Sleppa aðallóðsun
Apríl 2014 | Bera byrðar þeirra léttilega

Bera byrðar þeirra léttilega

Apríl 2014 Aðalráðstefna

Hinar einstæðu byrðar í lífi okkar allra auðvelda okkur að treysta á verðleika, miskunn og náð hins heilaga Messíasar.

Ég á kæran vin sem á fyrri hjónabandsárum sínum var sannfærður um að hann og fjölskylda hans þyrftu fjórhjóladrifinn pallbíl. Eiginkona hans var viss um að hann þyrfti ekki nýjan pallbíl, heldur langaði bara í hann. Glettið samtal þessara hjóna sýnir hvernig þau tjáðu kosti og galla þess að kaupa pallbílinn.

„Heyrðu ástin, við þurfum fjórhjóladrifinn pallbíl.“

Hún spurði: „Af hverju heldurðu að við þurfum nýjan pallbíl?“

Hann svaraði spurningunni með hinu fullkomna svari að hans áliti: „Hvað ef við þyrftum mjólk fyrir börnin í hræðilegu veðri og eina leiðin til að komast í búðina væri á pallbíl?“

Eiginkona hans svaraði brosandi: „Ef við kaupum nýjan pallbíl, höfum við ekki efni á mjólk - svo afhverju að hafa áhyggjur af því að komast í búðina í neyðartilviki!“

Með tímanum héldu þau áfram að ráðgast saman og ákváðu loks að kaupa pallbílinn. Stuttu eftir kaup hins nýja pallbíls ákvað vinur minn að prufa notagildi hans og staðfesta ástæður þess að hann keypti bílinn. Hann ákvað því að höggva og ná sér í eldivið fyrir heimilið og flytja hann á bílnum. Þetta var að hausti til og snjór hafði þegar fallið í fjöllunum þar sem hann hugðist ná í eldiviðinn. Þegar hann ók upp fjallshlíðina varð snjórinn stöðugt dýpri. Vinur minn vissi að háll vegurinn var varasamur, en hann hélt sjálfsöruggur áfram í hinum nýja pallbíl.

Því miður fór vinur minn of langt eftir hinum snjóþunga vegi. Þegar hann beygði bílnum út af veginum þar sem hann hugðist ná sér í viðardrumba, festi hann bílinn. Öll fjögur hjólin á nýja pallbílnum spóluðu í snjónum. Honum varð skyndilega ljóst að hann vissi ekki hvað til ráðs ætti að taka til að komast úr þessu hættuástandi. Hann varð kvíðinn og skömmustulegur.

Vinur minn hugsaði með sér: „Jæja, ég ætla ekki að sitja hér auðum höndum.“ Hann fór út úr bílnum og tók að safna viði. Hann fyllti pallinn og hlassið var þungt. Vinur minn ákvað síðan að gera eina tilraun í viðbót til að aka út úr snjónum. Þegar hann setti bílinn í gír og jók vélaraflið, þokaðist hann örlítið áfram. Pallbíllinn þokaðist hægt út úr snjónum og upp á veginn. Hann var loks laus og gat haldið heim, ánægður og auðmjúkur.

Okkar persónulega byrði

Ég bið um hjálp heilags anda er ég legg áherslu á mikilvæga lexíu sem draga má af þessari frásögn um vin minn, pallbílinn og viðardrumbana. Það var byrðin. Það var viðarhlassið sem framkallaði hið nauðsynlega grip svo að að hann kæmist út úr snjónum, aftur upp á veginn, og svo áfram. Það var byrðin sem gerði honum kleift að fara aftur heim til fjölskyldu sinnar.

Öll berum við líka byrði. Okkar persónulega byrði hefur að geyma kröfur og tækifæri, kvaðir og forréttindi, böl og blessanir og valkosti og hömlur. Tvær leiðbeinandi spurningar geta verið gagnlegar er við, reglubundið og í bænarhug, metum byrði okkar: „Framkallar byrðin sem ég ber hið andlega grip sem gerir mér kleift að sækja áfram í trú á Krist, á hinum krappa og þrönga vegi, svo ég festist ekki? Framkallar byrðin sem ég ber nægilega fast andlegt grip, svo ég geti snúið aftur heim til himnesks föður?“

Stundum teljum við ranglega að hamingjan hafi engar byrðar. Að axla byrði er mikilvægur og nauðsynlegur þáttur í sæluáætluninni. Þar sem byrði okkar þarf að framkalla andlegt grip, ættum við að gæta þess að tileinka okkur ekki of margt indælt en ónauðsynlegt, sem er truflandi og letur okkur frá því sem mestu skiptir.

Styrkjandi kraftur friðþægingarinnar

Frelsarinn sagði:

„Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

„Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“ (Matt 11:29‒30).

Ok er viðardrumbur, yfirleitt hafður á milli tveggja uxa eða annarra burðardýra, sem gerir þeim kleift að draga saman sömu byrði. Okið staðsetur dýrin hlið við hlið, svo þau geti verið samtaka í drætti.

