2010–2019
Kærleikur - kjarni fagnaðarerindisins
Apríl 2014


Kærleikur - kjarni fagnaðarerindisins

Við getum ekki elskað Guð með sanni, ef við elskum ekki samferðafólk okkar í þessari jarðlífsferð.

Kæru bræður og systur, þegar frelsarinn þjónaði meðal manna, var hann spurður af lögvitringi: „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“

Matteus skráði svar Jesú:

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.

Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.

Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“1

Markús lýkur frásögninni með þessari yfirlýsingu frelsarans: „Ekkert boðorð annað er þessum meira.“2

Við getum ekki elskað Guð með sanni, ef við elskum ekki samferðafólk okkar í þessari jarðlífsferð. Við getum sömuleiðis ekki fyllilega elskað samferðafólk okkar, ef við elskum ekki Guð, föður okkar allra. Jóhannes postuli segir við okkur: „Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.“3 Við erum öll andabörn okkar himneska föður og sem slík erum við bræður og systur. Ef við höfum þennan sannleika í huga, mun okkur reynast auðveldar að elska öll börn Guðs.

Kærleikur er í raun kjarni fagnaðarerindisins og Jesús Kristur er fyrirmynd okkar. Líf hans er kærleiksarfur. Hinn sjúka læknaði hann; hinum niðurnídda lyfti hann; hinn synduga frelsaði hann. Reiður múgurinn tók að endingu líf hans. Samt hljóma þessi orð frá Golgatahæð: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra,“4 sem er æðsta tjáning jarðlífs um kærleika og samúð.

Ótal eiginleikar staðfesta kærleikann, svo sem gæska, þolinmæði, óeigingirni, hluttekning og fúsleiki til að fyrirgefa. Í öllum okkar samskiptum, munu þessir og aðrir eiginleikar sýna að við höfum kærleika í hjarta.

Kærleikur okkar sést yfirleitt í daglegum samskiptum við aðra. Afar mikilvægt er að við fáum skynjað þarfir fólks og brugðist síðan við. Orð þessa stutta ljóðs hafa ætíð verið mér ljúf:

Syrgt hef ég sárt að kveldi,

er skammsýnið mig hrelldi,

að sjá ekki náungans neyð,

því aldrei hefur sú leið,

reynst mér of lítils gild,

að sýna næga góðvild.5

Nýlega var mér sagt frá hjartnæmu fordæmi um gæskuríka elsku - sem leiddi til hins ófyrirséða. Það gerðist árið 1933, í Kreppunni miklu, þegar atvinna var af skornum skammti. Sviðið var austurhluti Bandaríkjanna. Arlene Biesecker var nýútskrifuð úr grunnskóla. Eftir að hafa lengi leitað atvinnu, tókst henni loks að fá vinnu í fataverksmiðju sem saumakona. Saumakonurnar fengu aðeins greitt fyrir hverja flík sem lokið var við og var rétt saumuð. Því fleiri flíkur sem þær saumuðu, því hærri voru launin.

Dag einn, stuttu eftir að Arlene fór til vinnu, beið hennar flókin flík sem henni reyndist erfitt að sauma. Hún sat við saumavélina, rakti upp ranga sauma og reyndi að ljúka flíkinni sem hún saumaði. Engin virtist geta hjálpað henni, því allar saumakonurnar voru í óðaönn að sauma eins margar flíkur og þær gátu. Arlene var hjálparvana og örvæntingarfull. Hún tók að gráta svo lítið bar á.

Á móti Arlene sat Bernice Rock. Hún var eldri og reyndari saumakona. Bernice sá vandræði Arlene, gerði hlé á starfi sínu, fór til Arlene og sýndi henni af kærleika hvernig fara ætti að. Hún dvaldi hjá Arlene þar til hún hafði náð góðum tökum á flíkinni. Bernice fór síðan aftur að sínu saumaborði og saumaði færri flíkur en hún hefði getað, ef hún hefði ekki hjálpað Arlene.

Þetta kærleiksverk varð til þess að Bernice og Arlene urðu ævilangar vinkonur. Báðar giftu þær sig á endanum og eignuðust börn. Einhvern tíma á fimmta áratug tuttugustu aldar, gaf Bernice, sem var þegn kirkjunnar, Arlene og fjölskyldu hennar Mormónsbók. Árið 1960 létu Arlene, eiginmaður hennar og börn skírast inn í kirkjuna. Síðar voru þau innsigluð í heilögu musteri Guðs.

