Sleppa aðallóðsun
Apríl 2014 | „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín“

„Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín“

Apríl 2014 Aðalráðstefna

Þegar við notum sjálfræði okkar til að hlýða, þurfum við að „[breyta] nú rétt og með stálvilja sterkum.“

Bræður og systur, af öllum þeim lexíum sem við getum lært af lífi frelsarans þá er engin eins skýr og kröftug og lexían um hlýðni.

Fordæmi frelsarans

Í fortilverunni á stórþingi himins reis Lúsífer upp á móti áætlun himnesks föður. Þeir sem fylgdu Lúsífer bundu enda á eilífa framþróun sína - svo gætið að því hverjum þið fylgið.

Þá tjáði Jesús hollustu sína og hlýðni með því að segja: „Faðir, verði þinn vilji og þín sé dýrðin að eilífu.“1 Í öllu starfi hans „[þoldi hann] freistingar, en sinnti þeim engu.“2 Sannlega „lærði hann hlýðni af því, sem hann leið.“3

Af því að hann var hlýðinn, þá friðþægði frelsarinn fyrir syndir okkar, sem gerði okkur kleift að rísa upp, og undirbjó veginn fyrir okkur til að snúa aftur til himnesks föður, sem vissi að við myndum gera mistök, er við lærðum hlýðni í jarðlífinu. Þegar við hlýðum þá meðtökum við fórn hans því „vér trúum, að fyrir friðþægingu Krists geti allir menn orðið hólpnir með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.“4

Jesús kenndi okkur að hlýða með einföldum orðum sem auðvelt er að skilja; „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín“5 og „kom síðan og fylg mér.“6

Þegar við skírumst þá „tökum við á okkur nafn Krists“ og gjörum „sáttmála við Guð um að vera hlýðin til enda ævidaga [okkar]“7 Á hverjum sunnudegi endurnýjum við skírnarsáttmálann með því að meðtaka sakramentið og vitna um að við séum fús til að halda boðorðin. Við leitum fyrirgefningar fyrir hverja þær hugsanir, tilfinningar eða gjörðir sem eru ekki í samhljóm við vilja föðurins. Þegar við iðrumst og snúum frá óhlýðni og tökum að hlýða að nýju, sýnum við elsku okkar til hans.

Hinar ýmsu myndir hlýðni

Er við lifum eftir fagnaðarerindinu þá þroskumst við í skilningi okkar á hlýðni. Stundum freistumst við til þess að iðka það sem ég vill kalla „hlýðni hins náttúrlega manns,“ þar sem við höfnum lögmálum Guðs og veljum frekar okkar eigin visku og þrár. Þar sem þetta er svo almenn ástundun, þá gerir þessi rangsnúna hlýðni lítið úr stöðlum Guðs í menningu okkar og lögum.

Stundum taka kirkjuþegnar þátt í „valkvæðri hlýðni,“ segjast elska og heiðra Guð, en velja svo þau boðorð og þær kenningar - sem og kenningar og leiðsögn spámanna hans - sem þeir vilja lifa algjörlega eftir.

Sumir velja hverju þeir vilja hlýða, vegna þess að þeir geta ekki séð allar ástæðurnar að baki einhvers boðorðs, á sama hátt og börn sem skilja ekki alltaf ástæðurnar fyrir reglum foreldra sinna. Við þekkjum alltaf ástæðuna fyrir því að við hlýðum spámönnunum, því þetta er kirkja Jesú Krists og það er frelsarinn sem leiðbeinir spámönnum sínum á öllum ráðstöfunartímum.

Er skilningur okkar á hlýðni verður dýpri þá berum við kennsl á nauðsynlegt hlutverk sjálfræðis. Þegar Jesús var í Getsemanegarðinum, þá bað hann þrisvar til föður síns á himnum og sagði; „Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“8 Guð vildi ekki ógilda sjálfræði frelsarans, en af miskunn sendi hann samt engil til þess að styrkja sinn ástkæra son.