Íhugið hið einstæða persónulega boð: „Takið á yður mitt ok.“ Að gera og halda sáttmála, er að leggja okið á okkur með Drottni Jesú Kristi við hlið okkar. Mergur málsins er sá að frelsarinn er að gefa okkur boð um að treysta sér og draga með sér, jafnvel þótt okkar besta framlag jafnist ekki á við hans og sé ekki samanburðarhæft. Þegar við setjum traust okkar á hann og drögum byrði okkar með honum í jarðlífsferð okkar, verður ok hans vissulega ljúft og byrði hans létt.

Við erum ekki ein og þurfum aldrei að verða ein. Við getum sótt fram í okkar daglega lífi með himneskri hjálp. Fyrir tilstilli friðþægingar frelsarans getum við hlotið getu og „styrk umfram okkar eign“ („Lord I Would Follow Thee,“ Hymns, nr. 220). Líkt og Drottinn hefur sagt: „Hald þess vegna áfram ferð yðar og gleðjist í hjarta, því að sjá og tak eftir, ég er með yður allt til enda“ (K&S 100:12).

Íhugið dæmið í Mormónsbók þar sem Amúlon ofsækir Alma og fólk hans. Rödd Drottins barst þessum lærisveinum í raunum þeirra og sagði: „Lyftið höfðum yðar og látið huggast, því að mér er kunnugt um sáttmálann, sem þér hafið gjört við mig. Og ég mun gjöra sáttmála við fólk mitt og leysa það úr ánauð“ (Mósía 24:13).

Takið eftir mikilvægi sáttmálsgjörðar til fyrirheits um björgun. Nauðsynlegt er að gera og heiðra sáttmála af ráðvendni og að helgiathafnir séu framkvæmdar með réttmætu prestdæmisvaldi, til að hægt sé að hljóta allar þær blessanir sem hafa verið gerðar mögulegar með friðþægingu Jesú Krists. Vegna þess að í helgiathöfnum prestdæmisins staðfestist kraftur guðleikans fyrir mönnum í holdinu, þar með talið blessanir friðþægingarinnar (sjá K&S 84:20–21).

Minnist orða frelsarans: „Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“ (Matt 11:30), er við hugum næsta vers í frásögninni um Alma og fólk hans.

„Ég mun einnig létta byrðarnar, sem lagðar hafa verið á herðar yðar, já, svo að þér finnið ekki fyrir þeim á bökum yðar“ (Mósía 24:14).

Mörg okkar kunna að álykta að þessi ritningargrein segi að byrðin verði skyndilega og varanlega fjarlægð. Næsta ritningargrein útskýrir hvernig byrðinni var aflétt.

„Og nú bar svo við, að byrðarnar, sem lagðar höfðu verið á Alma og bræður hans, urðu þeim léttari. Já, Drottinn gaf þeim svo mikinn styrk, að þeir gátu borið byrðar sínar léttilega og lutu vilja Guðs með gleði og þolinmæði“ (Mósía 24:15; skáletrað hér).

Áskorunum og erfiðleikum var ekki þegar í stað létt af fólkinu. Alma og fylgjendur hans hlutu styrk og aukin geta þeirra gerði byrði þeirra léttari. Þetta góða fólk hlaut styrk með friðþægingunni til að takast á við aðstæður sínar (sjá K&S 58:26–29) og draga úr áhrifum aðstæðnanna. Og „með Drottins styrk“ (Orð Morm 1:14; Mósía 9:17; 10:10; Alma 20:4), var Alma og fólk hans leitt á öruggan stað í landi Sarahemla.

Friðþæging Jesú Krists gerir okkur ekki aðeins kleift að sigrast á áhrifum falls Adams og hljóta fyrirgefningu á syndum okkar og brotum, heldur gerir hún okkur líka kleift að gera gott og verða langtum betri en við sjálf gætum orðið fyrir okkar jarðnesku getu. Flest okkar vita að frelsarinn hefur gert okkur mögulegt að verða hrein fyrir endurleysandi kraft hans, eftir að við höfum breytt ranglega og þurfum á hjálp að halda við að sigrast á áhrifum synda okkar. Skiljum við að friðþægingin er fyrir trúfasta karla og konur, sem eru hlýðin, verðug og samviskusöm og reyna stöðugt að bæta sig og þjóna af trúmennsku? Ég velti fyrir mér hvort við skiljum fyllilega þessa styrkjandi hlið friðþægingarinnar og teljum ranglega að nauðsynlegt sé fyrir okkur að bera byrði okkar einsömul - af hreinum viljastyrk, seiglu og sjálfsögun og af okkar augljósu takmörkuðu getu.

