2010–2019
Förum ekki ranga leið
Apríl 2014


Förum ekki ranga leið

Ég bið þess að við töpum ekki sjónum á leiðinni svo að við megum ætíð vera tengd himnum.

Sölumaður sér í gegnum glugga lítinn dreng sem er að æfa sig á píanó og spyr hann: „Er móðir þín heima?“

Barnið svaraði: „Tja … hvað heldur þú?“

Elsku börnin okkar fimm spila á píanó, þökk sé hvatningu eiginkonu minnar! Sonur okkar, Adrián, hljóp og faldi sig til að sleppa við lexíur þegar kennarinn kom á heimili okkar. Dag einn gerðist nokkuð dásamlegt! Hann tók tónlistina svo miklu ástfóstri að hann æfði sig upp á eigin spýtur.

Það væri dásamlegt ef við gætum náð því stigi í trúarumbreytingu okkar. Það væri yndislegt að hafa það sterka þrá í hjörtum okkar að halda boðorðin án þess að nokkur þyrfti stöðugt að minna okkur á og svo sterka sannfæringu, að ef við fylgdum rétta stígnum, þá myndum við öðlast blessanirnar sem lofaðar eru í ritningunum.

Fyrir nokkrum árum fórum við eiginkona mín ásamt dóttur okkar, Evelin, og fjölskylduvini í Arches þjóðgarðinn. Einn af frægustu bogunum þar er nefndur Fíngerði boginn. Við ákváðum að fara um 2 km leið og klífa fjallið til þess að komast að boganum.

Við hófum gönguna af miklum eldmóð en eftir stutta stund þurftu hin að hvílast. Ég ákvað að halda áfram einsamall því mig langaði svo mikið að komast á leiðarenda. Ég fylgdi manni sem var fyrir framan mig sem virtist vita hvert hann væri að fara, án þess að gefa stígnum sem ég átti að fara nokkurn gaum. Stígurinn varð smám saman erfiðari og ég þurfti að hoppa af einum steini á annan. Ég var viss um að vegna erfiðleikastigsins myndu konurnar í hópnum mínum ekki komast alla leið. Skyndilega sá ég Fíngerða bogann en mér til mikillar undrunar sá ég að ég kæmist ekki að honum frá þeim stað sem ég var á.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum og ákvað að snúa við. Óþolinmóður beið ég eftir að hitta þær aftur. Fyrsta spurning mín var: „Komust þið að Fíngerða boganum?“ Glaðlega sögðust þær hafa komist þangað. Þær útskýrðu að þær hefðu vandlega fylgt merkingunum sem vörðuðu leiðina og hefðu komist á áfangastað.

Því miður hafði ég farið ranga leið. Ég lærði mikla lexíu þennan dag!

Hversu oft gerum við mistök varðandi réttu leiðina og látum leiðast á veg heimsins? Við þurfum stanslaust að spyrja okkur sjálf hvort við séum gjörendur orðs Jesú Krists.

Dásamlega kennslu er að finna í Jóhannesi:

„Verið í mér, þá verð ég í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér.

Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört“ (Jóh 15:4–5).

Við sjáum mjög greinilega, er við notum þessa líkingu, hið óviðjafnanlega samband sem er til staðar við Jesú Krist og hversu mikilvægt sérhvert okkar er honum. Hann er rótin og bolurinn sem leiðir hið lifandi vatn til okkar, lífskraftinn sem veitir okkur næringu svo við getum framleitt mikinn ávöxt. Jesú Kristur kenndi okkur á þann hátt að sem greinar - eða verur sem reiða sig á hann - myndum við aldrei vanmeta gildi kennslu hans.

Sum mistök eru það alvarleg að ef við leiðréttum þau ekki tímanlega þá geta þau leitt okkur af réttri leið. Ef við iðrumst og tökum á móti leiðréttingu þá mun þessi reynsla veita okkur svigrúm til að auðmýkja okkur, breyta gjörðum okkar og á ný færa okkur nær himneskum föður.

