2010–2019
Áframhaldandi opinberanir
október 2014


Áframhaldandi opinberanir

Mannlegt mat og rökhugsun verður ekki nægilegt til að fá svör við þeim spurningum sem skipta mestu máli í lífinu. Við þörfnumst opinberana frá Guði.

Von mín fyrir okkur í dag, er að við getum öll fundið elsku og ljós frá Guði. Það eru margir að hlusta í dag sem finna fyrir aukinni þörf fyrir blessun persónulegra opinberana frá kærleiksríkum himneskum föður.

Fyrir trúboðsforseta gæti það verið einlæg bæn um það hvernig hægt er að hvetja trúboða sem á í basli. Í tilfelli föður eða móður á stríðshrjáðum svæðum í heiminum þá væri það örvæntingarfull þörf um að vita hvort þau ættu að flytja fjölskylduna á öruggari stað eða vera áfram á sama stað. Hundruðir stikuforseta og biskupa biðja í dag um það að vita hvernig þeir eigi að aðstoða Drottinn við að bjarga týndum sauði. Hvað varðar spámanninn þá væri það að vita hvað Drottinn myndi vilja að hann segði við kirkjuna og við heim sem er í uppnámi.

Við vitum öll að mannlegt mat og rökhugsun verður ekki nægilegt til að fá svör við þeim spurningum sem skipta mestu máli í lífinu. Við þörfnumst opinberana frá Guði. Við munum ekki bara þurfa eina opinberun á erfiðleikatíma heldur stöðugt, endurtekið streymi. Við þörfnumst ekki bara eins ljósblossa og huggunar heldur áframhaldandi blessana af samskiptum við Guð.

Tilvist kirkjunnar er raunveruleg vegna ungs drengs sem vissi að þetta var staðreynd. Hinn ungi Joseph Smith var meðvitaður um að hann gæti ekki vitað það af eigin raun hvaða kirkja væri sönn. Því spurði hann Guð eins og honum hafði verið sagt í Jakobsbréfi að hann gæti gert. Guð faðirinn og hans elskaði sonur birtust honum í trjálundi. Þeir svöruðu spurningunni sem var Joseph um megn að leysa.

Hann var þá ekki einungis kallaður til að stofna hina sönnu kirkju Jesú Krists hér á jörðunni, heldur einnig til að endurreisa þann kraft að kalla á heilagan anda svo að opinberanir frá Guði gætu verið áframhaldandi.

Boyd K. Packer forseti lýsti einkenni hinnar sönnu kirkju á þennan máta: „Opinberun er stöðug í kirkjunni; spámaðurinn meðtekur hana fyrir kirkjuna; forsetinn fyrir stikuna, trúboðið eða prestdæmissveitina; biskupinn fyrir deildina; faðirinn fyrir fjölskylduna og einstaklingurinn fyrir sig sjálfan.“1

Þetta undursamlega ferli hefst, endar og heldur áfram er við meðtökum persónulega opinberun. Tökum hinn mikla Nefí, son Lehí sem dæmi. Faðir hans fékk draum. Aðrir í fjölskyldu Nefís litu á draum Lehís sem sönnun á geðrænum vandamálum. Draumurinn innihélt boð frá Guði til Lehís um að synir hans ættu að setja sig í mikla hættu við að snúa aftur til Jerúsalem til að ná í plöturnar sem innihéldu orð Guðs, svo að þeir gætu tekið þær með sér í ferðina til fyrirheitna landsins.

Við vitnum oft í frækna yfirlýsingu Nefís þegar faðir hans bað þá um að fara aftur til Jerúsalem. Þið þekkið orðin: „Ég mun fara og gjöra það sem Drottinn hefur boðið“2

Þegar Lehí heyrði Nefí segja þessi orð, segir í ritningunum að „þá varð hann yfir sig glaður“3 Hann varð glaður vegna þess að hann vissi að Nefí hefði verið blessaður með staðfestandi opinberun um að draumur föður hans væri vegna raunverulegra samskipta við Guð. Nefí sagði ekki: „Ég skal fara og gera það sem faðir minn hefur sagt mér að gera.“ Heldur sagði hann: „Ég mun fara og gjöra það sem Drottinn hefur boðið.“

Af ykkar eigin reynslu, frá ykkar fjölskyldum, þá vitið þið líka af hverju Lehí „varð... yfir sig glaður.“ Gleði hans kom frá því að vita að Nefí hefði fengið staðfestandi opinberun.

