2010–2019
Frjáls að eilífu til að hafa sjálf áhrif
október 2014


Frjáls að eilífu til að hafa sjálf áhrif

Vilji Guð er að við séum frjálsir menn, þess megnugir að rísa undir öllum möguleikum okkar, bæði stundlegum og andlegum.

Leikrit William Shakespeare Ævi Hinriks konungs Vgerist að kvöldlagi í búðum enskra hermanna, í Agincourt, rétt fyrir orrustu þeirra við franska herinn. Í hálfmyrkri og í dulbúningi gengur Henry óþekktur um meðal hermanna sinna. Hann talar við þá og reynir að meta liðsanda hersins síns, sem hafði verið ofurliði borinn, og þeir eru hreinskilnir, þar sem þeir vita ekki hver hann er. Í einu samtalinu eru heimspekilegar vangaveltur um hvor beri meiri ábyrgð á því sem gerist fyrir menn í orrustu – konungurinn eða hinn einstaki hermaður.

Á einum tímapunkti sagði Hinrik konungur: „Ég tel að minn bestu dauðdagi væri í þjónustu konungs, þar sem málstaður hans er réttátur.“

Michael Williams svarar um hæl: „Það er meira en við vitum.“

Félagi hans er sammála: „Já, eða meira en við ættum að reyna að komast að. Fyrir okkur er nóg að vita að við séum þegnar konungs: Ef málstaður hans er rangur, mun hlýðni við konung réttlæta okkur af glæpum stríðsins.“

Williams bætti við: Ef málstaðurinn er ekki góður, yrði aðeins konungur borinn þungum sökum.“

Hinrik konungur var ósammála, sem var engin furða, og sagði: „Hver þegn hefur skyldu við konung og hver þegn ber ábyrgð á eigin sálu.“1

Shakespeare reynir ekki að leiða þessa kappræðu til lykta í leikriti sínu, og henni hefur verð viðhaldið, í einu eða öðru formi, allt fram á okkar tíma – hver það sé sem ábyrgð beri á því sem gerist í lífi okkar.

Þegar illa fer, er tilhneigingin sú að kenna öðrum um eða jafnvel Guði. Stundum gera menn tilkall til einhverra réttinda og einstaklingar og hópar reyna að koma ábyrgð á eigin velferð yfir á aðra menn eða stjórnvöld. Hvað hið andlega varðar, þá trúa sumir að karlar og konur þurfi ekki að keppa að persónulegu réttlæti – því Guð elskar okkur og frelsar okkur „eins og við erum.“

Guð væntir þess hins vegar að börn hans breyti samkvæmt því siðferðislega sjálfræði sem hann hefur gefið þeim, „svo að sérhver maður verði ábyrgur fyrir sínar eigin syndir á degi dómsins.“2 Það er ætlun og vilji hans að við berum sjálf megin ábyrgð á ákvörðunum okkar lífsins sjónleik. Guð mun ekki lifa lífi okkar eða stjórna okkur eins og leikbrúðum sínum, líkt og Lúsifer lagði eitt sinn til að hann gerði. Spámenn Guðs munu heldur ekki taka að sér hlutverk „brúðumeistarans,“ í stað Guðs. Brigham Young sagði: „Ég óska ekki að nokkur Síðari daga heilagur í þessum heimi, eða á himnum, sé sáttur með nokkuð sem ég geri, nema andi Drottins Jesú Krists, – andi opinberunar, geri þá sátta.. Ég vil að þeir viti og skilji fyrir sig sjálfa.“3

Í fyrsta lagi þá frelsar Guð okkur ekki „eins og við erum,“ vegna þess að í því ástandi eru við óhrein, og „ekkert óhreint fær dvalið … í návist hans, því að á tungu Adams er nafn hans Maður heilagleika, og nafn hans eingetna er Mannssonurinn [af heilagleika].”4 Í öðru lagi þá mun Guð ekki gera okkur að einhverju sem við höfum ekki valið að verða með verkum okkar. Hann elskar okkur vissulega, og vegna þess að hann elskar okkur, þá hvorki þvingar hann, né yfirgefur okkur. Öllu heldur, þá hjálpar hann og leiðir okkur. Hin raunverulega staðfesting elsku Guðs, eru vissulega boðorð hans.