Mig langar að gefa ykkur dæmi um þetta með því að vitna í eitt áhrifamesta augnablikið sem spámaðurinn Joseph Smith upplifði. Frelsarinn hefur í gegnum reynslu sína veitt okkur ómetanlega kennslu varðandi reglur sem við ættum að hafa í huga í lífi okkar. Reynsla þessi átti sér stað þegar Martin Harris týndi 116 þýddum blaðsíðum úr fyrsta hluta Mormónsbókar.

Spámaðurinn meðtók opinberunina sem er að finna í 3. kafla í Kenningu og sáttmálum eftir að hafa iðrast þess að fylgja ekki ráðlegginu Guðs (sjá Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 69–71). Mig langar að undirstrika þrjár reglur sem eru í versum 1 til 10 sem við ættum ætíð að hafa í huga:

  1. Verk og tilgang Guðs er ekki hægt að ónýta.

  2. Við eigum ekki að óttast manninn meira en Guð.

  3. Þörf er á stöðugri iðrun.

Í versi 13 kennir Drottinn okkur fjögur atriði sem við ættum aldrei að gera:

  1. Hafa að engu ráðleggingar Guðs.

  2. Rjúfa helgustu fyrirheitin sem gefin voru frammi fyrir Guði.

  3. Treysta á eigin dómgreind.

  4. Stæra okkur af eigin visku.

Ég bið þess að við töpum ekki sjónum á leiðinni svo að við megum ætíð vera tengd himnum, þannig að straumur heimsins feyki okkur ekki burt.

Ef einhvert ykkar yfirgefur leið Drottins - hvar sem er í vegferðinni - þá munið þið hafa mikið samviskubit og upplifa biturleika gagnvart því að hafa haft ráðleggingar Guðs að engu, að hafa rofið helgustu fyrirheitin sem gefin voru frammi fyrir Guði, að hafa treyst á eigin dómgrein eða að hafa stært ykkur af eigin visku.

Ég hvet ykkur að iðrast og koma aftur á réttu brautina sé þetta tilfellið.

Einu sinni hringdi barnabarn í afa sinn til að óska honum til hamingju með afmælið. Hann spurði hversu gamall afinn væri. Afinn sagðist vera orðinn 70 ára. Barnabarnið hugleiddi eitt andartak og spurði síðan: „Afi, byrjaðir þú alveg fremst á eins árs?“

Í æsku og á unglingsárum heldur fólk að það muni aldrei eldast. Tilhugsunin um dauðann skýtur aldrei rótum - það er eitthvað fyrir mjög, mjög gamalt fólk - og sá tími virðist í órafjarlægð. Eftir því sem tíminn líður, mánuðir og árstíðir líða hjá, fara hrukkurnar að birtast, orkan dvínar, þörf fyrir læknisheimsóknir verður tíðari og svo framvegis.

Sá dagur mun koma er við munu öll hitta endurlausnara okkar og frelsara, Jesú Krist á ný. Ég sárbið þess, að við það helga og göfuga tilefni munum við þekkja hann vegna þeirrar þekkingar sem við höfum um hann og vegna þess að við höfum fylgt honum. Hann mun sýna okkur förin á höndum sér og fótum og við munum sameinast í varanlegu faðmlagi, grátandi af gleði yfir að hafa fylgt leiðinni hans.

Ég vitna til allrar veraldarinnar að Jesú Kristur lifir. Hann hvetur okkur: „Hlýðið á, ó, þér þjóðir jarðar, og heyrið orð þess Guðs, sem gjörði yður“ (K&S 43:23). Megum við hafa getu til að ná tökum á, veita athygli, skilja og réttilega túlka skilaboð „þess Guðs sem gjörði [okkur]“ þannig að við reikum ekki af hans leið er bæn mín í nafni Jesú Krists, amen.