2010–2019
Persónuleg þjónusta okkar
október 2014


Persónuleg þjónusta okkar

Við verðum að hafa kærleika Krists sem leiðarvísir okkar ef við eigum að vera meðvituð um þarfir þeirra sem við getum aðstoðað á einhvern máta.

Við, í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, fáum tækifæri og þá persónulegu blessun að þjóna. Svo lengi sem ég hef verið þegn kirkjunnar hef ég þjónað á margvíslegan hátt. Líkt og bróðir Udine Falabella, faðir öldungs Enrique R. Falabella, sagði alltaf, „Sá sem þjónar í einhverju er einhvers virði, sá sem þjónar í engu, er einskis virði.“ Þetta eru orð sem við verðum að hafa í huga okkar og hjörtum.

Í leit að leiðsögn í þjónustu minni, þá fann ég huggun í því að muna eftir að frelsarinn horfir á einstaklinginn og fjölskylduna. Kærleikur hans og ljúf athygli á einstaklingnum hefur kennt mér að hann ber kennsl á mikilvægi hvers og eins barna okkar himnesks föður og að það er nauðsynlegt fyrir okkur að tryggja það að öllum sé þjónað og þeir styrktir af fagnaðarerindi Jesú Krists.

Ritningarnar segja:

„Hafið hugfast að verðmæti sálna er mikið í augum Guðs. ...

„Og fari svo, að þér erfiðið alla yðar daga ... og leiðið, ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!“1

Hver sál er Guði mikils virði, því við erum börn hans og við höfum möguleika á því að verða eins og hann.2

Við verðum að hafa kærleika Krists sem leiðarvísir okkar ef við eigum að vera meðvituð um þarfir þeirra sem við getum aðstoðað á einhvern máta. Kenningar Drottins okkar, Jesú Krists, leiða okkur veginn. Þannig hefst okkar persónuleg þjónusta, með því að uppgötva þarfir og síðan að sinna þeim. Líkt og systir Linda K. Burton, aðalforseti Líknarfélagsins sagði: „Fylgjast fyrst með, síðan þjóna.“3

Thomas S. Monson forseti er frábært dæmi um þessa reglu. Í janúar árið 2005 var hann í forsæti yfir ráðstefnu prestdæmisleiðtoga í Puerto Rico þegar hann sýndi hvernig frelsarinn og þjónar hans veita aðstoð í gegnum persónulega þjónustu. Eftir að þessum frábæra fundi lauk hóf Monson forseti að heilsa upp á alla prestdæmisleiðtogana á staðnum. Skyndilega tók hann eftir því að einn þeirra stóð afsíðis og horfði á allt úr fjarlægð.

Monson forseti yfirgaf hópinn og gekk í átt að þessum bróður, og talaði við hann. José R. Zayas sagði hrærður, að það væri kraftaverk að hann hefði komið til hans og að það væri bænheyrsla fyrir hann og Yolanda, eiginkonu hans, við bæn sem þau höfðu beðið fyrir fundinn. Hann sagði Monson forseta að dóttir hans væri mjög veik og að hann væri með bréf frá konu sinni sem hún hefði beðið mann sinn að skila til hans. Bróðir Zayas hafði sagt konu sinni að það myndi verða ómögulegt þar sem Monson forseti yrði of upptekinn. Monson forseti hlustaði á söguna og bað síðan um bréfið, sem hann las hljóðlega. Því næst setti hann það í jakkavasann og sagði bróður Zayas að hann myndi sjá til þess að ósk þeirra yrði uppfyllt.

Á þennan hátt var þessi fjölskylda snert af Drottni vorum, Jesú Kristi, í gegnum þjón hans. Ég trú því að orð frelsarans í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann eigi við um okkur: „Far þú og gjör hið sama.“4

Þann 21. september, 1998 skall fellibylurinn George á Puerto Rico og olli miklum skemmdum. Mér, systur Martinez og börnum okkar fimm tókst að lifa þennan mikla fellibyl af með því að halda okkur heimafyrir. Hins vegar vorum við rafmagnslaus og án rennandi vatns í tvær vikur.

Þegar vatnsbirgðirnar okkar kláruðust var mjög erfitt að útvega meira vatn. Ég mun aldrei gleyma bræðrunum sem þjónuðu okkur með því að færa okkur þennan dýrmæta vökva, né mun ég nokkurn tíma gleyma þeim kærleika sem lýsti sér í innblásinni þjónustu systranna.

Germán Colón kom heim til okkar með stóran vatnstank úr plasti, aftan á litlum pallbíl. Hann tjáði okkur að hann væri að gera þetta því, eins og hann sagði:„Ég veit að þið eigið lítil börn sem þarfnast vatns.“ Nokkrum dögum síðar settu bróðir Noel Munoz og Herminio Gómez þrjá stóra vatnstanka á pallbíl. Þeir birtust heima hjá okkur óvænt og fylltu allar tiltækar vatnsflöskur með drykkjarvatni og buðu nágrönnum okkar einnig að fylla á þeirra ílát.

Bænum okkar var svarað af persónulegri þjónustu þeirra. Andlit þessara þriggja bræðra endurspeglaði kærleika Jesú Krists til okkar, og aðstoð þeirra - eða persónuleg þjónusta - færði mikið meira en drykkjarvatn í líf okkar. Það er nauðsynlegt fyrir hvern son og hverja dóttur Guðs að vita að það er fólk sem vakir yfir og hefur áhuga á velferð þeirra.

Ég ber vitni fyrir ykkur um að Himneskur faðir og Drottinn okkar, Jesús Kristur, þekkir okkur hvert og eitt á persónulegan máta. Þess vegna sjá þeir okkur fyrir því sem við þörfnumst svo að við getum átt möguleika á því að ná guðlegum möguleikum okkar. Þeir staðsetja fólk á vegslóðina, sem getur hjálpað okkur. Þegar við svo verðum verkfæri í höndum þeirra þá getum við aðstoðað og þjónað þeim sem þeir vísa okkur á með opinberun.

Á þennan máta mun Drottinn Jesús Kristur ná til allra barna himnesks föður. Góði hirðirinn mun safna saman öllum lömbum sínum. Hann mun gera það með einn og einn í einu, er þeir nýta siðferðilegt valfrelsi sitt á réttan hátt - eftir að hafa heyrt rödd þjóna hans og meðtekið þjónustu þeirra. Þá munu þeir þekkja rödd hans og fylgja honum. Slík persónuleg þjónusta er óaðskiljanlegur þáttur í því að halda skírnarsáttmála okkar.

Á sama hátt, þá er það að vera lærisveinn Jesú Krists besta kynningin á okkur, fyrir þá sem við getum kynnt fagnaðarerindið fyrir. Þegar við opnum munninn og deilum hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists, þá verðum við „aðstoðarfjárhirðar hans, með það hlutverk að næra lömbin í haga hans og lömbin í hjörð hans“5; við verðum „hinir veiku og einföldu“6 „og [munum] menn veiða“7

Hjálp okkar og persónuleg þjónusta takmarkast ekki við þá sem lifa hér á jörðu. Við getum einnig gert verk fyrir hina dánu - fyrir þá sem lifa í andaheimum og þá sem fengu ekki tækifæri til að meðtaka endurleysandi helgiathafnir fagnaðarerindis Jesú Krists hér í jarðlífi. Við getum einnig haldið dagbók og skrifað fjölskyldusögur okkar til að snúa hjörtum hinna lifandi til þeirra sem lifandieru - á sama hátt og þeirra lifandi til forfeðra sinna. Það snýst allt um að tengja fjölskyldur okkar, ættlið við ættlið, eilífum böndum. Er við gerum þetta þá verðum við „frelsendur ... [á Síonsfjalli].“8

Við höfum það sérstaka tækifæri að vera verkfæri í höndum hans. Við getum verið það í hjónaböndum okkar, fjölskyldum okkar, með vinum okkar og náungum Það er persónuleg þjónusta okkar sem sannir lærisveinar Jesú Krists.

„Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum:

Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.

Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims:

Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig,

nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.

Þá munu þeir réttlátu segja: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka?

Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig?

Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?

„Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér“9

Að við megum gjöra svo er bæn mín í nafni Jesú Krists, amen.