Sleppa aðallóðsun
Apríl 2014 | Systralag: Ó, hve við þörfnumst hverrar annarrar

Systralag: Ó, hve við þörfnumst hverrar annarrar

Apríl 2014 Aðalráðstefna

Við verðum að hætta að einblína á hið ólíka í fari okkar og huga að því sem okkur er sameiginlegt.

Í þessu myndbandi sáum við átta lönd og heyrðum níu mismunandi tungumál. Hugsið ykkur hversu mörgum tungumálum var bætt við í síðasta erindinu. Það er hrífandi að vita að í þessu heimssystralagi getum við hafi upp raust okkar í vitnisburði um hinn eilífa sannleika um að við séum dætur kærleiksríks himnesks föður.

Það eru mikil forréttindi að vera hér á þessum sögulega fundi og tala til allra kvenna kirkjunnar, átta ára og eldri. Það býr mikill styrkur í einingu okkar hér í kvöld. Þegar ég horfi á okkur saman komnar hér í Ráðstefnuhöllinni og hugsa um þær þúsundir sem horfa á þessa útsendingu víðsvegar um heim, þá held ég að sameiginlegur kraftur vitnisburðar okkar og trúar á Jesú Krist geri þetta eflaust eina af öflugustu trúarsamkomu kvenna í sögu kirkjunnar, ef ekki heimsins.

Í kvöld gleðjumst við yfir okkar ótal hlutverkum sem kvenna í kirkjunni. Við staðfestum líka að við erum allar dætur sama föður á himnum, og því systur, þótt við séum á margan hátt misjafnar og einstakar. Við erum sameinaðar í uppbyggingu Guðsríkis og sáttmálunum sem við höfum gert, hverjar sem aðstæður okkar eru. Á þessari samkomu ríkir eflaust dýrðlegasta systralag á öllu jarðarhveli!1

Að vera systur felur í sér að böndin á milli okkar eru órjúfanleg. Systur, hugsið um hver aðra, vakið yfir hverri annarri, huggið hver aðra og verið til staðar fyrir hver aðra á góðum stundum sem og erfiðum. Drottinn hefur sagt: „Ég segi yður: Verið eitt, og ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir.“2

Óvinurinn vill að við gagnrýnum og dæmum hverja aðra. Hann vill að við einblínum á það sem okkur er ólíkt og að við séum stöðugt í innbyrðis samanburði. Sumar ykkar kunna að njóta þess að stunda líkamsrækt af fullum krafti í eina klukkustund á hverjum degi, því það veitir ykkur vellíðan, en hvað mig varðar, þá telst það mikið afrek fyrir mig að taka stigann í stað þess að nota lyftuna. Við getum samt verið vinkonur, ekki satt?

Sem konur, erum við stundum afar harðar við okkur sjálfar. Þegar við berum okkur saman við aðrar, mun okkur alltaf finnast við ekki vera nógu góðar eða við verðum gramar út í einhverjar. Systir Patricia T. Holland sagði eitt sinn: „Málið er að við getum ekki kallað okkur kristnar og haldið áfram að dæma hverja aðra – eða okkur sjálfar – svo óvægið.“3 Hún sagði ennfremur að ekkert væri þess virði að kæmi í stað samúðar og systralags. Við verðum bara að slaka á og gleðjast í okkar guðlega breytileika. Við þurfum að átta okkur á því að við þráum allar að þjóna í ríkinu með því að nota okkar einstæðu hæfileika og gjafir á okkar eigin hátt. Þá getum við notið systralagsins og samstarfsins og hafið þjónustu okkar.

Staðreyndin er sú að við þörfnumst sannlega samfélags við hverja aðra. Konum er eðlislægt að sækjast eftir vináttu, stuðningi og félagsskap. Við getum lært svo margt af hverri annarri, en oft leyfum við að sjálfskapaðar hindranir komi í veg fyrir að við fáum notið samfélags sem gæti verið meðal stærstu blessana lífs okkar. Við konurnar sem erum nokkuð eldri, höfum til að mynda þörf fyrir það sem þið stúlkurnar í Barnafélaginu hafið upp á að bjóða. Af ykkur getum við lært margt um kristilega þjónustu og kærleika.

Ég heyrði nýlega dásamlega sögu um litla stúlku að nafni Sarah. Móðir Söruh fékk tækifæri til að hjálpa annarri konu í deild sinni sem heitir Brenda, en hún var með heila- og mænusigg. Sarah naut þess að fara með móður sinni til Brendu. Hún setti áburð á hendur Brendu og nuddaði fingur hennar og handleggi, því Brenda var oft mjög kvalin. Hún lyfti síðan handleggjum Brendu varlega upp yfir höfuð hennar til að liðka vöðvana. Sarah burstaði hár Brendu og spjallaði við hana á meðan móðir hennar sinnti öðrum þörfum Brendu. Sarah upplifði gleði og mikilvægi þess að þjóna öðrum og uppgötvaði að jafnvel barn getur haft mikil áhrif á líf fólks.

Ég hrífst af fordæminu sem við lesum um í fyrsta kapítula Lúkasar, sem segir frá ljúfum tengslum Maríu, móður Jesú, og frænku hennar Elísabetu. María var ung þegar henni var sagt frá hinu markverða hlutverk sínu að hún yrði móðir sonar Guðs. Í fyrstu hlýtur að hafa verið erfitt fyrir hana að burðast með þá vitneskju einsömul. Það var Drottinn sjálfur sem sá Maríu fyrir félaga til að deila byrðinni með. Í boðskap Gabríels var Maríu gefið nafn á traustri og samúðarfullri konu sem gat veitt henni stuðning – Elísabetu frænku hennar.

Þessi unga mær og frænka hennar sem var „hnigin að aldri,“4 áttu það sameiginlegt að þungun beggja var kraftaverk og ég fæ vart ímyndað mér mikilvægi þess fyrir þær báðar að geta varið þremur mánuðum saman, til að ræða saman, sýna hvorri annarri hluttekningu og styðja hvora aðra í sínum einstæðu hlutverkum. Þær eru dásamlegar fyrirmyndir um umhyggju kvenna tveggja kynslóða.

Þær okkar sem eru aðeins þroskaðri geta haft mikil áhrif á yngri kynslóðir. Hvorugir foreldrar móður minnar voru virkir í kirkjunni þegar hún var lítil stúlka. Fimm ára gömul gekk hún einsömul í kirkju til að fara á samkomur – í Barnafélagið, sunnudagaskólann og á sakramentissamkomu – sem voru á mismunandi tímum.

Ég spurði móður mína nýverið að því hvers vegna í ósköpunum hún hefði gert þetta viku eftir viku, án nokkurs stuðnings heiman frá. Svar hennar var: „Kennarar mínir í Barnafélaginu elskuðu mig.“ Kennarar hennar báru umhyggju fyrir henni og kenndu henni fagnaðarerindið. Þær fræddu hana um föður hennar á himnum sem elskaði hana og umhyggja þeirra fyrir henni fékk hana til að koma viku eftir viku. Móðir mín sagði við mig: „Þetta voru ein mikilvægustu áhrif lífs míns á þessum tíma.“ Ég vona að ég fái einhvern tíma þakkað þessum dásamlegu systrum! Kristileg þjónusta hefur engin aldurstakmörk.

Fyrir nokkrum vikum hitti ég forseta Stúlknafélags í stiku einni í Kaliforníu sem sagði að 81 árs gömul móðir hennar, hefði nýlega verið kölluð sem leiðbeinandi fyrir Meyjur. Þetta vakti áhuga minn svo ég hringdi í móður hennar. Systir Val Baker hlakkaði til þess að vera kölluð sem bókasafnsvörður eða söguritari deildarinnar þegar biskup hennar bað hana að hitta sig. Þegar hann bað hana að þjóna sem leiðbeinanda fyrir Meyjur í Stúlknafélaginu, svaraði hún: „Ertu viss um þetta?“

Biskup hennar svaraði hátíðlega: „Systir Baker, ég er handviss um að þessi köllun er frá Drottni.“

Hún sagðist ekki hafa getað svarað þessu nema með því að segja: „Auðvitað.“

Mér finnst dásamlegt að þessi biskup hafi fengið innblástur um að Meyjarnar fjórar í deildinni hans gætu lært mikið af visku, reynslu og ævilöngu fordæmi þessarar eldri systur. Og til hverra haldið þið að systir Baker muni leita eftir aðstoð við að setja upp Fésbókarsíðuna sína?