Frelsarinn stóð frammi fyrir annarri áskorun á Golgata, þar sem hann hefði getað kallað á herskara engla til þess að lyfta sér ofan af krossinum, en hann valdi að hlýða allt til enda og ljúka friðþægingarfórninni, jafnvel þótt það þýddi miklar þjáningar og dauða.

Andlega þroskuð hlýðni er „hlýðni frelsarans.“ Undirrót hennar er sönn ást á himneskum föður og syni hans. Þegar við hlýðum fúslega, eins og frelsarinn gerði, þá er okkur annt um orð himnesks föður: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á“9 Við hlökkum til þess að ganga inn í návist himnesks föður og heyra hann segja: „Gott, þú góði og trúi þjónn: Gakk inn í fögnuð herra þíns.“10

Þegar við notum sjálfræði okkar til að hlýða, þurfum við að „[breyta] nú rétt og með stálvilja sterkum.“11 Það krefst sjálfsaga og færir okkur sjálfstraust, eilífa hamingju og fullnægjukennd og sýnir þeim fordæmi sem í kringum okkur eru og því fylgir alltaf djúp, persónuleg skuldbinding um að vilja styðja prestdæmisleiðtogana og fylgja kenningum þeirra og leiðsögn.

Afleiðingar

Þegar við veljum hvort við ætlum að hlýða, þá er ætíð hjálplegt að muna eftir afleiðingum vals okkar. Skildu Lúsífer og fylgjendur hans afleiðingar þess vals að hafna áætlun himnesks föður? Ef svo er, hvers vegna tóku þau þá þessa hræðilegu ákvörðun? Við gætum spurt okkur sjálf svipaðrar spurningar: Hvers vegna veljum við að vera óhlýðin þegar við þekkjum eilífar afleiðingar syndar? Ritningarnar veita svar við þessu: Ástæða þess að Kain og sum barna Adam og Evu völdu að óhlýðnast var sú að þau „elskuðu Satan meira en Guð.“12

Ást okkar á frelsaranum er lykillinn að hlýðni sem líkist hlýðni frelsarans. Á sama tíma og við vinnum að því að vera hlýðin í nútíma heimi, þá lýsum við yfir kærleika okkar og virðingu fyrir öllum börnum himnesks föður. Þrátt fyrir þann kærleika til annarra, er ómögulegt að breyta boðorðum Guðs, sem voru gefin okkur til góðs! Til að mynda, þá er boðorðið „þú skalt ekki morð fremja né nokkuð því líkt,“13 byggt á andlegu lögmáli sem verndar öll börn Guðs, líka þau ófæddu. Reynsla okkar til langs tíma sýnir okkur fram á að ef við hunsum þetta lögmál þá fylgir því ómæld sorg. Samt trúa margir því að það sé ásættanlegt að eyða lífi ófædds barns vegna eigin hagsmuna eða þæginda.

Það að rökræða óhlýðni breytir ekki andlegu lögmáli, né afleiðingum þess, heldur leiðir það til ringulreiðar, ójafnvægis, villuráfs um ókunnar slóðir glötunar og sorgar. Sem lærisveinar Krists, þá berum við helga ábyrgð á því að halda uppi lögmálum hans og boðorðum.

Í desember 1831, voru nokkrir bræðranna kallaðir til þess að draga úr óvinsamlegum tilfinningum sem höfðu myndast gagnvart kirkjunni. Drottinn leiddi þá á óvenjulegan og jafnvel undraverðan máta í gegnum spámanninn Joseph Smith.

„Hnekkið þess vegna óvinum ykkar. Hvetjið þá til að mæta yður bæði opinberlega og einslega. …

Þeir skulu því koma með sín sterku rök gegn Drottni.

…Engin vopn, sem smíðuð verða gegn yður, skulu verða sigursæl;

Og hefji einhver maður raust sína gegn yður, mun honum hnekkt, þegar mér hentar.