Margir foreldrar hafa sett reglur um útivistarbann fyrir unglingana á kvöldin. Hugsið um þá gleði þegar foreldri gerir sér grein fyrir því að barn sem var nýflutt að heiman hefði ekki einungis sett sér sjálft útivistarbann heldur einnig haldið hvíldardaginn heilagan, eins og gerðist nýlega. Opinberun foreldris hefur varanleg áhrif í persónulegum opinberunum sem halda áfram hjá barninu.

Móðir mín hlýtur að hafa skilið lögmál opinberana. Sem ungur maður lokaði ég bakhurðinni hljóðlega þegar ég kom heim seint að kvöldi. Ég varð að ganga fram hjá herbergi móður minnar á leið minni í mitt herbergi. Það var sama hve hljóðlega ég gekk, um leið og ég gekk fram hjá hálfluktri dyr hennar heyrði ég nafn mitt, mjög hljóðlega: „Hal. Komdu aðeins inn.“

Ég fór inn og settist á rúmbríkina hjá henni. Herbergið var í myrkri. Ef þið hefðuð hlustað þá hefðuð þið haldið að þetta væri bara vinsamleg samræða um lífið. Í dag, þá kemur hins vegar það sem hún sagði við mig, aftur upp í huga minn með sama krafti og ég finn þegar ég les handrit patríarkablessunar minnar.

Ég veit ekki hvað hún baðst fyrir um í bænum sínum er hún beið eftir mér þessi kvöld. Ég býst við því að það hafi að hluta til verið fyrir öryggi mínu. Hins vegar er ég viss um að hún bað, á sama hátt og patríarki gerir áður en hann veitir blessun. Hann biður þess að orð hans muni koma til viðtakans eins og orð Guðs, en ekki hans eigin. Bænum móður minnar fyrir þeirri blessun var svarað á höfði mínu. Hún er í andaheimum og hefur verið þar í meira en 40 ár. Ég er viss um að hún hefur verið yfir sig glöð að ég var blessaður með því að heyra boð Guðs í orðum hennar, eins og hún bað um. Í framhaldi hef ég reynt að fara og framkvæma eins og hún vonaðist til að ég myndi gera.

Ég hef séð sama kraftaverk áframhaldandi opinberana hjá stikuforsetum og biskupum í kirkjunni. Á sama hátt og það er í opinberunum til fjölskylduleiðtoga þá byggir virði opinberanana á þeim sem eru leiddir með því að meðtaka staðfestandi opinberanir.

Ég sá það kraftaverk opinberana eftir að Teton stíflan brast í Idaho, árið 1976. Mörg ykkar þekkið söguna um það sem gerðist. Dæmi um áframhaldandi opinberanir sem fóru í gegnum stikuforseta, urðu til að blessa okkur öll, dagana sem fylgdu á eftir.

Þúsundir manna voru fluttir burt er heimili þeirra eyðilögðust. Það féll á stikuforsetann á svæðinu, sem var bóndi, að stjórna neyðastarfinu. . Ég var staddur í kennslustofu í Ricks háskólanum nokkrum dögum eftir hamfarirnar. Leiðtogi frá almannavörnum alríkisstjórnarinnar var kominn á staðinn. Hann og aðal aðstoðarmenn hans komu inn í stórt herbergi þar sem stikuforsetinn hafði safnað biskupum og nokkrum fulltrúum annarra trúfélaga saman. Ég var á staðnum vegna þess að margir þeirra sem höfðu lifað af, þáðu húsnæði og aðstoð á skólalóðinni og ég var forseti skólans.

Þegar fundurinn hófst stóð fulltrúi almannavarna upp og byrjaði að tala með valdsmannslegri rödd um það sem þyrfti að gera. Eftir að hafa talið upp fimm eða sex atriði sem hann sagði vera nauðsynlega þá svaraði stikuforsetinn hljóðlega: „Við erum þegar búnir að gera þetta.“

Eftir smá stund þá sagði maðurinn frá almannavörnum: „Ég held að ég muni bara setjast niður og fylgjast með í smá stund.“ Hann og fulltrúar hans hlustuðu því næst á er biskupar og öldungarsveitaforsetar gáfu skýrslur um það sem þeir höfðu þegar gert. Þeir lýstu því hvaða leiðsögn þeir hefðu hlotið og fylgt frá leiðtogum sínum. Þeir töluðu líka um það sem þeir hefðu verið innblásnir að gera er þeir fylgdu leiðbeiningum um að finna fjölskyldur og hjálpa þeim Þetta var langt liðið á daginn. Þeir voru allir of þreyttir til að sýna miklar tilfinningar nema umhyggjuna fyrir fólkinu.

Stikuforsetinn gaf biskupunum nokkrar loka ábendingar og því næst tilkynnti hann næsta skýrslufund snemma næsta morgun.

Næsta morgun komu leiðtogar almannavarna 20 mínútum áður en að skýrslu- og verkefnafundurinn átti að hefjast. Ég stóð þar nærri. Ég heyrði hann segja hljóðlega við stikuforsetann:„Forseti, hvað myndir þú vilja að ég og mínir menn myndu gera?“

Það sem maðurinn sá, hef ég séð á tímum hörmunga og erfiðleika um allan heim. Packer forseti hafði rétt fyrir sér. Áframhaldandi opinberanir koma til stikuforseta til að lyfta þeim yfir sína eigin visku og getu. Fram yfir það þá gefur Drottinn þeim sem forsetinn leiðir, staðfestandi vitni um að boð hans komi frá Guði, í gegnum heilagann anda til ófullkominnar manneskju.

Ég hef verið blessaður með að vera kallaður til að fylgja innblásnum leiðtogum meiri hluta ævi minnar. Sem mjög ungur maður var ég kallaður til að vera ráðgjafi öldungarsveitarforseta. Síðan hef ég verið ráðgjafi tveggja umdæmisforseta, Yfirbiskups kirkjunnar, meðlimur í Tólfpostulasveitinni og ráðgjafi tveggja forseta kirkjunnar. Ég hef séð þá meðtaka opinberanir og séð þær svo staðfestar hjá samstarfsmönnum þeirra.

Þessar persónulegu staðfestingaropinberanir, sem við þráum öll að fá, koma ekki auðveldlega eða bara þegar við biðjum um þær. Drottinn gaf þessa staðla fyrir getu þess að meðtaka slíkt vitni frá Guði. Það er leiðsögn til allra sem leita persónulegra opinberana, eins og við verðum öll að gera.

„Lát brjóst þitt og vera fullt af kærleika til allra manna og til heimamanna trúarinnar. Lát dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust, og þá mun traust þitt vaxa og styrkjast í návist Guðs og kenning prestdæmisins falla á sál þína sem dögg af himni.

„Heilagur andi verður þér stöðugur förunautur.“4

Það er þaðan sem ég dreg ráð sem ég vil koma til okkar allra. Ekki taka þeirri kærleikstilfinningu léttúðlega sem þið finnið gagnvart spámanni Guðs. Hvert sem ég fer í kirkjunni þá biðja kirkjuþegnar mig:„Þegar þú kemur aftur í höfuðstöðvar kirkjunnar vilt þú þá láta spámanninn vita hve heitt við elskum hann,“ sama hver spámaðurinn er.

Þetta er talsvert meira en einhverskonar hetjudýrkun eða sú tilfinning þegar við dáumst að einhverjum hetjuímyndum. Þetta er gjöf frá Guði. Með henni munið þið eiga auðveldara með að meðtaka staðfestingu á opinberun þegar hann talar í embætti sínu sem spámaður Drottins. Sá kærleikur sem þið finnið er sá kærleikur sem Drottinn ber til þess sem er talsmaður hans.

Það er ekki auðvelt að skynja þetta stöðugt því að Drottinn biður spámenn sína oft að ráðleggja fólki hluti sem það á erfitt með að samþykkja. Óvinur sálna okkar mun reyna að leiða okkur í að móðgast og efast um guðdómlega köllun spámannsins.

Ég hef séð hvernig heilagur andi getur snert mýkt hjarta og verndað auðmjúkan lærisvein Jesú Krists með staðfestingu á opinberun.

Spámaðurinn sendi mig til að veita manni í fjarlægri lítilli borg, innsiglunarvaldið. Einungis spámaður Guðs hefur lyklana til að ákveða hver meðtekur þennan heilaga kraft, sem Pétur, yfirpostuli, hlaut frá Drottni, Ég hafði hlotið þetta sama innsiglunarvald, en gat einungis veitt öðrum það undir leiðsögn forseta kirkjunnar.