Ég hugsa um þá miklu hjálp sem systur í Líknarfélaginu geta veitt við að bjóða ungar systur velkomnar sem hafa nýlega verið í Stúlknafélaginu. Yngri systrum okkar finnst oft á tíðum þær ekki eiga heima eða ekki eiga neitt sameiginlegt með systrunum í Líknarfélaginu. Áður en þær verða 18 ára gamlar þurfa mæður og leiðtogar Stúlknafélagsins að vitna af gleði um hinar miklu blessanir Líknarfélagins. Stúlkurnar þurfa að vera áhugasamar um að gerast hluti af slíkum dýrðlegum samtökum. Stúlkur þarfnast mest vinar til að sitja hjá, hönd sem tekur um axlir þeirra og tækifæri til að kenna og þjóna þegar þær taka að sækja Líknarfélagið. Við skulum allar leggja á okkur að hjálpa hverri annarri í gegnum breytingar og þáttaskil sem verða í lífi okkar.

Ég færi öllum þeim konum þakkir sem leggja það á sig að brúa aldursmun og menningarheima, til að blessa og þjóna öðrum. Stúlkur í Stúlknafélaginu eru að þjóna börnum í Barnafélaginu og hinum öldruðu. Einhleypar systur á öllum aldri verja ótal stundum við að sinna þörfum þeirra sem umhverfis eru. Við erum meðvitaðar um þær þúsundir ungra kvenna sem helga allt að 18 mánuði lífs síns því að miðla heiminum fagnaðarerindið. Allt þetta er sönnun þess, eins og ástkær sálmur okkar segir: „Við byggjum upp, Drottinn, þinn bústað á jörðu.“5

Séu hindranir, er það vegna þess að við sjálfar höfum skapað þær. Við verðum að hætta að einblína á hið ólíka í fari okkar og huga að því sem okkur er sameiginlegt, þá getum við farið að skilja okkar miklu möguleika og gert margt gott í þessum heimi. Systir Marjorie P. Hinckley sagði eitt sinn: „Ó, hve við þörfnumst hverrar annarrar. Við sem eru aldraðar þurfum á ykkur að halda sem eruð yngri. Og vonandi þarfnist þið sem eruð yngri okkar sem erum eldri að einhverju leyti. Það er samfélagsleg staðreynd að konur þurfa á konum að halda. Við þörfnumst innilegrar, gefandi og tryggrar vináttu frá hverri annarri.“6 Systir Hinckley hafði á réttu að standa; Ó, hve við þörfnumst hverrar annarrar!

Systur, það er engin annar hópur kvenna í heiminum sem hefur aðgang að æðri blessunum en við Síðari daga heilagar konur. Við tilheyrum kirkju Drottins og sama hverjar okkar persónulegu aðstæður eru, þá getum við allar notið allra blessana kraftar prestdæmisins, með því að halda sáttmálana sem við gerðum í skírninni og í musterinu. Meðal okkar eru lifandi spámenn sem leiða og kenna okkur og við njótum hinnar miklu gjafar heilags anda sem huggar og leiðbeinir okkur í lífinu. Við erum blessaðar að geta starfað saman með réttlátum bræðrum við að styrkja heimili og fjölskyldur. Við höfum aðgang að styrk og krafti helgiathafna musterisins og miklu meiru.

Auk þessara stórfengilegu blessana, þá höfum við hverja aðra – systurnar í fagnaðarerindi Jesú Krists. Við höfum verið blessaðar með því að vera ljúfar og ástríkar að eðlisfari, sem gerir okkur kleift að sýna kristilegan kærleika og þjónusta þeim sem umhverfis eru. Er við lítum framhjá aldursmun, menningu og aðstæðum til að hlúa að og þjóna hverri annarri, þá munum við fyllast hinni hreinu ást Krists og með innblæstri vita hvenær og hverri skal þjóna.

Ég færi ykkur boð sem aðalforseti Líknarfélagsins hefur áður lagt fram með þessum orðum: „Ég býð ykkur ekki einungis að elska hverja aðra meira, heldur líka að elska hverja aðra betur.“7 Bæn mín er sú að við megum komast að raun um hversu mikið við þurfum á hverri annarri að halda og að við megum allar elska hverja aðra betur, í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Sjá Barbara B. Smith, “The Bonds of Sisterhood,” Ensign, mars 1983, 20–23.

  2. Kenning og sáttmálar 38:27.

  3. Patricia T. Holland, „,One Thing Needful’: Becoming Women of Greater Faith in Christ,” Ensign, okt. 1987, 29.

  4. Lúk 1:7.

  5. „Við leitum þín, Drottinn,“ Sálmar, nr. 118.

  6. Glimpses into the Life and Heart of Marjorie Pay Hinckley, útg. Virginia H. Pearce (1999), 254–55.

  7. Bonnie D. Parkin, „Choosing Charity: That Good Part,”Ensign eða Líahóna, nóv. 2003, 106.