Við ættum að gleðjast (og við gerum það) í hinni guðlega vígðu áætlun, sem gerir okkur kleift að ráða okkur sjálf og upplifa afleiðingarnar, eða líkt og ritningarnar orða það, að „bragða hið beiska, svo að [við lærum] að meta hið góða.“5 Við erum ævarandi þakklát fyrir að friðþæging frelsarans vann bug á erfðarsyndinni, svo við getum fæðst í þennan heim, án þess að vera refsað fyrir brot Adams.6 Þar sem við höfum verið endurleyst þannig frá fallinu, erum við í upphafi lífs saklaus frammi fyrir Guði og verðum „frjáls að eilífu og [þekkjum] gott frá illu, [höfum] sjálf áhrif, en [verðum] ekki aðeins fyrir áhrifum.“7 Við getum valið að verða sú persóna sem við viljum, og með hjálp Guðs, getum við jafnvel orðið eins og hann er.8

Fagnaðarerindi Jesú Krists lýkur upp fyrir okkur dyrunum að því sem við getum orðið. Fyrir friðþægingu Jesú Krists og náð hans, er hægt að afmá vangetu okkar til að lifa fullkomlega og stöðugt eftir himneska lögmálinu í jarðlífinu, og við getum þróað með okkur kristilega eiginleika. Réttvísin krefst þess hins vegar að ekkert af þessu geti orðið nema með fullu samþykki okkar og þátttöku. Þannig hefur það alltaf verið. Vera okkar hér á jörðu, sem líkamlegar verur, er afleiðing af vali hvers okkar að taka þátt í áætlun föðurins.9 Sáluhjálp verður því vissulega ekki rakin til guðlegra duttlunga, og ekki gerist hún heldur einungis fyrir guðlega forsjá.10

Réttvísi er nauðsynlegur eiginleiki Guðs. Okkur er óhætt að trúa á Guð, því hann er fullkominn og áreiðanlegur. Ritningarnar kenna: „Guð gengur ekki bugðóttar brautir, né snýr hann til hægri handar eða vinstri, eigi víkur hann heldur frá því, sem hann hefur mælt. Þess vegna eru brautir hans beinar og farvegur hans ein eilíf hringrás“11 og að „Guð fer ekki í manngreinarálit.“12 Við treystum á eiginleika guðlegrar réttvísi fyrir trú, fullvissu og von.

Til þess að verða fullkomlega réttvís, er nokkuð sem Guð getur ekki gert. Hann getur ekki bjargað sumum og fordæmt aðra að eigin geðþótta. Hann „[getur] ekki litið á synd með minnsta votti af undanlátssemi.“13 Hann getur ekki leyft að miskunnsemin ræni réttvísina.14

Óyggjandi staðfesting á réttvísi Guðs, er sú að hann hefur hefur gert hina samfylgjandi reglu miskunnsemi að veruleika. Þar sem Guð er réttvís, þá sá hann til þess að miskunnsemin næði fram að ganga með sitt ómissandi hlutverk í eilífum örlögum okkar. Nú er það svo að „réttvísin leggur fram allar sínar kröfur, og miskunnsemin krefst einnig alls, sem henni ber.“15

Við vitum að það voru „þjáningar og [dauði] hans, sem enga synd drýgði, og [faðirinn hafði] velþóknun á, … blóð sonar [hans], sem úthellt var,“16 sem fullnægðu kröfum réttvísinnar og sáu okkur fyrir miskunn og endurlausn.17 En „samkvæmt réttvísinni gat endurlausnaráætlunin ekki orðið að veruleika nema með því skilyrði, að menn gjörðu iðrun.18 Það er fyrir skilyrði og möguleika iðrunar, að miskunnsemin fær unnið sitt verk án þess að réttvísin skerðist.

