Sleppa aðallóðsun
Apríl 2014 | Upprisa Jesú Krists

Upprisa Jesú Krists

Apríl 2014 Aðalráðstefna

Jesús frá Nasaret er hinn upprisni frelsari og ég ber vitni um allt sem fylgt hefur í kjölfar þeirrar staðreyndar sem upprisan er.

Algjör ósigur og örvænting kom yfir lærisveina Jesú, er hann þjáðist og dó á krossinum og líkami hans var færður lífvana í gröfina. Þótt frelsarinn hefði endurtekið sagt fyrir um dauða sinn og upprisu þar á eftir, höfðu þeir ekki skilið. Á eftir hinu dimma síðdegi krossfestingar hans, rann þó upp hinn gleðilegi morgunn upprisu hans. Sú gleði varð ekki að veruleika fyrr en lærisveinar hans höfðu orðið sjónarvottar að upprisunni, því í fyrstu reyndist þeim jafnvel erfitt að skilja yfirlýsingu engla - hún var einfaldlega svo fordæmislaus.

María Magdalena og nokkrar trúfastar konur fóru árla á þessum sunnudagsmorgni að gröf frelsarans, með ilmjurtir og smyrsl til að ljúka við að smyrja líkama Drottins, eftir flýtinn við að koma honum í gröfina áður en hvíldardagur rynni upp. Á þessum mikilvæga morgni stóð gröfin opin, steininum hafði verið velt frá munanum og tveir englar lýstu yfir:

„Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra?

Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu.

Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi.1

Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá.

Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum.“2

María leit inn í gröfina, líkt og engillinn hafði boðið henni, og svo virtist sem að hún hugsaði aðeins um að líkami Drottins væri horfinn. Hún flýtti sér til að greina postulunum frá þessu, kom að Pétri og Jóhannesi og sagði: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann.“3 Pétur og Jóhannes hlupu að staðnum og staðfestu að gröfin væri vissulega tóm, og sáu „línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans … sér samanvafinn á öðrum stað.“4 Jóhannes var greinilega fyrstur til að skilja hinn undursamlega boðskap upprisunnar. Hann ritaði að „hann sá og trúði,“ en hinir „höfðu ekki enn skilið ritninguna, að [Jesús] ætti að rísa upp frá dauðum.“5

Pétur og Jóhannes fóru í burtu, en María varð eftir og syrgði áfram. Á meðan á þessu stóð höfðu englarnir komið aftur og spurðu hana: „Kona, hví grætur þú? Hún svaraði: Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann.“6 Á þeirri stundu stóð hinn upprisni frelsari fyrir aftan hana og sagði: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú? Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann:, Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann.‘“7

Öldungur James E. Talmage ritaði: „Það var Jesús sem hún talaði við, hennar ástkæri Drottinn, þótt henni væri það ekki ljóst. Eitt orð af hans munni breytti angist hennar og sorg í innilega gleði. „Jesús segir við hana:, María!‘“ Rödd hans, hinn ljúfi hljómur hennar, sem hún hafði heyrt og var henni svo kær áður fyrr, lyfti henni úr djúpi örvæntingar, er hún hafði fallið í. Hún snéri sér við og sá Drottin. Gagntekin af gleði rétti hún út armana til að faðma hann og sagði aðeins hin hjartfólgnu og lofgjörðarfullu orð:, Rabbúní,‘ sem þýðir minn kæri meistari.“8

Þessi blessaða kona varð fyrsti jarðarbúinn til að sjá og tala við hinn upprisna Krist. Síðar sama dag birtist hann Pétri í eða nærri Jerúsalem;9 lærisveinunum tveimur á veginum til Emmaus;10 og um kvöldið birtist hann skyndilega tíu postulunum og fleirum og sagði: „Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að.“11 Til að sannfæra þá enn betur, því „enn gátu þeir ekki trúað fyrir fögnuði og voru furðu lostnir,“12 þá borðaði hann steiktan fisk og vaxköku frammi fyrir þeim.13 Síðar bauð hann þeim: „Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“14

Auk þessara staðfestu atburða í Jerúsalem, þá búum við líka að hinni óviðjafnanlegu þjónustu sem hinn upprisni Drottinn veitti íbúum Vesturheims. Hann sté niður af himni í landi Gnægtarbrunns og bauð mannfjöldanum þar, um 2.500 manns, að koma einn af öðrum uns allir höfðu komið og þrýst höndum sínum í síðu hans og fundið naglaförin á höndum hans og fótum.15

„Og þegar allir höfðu gengið fram og sannfærst, var hrópað einum rómi og sagt:

Hósanna! Blessað sé nafn Guðs hins æðsta! Og fólkið féll að fótum Jesú og tilbað hann.“16

Upprisa Krists sýnir að tilvera hans er óháð og ævarandi. „Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér.“17 Jesús sagði:

„Fyrir því elskar faðirinn mig, að ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur.

Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur.“18

Frelsarinn er ekki háður mat eða vatni eða súrefni eða nokkru öðru efni, krafti eða einstaklingi til að lifa. Bæði sem Jehóva og Messías, þá er hann hinn mikli ÉG ER, Guð, óháður öllu öðru.19 Hann einfaldlega er og mun alltaf verða.

Með friðþægingu sinni og upprisu hefur Jesús Kristur sigrast á öllum þáttum fallsins. Líkamlegur dauði verður tímabundinn og jafnvel andlegum dauða líkur með því að allt mun aftur koma í návist Guðs, að minnsta kosti tímabundið, til að taka á móti dómi. Við getum fullkomlega reitt okkur á máttinn hans til að sigrast á öllu öðru og sjá okkur fyrir eilífu lífi.

„Því að þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann.

Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða.“20

Með orðum öldungs Neal A. Maxwell: „Sigur Krists á dauðanum batt enda á hina erfiðu stöðu mannkyns. Nú eru erfiðleikarnir aðeins persónulegir og þeir geta stuðlað að björgun okkar, ef við lifum eftir kenningum hans, sem bjargaði okkur frá aldauða.“21

Kristur hefur nú fullnægt kröfum réttvísinnar og sett sig sjálfan í stað réttvísinnar; eða við gætum sagt að hann sé réttvísin, á sama hátt og hann er kærleikurinn.22 Á sama hátt og hann er fullkominn og réttvís Guð, þá er hann líka fullkominn og miskunnsamur Guð.23 Frelsarinn færir þannig allt í rétt horf. Ekkert ranglæti jarðlífsins verður varanlegt, jafnvel dauðinn, því hann mun endurreisa lífið. Engin meingjörð, vanhæfni, sviksemi eða misnotkun verður látin óátalin, vegna hans endanlegu réttvísi og miskunnar.

Af sömu ástæðu, þá þurfum við að gera honum skil á lífi okkar, vali og verkum, jafnvel hugsunum. Líf okkar er í raun í hans höndum, þar sem hann hefur endurleyst okkur frá fallinu. Hann lýsti yfir:

„Sjá, ég hef gefið yður fagnaðarerindi mitt, og þetta er fagnaðarerindið, sem ég hef gefið yður - að ég kom í heiminn til að gjöra vilja föður míns, vegna þess að faðir minn sendi mig.

Og faðir minn sendi mig, til þess að mér yrði lyft upp á krossinum. Til þess að ég gæti dregið alla menn til mín, eftir að mér hefði verið lyft upp á krossinum, og á sama hátt og mennirnir hefðu lyft mér mundi faðirinn lyfta mönnunum upp til að standa frammi fyrir mér og verða dæmdir af verkum sínum.“24

Íhugið eitt augnablik, mikilvægi upprisunnar í því að staðfesta, í eitt skipti fyrir öll, hið sanna auðkenni Jesú frá Nasaret og að leysa miklar heimspekideilur og svara spurningum lífsins. Hafi Kristur í raun bókstaflega risið upp, hlýtur það að benda til þess að hann sé guðleg vera. Enginn dauðlegur maður getur á eigin spýtur lifað aftur, eftir að hafa dáið. Þar sem Jesús reis upp, þá hefur hann ekki aðeins verið trésmiður, kennari, rabbíni eða spámaður. Þar sem Jesús reis upp, hlýtur hann að hafa verið Guð, Já, hinn eingetni sonur föðurins.

Það sem hann kenndi er því sannleikur; Guð getur ekki logið.25

Hann var því skapari þessarar jarðar, líkt og hann sagði.26

Himin og helja eru því raunveruleg, líkt og hann kenndi.27

Það er því til andaheimur, sem hann vitjaði eftir dauða sinn.28

Hann mun því koma aftur, líkt og englarnir sögðu,29 og „ríkja sjálfur á jörðu.”30

Þess vegna er upprisa og lokadómur fyrir alla.31

Þar sem raunveruleiki upprisu Krists er okkur gefinn, þá eiga efasemdir um almætti, alvisku og góðvild Guðs föðurins - sem gaf sinn eingetna son til endurlausnar heimsins - ekki við rök að styðjast. Efasemdir um tilgang og inntak lífsins eru tilefnislausar. Jesús Kristur er í raun eina nafnið eða eini vegurinn sem mannkynið getur hlotið hjálpræði fyrir. Náð Krists er raunveruleg. Hún veitir bæði fyrirgefningu og hreinsar hinn iðrandi syndara. Trú er sannlega meira en ímyndun eða sálfræðilegur tilbúningur. Það er til endanlegur og altækur sannleikur og það eru til afmarkandi og óumbreytanlegir siðferðisstaðlar, líkt og hann kenndi.

