2010–2019
Uns við hittumst á ný
Apríl 2014


Uns við hittumst á ný

Megi sá andi sem við höfum fundið hér meðal okkur undanfarna tvo daga, vera með okkur er við tökumst á við okkar daglega líf.

Bræður mínir og systur, þetta hefur verið dásamleg ráðstefna. Við höfum verið andlega nærð af innblásnum orðum þeirra manna og kvenna sem hafa talað til okkar. Tónlistin hefur verið stórkostleg, boðskapurinn hefur verið undirbúinn og fluttur með hvatningu heilags anda og bænirnar hafa fært okkur nær himnum. Okkur hefur verið lyft upp á allan mögulegan máta er við höfum sameiginlega tekið þátt.

Ég vona að við gefum okkur tíma til að lesa ráðstefnuræðurnar sem verða tiltækar á LDS.org innan næstu daga og þegar þær verða gefnar út í nóvember útgáfu tímaritanna Ensign og Líahóna, því þær verðskulda að við gefum þeim vandlega gaum.

Ég veit að þið takið þátt í því með mér að láta í ljós einlægt þakklæti okkar til þeirra bræðra og systra sem voru leyst frá störfum á þessari ráðstefnu. Þau hafa þjónað vel og lagt umtalsvert af mörkum til verks Drottins. Trúmennska þeirra hefur verið algjör.

Við höfum einnig stutt með uppréttri hendi þá bræður sem kallaðir hafa verið í ný embætti á þessari ráðstefnu. Við bjóðum þá velkomna og viljum láta þá vita að við hlökkum öll til að starfa með þeim að málstað meistarans.

Er við hugleiðum þann boðskap sem við höfum meðtekið, megum við taka ákvörðun um að gera örlítið betur en við höfum gert hingað til. Megum við vera vingjarnleg og ástúðleg við þá sem ekki eru okkar trúar og lifa ekki eftir okkar stöðlum. Frelsarinn kom með boðskap góðvildar og kærleika til þessarar jarðar, til allra karla og kvenna. Megum við ætíð fylgja fordæmi hans.

Við stöndum frammi fyrir ótal alvarlegum áskorunum í heiminum í dag, en ég fullvissa ykkur um að himneskur faðir er minnugur okkar. Hann mun leiða okkur og blessa þegar við setjum trú okkar og traust á hann ásamt því að hjálpa okkur í gegnum hvaða erfiðleika sem framundan eru.

Megi blessanir himins vera með okkur öllum. Megi heimili okkar fyllast elsku og háttprýði og anda Drottins. Megum við stöðugt næra vitnisburð okkar um fagnaðarerindið, svo hann veiti okkur vernd gegn andstæðingnum. Megi sá andi sem við höfum skynjað þessa undanfarna tvo daga vera með okkur áfram er við höldum áfram með okkar daglegu verk og megum við ætíð vera að vinna verk Drottins.

Ég ber vitni um að þetta verk er sannleikur, að frelsari okkar lifir og að hann leiðbeinir og stjórnar kirkju sinni hér á jörðu. Ég skil eftir hjá ykkur mitt vitni og minn vitnisburð að Guð, eilífur faðir okkar, lifir og elskar okkur. Hann er í raun faðir okkar og hann er persónulegur og raunverulegur. Megum við gera okkur grein fyrir því hve nærri okkur hann vill vera, hve langt hann er tilbúinn að fara til að aðstoða okkur og hve mikið hann elskar okkur.

Megi Guð blessa ykkur, bræður mínir og systur. Megi hans friður, sem hann hefur lofað okkur, vera með ykkur í dag og ævinlega.

Ég kveð ykkur uns við hittumst aftur að sex mánuðum liðnum og ég geri svo í nafni Jesú Krists, Drottins vor og frelsara, amen.