Sleppa aðallóðsun
Apríl 2014 | Gjald og blessanir lærisveinsins

Gjald og blessanir lærisveinsins

Apríl 2014 Aðalráðstefna

Verið sterk. Lifið trúföst eftir fagnaðarerindinu, jafnvel þótt aðrir umhverfis geri það alls ekki.

Monson forseti, við elskum þig. Þú hefur gefið hjarta og heilsu í sérhverja köllun sem Drottinn hefur falið þér, einkum það helga embætti sem þú nú hefur. Öll kirkjan þakkar þér fyrir staðfasta þjónustu og þín óbrigðulu helgu skyldustörf.

Af aðdáun og hvatningu til allra þeirra sem þurfa að standa stöðugir á þessum efstu dögum, segi ég við alla, en einkum þó æskufólk kirkjunnar, þið munuð dag einn þurfa að verja trú ykkar eða jafnvel þola einhverjar svívirðingar, einfaldlega vegna þess að þið eruð meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Slíkar áskoranir krefjast bæði hugrekkis og háttvísi af ykkar hálfu.

Systurtrúboði skrifaði mér, til að mynda, nýverið: „Ég og félagi minn sáum eitt sinn mann sitjandi á bekk í miðbænum, snæðandi hádegisverðinn sinn. Þegar við komum nær honum leit hann upp og sá trúboðsnafnspjaldið okkar. Hann spratt upp með ógnvænlegu augnráði og lyfti hendinni til að slá til mín. Ég rétt náði að hörfa undan, en um leið spítti hann matnum út úr sér yfir mig alla og bölvaði hræðilega til okkar. Við gengum í burtu án þess að segja nokkuð. Ég reyndi að þurrka matarhrákann framan úr mér, en um leið spítti hann tuggðri kartöflu aftan á höfuð mitt. Stundum er erfitt að vera trúboði, því á þessari stundu vildi ég fara til baka og hrifsa í þennan smávaxna mann og segja: „HEYRÐU MIG!“ Það gerði ég samt ekki.“

Við þennan holla trúboða segi ég: Kæra barn, á þinn auðmjúka hátt hefur þú fetað í fótspor afar merkilegra karla og kvenna, sem hafa, líkt og Jakob, spámaður Mormónsbókar : „[Íhugað] dauða [Krists] og [þolað] kross hans og [borið] smán heimsins.“1

Já, um Jesú sjálfan ritaði Jakob, bróðir Nefís: „Og vegna spillingar sinnar mun heimurinn meta hann einskis. Þess vegna húðstrýkja þeir hann, og hann umber það, þeir berja hann, og hann umber það. Já, á hann verður hrækt, og hann umber það vegna þess ástríka kærleika og umburðarlyndis, sem hann ber í brjósti til mannanna barna.“2

Í samhljóm við reynslu frelsarans, þá hefur höfnun verið hinn rauði þráður sögunnar og gjaldið verið sárt og dýrkeypt sem spámenn og postular og trúboðar og meðlimir allra kynslóða hafa reitt af höndum, við að heiðra boð Guðs um að lyfta mannkyni upp á „miklu ágætari leið.“3

„Hvað á ég að orðlengja framar um [þá]?“ spyr höfundur Hebreabréfsins.

„Þeir byrgðu gin ljóna,

slökktu eldsbál, komust undan sverðseggjum … gjörðust öflugir í stríði og stökktu fylkingum … á flótta.

[Sáu] sína framliðnu upprisna … [meðan] aðrir voru pyndaðir …

og … urðu að sæta háðsyrðum og húðstrokum og … fjötrum og fangelsi.

Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði.Þeir ráfuðu í gærum og geitskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir.

Ekki átti heimurinn slíka menn skilið. Þeir reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldust við í hellum og gjótum.“4

Vissulega hafa englar himins grátið við skráningu hins dýra gjalds lærisveinsins í heimi sem oft er óvinveittur boðorðum Guðs. Frelsarinn sjálfur felldi tár yfir þeim sem í hundruði ára hafði verið hafnað og banað í þjónustu hans. Nú hafði honum verið hafnað og í þann mund að vera deyddur.

„Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.

