2010–2019
Bjarga í einingu
október 2014


Bjarga í einingu

Við þurfum að vinna saman í einingu og samhljóm ef við ætlum að aðstoða frelsarann. Sérhver, hver staða og hver köllun er mikilvæg.

Við heyrum oft Thomas S. Monson forseta segja: „Komið öðrum til bjargar.“1 Mér kemur saga í Nýja testamentinu í hug. Hún er fullkomin útskýring á því hvernig meðlimir og trúboðar geta unnið saman í einingu með aðstoð deildarráða, til að koma öðrum til bjargar. Söguna er að finna í Mark 2:1–5. Mér finnst dæmisögurnar sem Jesú notaði til að kenna okkur ákveðnar kenningar eða reglur, ætíð vera innblásnar og auðveldar að skilja.

Einn af sögupersónum þessarar frásagnar er lamaður maður, manneskja sem ekki gat hreyft sig úr stað nema með aðstoð annara. Þessi maður gat aðeins verið heima og vonast eftir hjálp.

Á okkar dögum gæti þessi frásögn átt sér stað eins og eftirfarandi: Fjórar manneskjur voru að vinna að verkefni frá biskupi sínum, að vitja lamaðs manns á heimili hans. Ég fæ næstum séð fyrir mér eina úr Líknarfélaginu, aðra úr Öldungarsveitinni, þriðju úr Aronsprestdæminu og síðast en ekki síst einn fastatrúboða. Á síðasta deildarráðsfundi og eftir að hafa ráðgast saman um þarfir í deildinni, þá úthlutaði biskupinn „björgunarverkefnum.“ Þessi fjögur fengu það verkefni að aðstoða lamaða manninn. Þau gátu ekki beðið eftir því að hann kæmi sjálfur í kirkju. Þau þurftu að vitja hans heima fyrir. Þau þurftu að leita hann uppi, svo þau fóru af stað. Færa átti manninn til Jesú.

„Þá er komið með lama mann, og báru fjórir.“(Mark 2:3).

Hins vegar voru of margir í herberginu. Þau komust ekki í gegnum dyrnar. Ég er viss um að þau hafi reynt allt hvað af tók, en komust hreinlega ekki inn. Áætlunin gekk ekki eftir sem skildi. Það voru hindranir á leið „björgunarleiðangurs“ þeirra. Ekki gáfust þau þó upp. Þau skildu ekki lamaða manninn eftir við dyrnar. Þau ráðguðust saman um hvað gera ætti – hvernig þau gætu fært Jesú Kristi manninn til læknunar. Starfið við að aðstoða Jesú Krist við að bjarga sálum var aldrei of krefjandi, að minnsta kosti ekki fyrir þeim. Þau settu saman áætlun – ekki auðvelda en þau fylgdu henni.

„Þegar þeir gátu ekki komist með hann til Jesú fyrir fólkinu, rufu þeir þekjuna uppi yfir honum, grófu þar í gegn og létu síga ofan rekkjuna, sem hinn lami lá í“ (Mark 2:4).

Þau fóru með hann upp á þak. Það hlýtur að hafa tekið dágóða stund að koma öllum upp á þakið ef við gerum ráð fyrir að það hafi ekki verið stigi utan á húsinu. Ég tel mögulegt að þetta hafi verið atburðarásin: Ungi maðurinn úr deildinni klifraði fyrstur upp á þakið. Það var sennilega ekki erfitt fyrir hann þar sem hann var ungur og uppfullur af orku. Heimiliskennarafélagi hans úr öldungarsveitinni og stóri og sterki fastatrúboðinn hljóta að hafa ýtt að neðan.. Líknarfélagssystirin mundi hafa minnt þá á að fara varlega og veitt hvatningarorð. Mennirnir myndu síðan hafa rofið þakið á meðan systirin hélt áfram að hugga manninn sem beið þess að læknast – að geta hreyft sig sjálfur aftur og verða frjáls.

