Sleppa aðallóðsun
Apríl 2014 | Dætur í sáttmálanum

Dætur í sáttmálanum

Apríl 2014 Aðalráðstefna

Vegurinn … sem við verðum að ganga aftur heim til himnesks föður … er markaður af helgum sáttmálum við Guð.

Okkur hefur verið kennt með andlegum krafti í dag. Ég bið þess að þau orð sem þessar stórkostlegu systur og leiðtogar hafa talað hér í dag muni ná inn í hjörtu ykkar á sama hátt og hjá mér.

Þetta er sögulegur fundur. Öllum konum í kirkjunni var boðið að vera með okkur hér í kvöld, átta ára og eldri. Margar ykkar hafa beðið þess að heilagur andi verði með okkur. Sú blessun veittist okkur er við heyrðum þessar systur tala og hlustuðum á innblásna tónlistina. Ég bið þess að andinn verði áfram með okkur, er ég flyt boðskap hvatningar og vitnisburðar, til viðbótar við það sem þegar hefur sagt - og undirstrika með vitnisburði að það sem við höfum heyrt, er það sem Drottinn vill að við heyrum.

Í kvöld langar mig að tala um þann veg - sem svo dásamlega hefur verið sagt frá í daga - og við verðum að fara um á leið okkar aftur til himnesks föður. Sá vegur er markaður af helgum sáttmálum við Guð. Ég mun talað við ykkur um þá gleði sem kemur frá því að gera og halda þessa sáttmála og hjálpa öðrum að halda þá.

Einhverjar ykkar voruð skírðar nýlega og tókuð á móti gjöf heilags anda með handayfirlagningu. Sú minning er fersk í huga ykkar. Aðrar skírðust fyrir löngu svo að minningin af þeirri sáttmálsreynslu er ekki eins fersk, en sumar þessara tilfinninga koma tilbaka í hvert skipti sem þið heyrið sakramentisbænina.

Engir tveir eiga sömu minninguna um þann dag er við gerðum þennan helga skírnarsáttmála og meðtókum gjöf heilags anda. Við fundum samt öll fyrir samþykki Guðs. Við fundum líka fyrir þeirri löngun að fyrirgefa og vera fyrirgefið og fyrir aukinni þrá til að gera það sem er rétt.

Hversu djúpt þessar tilfinningar ristu í hjarta ykkar ákvarðaðist að mestu af því hvernig ástríkt fólk undirbjó ykkur. Ég vona að þær ykkar sem eruð nýkomnar inn í ríkið séuð svo blessaðar að sitja nálægt móður ykkar. Ef svo er þá megið þið senda henni þakkarbros núna. Ég man eftir þeirri gleði og þakklætistilfinningu er ég sat fyrir aftan móður mína á leið okkar heim eftir skírn mína í Philadelphiu, Pennsylvaníu.

Móðir mín var sú sem hafði búið mig vandlega undir þennan sáttmála og alla þá sem fylgdu á eftir. Hún hafði verið trú þessari ábyrgð frá Drottni:

„Og enn fremur, að því leyti sem foreldrar, er eiga börn í Síon eða einhverri skipulagðri stiku hennar, kenna þeim ekki, þegar þau eru átta ára að aldri, að skilja kenninguna um iðrun, trú á Krist, son hins lifanda Guðs, og um skírn og gjöf heilags anda með handayfirlagningu, fellur syndin á höfuð foreldranna.

Því þetta skal vera lögmál fyrir íbúa Síonar eða sérhverrar skipulagðrar stiku hennar.

