Sleppa aðallóðsun
Apríl 2014 | Hvað finnst þér?

Hvað finnst þér?

Apríl 2014 Aðalráðstefna

Ég bið þess að þið gerið að vana að spyrja þessarar spurningar, af ljúfri tillitsemi við upplifun annarra: „Hvað finnst þér?“

Fyrir fjörutíu árum steig ég upp í bílstjórasæti 18 hjóla vöruflutningabíls, ásamt minni fallegu eiginkonu, Jan, og syni okkar Scotty, sem var ungabarn. Við þurftum að aka um nokkur fylki með hlass af byggingaefni.

Á þessum tíma voru engar reglugerðir um öryggisbelti eða barnabílstóla. Eiginkona mín hélt á dýrmætum syni okkar í fanginu. Ábending hennar: „Við sitjum mjög hátt yfir veginum,“ hefði átt að vera mér vísbending um beyg hennar og kvíða.

Þegar við fórum upp hið sögufræga Donner Pass, brattlendi sem þjóðvegurinn lá um, fylltist bílstjórahúsið skyndilega af þykkum reyk. Við sáum ekki vel og áttum erfitt með að anda.

Bremsurnar einar og sér dugðu ekki til að draga skyndilega úr hraðanum. Ég notaði vélarbremsuna og gíraði í óðagoti niður til að ná að stöðva.

Þegar ég var í þann mund að stöðva við vegbrúnina, en þó ekki fyllilega, opnaði eiginkona mín dyrnar og stökk út með barnið í fanginu. Ég horfði á þau hjálparvana steypast niður í aurinn.

Um leið og bíllinn hafði stöðvast, stökk ég út úr reykfylltu stýrishúsinu. Ég hljóp yfir steina og illgresi með hjartað í buxunum og tók þau í fangið. Framhandleggir og olnbogar Jans höfðu hruflast svo úr þeim blæddi, en til allrar lukku voru hún og sonur minn lifandi. Ég hélt þeim þétt að mér þarna við vegbrúnina meðan rykið hjaðnaði.

Þegar ég hafði náð andanum og róast niður, glopraði ég út úr mér: „Hvað í ósköpunum varstu að hugsa? Veistu ekki hve hættulegt er að gera þetta? Þú hefðir getað beðið bana!“

Hún horfði á mig með tár rennandi niður sótuga vangana og sagði nokkuð sem stakk mig í hjartað og ómar enn í eyrum mínum: „Ég var bara að reyna að bjarga syni okkar.“

Á þessu andartaki varð mér ljóst að hún taldi eld hafa komið upp í vélinni, svo bíllinn spryngi og við létum lífið. Mér var hins vegar ljóst að um rafmagnsbilun væri að ræða - hættulega en þó ekki banvæna. Ég horfði á kæra eiginkonu mína, strauk höfuð litla sonar okkar blíðlega og velti fyrir mér hverskonar kona sýndi slík hugdjörf viðbrögð.

Þessar aðstæður hefðu getað leitt til tilfinningalegra ásakana, ekki síður hættulegri en vélarbilunin sjálf. Til allrar lukku, eftir að hafa verið þögul um stund, og hafandi bæði kennt hinu um mistökin, létum við loks hinar raunverulegu tilfinningar í ljós sem ólguðu undir niðri eftir hamaganginn. Ástúðlegar og óttablandnar tilfinningar sem við tjáðum hvort öðru yfir að öryggi okkar hefði verið ógnað, kom í veg fyrir að þetta hættulega atvik yrði skaðlegt okkar dýrmæta hjónabandi.

Páll aðvaraði: „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar … til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra“ (Efe 4:29). Orð hans enduróma ákveðinn hreinleika.

Hver finnst ykkur vera merking orðanna „ekkert skaðlegt orð“? Við upplifum öll reglubundið sterkar tilfinningar reiðinnar - okkar eigin og annarra. Við höfum séð hömlulausa reiði gjósa upp meðal almennings. Við höfum upplifað reiði sem einhvers konar tilfinningalegt „skammhlaup“ á íþrótta- eða stjórnmálaviðburðum og jafnvel á heimilum okkar.

Börn mæla stundum við foreldra sína á tungu sem beittari er en hnífsblað. Hjón sem átt hafa saman einhverjar dásamlegustu og innilegustu stundir lífsins, tapa áttum og missa þolinmæði gagnvart hvort öðru og hækka róminn. Öll höfum við harmað að hafa stökkið hvatvíslega úr háu sæti sjálfsréttlætis og áfellisdóma, þótt við séum sáttmálsbörn ástkærs himnesks föður, og mælt hörð orð áður en við sáum aðstæður með augum annarra. Öll höfum við fengið tækifæri til að læra hvernig skaðleg orð geta breytt slæmum aðstæðum í vonlausar.

Í nýlegu bréfi frá Æðsta forsætisráðinu segir skýrt: „Fagnaðarerindi Jesú Krists kennir okkur að elska alla menn og sýna þeim góðvild og háttvísi - jafnvel þó við séum þeim ósammála“ (bréf Æðsta forsætisráðsins, 10. jan 2014). Hve skýr boð um að við getum og ættum að taka þátt í áframhaldandi samfélagsumræðu, einkum þegar við sjáum heiminn með ólíkum augum.

