Sleppa aðallóðsun
Apríl 2014 | Þakklát í öllum aðstæðum

Þakklát í öllum aðstæðum

Apríl 2014 Aðalráðstefna

Höfum við ekki ástæðu til að vera full þakklætis, hverjar sem aðstæður okkar kunna að vera?

Í gegnum árin hefur mér gefist hið helga tækifæri að hitta marga sem upplifað hafa miklar og sárar sálarsorgir. Á þeim stundum hef ég hlutað á mína kæru bræður og systur og hryggst með þeim yfir byrðum þeirra. Ég hef ígrundað hvað ég get sagt við þau og reynt að vita hvernig má hugga þau og styðja í raunum þeirra.

Oft er sorgin afleiðing þess sem þeim virðast endalok. Sumir upplifa endalok kærleikssambands, svo sem vegna dauða ástvinar eða ósamlyndis fjölskyldumeðlims. Öðrum finnst þeir upplifa endalok vonar - vonar um hjónaband, barnseignir eða lækningu sjúkdóma. Enn aðrir upplifa endalok eigin trúar, er truflandi og stríðandi raddir heimsins freista til efasemda, jafnvel brotthvarfs frá því sem þeir eitt sinn vissu að væri sannleikur.

Ég trúi því að fyrr eða síðar munum við öll upplifa það að heimur okkar virðist hrynja og við verðum einmana, vonsvikin og stefnulaus.

Þetta geta allir upplifað. Enginn er undanskilinn.

Við getum verið þakklát

Allar aðstæður eru ólíkar og hvert líf er einstakt. Engu að síður hefur mér lærst að það er nokkuð sem megnar að létta af okkur biturðinni sem við gætum upplifað. Það er eitt sem við getum gert til að gera lífið ljúfara, gleðilegra, jafnvel dýrðlegra.

Við getum verið þakklát!

Það kann að hljóma í andstöðu við visku heimsins að leggja til að sá sem hlaðinn er af sorg færi Guði þakkir. Þeir sem leggja frá sér flösku biturðar og taka þess í stað upp bikar þakklætis, geta fundið hreinsandi drykk lækningar, friðar og skilnings.

Sem lærisveinum Krists er okkur boðið að „færa Drottni Guði [okkar] þakkir í öllu,“1 að „[syngja] Drottni með þakklæti“2 og að [láta] hjarta [okkar] vera fullt af þakklæti til Guðs.“3

Hvers vegna býður Guð okkur að vera þakklát?

Öll hans boðorð eru gefin til að gera blessanir tiltækar fyrir okkur. Boðorð eru tækfæri til að iðka sjálfræði okkar og hljóta blessanir. Okkar kærleiksríki faðir á himnum veit að það mun færa okkur sanna gleði og mikla hamingju, ef við veljum að rækta anda þakklætis.

Vera þakklát fyrir hluti

Sumir gætu sagt. „Fyrir hvað ætti ég að sýna þakklæti, þegar allt er að hruni komið?“

Kannski er það röng nálgun að einblína á það sem við erum þakklát fyrir. Það er erfitt að rækta anda þakklætis, ef þakklæti okkar er aðeins takmarkað við þær blessanir sem við fáum talið. Satt er að mikilvægt er að „telja blessanir okkar“ oft - og allir sem það hafa gert vita að þær eru margar - en ég held að Drottinn vænti þess ekki að við séum síður þakklát á tímum erfiðleika, en á tímum alsnægtar og vellíðunar. Í raun þá kveða flest ritningarversin ekki á um það að okkur beri að vera þakklát fyrir hluti, heldur leggja fremur til að við séum að öllu jöfnu þakklát að eðlisfari.

Það er auðvelt að sýna þakklæti fyrir hluti þegar lífið virðist okkur í hag. Hvað um þá tíma þegar það sem við þráum virðist langt utan okkar seilingar?

Ég legg til að við lítum á þakklæti sem lunderni, lífsstíl óháðan okkar núverandi aðstæðum? Með öðrum orðum, þá legg ég til að í stað þess að vera „þakklát fyrir hluti,“ þá einblínum við á það að vera „þakklát í aðstæðum okkar“ - hverjar sem þær kunna að vera.

Til er gömul saga um þjón nokkurn sem spurði viðskiptavin hvort hann hefði notið matarins. Geturinn sagði allt vera í stakasta lagi, en betra hefði verið ef meira hefði verið af brauðinu. Daginn eftir, þegar maðurinn kom aftur, tvöfaldaði þjónninn brauðmagnið, gaf honum fjórar sneiðar í stað tveggja áður, en samt var maðurinn ekki ánægður. Daginn þar á eftir tvöfaldaði þjónninn brauðmagnið aftur, án þess að nokkuð breytist.