Eitt er að vita að Jesús Kristur hafi komið til jarðarinnar til að deyja fyrir okkur. Við þurfum líka að vita að Drottinn þráir, fyrir friðþægingu sína og kraft heilags anda, að lífga upp á okkur - ekki aðeins til að veita okkur handleiðslu, heldur líka til að styrkja og lækna okkur.

Frelsarinn liðsinnir fólki sínu

Alma útskýrir hvers vegna og hvernig frelsarinn megnar að gera okkur hæf:

„Og hann mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar. Og svo mun verða, til að orðið megi rætast, sem segir, að hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns.

Og hann mun líða dauða til að leysa helsi dauðans, sem fjötrar fólk hans. Og hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess“ (Alma 7:11–12).

Frelsarinn hefur því ekki aðeins þjáðst fyrir syndir okkar og ranglæti - heldur líka fyrir líkamlegan sársauka okkar og angist, veikleika okkar og misbresti, ótta okkar og skapraunir, vonbrigði okkar og vanmátt, eftirsjá okkar og sektarkennd, örvæntingu okkar og örvilnun, óréttlætið og ranglætið sem við upplifum og okkar tilfinningalegu armæðu.

Það er enginn líkamlegur sársauki, engin andleg þjáning, engin sálarkvöl eða sorg, enginn vanmáttur eða veikleiki sem við höfum upplifað í jarðlífinu, sem frelsarinn hefur ekki upplifað á undan okkur. Á veikleikastundu getum við hrópað: „Enginn veit hvernig þetta er. Enginn fær skilið það.“ Sonur Guðs fær algjörlega skilið og þekkt, því hann hefur upplifðað og borið byrðar okkar. Vegna hinna óendanlegu og eilífu fórnar hans (sjá Alma 34:14), hefur hann fullkomna samhyggð og megnar að rétta okkur miskunnararm sinn. Hann megnar að ná til okkar, snerta, lækna og styrkja okkur, svo úr okkur verði meira en við hefðum sjálf getað gert og hjálpa okkur að gera það sem við hefðum aldrei getað gert með því að reiða okkur aðeins á okkur sjálf. Vissulega er hans ok ljúft og byrði hans létt.

Boð, fyrirheit og vitnisburður

Ég hvet ykkur til að læra, biðja, íhuga og kappkosta að skilja betur friðþægingu frelsarans, er þið metið byrði ykkar. Það er margt varðandi friðþæginguna sem við fáum einfaldlega ekki skilið með jarðneskum huga okkar. Það er hinsvegar margt sem við getum og þurfum að skilja varðandi friðþæginguna.

Hvað vin minn varðaði, þá framkallaði timburhlassið lífbjargandi grip. Farmlaus bíllinn dreif ekki í gegnum snjóinn, jafnvel þótt hann væri fjórhjóladrifinn. Þung byrði var nauðsynleg til að framkalla grip.

Það var byrðin. Það var byrðin sem framkallaði gripið og gerði vini mínum kleift að losa bílinn, að komast aftur upp á veginn, að halda áfram og komast aftur til fjölskyldu sinnar.

Hinar einstæðu byrðar í lífi okkar allra auðvelda okkur að treysta á verðleika, miskunn og náð hins heilaga Messíasar (sjá 2 Ne 2:8). Ég ber vitni og gef loforð um að frelsarinn mun hjálpa okkur að bera byrðar okkar (sjá Mósía 24:15). Þegar við tökum á okkur ok hans með helgum sáttmálum og hagnýtum okkur hinn virkjandi kraft friðþægingar hans, munum við í auknum mæli leitast við að skilja og lifa að hans vilja. Við munum líka biðja um styrk til að læra af aðstæðum okkar eða sætta okkur við þær, fremur en að biðja Guð stöðugt um að breyta aðstæðum okkar að eigin vilja. Við munum þá fremur verða sá sem áhrifum veldur, heldur en sá sem fyrir áhrifum verður (sjá 2 Ne 2:14). Við verðum blessuð með andlegu gripi.

Megi hvert okkar gera betur og verða betri með friðþægingu frelsarans. Í dag er 6. apríl. Við vitum með opinberun að í dag er hinn raunverulegi og rétti fæðingardagur frelsarans. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu var líka stofnuð 6. apríl. (Sjá K&S 20:1; Harold B. Lee, „Strengthen the Stakes of Zion,“ Ensign, júlí 1973, 2; Spencer W. Kimball, „Why Call Me Lord, Lord, and Do Not the Things Which I Say?“ Ensign, May 1975, 4; Spencer W. Kimball, „Remarks and Dedication of the Fayette, New York, Buildings,“ Ensign, maí 1980, 54; Discourses of President Gordon B. Hinckley, bindi 1: 1995–1999 [2005], 409.) Á þessum sérstaka og helga hvíldardegi lýsi ég yfir vitni mínu um að Jesús Kristur er frelsari okkar. Hann lifir og mun hreinsa, lækna, leiða, vernda og styrkja okkur. Um þetta vitna ég af gleði, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.