Kristur dó ekki til að frelsa af handahófi, heldur til að gera iðrun að veruleika. Við treystum „í einu og öllu á verðleika hans, sem máttinn hefur til að frelsa,“19 í ferli iðrunar, en iðrunargjörðin er sjálfviljug breyting. Guð gerir okkur kleift að hafa einstaklingsábyrgð, með því að gera iðrun að skilyrði fyrir að hljóta gjöf náðar. Iðrun virðir og styður við siðferðilegt sjálfræði okkar: „Og þannig getur miskunnsemin fullnægt kröfum réttvísinnar og umvefur þá örmum öryggisins, á meðan sá, sem ekki iðkar trú til iðrunar, er varnarlaus gagnvart öllu lögmálinu um kröfur réttvísinnar. Þess vegna kemur hin mikla og eilífa endurlausnaráætlun einungis þeim til góða, sem á trú til iðrunar.“20

Að misskilja réttvísi og miskunn Guðs er eitt, að afneita tilveru eða almætti Guðs er annað, en hvort tveggja leiðir til þess að við uppskerum minna – stundum mikið minna - en alla okkar guðlegu möguleika. Guð sem engar kröfur gerir, er jafngildi Guðs sem á sér ekki tilveru. Heimur án Guðs, hins lifandi Guðs, sem setur siðferðislögmál, til að börn hans stjórnist og fullkomnist af þeim, væri líka heimur án algilds sannleika eða réttvísi. Í slíkum heimi væri afstæðishyggjan algjör.

Afstæðishyggja merkir að hver einstaklingur hafi æðsta valdið yfir sjálfum sér. Auðvitað eru það ekki aðeins þeir sem afneita Guði sem tileinka sér þessa hugmyndafræði. Sumir sem trúa á Guð, trúa því líka að þeir sjálfir, sem einstaklingar, ákveði hvað sér rétt og rangt. Einn ungur einstaklingur orðaði það þannig: „Ég held að ég geti ekki sagt að hindúatrú sé röng eða kaþólsktrú sé röng eða lúthersktrú sé röng – ég held að það fari bara eftir því hverju maður trúir. … Ég held að það sé ekki til neitt rangt eða rétt.“21 Annar, sem spurður var um grunngildi trúar sinnar, svaraði: „.Ég sjálfur – það er í raun málið. Ég meina, hvernig getur vald tengst trúarskoðunum?“22

Við þá sem trúa að allt og hvað sem er geti verið sannleikur, segi ég að yfirlýstur, hlutlægur, fastur og algildur sannleikur hljómar líkt og þvingandi íhlutun – „og með honum ætti ekki að þvinga mig til að trúa einhverju sem er mér á móti skapi.“ Það breytir hins vegar ekki raunveruleikanum. Þótt einhverjum væri í nöp við aðdráttaraflið, kæmi það ekki í veg fyrir að hann gæti fallið fram af bjargbrún. Það sama á við um eilíf lögmál og réttvísi. Frelsi hlýst ekki með því að standa gegn því, heldur með því að hagnýta sér það. Það er grundvallaratriði hvað mátt Guðs varðar. Ef ekki kæmi til raunverulegur, fastur og óbreytanlegur sannleikur, væri gjöf sjálfræðis merkingarlaus, því við gætum þá engan veginn séð fyrir afleiðingar gjörða okkar. Lehí orðaði það svo: „Og ef þér segið, að ekkert lögmál sé til, þá munuð þér einnig segja, að engin synd sé til. Og ef þér segið, að engin synd sé til, þá munuð þér einnig segja, að ekkert réttlæti sé til. Og sé ekkert réttlæti til, þá er heldur engin hamingja til. Og sé hvorki réttlæti né hamingja til, þá er heldur engin refsing eða vansæld til. Og ef ekkert af þessu er til, þá er enginn Guð til. Og sé enginn Guð til, þá erum við ekki til og heldur ekki jörðin, því að engin sköpun hefði getað farið fram, hvorki sköpun á því, sem áhrifum veldur, né heldur hinu, sem fyrir áhrifum verður, og því hlyti allt að hafa orðið að engu.“23

