sér margar birtingarmyndir. Hinn kristni höfundur Charles Swindoll ritaði: „Hugrekki takmarkast ekki við vígvöllinn … eða við þá áræðni að klófesta þjóf á heimili ykkar. Hin raunverulega prófraun hugrekkis er mun yfirlætislausara. Sú prófraun fer fram hið innra, líkt og að breyta rétt þegar enginn sér til, … líkt og að standa einn sé maður misskilin.“3 Ég bæti svo við að innra hugrekki er líka að breyta rétt, þótt við séum óttaslegnir, að verja trú okkar, þótt við eigum athlægi á hættu og að halda fast í trú okkar, þótt við gætum glatað vinum eða félagslegri stöðu. Sá sem er óhagganlegur í hinu rétta, verður stundum að hætta á að verða hafnað og vera óvinsæll.

Þegar ég þjónaði í sjóher Bandaríkjanna í seinni heimstyrjöldinni, varð ég vitni að mikilli dyggð, hugprýði og fordæmi um hugdirfsku: Það sem er mér minnisstæðast var yfirlætislaust hugrekki 18 ára gamals sjóliða - sem ekki var okkar trúar - en ekki of góður með sig til bænagjörðar. Af 250 manna hópi kraup hann einn á hverju kvöldi við rúmið sitt, stundum við háð og spott kúgara og aðhlátur trúlausra. Hann laut höfði og bað til Guðs. Hann hikaði aldrei. Hann brást aldrei. Hann átti hugrekki.

Fyrir ekki all löngu hlustaði ég á frásögn um pilt sem vissulega skorti innra hugrekki. Ein vinkona mín sagði frá andlegri og trúareflandi sakramentissamkomu sem hún og eiginmaður hennar fóru á í deild þeirra. Piltur nokkur sem hafði Aronsprestdæmið hrærði hjörtu allra í söfnuðinum er hann talaði um sannleika fagnaðarerindisins og gleðina af því að halda boðorðin. Hann gaf innilegan og hjartnæman vitnisburð er hann stóð í ræðustólnum, hreinn og snyrtilegur í hvítri skyrtu með bindi.

Síðar sama dag, þegar þessi kona og eiginmaður hennar voru á leið úr kirkju, sáu þau sama piltinn, er þau höfðu hrifist svo af aðeins fáum stundum áður. Nú var umgjörðin hins vegar allt önnur, því hann gekk eftir gangstéttinni íklæddur druslulegum fötum - reykjandi sígarettu. Vinkona mín og eiginmaður hennar voru ekki aðeins afar vonsvikin og sorgmædd, heldur líka gáttuð yfir því hvernig það gat verið að hann var svo sannfærandi í hlutverki sínu á sakramentissamkomunni og síðan orðið að allt öðrum manni á svo skömmum tíma.

Bræður, eruð þið samkvæmir sjálfum ykkur hvar sem þið eruð og í öllu sem þið gerið - eruð þið sá sem himneskur faðir vill að þið séuð og sá sem þið vitið að ykkur ber að vera?

Í viðtali sem birtist í tímariti, var velþekktur körfuboltamaður í bandarísku NCAA-deildinni, að nafni Jabari Parker, sem er meðlimur kirkjunnar, beðinn að segja frá besta ráðinu sem faðir hans hefði gefið honum. Jabari svaraði: „[Faðir minn] sagði mér að vera ætíð samkvæmur sjálfum mér, hvort heldur í myrkri eða ljósi.“4 Mikilvæg leiðsögn fyrir okkur alla, bræður.

Í ritningum okkar eru ótal dæmi um hugrekki sem er eftirsóknarvert fyrir okkur alla í dag. Spámaðurinn Daníel sýndi ofurmannlegt hugrekki með því að standa fast á því sem hann vissi að væri rétt og með því að sýna hugrekki til að biðjast fyrir, jafnvel þótt hann ætti á hættu að láta lífið, ef hann gerði það.5

Hugrekki var einkennandi fyrir Abínadí, sem sýndi sig í því að hann var fús til að láta frekar lífið en að afneita sannleikanum.6

Er hægt annað en að hrífast af hinum tvö þúsund ungliðum Helamans, sem kenndu og sýndu nauðsyn þess að fara af hugrekki eftir kennslu foreldra sinna um að vera skírlífir og hreinir.7

Ef til vill er hápunktur allra þessara ritningarlegu frásagna fordæmi Morónís, sem sýndi það hugrekki að standa stöðugur og réttlátur allt til enda.8

Ótal atvik eru um hugrekki úr lífi spámannsins Josephs Smith. Eitt hið tilþrifamesta átti sér stað þegar hann og fleiri bræður voru hlekkjaðir saman - hugsið ykkur, hlekkjaðir saman - í varðhaldi í ófullgerðum klefa við hlið dómshúsins í Richmond, Missouri. Parley P. Pratt, sem var meðal þeirra sem voru í varðhaldi, skrifaði um atburð einnar tiltekinnar nóttu: „Við höfðum legið á gólfinu fram yfir miðnætti, án þess að geta sofið, og eyrum okkar og hjörtum hafði verið misboðið, því klukkustundum saman höfðum við hlustað klúrt spaug varðanna, ljótt orðbragð þeirra, hræðilegt guðlast og andstyggilegt málfar.

