2010–2019
Spámaðurinn Joseph Smith
Apríl 2014


Spámaðurinn Joseph Smith

Opinberanirnar sem flæddu yfir Joseph Smith staðfesta að hann var spámaður Guðs.

Fyrsta sýnin

Ungur piltur les Biblíuna og augu hans doka við eina staka ritningargrein. Þetta er það augnablik sem mun breyta heiminum.

Hann er áfjáður að fá að vita hvaða kirkja getur leitt hann að sannleikanum og sáluhjálp. Hann hefur reynt nærri því allt annað og nú snýr hann sér Biblíunni og les eftirfarandi orð: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefið.“1

Hann íhugar þessi orð aftur og aftur. Fyrstu geislar ljóss brjótast í gegnum myrkrið. Er þetta svarið, leiðin út úr ringulreið og myrkri? Getur það verið svona einfalt? Biðja Guð og hann mun svara? Eftir góðan tíma ákveður hann að hann verði annað hvort að spyrja Guð eða vera í myrkri og óvissu að eilífu.

Þó að hann sé óþreyjufullur þá hleypur hann samt ekki út í næsta hljóðláta horn og þylur upp bæn í flýti. Hann er einungis 14 ára gamall en þó að honum liggi mikið á þá er hann ekki fljótfær. Þetta verður ekki bara einhver bæn. Hann ákveður hvert hann muni fara og hvenær hann ætli að gera þessa tilraun. Hann býr sig undir að tala við Guð.

Svo rennur dagurinn upp. Það er snemma morguns á fallegum heiðskýrum degi, snemma vors árið [1820[.2 Hann gengur einn inn í hljóðlátan skóginn, undir trjánum sem gnæfa yfir honum. Hann kemur að þeim stað sem hann hafði áður ákveðið að fara. Krýpur og tekur að skýra frá óskum hjarta síns.

Hann lýsir því sem næst gerðist, og segir:

„[Ég sá] ljósstólpa beint yfir höfði mér, skærari en sólin, og hann lækkaði hægt, uns hann féll á mig.

…Þegar ljósið hvíldi á mér, sá ég tvær verur, svo bjartar og dýrðlegar, að ekki verður með orðum lýst, og stóðu þær fyrir ofan mig í loftinu. Önnur þeirra ávarpaði mig, nefndi mig með nafni og sagði, um leið og hún benti á hina – [Joseph,] Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!3

Joseph Smith og bróðir hans, Hyrum, dóu svo einungis 24 árum seinna vegna þess sem hófst á þessum stað.

Andstaða

Joseph sagði að þegar hann hafi verið 17 ára gamall hafi engill sagt honum að „nafn [hans] yrði talið tákn góðs og ills með öllum þjóðum, … öllum lýðum.“4 Þessi spádómur heldur áfram í dag er Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur breiðst út um allan heim.

Andstaða, gagnrýni og óvild eru félagar sannleikans. Hvenær sem sannleikurinn er birtur í tengingu við tilgang og örlög mannsins þá mun afl standa gegn honum. Frá tímum Adam og Evu í Edengarðinum, að þjónustu Krists og fram á okkar tíma þá mun alltaf vera reynt að blekkja, afvegaleiða, andmæla og gera áætlun lífsins að engu.

Leitið að stærsta rykmekkinum yfir mestu moldinni sem sparkað er að þeim sem er andmælt, ögrað, hafnað, barinn, yfirgefinn og krossfestur, þeim sem lagðist neðar en allt og þar munið þið finna sannleikann, son Guðs, frelsara alls mannkyns. Hvers vegna létu þeir hann ekki bara vera.

Hvers vegna? Af því að hann er sannleikurinn og sannleikanum mætir alltaf andstaða.

Leitið því næst að þeim sem kom fram með annað vitni um Jesú Krist, og aðra ritningu, leitið að þeim sem var verkfæri, sem kom fram með fyllingu og endurreisn fagnaðarerindisins og kirkju Jesú Krists, leitið hans og reiknið með því að sjá rykský á lofti. Hvers vegna létu þeir hann ekki bara vera.

Hvers vegna? Af því að hann kenndi sannleikann og sannleikanum mætir alltaf andstaða.

Flóð opinberunar

Opinberanirnar sem flæddu yfir Joseph Smith staðfesta að hann var spámaður Guðs. Við skulum aðeins skoða nokkrar þeirra, lítum aðeins á ljósið og sannleikann sem var opinberaður í gegnum hann í andstöðu við það sem var almennt trúað á hans tímum.