Í þessu björgunarstarfi þurftu allir að vinna saman. Það hefðikallað á vandlega samhæfingu, á réttum tímapunkti, að láta lamaða manninn síga niður af þakinu. Manneskjurnar fjórar hefðu þurft að vinna saman í einingu og samhljóm. Ekki mátti vera neinn ágreiningur á meðal þeirra. Þau hefðu þurft að láta lama manninn síga á jöfnum hraða. Ef einn slakaði á reipinu hraðar en hinir þrír, þá hefði maðurinn dottið úr rúminu. Hann gat ekki haldið sér sjálfur vegna hve veikburða hann var.

Við þurfum að vinna saman í einingu og samhljóm ef við ætlum að aðstoða frelsarann. Sérhver, hver staða og hver köllun er mikilvæg. Við verðum að vera sameinuð í Drottni okkar, Jesú Kristi.

Að lokum var lamaði maðurinn lagður frammi fyrir Jesú. „Þá er Jesús sér trú þeirra, segir hann við lama manninn: Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ (Mark 2:5). Jesú sýndi manninum miskunn og læknaði hann – ekki bara líkamlega heldur líka andlega: „Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Er það ekki dásamlegt? Viljum við ekki öll að þetta myndi gerast fyrir okkur? Ég myndi vilja það.

Þekkjum við einhvern sem hrjáist af andlegri lömun, einhvern sem getur ekki komist aftur til kirkju á eigin spýtum? Hann eða hún gæti verið eitt af börnum okkar, eitt af foreldrum okkar, maki eða vinur.

Það væri viturlegt af biskupum og greinarforsetum, nú þegar svo margir fastatrúboðar eru að þjóna í kirkjueiningum, að nýta deildar- og greinarráð sín betur. Biskupinn getur boðið sérhverjum meðlim deildarráðsins að koma með nafnalista yfir þá sem gætu þurft á aðstoð að halda. Meðlimir deildarráðsins munu vandlega ráðgast saman um hvernig þau geta best hjálpað til. Biskupinn mun hlusta vel á hugmyndirnar og úthluta svo verkefnum.

Fastatrúboðar eru dásamleg auðlind fyrir deildir í þessu björgunarstarfi. Þeir eru ungir og uppfullir af orku. Þeim finnst það dásamlegt að hafa lista af ákveðnum nöfnum til að vinna með. Þeim finnst gaman að vinna með deildarmeðlimum. Þeir vita að það hjálpar þeim mikið við að finna fólk til að kenna. Þeir eru trúfastir í því að byggja upp ríki Guðs. Þeir hafa sterkan vitnisburð um að þeir verði líkari Kristi er þeir taka þátt í þessu björgunarstarfi.

Má ég að lokum deila með ykkur einu huldu gersemi til viðbótar sem er að finna í þessum versum? Það er í versi 5: „Þá er Jesú sér trú þeirra “ (leturbreyting hér). Ég hafði ekki tekið eftir þessu áður – trúþeirra . Sameinuð trú okkar mun einnig hafa áhrif á velferð annarra.

Hvaða fólk var það sem Jesú nefndi? Það gæti hafa verið þeir fjórir sem báru lamaða manninn, maðurinn sjálfur, fólkið sem bað fyrir honum og allir þeir sem voru að hlusta á boðskap Jesú og fögnuðu í hjarta sér yfir kraftaverkinu sem var væntanlegt. Þar á meðal er einnig maki, foreldri, sonur eða dóttir, trúboði, sveitarforseti, Líknarfélags forseti, biskup og fjarlægur vinur. Við getum öll hjálpað hvort öðru. Við ættum ætíð að starfa af kappi við að bjarga þeim sem eru í neyð.

Ég vitna að Jesús Kristur er Guð kraftaverka. Jesú Kristur elskar okkur öll og hefur kraftinn til að bjarga og lækna, bæði líkamlega og andlega. Þegar við aðstoðum hann í verki hans við að bjarga sálum, þá mun okkur einnig verða bjargað samhliða. Um það vitna ég í hans heilaga nafni, já Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá til dæmis Thomas S. Monson, „Our Responsibility to Rescue,“ Ensign eða Liahona, okt. 2013, 5.