Og börn þeirra skulu skírð til fyrirgefningar synda sinna og hljóta [heilagan anda].“1

Móðir mín hafði gert sinn hluta. Hún hafði undirbúið börn sín með orðum sem svipaði til orða Alma, eins og þau eru rituð í Mormónsbók:

„Og svo bar við, að hann sagði við þá: Sjá hér eru Mormónsvötn (því að svo nefndust þau), og þar sem þið þráið að komast í hjörð Guðs og kallast hans lýður og eruð fús til að bera hvers annars byrðar svo að þær verði léttar–

Já, og eruð fús að syrgja með syrgjendum, já, og hugga þá, sem huggunar þarfnast, og standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem þið kunnið að vera, já, allt til dauða, svo að Guð megi endurleysa ykkur og þið megið teljast með þeim, sem í fyrstu upprisunni verða, svo að þið megið öðlast eilíft líf–

Og nú segi ég ykkur, sé þetta hjartans þrá ykkar, hvað hafið þið þá á móti því að láta skírast í nafni Drottins til að vitna fyrir honum, að þið hafið gjört sáttmála við hann um að þjóna honum og halda boðorð hans, svo að hann megi úthella anda sínum enn ríkulegar yfir ykkur?

Og þegar fólkið hafði heyrt þessi orð, klappaði það saman höndum af gleði og hrópaði: Það er þetta, sem við þráum.“2

Þið hafið kannski ekki klappað saman höndum þegar ykkur var fyrst boðið að gera skírnarsáttmálann, en þið funduð vafalaust fyrir ást frelsarans og sterkari ábyrgð til að annast aðra fyrir hann. Ég get sagt „vafalaust“ því þessar tilfinningar eiga sér djúpar rætur í hjörtum dætra himnesks föður. Það er hluti af arfleifð ykkar frá honum.

Hann leiðbeindi ykkur áður en þið komuð í þetta líf. Hann hjálpaði ykkar að skilja og meðtaka það að þið ættuð eftir að upplifa prófraunir, erfiðleika og tækifæri sem væru sérstaklega valin fyrir ykkur. Þið lærðuð það að faðirinn væri með hamingjuáætlun sem væri ætlað að leiða ykkur örugglega í gegnum þá erfiðleika og að þið mynduð hjálpa öðrum á sama hátt í gegnum þeirra erfiðleika. Þessi áætlun er mörkuð af sáttmálum við Guð.

Það er okkar val hvort við gerum og höldum þessa sáttmála. Einungis fáeinar af dætrum himnesks föður fá tækifæri til þess að læra um þessa sáttmála í sínu lífi. Þið eruð hluti af þessum fáu útvöldu. Kæru systur, hver og ein ykkar er dóttir í sáttmálanum.

Himneskur faðir fræddi ykkur um þá reynslu sem þið mynduð upplifa er þið yfirgæfuð hann og kæmuð til jarðar, áður en þið fæddust. Ykkur var kennt að leiðin aftur heim til hans yrði ekki auðveld. Hann vissi að það yrði of erfitt fyrir ykkur að fara þessa leið án aðstoðar.

Þið hafið verið blessaðar í þessu lífi, ekki aðeins með því að finna og gera þessa sáttmála, heldur með því að vera umkringdar öðrum sem munu hjálpa - sem eru líka sáttmálsdætur himnesks föður.

Þið hafið allar fundið fyrir þeirri blessun að vera í samfélagi dætra Guðs hér í kvöld, sem eru einnig undir þeim sama sáttmála að hjálpa og leiðbeina ykkur, eins og þið hafið lofað að gera. Ég, eins og þið, hef séð, þegar sáttmálssystur halda loforð sitt um að hugga og aðstoða - og gera það með bros á vör.

Ég man bros systur Ruby Haight. Hún var eiginkona öldungs David B. Haight, sem var meðlimur í Tólfpostulasveitinni. Hann þjónaði sem stikuforseti Palo Alto stikunnar í Kaliforníu þegar hann var ungur maður. Hann bað fyrir og hafði áhyggjur af stúlkunum í Meyjabekknum í deildinni hans.

Þá fékk Haight forseti þann innblástur að biðja biskupinn að kalla Ruby Haight til að kenna þessum stúlkum. Hann vissi að hún myndi verða vitni Guðs og upplyfta, hugga og elska stúlkurnar í bekknum.

