2010–2019
„Óttast þú eigi, því að ég er með þér“
Apríl 2014


„Óttast þú eigi, því að ég er með þér“

Við fáum aðgang að krafti hans til að blessa og bjarga okkur, er við þróum með okkur enn meiri trú og traust á Drottin.

Fátt jafnast á við þær blíðu tilfinningar sem fylgja því að verða foreldri. Ekkert er eins ljúft og að taka á móti dýrmætubarni beint frá himnum. Einn bræðra minna upplifði þessa tilfinningu á mjög áhrifaríkan hátt. Fyrsti sonur hans var fyrirburi og vó einungis 1.3 kg. Hunter varði fyrstu tveimur mánuðunum lífs síns á nýburadeild spítalans. Þetta var viðkvæmur tími fyrir alla fjölskylduna þar sem við vonuðum og sárbændum Drottinn um hjálp.

Hunter litli var svo ósjálfbjarga. Hann barðist við að fá nauðsynlegan styrk til að lifa. Sterk hönd föður hans teygði sig oft í a hönd hans til að hvetja litla berskjaldaða barnið.

Svo er einnig með öll börn Guðs. Faðir okkar á himnum teygir sig til okkar allra með takmarkalausum kærleika. Hann hefur vald yfir öllum hlutum og þráir að hjálpa okkur að læra, vaxa og snúa aftur til sín. Þetta skilgreinir tilgang föður okkar: „Að gera ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“1

Við fáum aðgang að krafti hans til að blessa og bjarga okkur, er við þróum með okkur enn meiri trú og traust á Drottin.

Gegnumgangandi í Mormónsbók er að finna þetta fallega þema um kraft Drottins til að bjarga börnum sínum. Nefí kynnir þemað í fyrsta kapítula bókarinnar. Í versi 20 lesum við: „Ég, Nefí, mun sýna yður fram á, að hina mildu miskunn Drottins vakir yfir öllum þeim, sem hann hefur útvalið, trúar þeirra vegna, til að gjöra þá máttuga, jafnvel með krafti til frelsunar.“2

Fyrir mörgum árum varð sá sannleikur, sem hér er tjáður í þessum versum, mér miklu ljósari á mjög persónulegan hátt. Mér varð kunnugt um hversu nálægur himneskur faðir er í raun og hversu mikið hann þráir að hjálpa okkur.

Kvöld eitt við sólsetur, var ég að keyra ásamt börnum mínum, þegar ég tók eftir dreng sem gekk meðfram fáförnum vegi. Þegar ég hafði keyrt fram hjá honum, fann ég sterklega að ég ætti að snúa við og hjálpa honum. Þar sem ég hafði áhyggjur af því að hann myndi hræðast við að ókunnug manneskja keyrði upp að honum að kvöldi til, þá hélt ég áfram að keyra. Þessi sterka tilfinning kom aftur yfir mig ásamt þessum orðum : „Farðu og hjálpaðu þessum dreng!“

Ég ók til baka og spurði hann: „Þarftu á aðstoð að halda? Mér fannst eins og ég ætti að hjálpa þér.“

Hann snéri sér að okkur og með tár streymandi niður kinnarnar sagði hann: „Geturðu það? Ég hef verið að biðja fyrir því að einhver myndi hjálpa mér.“

Bænarákall hans um hjálp var svarað af innblæstrinum sem ég hlaut. Að hljóta svo sterka leiðsögn frá andanum hafði ógleymanleg áhrif á hjarta mitt sem ég finn enn fyrir í dag.

Fyrir nokkrum mánuðum komst ég aftur, af mildri miskunn, í samband við þennan dreng, 25 árum síðar. Ég komst að því að þessi upplifun er ekki bara mín saga heldur einnig sagan hans. Deric Nance er nú faðir með sína eigin fjölskyldu. Hann hefur heldur aldrei gleymt þessari upplifun. Hún hefur hjálpað til við að leggja þann grunn trúar að Guð heyrir og svarar bænum okkar. Við höfum bæði notað hana til að kenna börnum okkar að Guð vakir yfir okkur. Við erum ekki einsömul.