  • Guð er upphafin persóna, eilífur faðir. Hann er faðir okkar.

  • Guð faðirinn, Jesús Kristur og heilagur andi eru aðskildar verur.5

  • Þið eruð meira en bara mannverur. Þið eruð börn Guðs, eilífs föður og getið orðið eins og hann6 ef þið hafið trú á son hans, iðrist, meðtakið helgiathafnir, meðtakið heilagan anda og þraukið allt til enda.7

  • Kirkja Jesú Krists í dag er í öllum grundvallaratriðum sama kirkja og hann skipulagði þegar hann þjónaði á jörðunni, með spámönnum og postulum, Melkísedek presdæmi og prestdæmi Levíta, öldunga, hápresta, djákna, kennara, biskupa og hina sjötíu, eins og henni var lýst í Biblíunni.

  • Prestdæmisvaldi var haldið frá jörðunni eftir að frelsarinn og postular hans dóu og var síðan endurreist á okkar dögum.

  • Opinberunum hefur ekki hætt og himnarnir hafa ekki lokast. Guð talar til spámanna í dag og hann mun tala til ykkar og til mín líka.8

  • Það er meira eftir þetta líf en bara himinn og hel. Þar eru dýrðargráður og það skiptir heilmiklu máli hvað við gerum í þessu lífi.9

  • Við ættum að „beina öllum hugsunum…til [hans]“10 „gera allt sem [við gjörum] í nafni sonarins, “11 „hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans…svo að andi hans sé ætíð með [okkur]“12

  • Þeir milljarðar sem lifa og deyja án fagnaðarerindisins og sáluhjálpandi helgiathafna eru ekki týndir. Allt mannkyn „[getur] orðið [hólpið]með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins“13 sem veitt eru bæði hinum lifandi og látnu.14

  • Fæðingin var ekki upphaf alls. Þið lifðuð áður í návist Guðs sem sonur eða dóttir hans og undirbjugguð ykkur fyrir þetta líf.15

  • Hjónaband og fjölskylda eru ekki siðvenja manna sem gilda bara þar til dauðinn aðskilur. Þeim er ætlað að vera eilíf vegna sáttmálana sem við gerum við Guð. Fjölskyldan er himnesk fyrirmynd.16

Þetta er aðeins brot af því flóði opinberana sem helltist yfir Joseph Smith. Hvaðan komu þær, þessar opinberanir sem lýstu upp myrkrið, þurrkuðu út efasemdir og sem hafa innblásið og bætt líf milljónir manna? Hvort er líklegra, að hann hafi látið sér detta þetta sjálfur í hug eða að hann hafi fengið aðstoð af himnum ofan. Hljóma ritningarnar sem hann kom fram með eins og orð manns eða orð Guðs?

Niðurstaða

Það er enginn ágreiningur um það hverju Joseph Smith áorkaði, einungis hvernig hann gerði það og hvers vegna. Möguleikarnir eru ekki margir. Hann var annað hvort loddari eða spámaður. Annað hvort gerði hann þetta allt einn eða hann hafði hjálp frá himnum. Lítið á sannanirnar og þá allar sannanirnar, líf hans allt en ekki bara eitt og eitt tilvik. Það sem er mikilvægast, er að gera eins og hinn ungi Joseph og „spyrjið…Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust og [ykkur] mun gefast.“17 Þetta er ekki bara til þess að þið getið lært sannleikann um Mormónsbók og Joseph Smith, heldur er þetta uppskriftin að því að þekkja sannleiksgildi allra hluta.18

Joseph Smith var spámaður Guðs, og það er Thomas S. Monson líka í dag. Fyrir atbeina Joseph Smith þá eru lyklarnir að konungsríki Guðs aftur „afhentir manni á jörðu, og …fagnaðarerindið [mun] breiðast út …líkt og steinninn, sem losaður eru úr fjallinu án þess að hendur komi nærri …uns hann hefur fyllt alla jörðina.“19

Guð er eilífur faðir okkar og Jesús er Kristur. Við tilbiðjum þá. Ekkert jafnast á við sköpunarverk þeirra, sáluhjálparáætlunina og friðþægingarfórn guðslambsins. Á þessum ráðstöfunartíma uppfyllum við einungis áætlun föðurins og meðtökum af ávöxtum friðþægingarinnar með hlýðni við lögmálin og helgiathafnir fagnaðarerindisins sem endurreist voru í gegnum Joseph Smith. Ég ber vitni um þá, Guð hinn eilífa föður og Jesú Krist, frelsara heimsins. Ég geri svo í nafni Jesú Krists, amen.