2010–2019
Hlýðni fyrir trúfesti okkar
Apríl 2014


Hlýðni fyrir trúfesti okkar

Hlýðni er tákn trúar okkar á visku og mátt æðsta valdhafans, sjálfs Guðs.

Fjölskyldukvöldin sem ég og systir Perry höfum haft öll mánudagskvöld hafa skyndilega orðið stærri í sniðum. Bróðir minn, dóttir hans, bróðir Barböru og frænka og eiginmaður hennar hafa flutt í íbúðarblokkina okkar. Þetta er í fyrsta sinn frá barnæsku sem ég nýt þeirrar blessunar að hafa ættmenni í slíkri nálægð. Þá bjó fjölskylda mín í sömu húsaröð og nokkur ættmenni móður minnar. Heimili Sonne afa var í næsta húsi norðan megin við okkur og heimili Emmu frænku var í næsta húsi sunnan megin við okkur. Sunnan megin húsraðarinnar bjó Josephine frænka og austan megin bjó Alma frændi.

Á æskuárum mínum áttum við daglega samskipti við stórfjölskyldu okkar og vorum saman í starfi, leik og heimsóknum. Við gátum ekki gert einhvern óskunda af okkur án þess að mæður okkar fréttu af því mjög fljótt. Nú er heimurinn annar - meðlimir flestra fjölskyldna eru dreifðir. Þeir búa ekki í næsta húsi, þótt þeir búi ekki all fjarri. Ég verð að trúa því að bernskan og núverandi staða mín séu ekki ólíkar himnaríki, með ástkær ættmenni í nálægð við hvert annað. Það er mér stöðug áminning um eilíft eðli fjölskyldunnar.

Á uppvaxtarárum mínum átti ég sérstakt samband við afa minn. Ég var elsti sonurinn í fjölskyldunni.. Ég mokaði snjóinn á veturna og sá um viðhald lóða við heimili okkar og afa míns og tveggja frænka minna. Afi sat yfirleitt á veröndinni framanverðri meðan ég sló blettinn. Þegar ég lauk því, settist ég á þrepin fyrir framan húsið og ræddi við hann. Þessar stundir eru mér dýrmæt minning.

Dag einn spurði ég afa hvernig ég gæti vitað hvort ég gerði ætíð hið rétta, þar sem lífið hefði svo marga valkosti. Líkt og yfirleitt var háttur afa, þá tengdist svar hans því sem hann hafði upplifað við búskapinn.

Hann kenndi mér hvernig temja ætti hestateymi, svo hestarnir gætu unnið saman. Hann útskýrði að hestateymið yrði ætíð að vita hver stjórnaði því. Eitt lykilatriði í því að stjórna hesti eru aktygi og beisli. Ef hestur í teymi tekur einhvern tíma upp á því að hlýða ekki eklinum, mun teymið aldrei geta náð hámarksafköstum.

Við skulum nú skoða lexíuna sem afi kenndi mér notandi þetta líkingarmál. Hver er ekill hestateymisins? Afi trúði því að það væri Drottinn. Hann er sá sem hefur tilgang og áætlun. Hann er líka tamningamaður og hönnuður hestateymisins og þar af leiðandi líka hvers hests fyrir sig. Ekillinn veit best og eina leiðin fyrir hest til að vita að hann geri ætíð hið rétta, er að hlýða og fylgja boðum ekilsins.

Hver var samlíking afa við aktygi og beisli? Ég trúði þá og trúi enn að afi minn hafi verið að kenna mér að fylgja innblæstri heilags anda. Í huga hans voru aktygin og beislið andlegs eðlis? Hlýðinn hestur, í vel tömdu hestateymi, þarf vart meira en að ekillinn togi ljúft í beislistauminn til að hann geri nákvæmlega það sem honum er ætlað að gera. Þetta ljúfa tog jafngildir hinni hljóðu kyrrlátu rödd Drottins til okkar. Togið er aldrei öflugt eða hraustlegt, af virðingu við sjálfræði okkar.