Deric hafði verið lengur í skólanum þetta kvöld vegna einhvers atburðar og hafði misst af skólarútunni. Hann var fullur sjálfstrausts að hann kæmist heim á eigin spýtur, enda nýorðinn unglingur, og gekk því af stað.

Hann hafði gengið í eina og hálfa klukkustund eftir einmannlegum veginum. Hann varð hræddur því enn voru margir kílómetrar eftir og ekkert hús að sjá. Í örvæntingu gekk hann bakvið hrúgu af möl, kraup á kné og bað himneskan föður um hjálp. Það var einungis nokkrum mínútum eftir að Deric gekk aftur út á veginn sem ég stoppaði og bauð aðstoðina sem hann hafði beðið fyrir.

Hugleiðingar Derics, nú öllum þessum árum seinna, eru eftirfarandi: „Drottinn var minnugur mín, horuðum og skammsýnum dreng. Hann þekkti aðstæður mínar, þrátt fyrir allt sem var í gangi í heiminum, og þótti nægilega vænt um mig til að senda aðstoð. Drottinn hefur margsinnis svarað bænum mínum síðan ég var á þessum yfirgefna vegi. Svör hans eru ekki alltaf tafarlaus og greinileg en það er jafn greinilegt nú, eins og það var þetta einmannalega kvöld, að hann man eftir mér. Ég veit að þegar myrkir skuggar sveipa sýn minni hulu þá er hann ætíð með áætlun um hvernig ég get komist heill á húfi heim aftur.“

Eins og Deric sagði þá er ekki öllum bænum svarað svona hratt. Faðir okkar þekkir okkur hins vegar sannarlega og heyrir bænir hjarta okkar. Hann framkvæmir kraftaverk sín, eina bæn í einu og hjá einni manneskju í einu.

Við getum treyst því að hann muni aðstoða okkur, ekki endilega á þann hátt sem við viljum heldur á þann hátt sem hjálpar okkur mest að vaxa. Það getur verið erfitt að laga okkar vilja að hans en það er kjarninn í því að verða lík honum og finna þann frið sem hann býður okkur.

Okkur gæti liðið eins og C.S. Lewis: „Ég bið vegna þess að ég get ekki hjálpað mér sjálfur. … Ég bið vegna þess að ég finn stöðugt fyrir þeirri þörf, bæði í vöku og svefni. Bænin breytir ekki Guði. Hún breytir mér.“3

Það eru margar frásagnir í ritningunum um þá sem hafa sett traust sitt á Drottinn og hafa hlotið hjálp og verið bjargað af honum. Hugsið til Davíðs hins unga sem komst hjá vísum dauða af hendi Golíats með því að reiða sig á Drottinn. Hugsið til Nefís, sem ákallaði Guð í trú og það leiddi til þess að honum var bjargað úr klóm bræðra sinna, sem sóttust eftir lífi hans. Munið eftir Joseph Smith sem leitaði í bæn eftir aðstoð frá Drottni. Honum var bjargað frá krafti myrkursins og hlaut undursamlegt svar. Allir tóku þeir á við raunverulega og erfiða áskorun. Allir brugðust við í trú og settu traust sitt á Drottinn. Allir hlutu hjálp hans. Kraftur og kærleikur Guðs er vís í lífi barna hans enn á okkar tíma.