Sú hluttekning sem Bernice sýndi, með því að leggja það á sig að hjálpa einhverjum sem hún ekki þekkti, en átti í vandræðum og þarfnaðist aðstoðar, var til þess að ótal einstaklingar, bæði lifandi og látnir, hafa nú tekið á móti endurleysandi helgiathöfnum fagnaðarerindisins.

Dag hvern eru okkur gefin tækifæri til að sýna samferðafólki okkar elsku og vinsemd. Spencer W. Kimball forseti sagði: „Við þurfum að hafa í huga að þær manneskjur sem við hittum á bílastæðum, í skrifstofum, í lyftum og annarsstaðar, eru hluti af því mannkyni sem Guð hefur falið okkur að elska og þjóna. Það verður okkur ekki til mikils gagns að tala almennt um bræðralag mannkyns, ef við teljum ekki með þá sem eru allsstaðar umhverfis okkur, sem bræður okkar og systur.“6

Oft koma óvænt tækfæri til að sýna elsku okkar og kærleika. Dæmi um eitt slíkt er að finna í fréttagrein í október 1981. Ég var svo hrærður yfir kærleikanum og samúðinni sem þar kemur fram að ég hef varðveitt greinina í yfir 30 ár.

Greinin segir frá því að flugvél Alaska Airlines flugfélagsins í beinu flugi frá Anchorage, Alaska, til Seattle, Washington - með 150 farþega um borð - hafi verið snúið af leið til afskekkts bæjar, ísjúkraflug fyrir alvarlega slasað barn. Hinn tveggja ára gamli drengur hafði dottið á gler og slagæð í handlegg hans farið í sundur er hann var við leik nærri heimili sínu. Borgin var 725 km sunnan við Anchorage og var vissulega ekki í flugleið. Læknar á staðnum höfðu sent út örvæntingarfulla hjálparbeiðni og því var vélinni snúið af flugleið til að sækja barnið og fljúga með það til Seattle, til aðgerðar á sjúkrahúsi.

Þegar vélin lenti í nálægð við hinn afskekkta bæ, sögðu læknarnir við flugmanninn að drengnum hefði blætt svo mikið að hann myndi varla lifa af flug til Seattle. Því var ákveðið að fljúga aðra 320 kílómetra úr flugleið til Juneau, Alaska, en þar var næsta sjúkrahús.

Eftir að flogið hafði verið með drenginn til Juneau, var fluginu haldið áfram til Seattle, tveimur tímum á eftir áætlun. Enginn farþeganna möglaði, þótt flestir þeirra misstu af fundum og tengiflugi. Eftir því sem leið á flugið, tóku þeir reyndar upp budduna og söfnuðu tiltölulega hárri peningaupphæð til styrktar drengnum og fjölskyldu hans.

Þegar flugvélin var um það bil að lenda í Seattle, mátti heyra fagnaðaróp frá farþegunum, er flugstjórinn tilkynnti að hann hefði fengið þau boð í gegnum talstöðina að drengurinn væri úr allri hættu.7

Í huga minn koma þessi orð ritningarinnar: „Kærleikurinn er hin hreina ást Krists. … Og hverjum þeim, sem reynist eiga hann á efsta degi, honum mun vel farnast.“8

Bræður og systur, sum okkar bestu tækifæra til að sýna elsku eru innan veggja okkar eigin heimila. Kærleikurinn ætti að vera kjarni fjölskyldulífs, en svo er oft ekki. Oft ríkir þar of mikil óþolinmæði, of margar þrætur og of mörg tár. Gordon B. Hinckley forseti sagði: „Hvers vegna er það svo að þeir sem við elskum heitast verða svo oft skotspónn okkar hvössu orða? Hvers vegna er það svo að við tölum stundum með eiturbeittum orðum?“9 Svarið við þessum spurningum kann að vera mismunandi hjá hverju okkar, en hvað sem því líður, þá skipta ástæðurnar ekki máli. Ef við hyggjumst halda boðorðið um að elska hvert annað, þá verðum við að sýna hvert öðru vinsemd og virðingu.

Auðvitað koma þeir tímar þegar þörf er á ögun. Við skulum þá munu eftir leiðsögninni í Kenningu og sáttmálum - sem er að sýna þeim vaxandi kærleika sem við teljum nauðsynlegt að vanda um við.10

Ég vona að við reynum ætíð að vera tillitsöm og hugulsöm gagnvart hugsunum, tilfinningum og aðstæðum samferðafólks okkar. Við skulum ekki lítillækka eða vanvirða. Við skulum frekar vera samúðarfull og hvetjandi. Við verðum að gæta þess að draga ekki úr sjálfstrausti einhvers með vanhugsuðum orðum og gjörðum.