Haldið þess vegna boðorð mín, þau eru sönn og áreiðanleg.“14

Lexíur í ritningunum

Ritningarnar eru fullar af dæmum af spámönnum sem hafa lært lexíur af eigin óhlýðni.

Joseph Smith lærði um afleiðingar þess að láta undan þrýstingi Martins Harris, velgjörðarmanns síns, vinar og ritara. Joseph bað Drottinn um leyfi til að lána fyrstu 116 blaðsíðurnar í Mormónsbók, eftir að Martin hafði þrábeðið hann, svo að hann gæti sýnt fjölskyldu sinni þær. Drottinn sagði Joseph að neita Martin um þetta en Martin bað Joseph um að biðja aftur. Eftir að Joseph hafði beðið Drottinn þrisvar sinnum, þá gaf hann leyfi til þess að fimm ákveðnir einstaklingar mættu sjá handritið. „Martin samþykkti þetta með mjög hátíðlegu loforði. Þegar hann kom heim til sín þá varð þrýstingurinn svo mikill að hann gleymdi þessum hátíðlega eiði og leyfði öðrum að sjá handritið, og niðurstaðan varð sú að fyrir klæki tapaði hann því úr höndum sér“15 og það glataðist. Afleiðingin varð sú að Joseph var áminntur af Drottni og var neitað um að halda áfram að þýða Mormónsbók. Joseph þjáðist og iðraðist þeirrar syndar að láta undan þrýstingi annarra. Eftir ákveðið tímabil var Joseph leyft að halda áfram með þýðingarstarf sitt. Hann lærði dýrmæta lexíu óhlýðni sem þjónaði honum það sem eftir varði lífs hans.

Spámaðurinn Móse veitir okkur annað dæmi. Þegar Móse tók sér eþíópíska eiginkonu í hlýðni þá mótmæltu Miriam og Aron honum. Drottinn áminnti þau og sagði: „Ég tala við [Móse] munni til munns.“16 Drottinn notaði þennan atburð til að kenna kirkjuþegnunum á okkar ráðstöfunartímum. Árið 1830 hélt Hiram Page því fram að hann fengi opinberanir fyrir kirkjuna. Drottinn leiðrétti hann og kenndi hinum heilögu: „Þú skalt vera hlýðinn því, sem ég mun gefa [Joseph] alveg eins og Aron,“17 „því að hann meðtekur það,rétt eins og Móse.“18

Hlýðni færir blessanir „og þegar við öðlumst einhverja blessun frá Guði, þá er það fyrir hlýðni við það lögmál, sem sú blessun er bundin“19

Hlýðni er kennd með fordæmi. Við kennum börnum okkar með því hvernig við lifum okkar lífi: „Lærðu visku á unga aldri. Já, lærðu á unga aldri að halda boðorð Guðs.“20

Hlýðni gerir okkur stöðugt sterkari, nægilega til að þola trúfastlega prófraunir og erfiðleika í framtíðinni. Hlýðni í Getsemane undirbjó frelsarann undir það að hlýða og þrauka allt til enda á Golgata.

Ástkæru bræður og systur, orð Alma tjá tilfinningar hjarta míns:

„Og ástkæru bræður mínir. Ég hef sagt yður þetta til að vekja yður til skilnings á skyldum yðar við Guð, svo að þér megið ganga ólastanlegir frammi fyrir honum. …

Og nú vil ég, að þér séuð auðmjúkir, undirgefnir og blíðir, gæfir; … haldið boðroð Guðs af kostgæfni öllum stundum.“21

Ég ber sérstakt vitni um að frelsari okkar lifir. Af því að hann hlýddi mun „sérhvert… hné beygja sig og sérhver tunga gjöra játningu fyrir honum … að hann er [frelsari okkar]“22 Megum við elska hann svo einlæglega og trúa á hann svo algerlega að við munum einnig hlýða, halda boðorð hans og snúa aftur til að dvelja hjá honum að eilífu í ríki Guðs okkar.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir