2010–2019
Velkomin á ráðstefnu
Apríl 2014


Velkomin á ráðstefnu

Við erum … sameinuð í trú okkar og þrá til að hlusta á og læra af boðskap þeim sem okkur verður færður.

Kæru bræður og systur, hve ég gleðst yfir því að bjóða ykkur velkomin á heims-aðalráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Við erum samankomin sem ein stór fjölskylda, rúmlega 15 milljónir, sameinuð í trú okkar og þrá til að hlusta á og læra af boðskap þeim sem okkur verður færður.

Síðastliðnir sex mánuðir hafa liðið hratt er starf kirkjunnar hefur haldið óhindrað áfram. Fyrir rétt rúmum mánuði voru það forréttindi mín að fá að vígja Gilbert musterið í Arisóna - stórfengleg bygging. Menningarhátíð var haldinn kvöldið fyrir vígsluna í Discovery Park garðinum, sem er þar nálægur. Tólf þúsund ungmenni sýndu atriði og var dagskráin 90 mínútna löng. Dansinn, söngurinn og tónlistarflutningurinn var framúrskarandi.

Á þessu svæði hafði verið mikill þurrkur og ég trúi því að bænir margra hafi verið sendar til himins á undanfarandi vikum, þar sem óskað var eftir rigningu. Því miður kom rigningin rétt áður en dagskráin hófst og stóð yfir allan tímann. Við fundum öll fyrir anda Drottins, þrátt fyrir að ungdómurinn hefði verið rennandi blautur og kaldur af verðráttunni. Þema dagskrárinnar, „Verið sönn í trúnni“ - hugleiðið það: „Verið sönn í trúnni,“ var túlkað á stórkostlegan hátt af brosandi og áköfum piltum og stúlkum. Þetta var trúarvekjandi og innblásin upplifun sem þetta unga fólk mun ætíð minnast, þrátt fyrir kuldann og rigninguna, og sögur verða sagðar börnum og barnabörnum um ókomin ár.

Vígsla Gilbert musterisins í Arisóna átti sér stað næsta dag. Það varð 142. starfrækta musteri kirkjunnar. Ólíkt deginum á undan þá var þessi dagur fallegur með glaða sólskini. Vígsluhlutarnir voru sannlega innblásnir. Með mér voru Henry B. Eyring forseti, öldungur og systir Tad R. Callister, öldungur og systir William R. Walker og öldungur og systir Kent F. Richards.

Fort Lauderdale musterið í Flórída verður vígt í maímánuði. Önnur musteri verða fullgerð og vígð síðar á þessu ári. Við væntum þess að á árinu 2015 muni ný musteri vera fullgerð og vígð víðs vegar um heim. Þetta ferli mun halda áfram. Þegar byggingu allra mustera, sem tilkynnt hefur verið um, verður lokið, þá munum við hafa 170 starfandi musteri um heim allan.

Þótt við séum nú að beina kröftum okkar að því að ljúka þeim musterum sem þegar eru ráðgerð, og við munum ekki tilkynna nein ný musteri í nánustu framtíð, þá munum við halda áfram að meta þörfina og finna staðsetningar fyrir musteri sem síðar munu rísa. Tilkynningar verða síðan gefnar á aðalráðstefnum í framtíðinni. Við erum fólk sem byggir og sækir musteri.

Bræður og systur, við erum spennt að fá að heyra þann boðskap sem okkur verður fluttur í dag og á morgun. Þau sem tala til okkar hafa leitað hjálpar og leiðsagnar himins, er þau hafa undirbúið boðskap sinn.

Megum við öll - hér og annarsstaðar - vera fyllt anda Drottins, uppbyggjast og hljóta innblástur er við hlustum og lærum. Í nafni Jesú Krists, frelsara okkar, amen.