Hús yðar verður í eyði látið.“5

Í þessu felst boðskapur fyrir alla pilta og stúlkur í þessari kirkju. Þið getið velt fyrir ykkur hvort það sé þess virði að taka siðferðislega afstöðu af hugdirfsku í skóla eða að fara í trúboð, aðeins til að kærustu trúarskoðanir ykkar verði smánaðar eða að berjast gegn sterkum straumi samfélags sem stundum hæðist að hinum trúrækna. Jú, það er þess virði, því hinn kosturinn er að „hús“ okkar fari í „eyði“ - leggi í eyði einstaklinga, fjölskyldur, borgarhverfi og þjóðir.

Þetta er því byrði þeirra sem kallaðir eru til að bera út messíasarboðskapinn. Auk þess að kenna og hvetja fólk áfram (sem er hið ánægjulega hlutskipti lærisveinsins), eru þessir sendiboðar endrum og eins kallaðir til að hafa áhyggjur,, aðvara og stundum bara til að gráta (það er hið sára hlutskipti). Þeim er fullljóst að vegurinn sem liggur til fyritheitna landsins er „flýtur í mjólk og hunangi“6 verður af nauðsyn að fara hjá Sínaífjalli sem fullt er af „þú skalt“ og „þú skalt ekki.“7

Því miður er það svo að sendiboðar hinna guðlega fyrirskipuðu boðorða, eru oft ekki vinsælli í daga en þeir voru til forna, líkt og tveir systurtrúboðar sem fengu tuggðri kartöflu spítt á sig, geta að minnsta kosti vitnað um. Óvild er ekki fallegt orð, en samt eru þeir til nú sem mundu segja með hinum spillta Akab: „Mér er lítið um [spámanninn Míka] gefið, því að hann spáir mér aldrei góðu, heldur ávallt illu.“8Slík óvild vegna ráðvendni spámanns kostaði Abinadí lífið. Líkt og hann sagði við Nóa konung: „Þið eruð mér reiðir, vegna þess að ég hef sagt ykkur sannleikann. … Vegna þess að ég hef talað orð Guðs, hafið þið dæmt mig vitskertan,“9 og við gætum bætt sveitalegur, föðurlegur, þröngsýnn, óvinsamlegur, gamaldags og aldraður.

Það er líkt og Drottinn sjálfur sagði harmþrunginn við spámanninn Jesaja:

„[Þessi] … börn … vilja [eigi] heyra kenningu Drottins.

Þau segja við sjáendur: „Þér skuluð eigi sjá sýnir,“ og við vitranamenn: „Þér skuluð eigi birta oss sannleikann. Sláið oss heldur gullhamra og birtið oss blekkingar.

Farið út af veginum, beygið út af brautinni, komið Hinum heilaga í Ísrael burt frá augliti voru.“10

Dapurlegt, kæru ungu vinir, að það sé auðkennandi fyrir okkar tíma, að ef fólk vill yfir höfuð hafa guði, verða þeir að vera kröfulitlir, þægilegir guðir, sem ekki aðeins láta vera að rugga bátnum, heldur jafnvel róa honum fyrir okkur, strjúka okkur um kollinn, fá okkur til að flissa og bjóða okkur síðan að tína gullfífla.11

Talandi um að maðurinn skapi guð í eigin mynd! Stundum - og það virðist mesta kaldhæðnin - ákallar þessi hópur fólks nafn Jesú, líkt og hann væri þessi ljúfi „þægilegi“ guð. Er það virkilegt! Sá sem sagði að við ættum ekki að brjóta boðorðin, sagði líka að við ættum jafnvel ekki aðhugsa um að brjóta þau. Ef við hugsuðum um að brjóta þau, hefðum við þegar brotið þau í hjarta okkar. Hljómar þetta líkt og „þægileg“ kenning, sem félli vel í eyru og væri vinsæl og vel látin í ástarhreiðri þorpsins?