Systir Haight var hið minnsta 30 árum eldri en stúlkurnar sem hún kenndi. Fjörutíu árum eftir að hún kenndi þeim, rétti hún samt alltaf arma sína á móti eiginkonunni minni, sem var ein af nemendum hennar, í hvert skipti sem hún hitti hana, brosti og sagði við Kathy: „Ó! Meyjan mín.“ Ég sá meira en bros hennar. Ég fann innilegan kærleika hennar til systur sem hún unni enn sem sinni eigin dóttur. Bros hennar og hlýleg kveðjan kom frá því að sjá að systir og dóttir Guðs væri enn á sáttmálsveginum á leið heim.

Himneskur faðir brosir einnig við ykkur í hvert skipti sem hann sér ykkur aðstoða dóttur hans eftir vegi sáttmálans í átt að eilífu lífi. Hann er einnig ánægður í hvert sinn sem þið reynið að velja það sem er rétt. Hann sér ekki einungis það sem þið eruð heldur einnig það sem þið getið orðið.

Það gæti verið að þið hafið átt jarðneska foreldra sem fannst að þið gætuð orðið meira en að ykkur fannst um ykkur sjálfar. Ég átti slíka móður.

Það sem ég vissi ekki, þegar ég var ungur, var að himneskur faðir minn, ykkar himneskur faðir, sér meiri möguleika í börnum sínum en við, og jafnvel jarðnesk móðir okkar, sér í okkur. Það færir honum hamingju í hvert skipti sem hann sér okkur færast upp á við í átt að möguleikum okkar. Það er hægt að skynja velþóknun hans.

Hann sér þennan dýrðlega möguleika í öllum dætrum sínum, hvar sem þær eru. Það setur mikla ábyrgð á herðar ykkar. Hann ætlast til þess að þið komið fram við alla sem þið hittið sem börn Guðs. Það er ástæðan fyrir því að hann býður okkur að elska náungann eins og okkur sjálf og að fyrirgefa öllum. Tilfinningar góðmennsku og fyrirgefning gagnvart öðrum koma til ykkar sem guðdómleg arfleifð frá honum sem dætur hans. Hver sem þið hittið eru ástkær andabörn hans.

Er þið finnið fyrir þessum systrakærleik þá fellur allt í burtu sem við héldum að aðskildi okkur. Til að mynda þá deila yngri og eldri systur tilfinningum sínum með þeirri væntingu að finna fyrir skilningi og samþykki. Það er meira líkt með ykkur sem dætur Guðs en ólíkt.

Með það í huga ættu stúlkur að hlakka til að ganga í Líknarfélagið og sjá það sem tækifæri til að stækka systrahóp sinn og kynnast systrum sem þær munu kynnast, dást að og elska.

Þessi sami hæfileiki, að sjá möguleika okkar, er að aukast í fjölskyldum okkar og í Barnafélaginu. Það gerist á fjölskyldukvöldum og í Barnafélagsstarfinu. Lítil börn verða fyrir innblæstri og segja undraverða hluti, eins og þau gerðu þegar frelsarinn losaði tungu þeirra þegar hann kenndi þeim eftir upprisu sína.3

Á sama tíma og Satan er að ráðast á systur á öllum aldri þá er Drottinn að lyfta systrum upp á sífellt hærra plan andlega. Til að mynda þá kenna stúlkur mæðrum sínum að nota FamilySearch til að finna og frelsa forfeður sína. Sumar ungar systur, sem ég þekki, eru að velja að fara snemma morguns til að gera staðgengilsskírnir í musterunum án neins þrýstings nema frá anda Elía.

Verið er að kalla systur sem leiðtoga á trúboðum um allan heim. Drottinn skapaði þörf fyrir þjónustu þeirra með því að snerta hjörtu fleiri systra til að koma til þjónustu. Margir trúboðsforsetar hafa séð systurtrúboða verða kröftugri sem trúarkennara og nærandi leiðtoga.