Hvað varðar bæði hið stundlega og andlega, þá er tækifærið að axla eigin ábyrgð gjöf frá Guði, og án hennar gætum við ekki gert að veruleika alla möguleika okkar sem synir og dætur Guðs. Persónuleg ábyrgð verður bæði réttur og skylda, sem við verðum stöðugt að verja; að henni hefur verið sótt frá upphafi sköpunar. Við verðum að verja einstaklingsábyrgðina gegn mönnum og áhrifaaðilum sem gætu gert okkur ósjálfstæð (stundum af góðum ásetningi). Við verðum líka að verja hana með því að sporna gegn eigin tilhneigingu til að forðast þá fyrirhöfn að þroska eigin hæfileika, kunnáttu og kristilega eiginleika.

Saga er sögð af manni sem vildi alls ekki vinna. Hann vildi láta aðra annast allar sínar þarfir. Hugsun hans var sú að hann ætti framfærslu inni hjá bæði kirkju og stjórnvöldum, því hann hafði greitt tíund og skatta. Hann hafði ekkert að borða, en neitaði að vinna til að sjá fyrir sér. Þeir sem reynt höfðu að koma honum til hjálpar voru úrræðalausir og örvæntingarfullir yfir því að hann vildi ekki lyfta fingri til að sjá fyrir sér og ákváðu því að best væri bara að fara með hann í kirkjugarðinn og láta hann deyja þar. Á leiðinni í kirkjugarðinum varð einum manninum að orði: „Við getum ekki gert þetta. Ég á eitthvað af korni til að gefa honum.“

Þau útskýrðu þetta fyrir manninum og hann spurði: „Er búið að afhýða það?“

Þeir svöruðu: „Nei.“

„Jæja,“ sagði hann, „haldið þá bara áfram.“

Vilji Guð er að við séum frjálsir menn, þess megnugir að rísa undir öllum möguleikum okkar, bæði stundlegum og andlegum, að við séum laus við hin auðmýkjandi höft örbirgðar og ánauð syndar, við fáum notið sjálfsvirðingar og sjálfsstæðis, að við verðum í öllu viðbúin að njóta nærveru hans í himneska ríkinu.

Ég læt ekki blekkjast af því að við fáum áorkað þessu einsömul, án stöðugrar og traustrar hjálpar hans. „Vér vitum, að vér frelsumst fyrir náð, að afloknu öllu, sem vér getum gjört.“24 Við þurfum ekki að áorka einhverju lágmarks afreki eða góðmennskustigi áður en Guð hjálpar – við getum notið guðlegrar hjálpar hverja stund og dag hvern, hvar sem við erum á vegi hlýðni. Ég veit hins vegar að auk þess að þrá hjálp hans, verðum við leggja okkur fram, iðrast og velja Guð, svo hann megni stöðugt hafa áhrif á líf okkar með réttvísi og siðferðilegu sjálfræði. Ég bið þess aðeins að við öxlum eigin ábyrgð og tökum til starfa, svo Guð hafi eitthvað til að hjálpa okkur með.

Ég ber vitni um að Guð faðirinn lifir, að sonur hans, Jesús Kristur, er frelsari okkar, og að heilagur andi er meðal okkar. Þrá þeirra til að hjálpa okkur er tvímælalaus, og máttur þeirra til að gera það er óendanlegur. Við skulum vakna og rísa úr duftinu, svo að „sáttmálarnir, sem hinn eilífi faðir hefur við [okkur] gjört, … nái að uppfyllast“25 Í nafni Jesú Krists, amen.