Sé gengið út frá raunveruleika upprisu Krists, þá er iðrun hvers kyns brota á lögmálum og boðorðum hans bæði möguleg og brýn. Kraftaverk frelsarans voru raunveruleg, sem og loforð hans til lærisveina sinna um að þeir gætu líka gert þau og jafnvel enn undursamlegri verk.32 Prestdæmið hans er nauðsynlegur og raunverulegur kraftur, sem „framkvæmir fagnaðarerindið og heldur lyklinum að leyndardómum ríkisins, já, lyklinum að þekkingu Guðs. Í helgiathöfnum þess opinberast því kraftur guðleikans.“33 Þar sem raunveruleiki upprisu Krists er okkur gefinn, er dauðinn ekki endalok okkar, og þótt „húð okkar verði sundurtætt og allt hold af okkur, munum við samt líta Guð í holdinu.“34

Thomas S. Monson forseti sagði frá því að „í bók sinni, God and My Neighbor, fyrir 100 árum síðan, hafi Robert Blatchford ráðist harkalega á viðtekin kristin trúargildi, svo sem Guð, Krist, bænina og ódauðleikann. Hann sagði kotroskinn: „Ég tel mig hafa sannað allt sem ég hef sett fram, svo fullkomlega að enginn kristinn maður, sama hve mikill eða fær hann kann að vera, geti mótmælt rökum mínum eða hrakið mál mitt.“ Hann hlóð í kringum sig múr efagirni. Þá gerðist hið undarlega. Múrinn hans brast skyndilega og hrundi. … Hægt og sígandi tók hann að þreifa sig til baka til þeirrar trúar sem hann hafði smánað og spottað. Hvað olli þessari miklu breytingu á viðhorfi hans? Eiginkona hans [hafði] látist. Með sundurkramið hjarta fór hann inn í bergið þar sem jarðneskar leifar hennar lágu. Hann leit á ný á andlitið sem hann elskaði svo heitt. Þegar hann kom út sagði hann við einn vin sinn: „Hún er þar, en samt ekki þar. Allt er breytt. Eitthvað sem var þar áður er nú horfið. Hún er ekki sú sama. Hvað hefur horfið ef það er ekki sálin?“35

Er það í raun svo að Drottinn dó og reis upp aftur? Já. „Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn, og reis upp á þriðja degi og sté upp til himins; og allt annað í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki við það.“36

Þegar dró að fæðingu Jesú, sem spáð hafði verið fyrir um, trúðu sumir meðal Nefíta og Lamaníta, en flestir efuðust. Á tilsettum tíma birtust táknin um fæðingu hans - dagur og nótt og dagur án myrkurs - og allir vissu.37 Jafnvel í dag trúa sumir á bókstaflega upprisu Krists, en margir efast eða trúa ekki. Sumir gera það. Á tilsettum tíma munu allir sjá og vita; já, „sérhvert kné mun beygja sig og sérhver tunga gjöra játningu fyrir honum.“38

Fram að því reiði ég mig á hin mörgu vitni að upprisu frelsarans, hvers reynsla og vitnisburður eru skráð í Nýja testamentinu - Pétur og félaga meðal hinna Tólf og hinna ástkæru og hreinu Maríu Magdalenu og aðra. Ég trúi vitnisburðunum í Mormónsbók - postulans Nefís með hinum ónafngreinda mannfjölda í landi Gnægtarbrunns, og annarra. Ég trúi vitnisburði Josephs Smith og Sidneys Rigdon, sem, í kjölfar ótal annarra vitnisburða, lýstu yfir hinum undursamlega vitnisburði síðustu ráðstöfunarinnar: „Að hann lifir! Því að við sáum hann.“39 Undir alsjáandi augliti hans, er ég sjálfur vitni um að Jesús frá Nasaret er hinn upprisni frelsari og ég ber vitni um allt sem fylgt hefur í kjölfar þeirrar staðreyndar sem upprisan er. Ég bið þess að þið megið hljóta sannfæringu og hughreystingu þessa sama vitnis, í nafni Jesú Krists, amen.

Sýna tilvísanirFela tilvísanir