Svo að í herbergi í kirkjubyggingu, langt frá Salt Lake, lagði ég hendur mínar á höfuð manns sem valinn hafði verið af spámanninum til að fá þetta innsiglunarvald. Hendur hans sýndu veðrun tímans eftir að hafa unnið við jörðina við rýr kjör. Smávaxin kona hans sat nálægt honum. Hún sýndi einnig merki áranna, eftir erfiðisvinnu við hlið manns síns.

Ég mælti orðin sem spámaðurinn hafði gefið mér. „Með valdsumboði og ábyrgð frá“ og svo nafn spámannsins, „sem heldur alla lykla prestdæmisins á jörðinni á þessum tíma, þá veiti ég þér“ og ég gaf nafn mannsins „innsiglunarvald“og nafn þess musteris þar sem hann myndi þjóna í sem innsiglari.

Tárin flóðu niður kinnar hans. Ég sá að kona hans grét einnig. Ég beið eftir að þau jöfnuðu sig. Hún stóð upp og steig í áttina til mín. Hún leit upp og sagði uppburðarlítil að hún væri hamingjusöm en einnig sorgmædd. Hún sagði að hún hefði svo unnað því að fara í musterið með eiginmanni sínum en að nú fyndist henni að hún gæti ekki farið með honum þar sem Guð hefði valið hann til svo stórkostlegs og heilags verks. Þá sagði hún að vanmáttartilfinning hennar gagnvart því að vera musterisfélagi hans stemmdi frá því að hún værir ólæs.

Ég fullvissaði hana um að vegna hennar mikla andlega krafts þá væri það manni hennar heiður að hafa hennar félagskap í musterinu. Eftir minni bestu getu, með minni takmörkuðu þekkingu á tungumáli hennar, þá sagði ég henni að Guð hefði opinberað henni hlutum sem væru langt fram yfir jarðneska menntun hennar.

Hún vissi það í gegnum gjöf heilags anda, að í gegnum spámann Guðs þá hefði manni hennar, sem hún elskaði, verið veitt traust af himnum ofan. Hún vissi það að lyklarnir sem veittu þetta innsiglunarvald væru í höndum manns sem hún hefði aldrei séð en samt vissi hún það sjálf að það væri lifandi spámaður Guðs. Hún vissi það án þess að nokkurt lifandi vitni hefði sagt henni það að spámaður hefði beðið varðandi nafn eiginmanns hennar. Hún vissi það sjálf að kallið kom frá Guði.

Hún vissi það einnig að þær athafnir sem maður hennar myndi framkvæma myndu binda fólk saman um alla eilífð í himneska ríkinu. Hún hafi staðfest það í huga sínum og hjarta að loforðið sem Drottinn veitti Pétri héldi enn áfram í kirkjunni. „Hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum.“5 Hún vissi það af eigin raun, í gegnum opinberun frá Guði.

Förum aftur að upphafinu. „Opinberun er stöðug í kirkjunni; spámaðurinn meðtekur hana fyrir kirkjuna; forsetinn fyrir stikuna, trúboðið eða prestdæmissveitina; biskupinn fyrir deildina; faðirinn fyrir fjölskylduna og einstaklingurinn fyrir sig sjálfan.“6

Ég ber vitni um að þetta er sannleikur. Himneskur faðir heyrir bænir ykkar. Hann elskar ykkur. Hann þekkir ykkur með nafni. Jesús er Kristur, sonur Guðs og lausnari. Hann elskar okkur meira en þið hafið getu til að skilja.

Hann úthellir opinberun yfir börn sín, í gegnum heilagan anda Hann talar við spámann sinn á jörðu, sem í dag er Thomas S. Monson forseta. Ég vitna um að hann hefur og notar alla lykla prestdæmisins á jörðu.

Þegar þið hlustið á orð þeirra sem Guð hefur kallað til að tala fyrir hann hér á þessri ráðstefnu, þá bið ég þess að þið getið fengið þá staðfestingaropinberun sem þið þurfið til að rata á leið ykkar heim aftur, til að búa með honum í innsiglaðri fjölskyldu um eilifð. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.