Hvað með þá sem aðeins vilja horfa á syndina eða snerta hana úr fjarlægð? Jesús sagði af eldmóði, að ef auga okkar tælir okkur, þá ríf það úr. Ef hönd okkar tælir okkur, þá sníð hana af.12 „Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð.“13 Hann aðvaraði þá sem töldu hann aðeins mæla sefandi lágkúru. Það sætir engri furðu, prédikun eftir prédikun, að íbúar samfélaga hafi „[beðið] Jesú að fara burt úr héruðum þeirra.“14 Það sætir engri furðu, kraftaverk eftir kraftaverk, að máttur hans hafi verið eignaður djöflinum en ekki Guði.15 Víst er að svarið við spurningu stuðara límmiðans: „Hvað mundi Jesús gera?“ félli ekki ætíð vel í kramið.

Á hápunkti sinnar jarðnesku þjónustu, sagði Jesús: „Elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.“16 Til að vera viss um að fólkið skildi nákvæmlega þá elsku sem hann átti við, sagði hann: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín,“17 og „hver sem … brýtur eitt af [hinum] minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki.“18 Á þessari plánetu er brýn þörf fyrir kristilegan kærleika, því þess var ætíð vænst að réttlætið yrði þar með í för. Svo, ef elska á að vera okkar einkunnarorð, líkt og húnverður að vera, þá verðum við, samkvæmt orði hans, sem kenndur er við elskuna, að láta af synd og minnsta votti af stuðningi við syndaboðun annarra. Jesús skildi vel það sem margir í okkar nútíma menningu virðast hafa gleymt: Að mikill munur er á boðorðinu um að fyrirgefa (sem hann hefur óendanlegan mátt til að gera) og aðvörunarinnar um að láta syndina viðgangast (sem hann gerði aldrei nokkurn tíma).

Vinir mínir, einkum hinir ungu, látið hughreystast. Hrein kristileg elska, sem á rætur í sönnu réttlæti, megnar að breyta heiminum. Ég ber vitni um að hið sanna og lifandi fagnaðarerindi Jesú Krists er á jörðinni og að þið eruð meðlimir hans sönnu og lifandi kirkju, sem þið reynið að miðla. Ég ber vitni um þetta fagnaðarerindi og þessa kirkju, með sérstakri áherslu á hina endurreistu lykla prestdæmisins, sem leysa úr læðingi kraft og áhrif endurleysandi helgiathafna. Ég er enn sannfærðari um að þessir lyklar hafa verið endurreistir og að þessar helgiathafnir eru enn á ný tiltækar í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, en það að ég stend frammi fyrir ykkur í þessum ræðustól og þið eruð frammi fyrir mér á þessari ráðstefnu.

Verið sterk. Lifið trúföst eftir fagnaðarerindinu, jafnvel þótt aðrir umhverfis geri það alls ekki. Verjið trúarskoðanir ykkar af háttvísi og hluttekningu, já, verjið þær. Í gegnum langa sögu hafa margar innblásnar raddir, þar á meðal þær sem þið heyrið á þessari ráðstefnu, ásamt rödd Thomas S. Monson forseta, vísað á veg hins kristilega lærisveins. Hann er krappur og þröngur, án mikils svigrúms, en getur líka verið unaðslegur og giftusamlegur yfirferðar, með „[staðfestu] í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna.“19 Þegar þið gangið slíkan veg af hugdirfsku, munuð þið uppgötva óhagganlega trú, finna skjól gegn illum vindum, jafnvel spjótum hvirfilvinda og hljóta bjargfastan styrk frelsara okkar, og ef þið byggið á honum sem trúfastir lærisveinar, munuð þið ekkifalla.20 Í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir

  Heimildir

  1. Jakob 1:8.

  2. 1 Ne 19:9.

  3. 1 Kor 12:31; Eter 12:11.

  4. Hebr 11:32–38.

  5. Matt 23:37–38.

  6. 2 Mós 3:8.

  7. Sjá 2 Mós 20:3–17.

  8. 2 Kro 18:7.

  9. Mósía 13:4.

  10. Jes 30:9–11.

  11. Sjá Henry Fairlie, The Seven Deadly Sins Today (1978), 15–16.

  12. Sjá Matt 5:29–30.

  13. Matt 10:34.

  14. Mark 5:17.

  15. Sjá Matt 9:34.

  16. Jóh 15:12.

  17. Jóh 14:15.

  18. Matt 5:19; skáletrað hér.

  19. 2 Ne 31:20.

  20. Sjá Hel 5:12.