Sleppa aðallóðsun
Apríl 2014 | Vernd frá klámi – Kristur sem þungamiðja heimilisins

Vernd frá klámi – Kristur sem þungamiðja heimilisins

Apríl 2014 Aðalráðstefna

Besta sían í heiminum … er persónuleg innri sía sem stafar af djúpum og varanlegum vitnisburði.

Kæru bræður og systur, í dag nýt ég þeirrar blessunar að hafa 13 af elstu barnabörnum mínum meðal ykkar. Það hefur fengið mig til að hugleiða: „Hvað vil ég að barnabörn mín viti?“ Í dag langar mig að tala hreint út til fjölskyldu minnar og ykkar.

Sem leiðtogar höfum við vaxandi áhyggjur af þeirri eyðileggingu sem klám veldur á lífum þegna kirkjunnar og fjölskyldu þeirra. Satan herjar af fordæmislausri ofsabræði.

Ein af ástæðum þess að við erum hér á jörðu er til þess að læra að beisla ástríður og tilfinningar okkar dauðlega líkama. Þessar tilfinningar sem koma frá Guði hjálpa okkur að vilja kvænast og eignast börn. Hið nána samband í hjónabandi karls og konu sem færir börn inn í heiminn á einnig að vera falleg og ástúðleg upplifun sem bindur saman tvö trú hjörtu, sameinar bæði anda og líkama og færir fyllingu gleðinnar og hamingju, er við lærum að setja makann í fyrsta sætið. Kimball forseti kenndi að í hjónabandi „verður makinn … aðalatriðið í lífi eiginmannsins eða eiginkonunnar og … [enginn] önnur áhugamál [eða] manneskja [eða] hlutur ætti nokkru sinni að koma á undan makanum. …

Hjónaband gengur út frá algjörri hollustu og algjörri tryggð.“1

Fyrir mörgum árum var augljóst að eitt af börnum okkar var áberandi miður sín. Ég fór inn í svefnherbergi hennar þar sem hún opnaði sig og sagði mér að hún hefði verið heima hjá vini og hafði óvart séð sláandi og truflandi myndir og gjörðir í sjónvarpinu á milli manns og konu sem voru í engum fötum. Hún tók að gráta og tjáði mér hversu hryllilega henni leið vegna þess sem hún hafði séð og óskaði þess að geta losnað við þetta úr huga sér. Ég var svo þakklát að hún skyldi hafa trúað mér fyrir þessu, veitt mér tækifæri til að hugga saklaust og sárt hjarta sitt og hjálpað henni að skilja hvernig hljóta má líkn með friðþægingu frelsara okkar. Ég man eftir þeim helgu tilfinningum sem við fundum er við krupum saman, sem móðir og dóttir, og ákölluðum himneskan föður um hjálp.

Mörg börn, unglingar og fullorðnir sjá óvart klám en vaxandi fjöldi karla og kvenna eru að velja að horfa á klám og dregst aftur og aftur að því þar til það verður að fíkn. Þessir einstaklingar óska kannski einskis fremur en að komast út úr þessari gildru, en geta oft á tíðum ekki losnað af sjálfdáðum. Við erum mjög þakklát þegar ástvinir okkar velja að treysta okkur eða leiðtogum kirkjunnar fyrir sínum málum. Það er skynsamlegt að bregðast ekki við af hneykslun, reiði né höfnun sem getur leitt til þess að þau dragi sig í hlé.

Við sem foreldrar eða leiðtogar þurfum sífellt að ráðgast við börn okkar og unglinga og hlusta af kærleika og skilningi. Þau þurfa að vita af hættum klámsins og hvernig það yfirtekur líf, veldur fjarveru andans, bjöguðum tilfinningum, blekkingum, skemmdum samböndum, tapi á sjálfsstjórn og gleypir nærri því algjörlega allan tíma, hugsun og orku.

Klám er andstyggilegra, illskeyttara og myndrænna en nokkru sinni fyrr. Við getum útbúið áætlun saman, er við ráðgumst við börn okkar um staðla og mörk. Við getum tekið af skarið og verndað heimili okkar með síum og stillingum á rafeindatækjum okkar. Foreldrar, erum við meðvituð um að þráðlaus tæki sem tengjast Alnetinu eru aðal sökudólgurinn, ekki tölvur?2

Unga fólk og fullorðnir, munið hversu miskunnsamur okkar elskaði frelsari er ef þið eruð föst í klámgildru Satans. Skiljið þið hversu innilega Drottinn elskar ykkur og metur mikils, jafnvel nú? Frelsari okkar hefur kraftinn til að hreinsa og lækna ykkur. Hann getur fjarlægt sársaukann og sorgina sem þið upplifið og gert ykkur hrein á ný með krafti friðþægingar sinnar.

Sem leiðtogar höfum við miklar áhyggjur af mökum og fjölskyldum þeirra sem takast á við klámfíkn. Öldungur Richard G. Scott sárbændi: „Ekki þjást að óþörfu vegna afleiðinga synda annarra ef þið eruð sjálf laus við alvarlega synd. … Þið getið fundið fyrir samúð. … Samt eigið þið ekki að taka á ykkur sjálf ábyrgðartilfinningu gagnvart þessum gjörðum.“3 Vitið að þið eruð ekki ein. Hjálpin er til staðar. Meðferðarfundir fyrir maka fíkla eru í boði, þar á meðal símafundir, sem veitir mökum tækifæri til að hringja sig inn á fund og taka þátt heiman frá sér.

Bræður og systur, hvernig verndum við börn okkar og unglinga? Síur eru góðar en besta sía heimsins er sú eina sem að lokum mun virka, hin persónulega innri sía sem stafar af djúpum og varanlegum vitnisburði um elsku himnesks föður og friðþægingarfórn frelsara okkar fyrir sérhvert okkar.

Hvernig munum við leiða börn okkar að sannri trúarumbreytingu og aðgengi að friðþægingu frelsarans? Mér er annt um yfirlýsingu spámannsins Nefís um það sem fólk hans gerði til að styrkja ungmenni sín: „Vér tölum um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, [og] vér spáum um Krist … svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau megi leita til fyrirgefningar synda sinna.“4

Hvernig getum við gert þetta á heimilum okkar? Sum ykkar hafið heyrt mig tala um hversu buguð ég og eiginmaður minn, Mel, vorum er við vorum foreldrar fjögurra ungra barna. Okkur sárvantaði hjálp er við tókumst á við áskoranirnar sem fylgja foreldrahlutverkinu og reyndum að standast kröfur lífsins. Við báðum og sárbáðum um að við mættum vita hvað gera skyldi. Svarið sem kom var skýrt: „Það er í lagi ef húsið er á hvolfi og börnin eru enn í náttfötunum og enn á eftir að sinna einhverjum skyldum. Það eina sem í raun þarf að gera á heimilinu er að hafa daglegan ritningarlestur og bæn sem og vikulegt fjölskyldukvöld.“

Við höfðum reynt gera þetta en forgangsröðunin var ekki alltaf rétt og stundum var þetta vanrækt í ringulreiðinni. Við breyttum áherslum okkar og reyndu að hafa minni áhyggjur af því sem minna máli skipti. Áherslur okkar urðu að tala, fagna, prédika og vitna um Krist með því að reyna að biðja daglega og nema í ritningunum og hafa vikuleg fjölskyldukvöld.

Nýlega aðvaraði vinur minn: „Það veldur systrunum meiri streitu þegar maður biður þær að lesa og biðja oftar.“ Þeim finnst þær hafa nú þegar hafa of mikið að gera.“

Bræður og systur, vegna þess að ég þekki það af eigin raun þá verð ég að vitna um þær blessanir sem daglegt ritningarnám, bæn og fjölskyldukvöld færa. Þetta eru þær athafnir sem fjarlægja streitu, veita okkur stefnu í lífinu og auka heimilisverndina. Þegar fjölskylda okkar stendur frammi fyrir klámi eða annarri áskorun, þá getum við leitað til Drottins eftir hjálp og búist við mikilli leiðsögn frá andanum vitandi að við höfum gert það sem faðir okkar hefur beðið um.

Bræður og systur, við getum öll hafist handa núna ef við höfum ekki þegar gert þetta á heimilum okkar. Við getum sjálf hafist handa ef börn okkar eru eldri eða neita að taka þátt. Heimili okkar og líf munu taka að fyllast af áhrifum andans er við gerum svo og börnin fara ef til vill að bregðast við.

Munið að lifandi postular hafa lofað því að er við leitum forfeðra okkar og undirbúum okkar eigin fjölskyldunöfn fyrir musterið þá munum við hljóta vernd nú og í lífinu, er við höldum okkur verðugum fyrir musterismeðmæli.5

Unglingar, takið ábyrgð á ykkar eigin andlegu velferð. Slökkvið á símanum ef þess þarf, syngið Barnafélagssálm, biðjist fyrir, hugsið um einhverja ritningargrein, gangið út úr kvikmyndasalnum, sjáið frelsarann fyrir ykkur, takið sakramentið verðuglega, nemið bæklinginn Til styrktar æskunni, verið fordæmi fyrir vini ykkar, ræðið við foreldri, farið að tala við biskup ykkar, biðjið um aðstoð og leitið persónulegrar ráðgjafar, ef þörf er á.

Hvað vil ég að barnabörn mín viti? Ég vil að þau og þið vitið að frelsarinn lifir og elskar okkur. Hann hefur greitt gjaldið fyrir syndir okkar en við verðum að krjúpa frammi fyrir föður okkar á himnum í mikilli auðmýkt, játa syndir okkar og biðja hann um fyrirgefningu. Við þurfum að hafa löngun til að breyta hjörtum okkar og vera nægilega auðmjúk til að leita hjálpar og fyrirgefningar hjá þeim sem við höfum sært eða yfirgefið.

Ég veit að Joseph Smith sá Guð, okkar himneska föður og frelsara okkar, Jesú Krist. Ég ber vitni um að við höfum lifandi spámann á jörðunni í dag – Thomas S. Monson forseta. Ég vitna einnig um að þið verðið aldrei afvegaleidd ef þið hlýðið ráðleggingum spámanns Guðs. Ég ber vitni um kraft sáttmála okkar og blessana musterisins.

Ég veit að Mormónsbók er sönn! Ég get ekki útskýrt kraftinn í þessari dásamlegu bók. Ég veit einungis að Mormónsbók, ásamt bæn, veitir kraftinn sem verndar fjölskyldur, styrkir sambönd og veitir sjálfstraust frammi fyrir Drottni. Ég vitna um þetta í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Teachings of Presidents of the Church: Spencer W. Kimball (2006), 199–200.

  2. Sjá Clay Olsen, „What Teens Wish Parents Knew“ (ræða flutt á ráðstefnunni Utah Coalition Against Pornography, 22. mars 2014), utahcoalition.org.

  3. Richard G. Scott, „To Be Free of Heavy Burdens,“ Ensign eða  Líahóna, nóv. 2002, 88

  4. 2 Ne 25:26.

  5. Sjá David A. Bednar, „The Hearts of the Children Shall Turn,“ Ensign eða  Líahóna, nóv. 2011, 24–27; Richard G. Scott, „The Joy of Redeeming the Dead,“ Ensign eða  Líahóna, nóv. 2012, 93–95; Neil L. Andersen, „Find Our Cousins!“ (ræða haldin á ráðstefnunni RootsTech, 8. feb. 2014); lds.org/prophets-and-apostles/unto-all-the-world/find-our-cousins.