Öldungur Pratt hélt áfram:

„Ég hlustaði þar til ég fylltist slíkum viðbjóði, hneykslun og hryllingi, að mér tókst vart að halda aftur af mér, að standa upp til að ávíta verðina, en ég sagði ekkert við Joseph eða neinn hinna, þótt ég lægi við hlið hans og vissi að hann væri vakandi. Skyndilega spratt hann á fætur og mælti þrumuröddu, eða líkt og öskrandi ljón, og sagði eftirfarandi eftir mínu besta minni:

„,ÞÖGN … Í nafni Jesú Krists býð ég ykkur að hafa hljótt. Ég líð ekki slíkt málfar eina einustu mínútu í viðbót. Hættið þegar slíku tali, ella munuð þið eða ég láta lífið ÞEGAR Í STAÐ!‘“

Joseph „stóð sperrtur og tignarlegur,“ líkt og öldungur Pratt lýsti honum. Hann var hlekkjaður og vopnlaus og samt var hann rólegur og virðulegur. Hann horfði niður á skjálfandi verðina, sem fóru út í horn eða hnipruðu sig saman við fætur hans Þessir forhertu menn báðu hann afsökunar og urðu hljóðir.9

Ekki eru allar dirfskudáðir svo sérstakar eða árangursríkar, en allar veita þær hugarró og vissu um að sannleikanum var haldið á lofti.

Ómögulegt er að standa uppréttur, sé rótum manns plantað í ótraustan sand vinsældar og viðurkenningar. Hugrekki Daníels, Abínadís, Morónís eða Josephs Smith er nauðsynlegt til að hægt sé að vera óhagganlegur og standa fast á því sem við vitum að er rétt. Þeir höfðu hugrekki til að gera það sem ekki er auðvelt, en rétt.

Við munum finna til ótta, mæta háði og mótlæti. Megum við - hver og einn okkar - hafa hugrekki til þess að bjóða tíðarandanum byrginn, hugrekki til að standa fast á því sem rétt er. Hugrekki, ekki málamiðlun, vekur bros og viðurkenningu Guðs. Hugrekki verður lifandi og aðlaðandi dyggð, þegar það telst ekki aðeins vera fúsleiki til að deyja karlmannlega, heldur líka festa til að lifa siðsamlega. Þegar við höldum áfram og reynum að lifa eins og vera ber, munum við vissulega hljóta hjálp frá Drottni og geta fundið huggun í orðum hans. Ég ann fyrirheiti hans í Bók Jósúa.

„Ég mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. …

… Ver þú hughraustur og öruggur? Lát eigi hugfallast og óttast eigi, því að Drottinn Guð þinn er með þér í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur.“10

Kæru bræður, megum við af hugrekki sannfæringar okkar, lýsa yfir með Páli postula: „Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið.“11 Og síðan af þessu sama hugrekki fara eftir þessari leiðsögn Páls: „Ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika.“12

Stórslysaátök koma og fara, en stríðið um mannssálirnar heldur áfram sleitulaust. Líkt og lúðurhljómur berast orð Drottins til ykkar, til mín, og til prestdæmishafa alls staðar. „Lát því hvern mann læra skyldu sína og starfa af fullri kostgæfni í því embætti, sem hann hefur verið tilnefndur í.“13 Þá munum við verða, líkt og Pétur postuli sagði, „konunglegt prestafélag,“14 sameinaðir í tilgangi og gæddir krafti frá upphæðum.15

Megi sérhver okkar fara héðan í kvöld fullir einurð og hugrekki og segja með Job hinum forna: „Meðan lífsönd er í mér … læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt.“16 Ég bið þess af auðmýkt að þannig megi það vera, í nafni Jesú Krists, Drottins okkar, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. J. Reuben Clark Jr., The Charted Course of the Church in Education, uppfærð útg. (1994), 7.

  2. Robert Louis Stevenson, í Hal Urban, Choices That Change Lives (2006), 122.

  3. Charles Swindoll, í Urban, Choices That Change Lives, 122.

  4. Jabari Parker, í “10 Questions,” Time, 17. mars 2014, 76.

  5. Sjá Dan 6.

  6. Sjá Mósía 11:20; 17:20.

  7. Sjá Alma 53:20–21; 56.

  8. Sjá Moró 1–10.

  9. Sjá Autobiography of Parley P. Pratt, útg. Parley P. Pratt Jr. (1938), 210–11.

  10. Jósúa 1:5, 9.

  11. Róm 1:16.

  12. 1 Tím 4:12.

  13. Kenning og sáttmálar 107:99.

  14. 1 Pét 2:9.

  15. Sjá Kenning og sáttmálar 105:11.

  16. Job 27:3, 5.