Hvort sem þið þjónið sem fastatrúboðar eða ekki, þá getið þið öðlast sömu hæfni til að auðga hjónaband ykkar og ala upp göfug börn ykkar, með því að fylgja fordæmi stórkostlegra kvenna.

Hugsið um Evu, móðir allra lifandi. Öldungur Russel M. Nelson hafði þetta að segja um Evu. „Við, og allt mannkynið, erum eilíflega blessuð vegna hugrekkis og visku Evu. Með því að neyta ávaxtarins fyrst, þá gerði hún það sem varð að gera. Adam var nógu skynsamur að gera slíkt hið sama.“4

Hver dóttir Evu hefur möguleikana á að færa fjölskyldu sinni sömu blessun og Eva færði sinni. Hún var það mikilvæg fyrir stofnun fjölskyldunnar að við höfum þessa frásögn af sköpun hennar: „Og guðirnir sögðu: Vér skulum gjöra manninum meðhjálp við hæfi, því að eigi er gott að maðurinn verði einsamall. Við viljum því móta handa honum meðhjálp við hæfi.“5

Við vitum ekki um alla þá aðstoð sem Eva veitti Adam og fjölskyldu þeirra. Við vitum hins vegar um eina stórkostlega gjöf sem hún gaf, sem hver og ein ykkar getur einnig gefið; hún hjálpaði fjölskyldu sinni að finna leiðina heim þegar vegurinn virtist hrjóstrugur. „Og Eva, eiginkona hans, heyrði allt þetta og gladdist og sagði: Ef ekki væri fyrir brot okkar, hefðum við aldrei eignast afkvæmi og aldrei þekkt gott frá illu, né gleði endurlausnar okkar og eilíft líf, sem Guð gefur öllum þeim, sem hlýðnast.“6

Þið hafið hennar fordæmi til að fylgja eftir.

Eva þekkti leiðina heim til Guðs í gegnum opinberun. Hún vissi að friðþægingarfórn Jesú Krists gerði eilífar fjölskyldur mögulegar. Hún var sannfærð, eins og þið getið verið, um að ef hún héldi sáttmála sína við himneskan föður sinn, þá myndu lausnari hennar og heilagur andi aðstoða hana og fjölskyldu hennar í gegnum hvaða sorgir og vonbrigði sem kæmu. Hún vissi að hún gæti treyst á þá.

„Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.

Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“7

Ég veit að Eva horfðist í augu við sorgir og vonbrigði, en ég veit einnig að hún fann gleði í þeirri vitneskju að hún og fjölskylda hennar myndu snúa aftur til að lifa með Guði. Ég veit að margar ykkar, sem eru hér nú, horfist í augu við sorgir og vonbrigði. Ég skil blessun mína eftir hjá ykkur að þið, eins og Eva, megið finna þá sömu gleði og hún fann á ferð ykkar heim.

Ég hef öruggan vitnisburð um að Guð faðirinn vakir yfir ykkur í kærleika. Hann elskar sérhverja ykkar. Þið eruð sáttmálsdætur hans. Vegna þess að hann elskar ykkur, þá mun hann veita ykkur þá aðstoð sem þið þarfnist til að færa ykkur sjálfar og aðra upp á við, eftir veginum til návistar hans.

Ég veit að frelsarinn greiddi gjaldið fyrir syndir okkar allra og að heilagur andi ber vitni um sannleikann. Þið hafið fundið fyrir hughreystingu hans á þessum fundi. Ég hef vitnisburð um að það sé búið að endurreisa alla lykla sem binda helga sáttmála. Þeir eru í höndum okkar lifandi spámanns, Thomas S. Monson forseta, og hann notar þá. Ég skil þessi hughreystingarorð og von eftir hjá ykkur, ástkæru sáttmálsdætur hans, í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir