Sleppa aðallóðsun
Apríl 2014 | Að halda sáttmála, verndar okkur, undirbýr okkur og gæðir okkur krafti

Að halda sáttmála, verndar okkur, undirbýr okkur og gæðir okkur krafti

Apríl 2014 Aðalráðstefna

Við erum konur sáttmálsgjörðar, á öllum aldri, á vegi hins jarðneska lífs á leið í návist hans.

Systur, við elskum ykkur. Ég fékk nasasjón af systralaginu sem við upplifum hér í kvöld er ég heimsótti Mexíkó nýlega. Sjáið eftirfarandi fyrir ykkur: Við höfðum nýlokið Barnafélagsfundi á sunnudagsmorgni og börnin, kennararnir og ég fórum fram á ganginn, sem troðinn var fólki. Á því andartaki opnuðust dyrnar að herbergi Stúlknafélagsins og út komu stúlkurnar og leiðtogar þeirra. Við föðmuðum hver aðra. Mig langaði að tjá tilfinningarnar sem ég upplifði á þessu andartaki, með börnin í pilsfaldinum og konurnar umhverfis mig.

Ég tala ekki spænsku og því voru það einungis ensk orð sem komu í hug mér. Ég horfði á andlit þeirra og sagði: „Við erum dætur himnesks föður sem elskar okkur og við elskum hann.“ Allir í kringum mig tóku strax undir með mér á spænsku. Þarna á troðnum ganginum þuldum við saman þema Stúlknafélagsins og sögðum:„Við munum standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og alls staðar.“

Í kvöld komum við saman um heim allan sem lærisveinar hans, í þeirri þrá að verja og styðja ríki Guðs. Við erum dætur okkar himneska föður. Við erum konur sáttmálsgjörðar, á öllum aldri, á vegi hins jarðneska lífs á leið í návist hans. Að halda sáttmála, verndar okkur, undirbýr okkur og gæðir okkur krafti.

Í kvöld eru meðal okkar telpur á Barnafélagsaldri. Sumar ykkar hafið nýlega tekið fyrsta skrefið á vegi eilífs lífs með helgiathöfn skírnar.

Lítið í kringum ykkur. Framtíðin er björt er þið virðið fyrir ykkur konur sem líka hafa gert sáttmála og eru fúsar til að leiða ykkur áfram á þeim vegi.

Gjörið svo vel að standa upp, ef þið eruð 8, 9, 10 eða 11 ára, hvort heldur sem þið eruð hér í Ráðstefnuhöllinni, á heimili ykkar eða í kirkju. Verið velkomnar á aðalfund kvenna. Gjörið svo vel að standa áfram, því við bjóðum ykkur að vera þátttakendur nú í kvöld. Ég ætla að raula Barnafélagslag. Takið undir með mér um leið og þið berið kennsl á lagið. Þið verðið að syngja upphátt svo allir geti heyrt í ykkur.

Kenn mér hans ljósið og kærleik að fá.

Kenn mér að biðja Guð himninum á.

Kenn mér svo réttlæti vísi mér veg,

veginn ljóssins, sem ganga vil ég.

Haldið áfram að standa á meðan allir sem eru 12 ára og eldri syngja annað versið.

Barnið mitt komdu af boðorðum hans

bæði við lærum að heim til hans lands

eigum að fara og elsku hans fá,

alltaf verðum í ljósinu þá.1

Þetta var fallegt. Þið megið nú fá ykkur sæti. Þakka ykkur fyrir.

Við, sem konur á öllum aldri, göngum í hans ljósi. Ferð okkar á veginum er persónuleg og upplýst af kærleika frelsarans.

Með helgiathöfn og sáttmála skírnar, förum við í gegnum hliðið á veg eilífs lífs og síðan veitum við gjöf heilags anda viðtöku. Öldungur Robert D. Hales spyr okkur: „Skiljum [við] og skilja börn [okkar], að [við] breytumst eilíflega þegar [við] skírumst?“

Hann útskýrði einnig að „þegar við skiljum skírnarsáttmála okkar og gjöf heilags anda, þá mun líf okkar breytast og við verðum algjörlega trúföst ríki Guðs. Þegar við verðum fyrir freistingum, mun heilagur andi minna okkur á, svo framarlega sem við hlustum á hann, að við höfum lofað að muna eftir frelsaranum og hlýða boðorðum Guðs.“2

Í hverri viku, er við meðtökum tákn sakramentisins, endurnýjum við skírnarsáttmála okkar. Öldungur David A. Bednar sagði: „Er við stöndum í skírnarvatninu þá horfum við til musterisins. Er við meðtökum sakramentið, þá lítum við til musterisins. Við lofum að hafa frelsarann ætíð í huga og halda boðorð hans, til að búa okkur undir að taka þátt í heilögum helgiathöfnum musterisins.“3

Helgiathafnir musterisins leiða til æðstu blessana friðþægingar Jesú Krists. Þær helgiathafnir eru nauðsynlegar til upphafningar í himneska ríkið. Þegar við reynum af fremsta megni að halda sáttmála okkar, munu tilfinningar vanmáttar og ófullkomleika taka að dvína og helgiathafnir og sáttmálar musterisins styrkjast að sama skapi. Öllum er velkomið að feta veg eilífs lífs.

Ég fyllist hrifningu yfir miklum styrk þeirra stúlkna og kvenna, sem ég hef kynnst víða um heim, sem eru staðfastar á þessum vegi. Ég ætla að tína til fáein dæmi um sáttmálskonur og stúlkur sem ég hef kynnast.

Luana var 11 ára gömul þegar ég heimsótti fjölskyldu hennar í Buenos Aires í Argentínu. Luana gat ekki talað vegna áfalls sem hún varð fyrir í æsku. . Árum saman hefur hún ekki mælt eitt orð. Hún sat hljóð er við töluðum saman. Ég beið eftir að heyra þó væri ekki nema örlítið hvískur frá henni. Hún horfði einbeitt á mig, líkt og orð væru óþörf, og ég gæti vitað hvað henni byggi í hjarta. Eftir að hafa flutt bæn, stóðum við upp og Luana rétti mér blað. Á blaðið hafði hún teiknað Jesú Krist í Getsemanegarðinum. Þá skildi ég algjörlega vitnisburð hennar. Luana hafði gert sáttmála í skírninni um að standa sem vitni Guðs „alltaf, í öllu og allsstaðar.“4 Teikning hennar sýndi að hún hafði skilning á friðþægingarfórn Jesú Krists. Hafði hún hlotið vitneskju um að hún gæti öðlast lækningu og talað á ný með styrkjandi og virkjandi krafti friðþægingarinnar? Luana hefur náð framförum í viðleitni sinni til að tala á ný frá þessum degi fyrir þremur árum. Hún tekur nú þátt í Stúlknafélaginu með vinkonum sínum. Hún er staðföst sáttmálanum sem hún gerði við skírnina og heldur áfram að miðla vitnisburði sínum um frelsarann.

Æskufólk um allan heim laðast að musterinu. Ég hitti föður og þrjár dætur hans fyrir utan inngang musterisins í Líma, Perú. Ég sá ljósið í andlitum þeirra. Tvær dætranna voru alvarlega fatlaðar í hjólastólum. Meðan þriðja dóttirin hugaði að þörfum systra sinna, sagði hún frá því að þær ættu tvær aðrar systur sem væru heima. Þær voru líka bundnar hjólastólum. Þær gátu ekki ferðast í 14 klukkustundir til musterisins. Musterið var svo mikilvægt hjá þessum föður og dætrum hans að þau fjögur höfðu farið í musterið þennan dag – tvær dætranna horfðu einfaldlega á þá þriðju skírst fyrir hina dánu og framkvæma þessa heilögu helgiathöfn. Þær, eins og Nefí, höfðu „unun af [sáttmálum Drottins].“5

Einhleyp kona sem ég þekki metur mikils hina vikulegu helgiathöfn sakramentisins og hið helga loforð um „að andi hans sé ætíð með [henni]“6 Það stöðuga samfélag er loforð sem mildar einmannaleika hennar. Það veitir henni styrk til að helga sig því að þroska hæfileika sína og þrá til að þjóna Drottni. Hún hefur fundið innilega gleði í hrifningu sinni af öllum börnum sem hún kynnist og í musterinu getum við séð hana, er hún leitar sér kyrrðar og friðar.

Að lokum nefni ég eldri kona á tíræðisaldri, sem hefur fylgst með börnum sínum og barnabörnum vaxa úr grasi og barnabarnabörnum sínum koma í heiminn. Hún hefur, líkt og margar okkar, upplifað sinn skerf af sorg, hörmungum og innilegri gleði. Hún játar að ef hún gæti endurritað ævisögu sína, þá hefði hún undanskilið suma kaflana sem þegar eru ritaðir. Samt segir hún með bros á vör: „Ég verð að lifa aðeins lengur og sjá hvernig allt fer!“ Hún heldur stöðugt fast í sáttmálana á veginum.

Nefí kenndi:

„Ég [spyr], hvort allt sé fengið, þegar þér hafið komist inn á þennan krappa og þrönga veg? Sjá, þá svara ég neitandi. …

Þess vegna verðið þér að sækja fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna. Ef þér þess vegna sækið fram, endurnærðir af orði Krists og standið stöðugir allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf.”7

Sérhver okkar er á þessum vegi. Í kvöld sungum við um að ganga á vegi ljóssins. Við erum sterkar sem einstaklingar. Sameinaðar í Guði erum við óstöðvandi.

Drottinn sagði við Emmu Smith: „Lyft upp hjarta þínu og fagna og hald fast við þá sáttmála, sem þú hefur gjört.“8

Við fögnum því að með því að halda sáttmála okkar getum við fundið fyrir kærleika himnesks föður og frelsara okkar, Jesú Krists. Ég ber vitni um að þeir lifa. Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir