2010–2019
Andlegir hvirfilvindar
Apríl 2014


Andlegir hvirfilvindar

Látið ekki hvirfilvindi draga úr ykkur kjarkinn. Þetta er ykkar tími - að vera sterk sem lærisveinar Drottins Jesú Krists.

Ég heilsa ykkur í dag - einkum unga fólkinu sem er hér í Ráðstefnuhöllinni og víðsvegar um heim. Þið eruð útvalin kynslóð ákveðinna örlaga og ég beini máli mínu einkum til ykkar.

Fyrir mörgum árum, á meðan við heimsóttumfjölskylduna í Flórída, skall á hvirfilvindur ekki all fjarri okkur. Kona nokkur, sem bjó í hjólhýsi, leitaði sér skjóls í baðherbergi þess. Hjólhýsið tók að hristast til. Nokkur andartök liðu. Þá heyrði hún rödd nágranna síns: „Ég er hér í ytra herberginu.“ Þegar hún kom út úr baðherberginu, sá hún sér til mikillar undrunar að hvirfilvindurinn hafði lyft hjólhýsi hennar á loft og fært það úr stað, svo það lenti í fullkominni stöðu ofan á hjólhýsi nágrannans.

Mínir ungu vinir, heimurinn mun ekki svífa með hægð á móts við síðari komu frelsarans. Ritningarnar segja: „Og allt verður í uppnámi.“1 Brigham Young sagði: „Á upphafstíma þessarar kirkju var mér opinberað að kirkjan mundi breiðast út, dafna, vaxa og stækka og að máttur Satans mundi vaxa að sama skapi og fagnaðarerindinu yxi ásmegin meðal þjóða heimsins.“2

Ljósmynd
illustration of tornado

Það sem er meira áhyggjuefni en spádómar um jarðskjálfta og hernað,3 eru hinir andlegu hvirfilvindar, af nægilegum styrk til að slíta ykkur upp af andlegri undirstöðu ykkar og feykja anda ykkur á staði sem þið fáið vart ímyndað ykkur, stundum án þess að þið fáið skynjað að þið hafið færst úr stað.

Verstu hvirfilvindarnir eru freistingar óvinarins. Syndin hefur ætíð átt aðsetur í heiminum, en aldrei verið jafn aðgengileg, óseðjandi og ásættanleg. Það er auðvitað til sannreynt úrræði sem dregur úr hvirfilvindum syndar. Það nefnist iðrun.

Ekki eru allir hvirfilvindar lífsins af okkar völdum. Sumir verða til af röngu vali annarra og aðrir verða til einfaldlega vegna þess að sá er háttur jarðlífsins.

Þegar Boyd K. Packer forseti var ungur drengur þjáðist hann af bæklunarsjúkdómi sem kallaður er lömunarveiki. Þegar öldungur Dallin H. Oaks var sjö ára varð faðir hans bráðkvaddur. Þegar systir Carol F. McConkie, í aðalforsætisráði Stúlknafélagsins, var unglingur, skildu foreldrar hennar. Áskoranir munu koma til ykkar, en ef þið setjið traust ykkar á Guð, munu þær styrkja trú ykkar.

Ljósmynd
illustration of tree and roots

Í náttúrunni verða tré sterkari af því að vaxa upp í vindasömu umhverfi. Þegar sterkir vindar blása umhverfis ungt tré, á sér tvennt stað í lífkerfi þess. Í fyrsta lagi, þá örvast rótarvöxturinn, svo ræturnar breiða hraðar úr sér. Í öðru lagi, þá fjölgar frumum, svo bolurinn og greinarnar taka að þykkna og verða sveigjanlegri í vindhviðum. Þessar öflugri rætur og greinar verja tréð gegn vindum sem stöðugt blása.4

Þið eruð óendanlega dýrmætari Guði en tré. Þið eruð synir hans og dætur. Hann gerði anda ykkar sterkan, með getu til að vera sveigjanlegur í hvirfilvindum lífsins. Hvirfilvindar æskuára ykkar geta, líkt og vindar sem blása á ungt tré, aukið andlegan styrk og búið ykkur undir komandi tíðir.

Hvernig búið þið ykkur undir hvirfilvinda ykkar? „Munið og hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar. Að þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, … spjót sín í hvirfilvindinum, … þegar allt hans hagl og voldugur stormur bylur á ykkur, mun það ekkert vald hafa til að draga ykkur niður …, vegna þess … [bjargs], sem þið byggið á.“5 Þetta er öryggi ykkar í hvirfilvindum.