Höfundur Orðskviðana segir: „Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði“ (Okv 15:1). „Mjúklegt andsvar“ er skynsamlegt svar - agaður málflutningur hins auðmjúka hjarta. Það merkir ekki að við mælum aldrei beinskeytt eða að við drögum úr gildi sannleikskenninga. Staðföst afstaða getur verið ljúf í anda.

Í Mormónsbók er sláandi dæmi um staðfast málfar sem líka tengist hjónaerjum. Synir Saríu og Lehís höfðu verið sendir aftur til Jerúsalem til að ná í látúnstöflurnar og ekki snúið til baka. Saría taldi syni sína hafa skaðast, svo hún fylltist reiði og þurfti að áfellast einhvern.

Hlustið á frásögnina út frá sjónarhorni sonar hennar, Nefís: „[Móðir mín] taldi, að við höfðum orðið óbyggðunum að bráð. Og hún átaldi einnig föður minn fyrir vitranir hans og sýnir og mælti: Sjá. Þú hefur leitt okkur burt frá erfðalandi okkar, synir okkar eru ekki lengur í tölu lifenda, og við munum farast í óbyggðunum.“ (1 Ne 5:2).

Við skulum nú íhuga hvað Saría kann að hafa hugsað. Hún var afar áhyggjufull yfir því að hinir þrasgjörnu synir hennar færu aftur til þess staðar þar sem lífi eiginmanns hennar hafði verið ógnað. Hún hafði líka yfirgefið heimili sitt og vini fyrir tjald langt úti í óbyggðum, enn á barnseignarárum sínum. Að því komin að láta bugast af ótta, virtist Saría hafa stokkið, af hugrekki, ef ekki af rökvísi, út úr vöruflutningabíl á ferð, til að reyna að bjarga fjölskyldu sinni. Hún segir eiginmanni sínum reiðilega frá réttmætum áhyggjum sínum af efa og áfellisdómi - sem er tjáningarmáti sem öllu mannkyni virðist svo tamt á að nota.

Spámaðurinn Lehí hlustaði á það sem hrætt hafði eiginkonu hans og vakið reiði hennar. Hann svaraði síðan samúðarfullur af rósemd. Fyrst játaði hann sannleikann um það hvernig hlutirnir litu út frá hennar sjónarhorni: „Og … faðir minn tók til máls og sagði við hana: Ég veit, að ég fæ vitranir. … [en ef ég] hefði dvalið áfram í Jerúsalem, [hefðum við] farist með bræðrum mínum“ (1 Ne 5:4).

Eiginmaður hennar var meðvitaður um ótta hennar varðandi velferð sona þeirra, líkt og heilagur andi hefur án efa vitnað fyrir honum:

„En sjá. Land fyrirheitisins er mitt, og yfir því gleðst ég. Já, og ég veit, að Drottinn mun bjarga sonum mínum úr höndum Labans. …

Og með þessum orðum hughreysti … faðir minn, móður mína … varðandi afdrif okkar“ (1 Ne 5:5–6).

Á okkar tíma er mikil þörf á að karlar og konur sýni hvert öðru virðingu þegar mikið greinir á í trúarskoðunum og breytni og gjárnar eru djúpar í deilumálum. Ómögulegt er að þekkja allt sem í hugum og hjörtum okkar dvelur eða jafnvel að skilja fyllilega ástæður prófauna okkar og valkostanna sem við stöndum frammi fyrir.

Engu að síður, hvað yrði um hið „skaðlega orð“ sem Páll nefndi, ef okkar eigin afstaða byrjaði fyrst á samhyggð gagnvart öðrum. ? Um leið og ég viðurkenni eigin ófullkomleika og hrjúfleika, bið ég þess að þið gerið að vana að spyrja þessarar spurningar, af ljúfri tillitsemi við upplifun annarra: „Hvað finnst þér?“

Munið þið eftir því þegar Drottinn vakti undrun Samúels og Sáls með því að velja ungan hirðingjadreng, Davíð frá Betlehem, sem konung Ísraels? Spámaður hans útskýrði: „Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað“ (1 Sam 16:7).

Þegar stýrishúsið fylltist af reyk, brást eiginkona mín við af sínu mesta hugsanlega hugrekki til að vernda son okkar. Ég brást líka við sem verndari með því að draga þá ákvörðun hennar í efa. Það skipti engu hvort okkar hafði á réttu að standa. Það sem var mikilvægara var að hlusta á og skilja hvort annað.

Fúsleiki til að skilja hvert annað, mun gera „skaðlegt orð“ að engu, svo „það verði til góðs.“ Páll postuli skildi það og öll getum við upplifað það líka að einhverju marki. Ekki er víst að það auðveldi eða leysi vandann, en sá kostur kann að vera mikilvægari að „það verði [okkur] til góðs.“

Ég ber auðmjúkur vitni um, að þegar hin ræktaða gjöf heilags anda fyllir hjarta okkar af umhyggju fyrir líðan og aðstæðum annarra, getum við með ljúfu og tillitsömu málfari talað svo að „það verði til góðs.“ Hann gerir okkur kleift að breyta tvísýnum aðstæðum í heilaga staði. Ég ber vitni um kærleiksríkan frelsara, sem „lítur á hjartað“ okkar og lætur sér annt um hugsanir okkar. Í nafni Jesú Krists, amen.