Karlar og konur sem hunsa ljúfan innblástur andans, munu oft læra, líkt og glataði sonurinn, af náttúrlegum afleiðingum óhlýðni og taumlauss lífernis. Aðeins eftir að náttúrlegar afleiðingar höfðu auðmýkt glataða soninn, „kom hann til sjálfs sín“ og hlustað á hljóða rödd andans segja honum að fara aftur til húss föður síns (sjá Lúk 15:11–32).

Lexían sem afi kenndi mér var því sú að vera ætíð reiðubúinn til að taka á móti ljúfu togi andans. Hann kenndi að ég myndi ætíð hljóta slíka hvatningu, ef ég einhvern tíma viki af stefnu. Að ég yrði aldrei sekur um alvarlega ranga breytni, ef ég leyfði andanum að stjórna ákvörðunum mínum.

Líkt og segir í Jakobsbréfinu 3:3: „Ef vér leggjum hestunum beisli í munn, til þess að þeir hlýði oss, þá getum vér stýrt öllum líkama þeirra.“

Við verðum að vera næm á hið andlega beislistog. Við verðum að vera fús til að breyta stefnu okkar algjörlega, jafnvel við veikasta tog meistarans. Til að ná árangri í lífinu verðum við að kenna anda okkar og líkama að starfa saman í hlýðni við boðorð Guðs. Ef við hlítum ljúfum innblæstri heilags anda, megnar hann að sameina anda okkar og líkama í tilgangi og leiða okkur aftur til okkar eilífu heimkynna, til dvalar hjá föður okkar á himnum.

Í þriðja trúaratriðinu lærum við um mikilvægi þess að hlýða: „Vér trúum, að fyrir friðþægingu Krists geti allir menn orðið hólpnir með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.“

Sú hlýðni sem afi minn lýsti með þessari samlíkingu hestateymis, krefst líka sérstaks trausts - sem er afdráttarlaus trú á ekli teymisins. Lexían sem afi minn kenndi mér á því líka við um fyrstu frumreglu fagnaðarerindisins - trú á Jesú Krist.

Páll postuli kenndi: „Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá“ (Hebr 11:1). Páll notaði síðan dæmin um Abel, Enok, Nóa og Abraham til að kenna um trú. Hann lagði áherslu á frásögnina um Abraham, því Abraham var faðir hinna trúföstu.

„Fyrir trú hlýddi Abraham, er hann var kallaður, og fór burt til staðar, sem hann átti að fá til eignar. Hann fór burt og vissi ekki hvert leiðin lá.

Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur.

Fyrir trú öðlaðist Abraham kraft til að eignast son, og þó var Sara óbyrja og hann kominn yfir aldur. Hann treysti þeim, sem fyrirheitið hafði gefið“ (Hebr 11:8–9, 11).

Við vitum að með Ísaki, syni Abrahams og Söru, var loforð gefið Abraham - loforð um að honum hlytist „slík niðja mergð sem stjörnur [væru] á himni og sandkorn á sjávarströnd“ (sjá vers12; sjá einnig 1 Mós 17:15–16). Síðan var látið reyna á trú Abrahams á þann hátt sem mörg okkar telja óhugsandi.

Ég hef margoft íhugað frásögnina um Abraham og Ísak og mér finnst ég enn ekki skilja fyllilega trúfesti og hlýðni Abrahams. Ég gæt hugsanlega séð hann fyrir mér búa sig trúfastlega undir förina snemma að morgni, en hvernig gat hann gengið við hlið sonar síns, Ísaks, í þrjá daga í ferð þeirra að rótum Móríafjalls? Hvernig báru þeir eldiviðinn upp á fjallið? Hvernig byggði hann altarið? Hvernig batt hann Ísak og lagði hann á altarið? Hvernig útskýrði hann fyrir honum að hann yrði fórnin? Hvernig fékk hann það af sér að lyfta hnífnum til að deyða son sinn? Trú Abrahams veitti honum kraft til að fylgja nákvæmlega boði Guðs, allt fram að hinni undursamlegu stund er engill frá himni ávarpaði Abraham og sagði hann hafa staðist sína þjakandi prófraun. Engill Drottins endurtók síðan loforð sáttmála Abrahams.