Thomas S. Monson forseti sagði: „Staðlar kirkjunnar og samfélagsins voru eitt sinn nokkuð samhljóma, en nú er gjáin djúp þar á milli og dýpkar stöðugt.“6 Þessi gjá þyrlar upp öflugum hvirfilvindum hjá sumum. Ég nefni dæmi.

Í síðasta mánuði sendi Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin bréf til kirkjuleiðtoga um heim allan. Að hluta stóð í því: „Breytingar á landslögum fá ekki, og geta vissulega ekki, breytt því siðferðislögmáli sem innleitt er af Guði. Guð væntir þess að við virðum og höldum boðorð hans, óháð hinum mörgu skoðunum eða stefnum samfélagsins. Skírlífislögmál hans er skýrt: Kynferðissamband er aðeins viðeigandi á milli karls og konu, sem eru löglega gift sem eiginmaður og eiginkona. Við hvetjum ykkur til að lesa … kenninguna í Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins.“7

Þótt heimurinn hverfi frá skírlífislögmáli Drottins, þá gerum við það ekki. Monson forseti sagði: „Frelsari heimsins sagði sig vera í heiminum, en ekki af heiminum. Við getum líka verið í heiminum, en ekki af heiminum, er við höfnum fölskum hugmyndum og erum trú því sem Guð hefur boðið.“8

Þótt ýmis stjórnvöld og vel meinandi einstaklingar hafi endurskilgreint hjónabandið, þá hefur Drottinn ekki gert það. Í upphafi vígði Guð hjónabandið sem karls og konu - Adam og Evu. Hann tilnefndi að tilgangur hjónabandsins næði langt umfram það að uppfylla persónulegar þarfir hinna fullorðnu og að mikilvægara væri að skapa kjöraðstæður fyrir fæðingu, uppeldi og fóstrun barna. Fjölskyldur eru fjársjóður himins.9

Hvers vegna ræðum við stöðugt um þetta? Páll postuli sagði: „Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega.“10 Ábyrgð okkar, sem postula Drottins Jesú Krists, er að kenna áætlun skapara okkar fyrir börn hans og vara við afleiðingum þess að virða boðorð hans að vettugi.

Nýlega ræddi ég við Lárviðarstúlku frá Bandaríkjunum. Ég vitna í netpóstinn hennar

„Á síðasta ári tóku sumir vinir mínir í Fésbók upp á því að skrifa færslur um afstöðu sína til hjónabandsins. Margir sögðust styðja hjónaband samkynhneigðra og nokkrir ungir SDH gáfu í skyn að þeim „líkaði“ færslurnar. Ég skrifaði engin ummæli.

Ég ákvað að skýra frá trúarskoðun minni um hjónabandið á umhyggjusaman hátt.

Ljósmynd
young woman using a mobile telephone

Ég bætti þessum texta við sniðritsmyndina mína: „Ég hef trú á hjónabandi á milli karls og konu.“ Næstum samstundis tóku skilaboðin að koma. „Þú ert eigingjörn.“ „Þú ert dómhörð.“ Sumir líktu mér við þrælahaldara. Mér bárust síðan þessi skilaboð frá góðri vinkonu, sem er sterkur meðlimur kirkjunnar: „Þú þarft að vera í takt við tímann. Hlutirnir eru að breytast og það ættir þú líka að gera.“

„Ég svaraði ekki fyrir mig,“ sagði hún, „en tók heldur ekki niður yfirlýsingu mína.“

Hún sagði svo: „Stundum,“ líkt og Monson forseti sagði, „verðum við að standa ein.“ Vonandi munum við æskufólkið standa saman í því að vera holl Guði og kenningum lifandi spámanna hans.“11

Þeir sem burðast með samkynhneigð ættu að njóta sérstakrar hluttekningar okkar. Það er hvirfilvindur sem fer gríðarhratt um. Ég vil tjá þeim elsku mína og aðdáun sem af hugrekki takast á við þessa prófraun trúar og eru trúfastir boðorðum Guðs!12 En allir, óháð ákvörðunum þeirra og trúarskoðunum, verðskulda vinsemd okkar og tillitsemi.13

Frelsarinn kenndi okkur ekki aðeins að elska vinir okkar, heldur líka þá sem eru ósammála okkur - og jafnvel þá sem hafna okkur. Hann sagði: „Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? … Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama?“14

Spámaðurinn Joseph Smith áminnti okkur um að „varast sjálfsréttlæti“ og að útvíkka hjarta okkar til allra karla og kvenna, þar til við viljum „axla byrði þeirra.“15 Fagnaðarerindi Jesú Krists á ekki samleið með háðung, einelti eða þröngsýni.