Ég hef nýlega séð það í lífi trúfastra heilagra í Simbabve og Botswana. Það var innblástur fyrir mig að hlusta á vitnisburði barna, unglinga sem og fullorðna á föstu- og vitnisburðarsamkomu í einni lítilli grein. Öll miðluðu þau kraftmikilli trúartjáningu á Drottinn Jesú Krist. Dag hvern snýst líf þeirra um að treysta Guð því aðstæður þeirra eru þeim áskorun og erfiðar. Þau viðurkenna hönd hans í lífi sínu og oft tjá það oft með þessari setningu: „Ég er svo þakklát Guði.“

Fyrir fáeinum árum sýndi trúföst fjölskylda í deild okkar þetta sama traust til Drottins. Arn og Venita Gatrell lifðu hamingjusömu lífi þegar Arn greindist með bráðakrabbamein. Batahorfur voru slæmar – hann hafði einungis nokkrar vikur eftir ólifaðar. Fjölskyldan vildi vera saman í hinsta sinn. Því komu öll börnin saman, sum frá fjarlægðum stöðum. Þau áttu einungis 48 dýrmætar klukkustundir saman. Gatrell fjölskyldan valdi vandlega það sem skipti þau mestu máli – fjölskyldumyndatöku, sameiginlega máltíð og setu í Salt Lake musterinu. Venita sagði: „Þegar við yfirgáfum musterið þá var það í síðasta skiptið sem við myndum öll vera saman í þessu lífi.“

Hins vegar yfirgáfu þau musterið í þeirri fullvissu að þeirra biði svo miklu meira en aðeins þetta líf. Þau eiga von um loforð Guðs vegna heilagra musterissáttmála. Þau geta verið saman að eilífu.

Næstu tveir mánuðir voru uppfullir af óteljandi blessunum. Trú og traust Arn og Venitu á Drottinn voru að eflast, sem greina má af orðum Venitu: „Ég var borin áfram. Ég lærði að hægt er að finna frið í ringulreið. Ég vissi að Drottinn vakti yfir okkur. Ef þú treystir Drottni, þá er sannarlega hægt að yfirstíga allar áskoranir lífsins.“

Ein af dætrum þeirra bætti við: „Við sáum foreldra okkar og fordæmi þeirra. Við sáum trú þeirra og hvernig þau tókust á við áskoranir. Ég myndi aldrei biðja um þessa raun, en ég myndi heldur aldrei biðjast undan henni. Við vorum umvafin elsku Guðs.“

Auðvitað var andlát Arns ekki sú niðurstaða sem Gatrell fjölskyldan hafði vonast eftir. Ógöngur þeirra voru þó ekki trúarlegar ógöngur. Fagnaðarerindi Jesú Krists er ekki gátlisti sem þarf að framkvæma, heldur er það nokkuð sem lifir í hjörtum okkar. Fagnaðarerindið „er ekki farg, heldur vængir.“4 Það ber okkur áfram. Það bar Gatrell fjölskylduna. Í miðjum storminum upplifðu þau frið. Þau héldu fast í hvort annað og þá musterissáttmála sem þau höfðu gert og haldið. Þau uxu í getu sinni til að treysta Drottni og hlutu styrk í trú sinni á Jesú Krist og friðþægingarkraft hans.

Hvar sem við finnum okkur á vegi lærisveinsins, hverjar sem áhyggjur okkar og áskoranir eru, þá erum við ekki einsömul. Við erum ekki gleymd. Líkt og Deric, hinir heilögu í Afríku og Gatrell fjölskyldan, þá getum við valið að teygja okkur eftir hönd Guðs í neyð okkar. Við getum tekist á við áskoranir okkar með bæn og trausti til Drottins. Í þessu ferli verðum við líkari honum.

Drottinn segir til okkar allra: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“5

Ég deili auðmjúkum en öruggum vitnisburði mínum um að Guð, faðir okkar þekkir okkur persónulega og teygir sig okkur til hjálpar. Með ástkærum syni hans, Jesú Kristi, getum við sigrað áskoranir þessa heims og komist örugg heim. Ég bið þess að við megum hafa næga trú til að treysta á hann, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. HDP Móse 1:39.

  2. 1 Ne 1:20.

  3. Mælt af persónunni C. S. Lewis, eins og fram kemur í William Nicholson, Shadowlands (1989), 103.

  4. Harry Emerson Fosdick, Twelve Tests of Character (1923), 88.

  5. Jes 41:10.