Fyrirgefning og kærleikur eiga ætíð að fylgjast að. Særðar tilfinningar og ágreiningur kunna að vera á meðal fjölskyldu og vina. Ég segi aftur, það skiptir í raun engu hve ómerkilegt málið er. Ekki ætti að leyfa því að grafa um sig, festa rætur og loks eyðileggja út frá sér. Ásakanir kroppa ofan af sárinu. Fyrirgefning fær aðeins grætt það.

Dásamleg kona, sem nú er fallin frá, heimsótti mig eitt sinn og sagði óvænt frá nokkru sem hún sá eftir og harmaði. Hún sagði frá atburði sem gerst hafði mörgum árum áður, í tengslum við nágrannabónda þeirra hjóna, sem þau höfðu oft átt í útistöðum við. Dag einn spurði bóndinn hvort hann mætti fara yfir landareign þeirra til að komast á sinn akur. Henni varð orðavant augnablik og sagði svo titrandi röddu: „Bróðir Monson, ég leyfði honum ekki að fara yfir landareignina þá eða nokkurn tíma, svo hann varð að fara lengri leiðina fótgangandi, til að komast heim til sín. Ég breytti rangt, en sé nú eftir því. Nú er hann horfinn, en ó, hve ég vildi að ég gæti sagt við hann:, Mér þykir það svo leitt.’ Ó, hvað ég vildi fá annað tækifæri til að sýna vinsemd.“

Þegar ég hlustaði á hana, komu dapurleg orð Johns Greenleaf Whittier mér í huga: „Af öllum döprum orðum tungu eða penna, eru þessi dapurlegust: Það hefði getað orðið!11 Bræður og systur, ef við sýnum öðrum kærleika og tillitsemi, munum við komast hjá slíkri eftirsjá.

Kærleikurinn birtist í mörgum myndum: Í brosi, í kveðju, í hlýrri ábendingu, í hrósi. Aðrar birtingarmyndir geta verið nákvæmari, svo sem að sýna gjörðum annarra áhuga, kenna reglu af ljúfmennsku og þolinmæði eða heimsækja einhvern sjúkan eða rúmfastan. Þessar gjörðir, og margar aðrar, geta verið kærleikstjáning.

Dale Carnegie, sem er kunnur bandarískur höfundur og fyrirlesari, trúði að innra með hverjum einstaklingi búi „kraftur til að auka við heildar hamingju heimsins … með því að mæla fáein orð einlægrar umhyggju til einhvers sem er einmanna eða kjarklaus.“ Hann sagði: „Þið gætuð gleymt ljúfum orðum sem þið mælið í dag, en sá sem tekur á móti þeim kann að varðveita þau alla ævi.“12

Megum við nú í dag byrja á því að tjá öllum börnum Guðs elsku, hvort sem þau eru fjölskylda okkar, vinir, kunningjar eða alls ókunnugir. Þegar við rísum dag hvern úr rekkju, skulum við ákveða að bregðast við af elsku og ljúfmennsku í öllu sem á vegi okkar verður.

Kæru bræður og systur, við fáum vart skilið kærleika Guðs til okkar. Hann sendi son sinn okkar vegna, sem elskaði okkur svo heitt að hann gaf líf sitt í okkar þágu, svo við mættum hljóta eilíft líf. Þegar við tökum að skilja þessa óviðjafnanlegu gjöf, mun hjarta okkar fyllast elsku til okkar eilífa föður, til frelsara okkar og allra manna. Ég bið þess einlæglega að svo megi vera, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Matt 22:36–39.

  2. Mark 12:31.

  3. 1 Jóh 4:21.

  4. Lúk 23:34.

  5. Óþekktur höfundur, í Richard L. Evans, „The Quality of Kindness,“ ImprovementEra, maí 1960, 340.

  6. The Teachings of Spencer W. Kimball, útg. Edward L. Kimball (1982), 483.

  7. Sjá “Injured Boy Flown to Safety,” Daily Sitka Sentinel (Alaska), okt. 22, 1981.

  8. Moró 7:47.

  9. Gordon B. Hinckley, “Let Love Be the Lodestar of Your Life,” Ensign, maí 1989, 67.

  10. Sjá Kenning og sáttmálar 121:43.

  11. “Maud Muller,” í The Complete Poetical Works of John Greenleaf Whittier (1878), 206; skáletrað hér.

  12. Dale Carnegie, til dæmis í Larry Chang, Wisdom for the Soul (2006), 54.