Ég viðurkenni að áskoranir þess að trúa á Jesú Krist og að hlýða er sumum erfiðari en öðrum. Ég er nægilega gamall að árum og reynslu til að vita að þótt skapgerð hesta geti verið afar misjöfn, og mis auðvelt sé að temja þá, þá eru menn mun fjölbreyttari að persónugerð. Öll erum við synir eða dætur Guðs og búum yfir einstakri sögu í fortilveru og jarðlífi. Þar af leiðandi eru afar fáar alhliða lausnir sem henta öllum. Ég viðurkenni því algjörlega að prófraunir og mistök eru eðli lífsins og, það sem mikilvægast er, að mikil þörf er fyrir aðra frumreglu fagnaðarerindis Jesú Krists, já, iðrunina.

Það er líka rétt að sá tími sem afi minn lifði á hafi verið einfaldari, einkum hvað varðar að velja á milli rétts og rangs. Þótt sumir afar greindir og gáfaðir gætu talið að okkar flóknu tímar krefjist jafnvel enn flóknari lausna, þá er ég langt frá því að láta sannfærast um það. Ég er fremur þeirrar skoðunar að okkar flóknu tímar þurfi meiri einfaldleika, líkt og afi minn svaraði minni einlægu spurningu um hvernig greina mætti á milli þess sem er rétt og rangt. Ég veit að færi ykkur í dag einfalda formúlu, en ég get vitnað um hve vel hún hefur reynst mér. Ég mæli með henni fyrir ykkur og hvet ykkur jafnvel til að gera tilraun með orð mín og, ef þið gerið það, lofa ég ykkur því að þau munu auðvelda ykkur að velja þegar valkostirnir dynja á ykkur og veita ykkur einföld svör við spurningum sem að rugla hina lærðu og þá sem telja sig vitra.

Of oft álítum við hlýðni sem hlutlausa og hugsunarlausa breytni eftir fyrirskipun æðri valdhafa. Hlýðni er í raun tákn trúar okkar á visku og mátt æðsta valdhafans, sjálfs Guðs. Þegar Abraham sýndi óhagganlega trú og hlýðni við Guð, jafnvel þegar honum var boðið að fórna syni sínum, leysti Guð hann frá verkinu. Á svipaðan hátt, mun Guð að endingu koma okkur til bjargar, þegar við sýnum trúfesti í hlýðni.

Þeir sem einungis reiða sig á sig sjálfa og láta stjórnast af eigin þrám og löngunum, eru afar takmarkaðir ef bornir saman við þá sem fylgja Guði og nýta sér innsýni hans, kraft og gjafir. Sagt hefur verið að sá sé harla smár sem aðeins er upptekinn af sjálfum sér. Staðföst og fyrirbyggjandi hlýðni er alls ekki ótraust eða hlutlaus. Með henni lýsum við yfir trú okkar á Guð og gerum okkur hæf til að hljóta kraft himins. Hlýðni er valkostur. Hún er val á milli okkar takmörkuðu þekkingar og máttar og óendanlegrar visku og almættis Guðs. Samkvæmt lexíu afa míns, þá er það val að skynja hið andlega tog í munnum okkar og að lúta stjórn ekilsins.

Megum við verða erfingjar sáttmálans og sæðis Abrahams fyrir trúfesti okkar og með því að taka á móti helgiathöfnum hins endurreista fagnaðarerindis. Ég lofa ykkur því að blessanir eilífs lífs standa öllum þeim til boða sem eru trúfastir og hlýðnir. Í nafni Jesú Krists, amen.