Á fjórða degi var þjónninn staðráðinn í því að gera manninn ánægðan. Hann náði í tæplega þriggja metra langt brauð, skar það í helminga og fór brosandi með það til gestsins. Þjónninn gat vart beðið þess að sjá viðbrögð mannsins.

Eftir máltíðina leit maðurinn upp og sagði: „Gott, eins og alltaf. Ég sé hinsvegar að þú er aftur farinn að bera aðeins fram tvær sneiðar.”

Vera þakklát í aðstæðum okkar

Kæru bræður og systur, valið er ykkar. Við getum valið að takmarka þakklæti okkar við þær blessanir sem okkur finnst vanta upp á. Við getum líka valið að vera eins og Nefí, sem lét aldrei bregðast að vera þakklátur. Þegar bræður hans höfðu keflað hann á skipinu - sem hann hafði smíðað til að sigla með þá til fyrirheitna landsins - urðu ökklar hans og úlnliðir svo sárir að „þeir [urðu] stokkbólgnir“ og hann átti á hættu að falla í djúp sjávar vegna aftakaveðurs. „Engu að síður,“ sagði Nefí, „leit ég til Guðs míns, og ég söng honum lof allan liðlangan daginn. Og ég áfelldist ekki Drottin fyrir þrengingar mínar.“4

Við getum valið að vera eins og Job, sem virtist ekkert skorta, en missti síðan allt. Samt brást Job við með því að segja: „Nakinn kom ég af móðurskauti og nakinn mun ég aftur þangað fara. Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.“5

Við getum valið að vera eins og brautryðjendur mormóna, sem héldu áfram að vera þakklátir á hægfara og sársaukafullri slóðinni til Salt Lake, sem sungu jafnvel og dönsuðu og lofsungu í gæsku Guðs.6 Mörg okkar hefðu dregið sig í hlé og möglað yfir þjáningum hinnar erfiðu ferðar.

Við getum valið að vera eins og spámaðurinn Joseph Smith, sem sagði þessi innblásnu orð meðan hann var vistaður við ömurlegar aðstæður í Liberty-fangelsinu: „Þess vegna skulum vér, ástkæru bræður, með glöðu geði gjöra allt, sem í okkar valdi stendur, og síðan getum við með fullri vissu beðið eftir að sjá hjálpræði Guðs, og arm hans opinberast.“7

Við getum valið að vera þakklát, þrátt fyrir allt.

Slíkt þakklæti er hafið yfir allt sem gerist umhverfis okkur. Það er æðra vonbrigðum, úrtölum og örvæntingu. Það blómgast af ekki síðri fegurð á köldum og hörðum vetri eins og á mildu og þægilegu sumri.

Þegar við erum þakklát Guði í aðstæðum okkar, munum við upplifa ljúfan frið mitt í þrengingum okkar. Í sorg getum við áfram lyft hjörtum okkar í lofgjörð. Í sársauka getum við vegsamað í friðþægingu Krists. Í kulda hinnar beisku sorgar, getum við upplifað nálægð og hlýju himins arma.

Stundum höldum við að þakklæti sé eitthvað sem við sýnum eftir lausn vandamála okkar, en það er skelfileg skammsýni. Hve lengi leyfum við að lífið þjóti hjá, í bið eftir regnboganum áður en við þökkum Guði fyrir regnið?

Að vera þakklát á ógæfutímum merkir ekki að við séum ánægð með aðstæður okkar. Það merkir að með auga trúar sjáum við lengra núverandi áskorunum okkar.

Þetta er ekki þakklæti orða, heldur sálar. Þetta er þakklæti sem græðir hjarta og víkkar huga.

Þakklæti er ávöxtur trúar.

Að vera þakklát í aðstæðum okkar, er trúrækni við Guð. Það krefst þess að við setjum traust okkar á Guð og vonum að hljóta það sem ekki er unnt að sjá, en er sannleikur.8 Með því að vera þakklát, fylgjum við fordæmi okkar ástkæra frelsara, sem sagði: „En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“9

Einlægt þakklæti er framsetning á von og vitnisburði. Það er afleiðing þess að viðurkenna það að við fáum ekki alltaf skilið þrautir lífsins, en reiðum okkur á að dag einn munum við gera það.