Ef þið hafið spurningar um ráðgjöf leiðtoga kirkjunnar, ræðið þá einlæg áhyggjuefni við foreldra ykkar og leiðtoga. Þið þurfið þann styrk sem hlýst af því að reiða ykkur á spámenn Drottins. Harold B. Lee forseti sagði: „Eina öryggið sem við höfum sem meðlimir þessarar kirkju, er að … læra að lifa eftir þeim orðum og boðorðum sem Drottinn mun gefa með spámönnum sínum. … Það verður sumt sem krefst þolinmæðar og trúar. Ekki er víst að ykkur líki það sem kemur. … Það kann að stangast á við stjórnmálaskoðanir ykkar … félagslegt viðhorf ykkar … trufla … félagslíf ykkar. Ef þið hlustið á það, sem það bærist af munni Drottins sjálfs, …, munu hlið heljar eigi á yður sigrast … og Drottinn Guð mun dreifa valdi myrkursins frá yður …’ (K&S 21:6).“16

Önnur áhrifarík vörn gegn hvirfilvindum lífsins er Mormónsbók.

Þegar Henry B. Eyring var unglingur, flutti fjölskylda hans í aðra borg. Til að byrja með reyndist það honum erfitt og hann eignaðist fáa vini. Honum fannst hann ekki falla í hóp bekkjarfélaga sinna í skólanum. Hvirfilvindarnir þyrluðust upp. Hvað gerði hann? Hann beindi kröftum sínum að Mormónsbók og las hana ótal sinnum.17 Mörgum árum síðar vitnaði Eyring forseti: „Ég hef [unun af því að] lesa aftur í Mormónsbók og teyga vel og oft.”18 „[Hún] er áhrifaríkasti ritaði vitnisburðurinn sem við höfum um að Jesús er Kristur.“19

Drottinn hefur séð ykkur fyrir annarri leið til að standa stöðug, andlegri gjöf, öflugri hvirfilvindum óvinarins! Hann sagði: „Standið á helgum stöðum og haggist ekki.“20

Þegar ég var unglingur voru musteri kirkjunnar aðeins 13 að tölu. Nú eru þau 142. Áttatíu og fimm prósent kirkjumeðlima búa innan 320 kílómetra frá musteri. Drottinn hefur gert ykkar kynslóð kleift að hafa greiðari aðgang að sínum helgu musterum, en nokkurri annarri kynslóð í sögu heimsins.

Hafið þið einhvern tíma verið í musterinu, íklædd hvítu, bíðandi eftir því að framkvæma skírnir? Hvernig leið ykkur? Það er greinileg tilfinning heilagleika í musterinu. Friður frelsarans bælir niður þyrlandi hvirfilvindi heimsins.

Hvernig ykkur líður í musterinu er fyrirmynd að því hvernig þið viljið að ykkur líði í lífinu.21

Finnið heimildir um afa ykkar og ömmur og fjarskyld ættmenni, sem farið hafa á undan ykkur. Farið með nöfn þeirra í musterið.22 Þegar þið lærið um áa ykkar, munuð þið sjá lífsfyrirmyndir um hjónaband, börn, réttlæti og stöku sinnum eitthvað sem þið viljið forðast.23

Í musterinu munuð þið síðar læra um sköpun heimsins, um líf Adams og Evu og, það sem mikilvægast er, um frelsara okkar Jesú Krists.

Mínir kæru bræður og systur, hve við elskum ykkur, dáumst að ykkur og biðjum fyrir ykkur. Látið ekki hvirfilvindi draga úr ykkur kjarkinn. Þetta er ykkar tími - að vera sterk sem lærisveinar Drottins Jesú Krists.24

Byggið undurstöðu ykkar tryggilegar á bjargi frelsara okkar.

Varðveitið betur hans óviðjafnanlegu fyrirmynd og kenningar.

Lifið eftir fordæmi hans og boðorðum af meiri kostgæfni.

Takið betur á móti kærleika hans, miskunn hans og náð, og hinni máttugu gjöf friðþægingar hans.

Ef þið gerið það, heiti ég ykkur því að þið munuð sjá af hvaða gerð hvirfilvindarnir eru - prófraunir, freistingar, hugarangur eða áskoranir til að hjálpa ykkur að þroskast. Þegar þið svo lifið réttlátlega ár eftir ár, fullvissa ég ykkur um að upplifanir ykkar munu staðfesta fyrir ykkur aftur og aftur að Jesús er Kristur. Hið andlega bjarg undir fótum ykkar, verður stöðugt og fast. Þið munuð fagna yfir því að Guð hefur fært ykkur hingað, til að taka þátt í lokaundirbúningi að dýrðlegri endurkomu Krists.

Frelsarinn sagði: „Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar.“25 Þetta er loforð hans til ykkar. Ég veit að þetta loforð er raunverulegt. Ég veit að hann lifir, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Kenning og sáttmálar 88:91.

  2. Discourses of Brigham Young, valið af John A. Widtsoe (1954), 72.

  3. Sjá Dallin H. Oaks, „Preparation for the Second Coming,“ Ensign eða Líahóna, maí 2004, 7–10.

  4. Sjá A. Stokes, A. H. Fitter, and M. P. Coutts, „Responses of Young Trees to Wind and Shading: Effects on Root Architecture,“ Journal of Experimental Botany, bindi 46, nr 290 (sept. 1995), 1139–46.

  5. Helaman 5:12.

  6. Thomas S. Monson, „Priesthood Power,” Ensign eða Líahóna, maí 2011, 66.

  7. Bréf frá Æðsta forsætisráðinu, 6. mars 2014; sjá einnig David A. Bednar, „We Believe in Being Chaste,“ Ensign eða Líahóna, maí 2013, 41–44; Dallin H. Oaks, „No Other Gods,“ Ensign eða Líahóna, nóv. 2013, 72–75; Til styrktar æskunni (bæklingur, 2011), 35–37.

  8. Thomas S. Monson, Ensign eða Líahóna, maí 2011, 67.

  9. Öldungur Russell M. Nelson sagði: „Hjónabandið er smiðja fyrir félagsreglu. … Það samband er ekki einungis á milli eiginmanns og eiginkonu; það viðurkennir samfélag við Guð“ („Nurturing Marriage,“ Ensign eða Líahóna, maí 2006, 36). Sjá einnig Matt 19:5–6.

  10. 2 Kor 4:18.

  11. Persónulegt bréf og samtal, 17. mars 2014; Sjá einnig Thomas S. Monson, „Dare to Stand Alone,“ Ensign eða Liahona, nóv. 2011, 60–67.

  12. Sjá Jeffrey R. Holland, „Helping Those Who Struggle with Same-Gender Attraction,“ Ensign, okt. 2007, 42–45;Liahona, okt. 2007, 40–43.

  13. Jafnvel þegar antikristurinn Kóríhor reyndi að tortíma trú fólksins, vernduðu lögmál Guð hann gegn maklegum málagjöldum: „Nú voru engin lög, sem mæltu gegn trú nokkurs manns, því að það var með öllu andstætt boðum Guðs, að til væru lög, sem gjörðu mönnum misjafnlega hátt undir höfði. … En ef einhver vildi þjóna Drottni, þá voru það forréttindi hans. … En ef einhver trúði ekki á hann, voru engin lög um að refsa honum“ (Alma 30:7, 9). (Ellefta Trúaratriðið( segir: „Vér krefjumst þeirra réttinda að fá að tilbiðja almáttugan Guð, eftir því sem eigin samviska býður, og viðurkennum sömu réttindi til handa öllum mönnum. Lofum þeim að tilbiðja, hvernig, hvar eða hvað, sem þeim þóknast.“

  14. Matt 5:46–47.

  15. Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith (2007), 427, 429.

  16. Teachings of Presidents of the Church: Harold B. Lee (2000), 84–85; sjá einnig Robert D. Hales, “General Conference: Strengthening Faith and Testimony,” Ensign eða Liahona, nóv. 2013, 6–8.

  17. Sjá Robert I. Eaton and Henry J. Eyring, I Will Lead You Along: The Life of Henry B. Eyring (2013), 40.

  18. Henry B. Eyring, Choose Higher Ground (2013), 38.

  19. Henry B. Eyring, To Draw Closer to God (1997), 118.

  20. Kenning og sáttmálar 87:8; sjá einnig Kenning og sáttmálar 45:32.

  21. Sjá Kenning og sáttmálar 52:14.

  22. Sjá Neil L. Andersen, „Find Our Cousins!“ (ræða haldinn á ráðstefnunni RootsTech 2014 Family History Conference, 8. feb. 2014); lds.org/prophets-and-apostles/unto-all-the-world/find-our-cousins.

  23. Sjá David A. Bednar, “The Hearts of the Children Shall Turn,” Ensign eða Liahona, nóv. 2011, 24–27.

  24. Sjá Helaman 7:9.

  25. Jóh 14:18.