Sleppa aðallóðsun
Apríl 2014 | Vera sönn í trúnni

Vera sönn í trúnni

Apríl 2014 Aðalráðstefna

Sérhvert okkar mun njóta mikilla blessana af því að þekkja frásagnir þeirrar trúar og fórnar sem fékk áa okkar til að ganga í kirkju Drottins.

Ég hef unun af sögu kirkjunnar. Líkt og kannski á við um mörg ykkar, þá styrkist trú mín þegar ég les um hina undraverðu trúfesti þeirra áa okkar sem tóku á móti fagnaðarerindinu og voru sannir í trúnni.

Fyrir mánuði héldu 12.000 dásamleg ungmenni frá Gilbert musterisumdæminu í Arisóna, hátíð í tilefni af því að musterið var fullgert, með innblásnum flutningi, sem bar vott um skuldbindingu þeirra til að lifa réttlátlega. Þema hátíðarhaldanna var: „Vera sönn í trúnni.“

Sérhver Síðari daga heilagur ætti, líkt og þessi trúföstu ungmenni, að einsetja sér að „vera sannur í trúnni.“

Orð sálmsins okkar segja: „Trú þeirri kenning sem feðurnir fengu“ („Sannir í trúnni,” Sálmar, nr. 109).

Við gætum bætt við: „Trú þeirri kenning sem áarnir fengu.“

Ég velti fyrir mér hvort öll þessi áhugasömu ungmenni frá Arisóna hafi þekkt eigin kirkjusögu - hvort þau viti hvernig fjölskylda eða ættmenni þeirra urðu þegnar kirkjunnar. Það væri dásamlegt ef allir Síðari daga heilagir myndu þekkja trúarsögu áa sinna.

Hvort sem þið eruð afkomendur brautryðjenda eða ekki, þá getið þið rakið arfleifð ykkar til trúar og fórnar brautryðjenda mormóna. Hún er hin göfuga arfleifð Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Einn af dásamlegustu köflunum í sögu kirkjunnar, var þegar Wilford Woodruff, postuli Drottins, kenndi hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists víða í Stóra-Bretlandi árið 1840 - aðeins tíu árum eftir stofnun kirkjunnar.

Wilford Woodruff og fleiri postular höfðu með góðum árangri lagt áherslu á starf sitt á svæðunum í kringum Liverpool og Preston í England. Öldungur Woodruff, sem varð seinna forseti kirkjunnar, bað stöðugt til Guðs um að leiða sig í þessu afar mikilvæga verki. Bænir hans leiddu til innblásturs um að fara á annan stað til að kenna fagnaðarerindið.

Monson forseti hefur kennt okkur að þegar við hljótum innblástur frá himnum til að gera eitthvað, þá gerum við það strax - við frestum því ekki. Það var eimitt það sem Wilford Woodruff gerði. Öldungur Woodruff hélt næstum samstundis af stað, með skýra leiðsögn frá andanum um að „fara suður,“ og fór til þess staðar á Englandi sem nefndur er Herefordshire - bændasamfélag í suðurhluta Englands. Þar hitti hann efnaðan bónda að nafni John Benbow, og var boðinn velkominn „af glöðu hjarta og þakklæti“ (Wilford Woodruff, í Matthias F. Cowley, Willford Woodruff:). History of His Life and Labors as Recorded in His Daily Journals [1909], 117).

Sexhundruð mann hópur, sem nefndi sig Hina sameinuðu bræður, hafði verið að „biðjast fyrir um ljós og sannleika“ (Teachings of Presidents of the Church: Wilford Woodruff [2004], 91). Drottinn hafði sent Wilford Woodruff til að bænheyra mennina.

Kennsla öldungs Woodruff bar þegar í stað ávöxt og margir létu skírast. Brigham Young og Willard Richards gengu til liðs við hann í Herefordshire, og þessir þrír postualar náðu undraverðum árangri.

Á aðeins fáum mánuðum höfðu þeir stofnað 33 greinar fyrir þá meðlimi sem gengið höfðu í kirkjuna, sem voru 541 að tölu. Hinu undraverða verki var haldið áfram og að lokum létu næstum allir meðlimir Hinna sameiginlegu bræðra skírast í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Langalangaamma mín, Hannah Maria Eagles Harris, var ein sú fyrsta sem hlustaði á Wilford Woodruff. Hún greindi eiginmanni sínum, Robert Harris yngri, frá því að hún hefði heyrt orð Guðs og hefði einsett sér að láta skírast. Robert var ekki ánægður yfir því sem eiginkona hans sagði honum. Hann sagðist ætla með henni til að hlusta á næstu prédikun mormónatrúboðans og skikka hann til.

Hann sat framarlega í salnum, ákveðinn í því að láta ekki haggast og hugsanlega grípa fram í fyrir farandprédikaranum en Robert var þegar í stað snortinn af andanum, líkt og eiginkona hans hafði áður orðið. Honum varð ljóst að boðskapur endurreisnarinnar væri sannur og hann og eiginkona hans létu skírast.

Saga þeirra af trú og trúrækni er svipuð þúsunda annara: Þegar þau lærðu um fagnaðarerindið, vissu þau að það var sannleikur!

Líkt og ritningin segir: „Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér“ (Jóh 10:27).

Eftir að hafa heyrt rödd hirðis síns, helguðu þau sig algjörlega því að lifa eftir fagnaðarerindinu og leiðsögn spámanna Drottins. Þau svöruðu kallinu um að safnast saman í Síon, svo þau yfirgáfu heimilli sitt á Englandi, fóru yfir Atlantshafið og sameinuðust hinum heilögu í Nauvoo, Illinois.

Þau meðtóku fagnaðarerindið af öllu hjarta. Samhliða því að koma sér fyrir á nýja landinu sínu, hjálpuðu þau við byggingu Nauvoo musterisins með tíund og vinnuframlagi - unnu tíunda hvern dag við að byggja musterið.

Þau urðu harmi slegin yfir tíðindunum um dauða þeirra ástkæra spámanns, Joseph Smith, og bróður hans, Hyrums. Þau héldu samt áfram! Þau voru sönn trúnni.

Þegar hinir heilögu voru ofsóttir og hraktir frá Nauvoo, fannst Robert og Mariah þau afar blessuð að taka á móti musterisgjöfum sínum, nokkru áður en þau fóru yfir Mississippi-fljótið og héldu vestur. Þótt þau hefðu verið óviss um eigin framtíð, voru þau fullviss um trú sína og vitnisburði.

Með sex börn þrömmuðu þau í gegnum aur og for á leiðinni vestur yfir Iowa. Þau reistu sér skýli á bökkum Missouri-fljótsins, sem síðar varð þekkt sem Vetrarstöðvarnar.

Þessir hugrökku brautryðjendur biðu postulegrar leiðsagnar um það hvernig og hvenær þeim bæri að halda áfram vestur. Áætlanir allra breyttust þegar Brigham Young, forseti Tólfpostulasveitarinnar, gaf út boð um að karlmenn byðu sig fram til þjónustu í Bandaríska herinn, í fylkingu sem síðar varð þekkt sem Herfylking mormóna.

Robert Harris yngri var einn af rúmlega 500 brautryðjendum mormóna, sem brást við þessu boði Brighams Young. Hann skráði sig, jafnvel þótt hann yrði að skilja eiginkonu sína eftir, barnshafandi og með sex lítil börn .

Hver var ástæða þess að hann og aðrir gerðu þetta?

Svarið getur falist í orðum langalangaafa míns: Í bréfi sem hann skrifaði eiginkonu sinni þegar Herfylkingin var á leið til Santa Fe, sagði hann: „Trú mín er jafn sterk og áður [og þegar mér verður hugsað til þess sem Brigham Young sagði við okkur], þá trúi ég því að sama marki og hinn mikli Guð hefði sjálfur mælt það.“

Hann vissi sem sagt að hann hlustaði á spámann Guðs, og það gerðu hinir líka. Það er ástæða þess að þeir gerðu þetta! Þau vissu að þau væru leidd af spámanni Guðs.

Í þessu sama bréfi sagði hann frá ljúfum tilfinningum sínum til eiginkonu sinnar og barna og stöðugum bænum sínum um að hún og börnin yrðu blessuð.

Þegar lengra dró í bréfinu lýsti hann þessu kröftuglega yfir: „Við megum ekki gleyma því sem við heyrðum og [upplifðum]í musteri Drottins.“

Þessi helga áminning, ásamt fyrri vitnisburði hans um að „við værum leidd af spámanni Guðs,“ hafa orðið mér sem ritning.

Átján mánuðum eftir að Robert Harris hélt af stað með Herfylkingunni, snéri hann öruggur heim til sinnar ástkæru Mariu. Þau voru trú og trygg hinu endurreista fagnaðarerindi alla sína ævi. Saman áttu þau 15 börn og 13 af þeim lifðu til fullorðinsára. Amma mín, Fannye Walker, frá Raymond, Alberta, Kanada, var ein af 136 barnabörnum þeirra.

Walker amma var stolt af þeirri staðreynd að afi hennar hafði þjónað í Herfylkingu mormóna og vildi að öll barnabörn hennar vissu af því. Þar sem ég er nú afi, þá skil ég hversu mikilvægt það var henni. Hún vildi snúa hjörtum barna sinna til feðranna. Hún vildi að barnabörn sín þekktu sína réttlátu arfleifð - því hún vissi að það yrði þeim til blessunar.

Því tengdari sem við erum okkar réttlátu áum, því líklegra er að við tökum skynsamar og réttlátar ákvarðanir.

Þannig er það. Sérhvert okkar mun njóta mikilla blessana af því að þekkja frásagnir þeirrar trúar og fórnar sem fékk áa okkar til að ganga í kirkju Drottins.

Frá þeirri fyrstu stundu, er Robert og Maria hlustuðu á Wilford Woodruff kenna og vitna um hið endurreista fagnaðarerindi, vissu þau að það væri sannleikur.

Þau vissu líka að hverjir sem erfiðleikar þeirra og þrautir yrðu, þá munduð þau verða blessuð fyrir að vera sönn í trúnni. Það virðist næstum sem þau hafi heyrt orð spámanns okkar í dag, sem sagði: „Engin fórn er of stór … til að geta hlotið blessanir [musterisins]“ (Thomas S. Monson, „The Holy Temple—a Beacon to the World,“ Ensign eða Líahóna, maí 2011, 92).

Á tveggja punda peningi Bretlands er ritað: „Staðið á herðum risa.“ Þegar ég hugsa um hina miklu brautryðjendur og áa, finnst mér við öll standa á herðum risa.

Þótt áminningu þessa sé að finna í bréfi frá Robert Harris, þá trúi ég að ótal áar myndu senda þessa sömu áminningu til barna sinna og barnabarna: Í fyrsta lagi, þá megum við ekki gleyma reynslu okkar í musterinu, né heldur loforðunum og blessununum sem sérhvert okkar hlýtur fyrir tilverknað musterisins. Við megum heldur ekki gleyma því að við njótum leiðsagnar spámanns Guðs.

Ég ber vitni um að við njótum leiðsagnar spámanns Guðs. Drottinn endurreisti kirkju sína á síðari dögum með spámanninum Joseph Smith og við megum ekki gleyma því að við höfum verið leidd af óslitinni keðju spámanna Guðs, frá Joseph til Brigham og með öllum forsetum kirkjunnar sem á eftir hafa komið, allt til okkar spámanns í dag - Thomas S. Monson. Ég þekki, heiðra og elska hann. Ég ber vitni um að hann er spámaður Drottins á jörðinni í dag.

Ég ber þá þrá í brjósti að við, ásamt börnum mínum og barnabörnum, munum heiðra arfleifð okkar réttlátu áa - hinna trúföstu brautryðjenda mormóna sem fúslega settu allt sitt á altarið, til að fórna fyrir og verja Guðs sinn og trú sína. Ég bið þess að við öll verðum sönn í þeirri trú sem foreldrar okkar hafa varðveitt. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.