Í öllum aðstæðum, þá nærist þakklæti okkar á hinum helga sannleika sem við vissulega þekkjum: Að faðir okkar hefur gefið börnum sínum hina undursamlegu sæluáætlun; að fyrir friðþægingu sonar hans, Jesú Krists, getum við lifað að eilífu með ástvinum okkar; að við munum að lokum fá dýrðlegan, fullkominn og ódauðlegan líkama, óháðan sjúkdómum eða vanhæfni; og í stað sorgartára okkar kemur ómæld hamingja og gleði, „góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar.“10

Það hlýtur að hafa verið þess konar vitnisburður sem umbreytti postulum frelsarans, frá því að vera menn ótta og efasemda í það að vera óttalausir og glaðir sendiboðar meistarans. Um tíma, eftir krossfestingu hans, fylltust þeir örvæntingu og sorg og fengu ekki skilið það sem gerst hafði. Einn atburður breytti þessu öllu. Drottinn þeirra birtist þeim og sagði: „Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur.“11

Þegar postularnir þekktu hinn upprisna Krist - þegar þeir upplifðu hina dýrðlegu upprisu síns ástkæra frelsara - varð það til að breyta þeim varanlega. Ekkert gat komið í veg fyrir að þeir uppfylltu hlutverk sitt. Þeir sættu sig af hugrekki og einurð við misþyrmingu, auðmýkingu og jafnvel dauða, sem kom yfir þá vegna vitnisburðar þeirra.12 Þeim var ekki hnikað frá því að lofa og þjóna Drottni. Þeir umbreyttu lífi fólks hvarvetna. Þeir breyttu heiminum.

Þið þurfið ekki að sjá frelsarann, líkt og postularnir gerðu, til að upplifa sömu umbreytingu. Vitnisburður ykkar um Krist, borinn af heilögum anda, getur gert ykkur kleift að leiða hjá ykkur slæm endalok í jarðlífinu og einblína á hina björtu framtíð sem ráðgerð er af frelsara þessa heims.

Endalok eru ekki okkar örlög

Í ljósi þess sem við vitum um okkar eilífu örlög, er þá nokkur furða að þegar við stöndum frammi fyrir beiskum endalokum, að þau virðist óásættanleg? Okkur virðist öllum meðfætt að sætta okkur ekki við endalok.

Hvers vegna er það svo? Vegna þess að við erum búin til úr því sem heyrir eilífðinni til. Við erum eilífar verur, börn almáttugs Guðs, sem hefur nafnið Óendanlegur13 og hefur lofað óteljandi eilífum blessunum. Endalok eru ekki okkar hlutskipti.

Því meira sem við lærum um fagnaðarerindi Jesú Krists, því betur verður okkur ljóst að endalok í þessu jarðlífi eru alls ekki endalok. Þau eru aðeins ónæði - tímabundið ástand sem dag einn verður harla smávægileg í samanburði við hina eilífu gleði sem bíður hinna trúföstu.

Hve þakklátur ég er mínum himneska föður fyrir að í hans áætlun eru engin varanleg endalok, aðeins ævarandi upphaf.

Þeir sem eru þakklátir verða gerðir dýrðlegir

Bræður og systur, höfum við ekki ástæðu til að vera full þakklætis, hverjar sem aðstæður okkar kunna að vera?

Þurfum við einhverja betri ástæðu til að leyfa að hjarta okkar sé „fullt af þakklæti til Guðs?“14

„Höfum við ekki ástæðu til að fagna?“15

Hve blessuð við erum, ef við viðurkennum hönd Guðs í hinum dásamlega myndvefnaði lífsins. Þakklæti til föður okkar á himnum mun útvíkka og skýra sýn okkar. Það innblæs auðmýkt og samhyggð með samferðafólki okkar og allri sköpun Guðs. Þakklæti er hvati að öllum kristilegum eiginleikum! Þakklátt hjarta er undirrót allra dyggða.16

Drottinn hefur gefið okkur loforð um að sá „sem veitir öllu viðtöku með þakklæti, mun dýrðlegur gjörður, og það sem jarðarinnar er mun bætast honum.“17

Megum við „[lifa] í daglegri þakkargjörð,“18 - einkum við þau endalok sem virðast óútskýranleg og eru hluti af jarðlífinu. Megum við leyfa að sálir okkar útvíkki í þakklæti til okkar miskunnsama himneska föður. Megum við ætíð og stöðugt hefja upp raust okkar og sýna þakklæti til okkar himneska föður og hans ástkæra sonar, Jesú Krists, í orði og verki. Fyrir þessu bið ég og læt ykkur eftir vitnisburð minn og blessun, í nafni meistara okkar, Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir