2010–2019
Styðja spámennina
október 2014


Styðja spámennina

Stuðningur okkar við spámenn er persónuleg skuldbinding um að gera allt sem við getum til að heiðra spámannleg forréttindi þeirra.

Eyring forseti, við þökkum þér fyrir innblásinn og uppbyggjandi boðskap. Kæru bræður mínir og systur, við þökkum ykkur fyrir trú ykkar og hollustu. Í gær var okkur öllum boðið að styðja Thomas S. Monson, sem spámann Drottins og forseta kirkju Drottins. Oft syngjum við: „Vorn spámann vér þökkum þér, Drottinn.“1 Skiljum við í raun hvað í þessu felst? Hugsið ykkur þau forréttindi sem Drottinn hefur gefið okkur, að fá að styðja spámann hans, er veitir hreina og ómengaða leiðsögn, sem er hafin yfir persónulegan metnað og er algjörlega sönn!

Hvernig styðjum við í raun spámann? Löngu áður en Joseph F. Smith varð forseti kirkjunnar, útskýrði hann: „Sú mikilvæga ábyrgð hvílir á hinum heilögu, sem … styðja valdhafa kirkjunnar, að þeir geri það ekki aðeins með handarupplyftingu, sem aðeins er táknræn, heldur líka í verki og í sannleika.“2

Ég man sannlega eftir mínu einstæðasta „verki“ spámanni til stuðnings. Á mér hvíldi sú ábyrgð, sem hjartaskurðlæknir, að framkvæma hjartaskurðaðgerð á Spencer W. Kimball, árið 1972, þegar hann var starfandi forseti Tólfpostulasveitarinnar. Sú aðgerð var afar flókin. Ég hafði aldrei áður framkvæmt slíka aðgerð á 77 ára gömlum manni með bilað hjarta. Ég mælti ekki með aðgerðinni og sagði Kimball forseta og Æðsta forsætisráðinu frá því. Kimball forseti ákvað að sýna trú og fara í aðgerðina, aðeins vegna þess að Æðsta forsætisráðið ráðlagði það.. Það sýndi að hann studdi leiðtoga sína! Ákvörðun hans gerði mig skelkaðan!

Þökk sé Drottni, aðgerðin heppnaðist vel. Hjarta Kimballs forseta tók að slá eðlilega og af miklum krafti! Á þeirri stundu hlaut ég greinilega vitni andans um að þessi maður yrði dag einn forseti kirkjunnar!3

Þið þekkið framhaldið. Aðeins 20 mánuðum síðar varð Kimball forseti kirkjunnar. Hann veitti djarfa og beinskeytta leiðsögn í mörg ár.

Frá því höfum við stutt forsetana Ezra Taft Benson, Howard W. Hunter, Gordon B. Hinckley og nú Thomas S. Monson sem forseta kirkjunnar – og spámenn í orðsins fyllstu merkingu!

Kæru bræður mínir og systur, ef endurreisnin hefur áorkað einhverju, er það að eyða þeirri aldagömlu goðsögn að Guð hafi hætt að tala til barna sinna. Ekkert gæti verið fjarri sannleikanum. Spámaður hefur verið höfuð kirkju Guðs á öllum ráðstöfunum, frá Adam til okkar tíma.4 Spámenn bera vitni um Jesú Krist – um guðleika hans og jarðneskt hlutverk og þjónustu.5 Við heiðrum spámanninn Joseph Smith, sem spámann þessa lokaráðstöfunar. Við heiðrum hvern mann sem á eftir honum hefur komið sem forseti kirkjunnar.

Þegar við styðjum spámenn og aðra leiðtoga,6 gerum við það með lögmáli almennrar samþykktar, því Drottinn hefur sagt: „Engum skal leyft að fara og prédika fagnaðarerindi mitt eða byggja upp kirkju mína, nema hann sé vígður af þeim, sem vald hefur, og að kirkjunni sé kunnugt um, að hann hafi það vald, og leiðtogar kirkjunnar hafi formlega vígt hann.“7

Þetta veitir okkur, sem meðlimum kirkju Drottins, fullvissu og trú, þegar við höldum hið ritningarlega boð um að hlýða rödd Drottins,8 eins og hún berst með þjónum hans, spámönnunum.9 Allir leiðtogar í kirkju Drottins eru kallaðir með réttmætu valdsumboði. Enginn spámaður eða einhver annar leiðtogi í þessari kirkju, ef því er að skipta, hefur nokkru sinni kallað sjálfan sig. Enginn spámaður hefur nokkru sinni verið kosinn. Drottinn gerði það ljóst með þessum orðum: „Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður [og vígt yður].“10 Við „kjósum“ ekki kirkjuleiðtoga á neinu stigi. Við njótum samt þeirra forréttinda að styðja þá.

Háttur Drottins er ólíkur hætti mannsins. Háttur mannsins er að láta menn hætta í embætti eða starfi þegar þeir verða aldnir eða bæklaðir. Háttur mannsins er og verður aldrei háttur Drottins. Stuðningur okkar við spámenn er persónuleg skuldbinding um að gera allt sem við getum til að heiðra spámannleg forréttindi þeirra. Stuðningur okkar er líkt og eiður um að við viðurkennum köllun þeirra sem spámanns sem lögmæta og bindandi fyrir okkur.

Tuttugu og sex árum áður en George Albert Smith varð forseti kirkjunnar, sagði hann sem öldungur: „Sú skuldbinding sem við tökum á okkur með handarupplyftingu … er af afar helgum toga. Í henni felst ekki að við förum svo lítið beri á í burtu og erum fús til að láta spámann Drottins sjá um verkið, heldur … að við stöndum að baki hans, biðjum fyrir honum, verndum gott nafn hans og gerum allt sem við getum til að fara að fyrirmælum hans, líkt og handleiðsla Drottins kveður á um.“11

Hinn lifandi Drottinn leiðir sína lifandi kirkju!12 Drottinn opinberar spámönnum vilja sinn varðandi kirkjuna. Í gær, eftir að okkur var boðið að styðja Thomas S. Monson sem forseta kirkjunnar, nutum við líka þeirra forréttinda að styðja hann, ráðgjafana í Æðsta forsætisráðinu og meðlimi Tólfpostulasveitarinnar, sem spámenn, sjáendur og opinberara. Hugsið ykkur það! Við styðjum 15 mann sem spámenn Guðs! Þeir hafa alla þá lykla prestdæmisins, sem nokkru sinni hafa verið veittir manni á þessari ráðstöfun.

Að kalla 15 menn til hins helga postuladóms, er meðlimum kirkjunnar til mikils öryggis. Hvers vegna? Vegna þess að ákvarðanir þessara leiðtoga verður að vera einróma.13 Getið þið ímyndað ykkur hvernig andinn þarf að hafa áhrif á þessa 15 menn til þess að gera þá einróma? Þessir 15 menn hafa mismunandi menntunar- og atvinnubakgrunn, og ólíkar skoðanir á mörgu. Trúið mér! Þessir 15 menn – spámenn, sjáendur og opinberarar – vita hver vilji Drottins er, þegar einróma áliti er náð. Þeir eru staðráðnir í því að vilji Drottins nái fram að ganga. Í bæn Drottins er forskrift fyrir hvern þessara 15 manna að fara eftir í bænagjörð sinni: „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“14

Sá postuli sem gegnt hefur postulaembætti lengst er í forsæti.15 Sá embættisháttur veldur því að eldri menn eru oftast í embætti forseta kirkjunnar.16 Í honum felst samfelld regla, reynsla, þroski og mikill undirbúningur, í samhljóm við leiðsögn Drottins.

Kirkjan í dag hefur verið skipulögð af Drottni sjálfum. Hann hefur sett á laggirnar undravert stjórnkerfi, sem búið er varnöglum og öryggisventlum. Það kerfi sér okkur fyrir spámannlegri leiðsögn, jafnvel þegar veikindi og skert starfsgeta kveða dyra og geta verið óhjákvæmilegir fylgifiskar hás aldurs.17 Í því eru ótal varnaglar og öryggisventlar, til að tryggja að enginn einn maður fái nokkru sinni leitt kirkjuna afvega. Eldri leiðtogar eru stöðugt í þjálfun, svo þeir verði undir það búnir að vera í æðstu ráðum, ef til þess kemur. Þeir læra að þekkja rödd Drottins með því að hlusta eftir hljóðlátri rödd andans.

Þegar Gordon B. Hinckley forseti þjónaði sem fyrsti ráðgjafi Ezra Taft Benson forseta, sem var þá kominn nærri lokum lífs síns, sagði hann:

„Drottinn hefur komið á reglum og verklagi til stjórnunar kirkju sinni, sem geyma öryggisventla í öllum … aðstæðum. Mikilvægt er … að engin vafi komi upp varðandi stjórnun kirkjunnar og notkun spámannlegra gjafa, þar á meðal réttinn til innblásturs og opinberunar varðandi málefni og framkvæmdir kirkjunnar, þegar forsetinn veikist eða er ekki fyllilega starfshæfur.

Æðsta forsætisráðið og Tólfpostularáðið, sem kölluð eru og vígð til að hafa lyklar prestdæmisins, hafa valdsumboð og ábyrgð til að stjórna kirkjunni, sjá um framkvæmd helgiathafna, að auka við kenningu hennar og koma á og viðhalda verklagi hennar.“

Hinckley forseti heldur áfram:

„Þegar forsetinn er veikur eða ekki fyllilega starfshæfur í öllum embættisskyldum sínum, þá mynda ráðgjafar hans tveir starfshæft Æðsta forsætisráð.“ Þeir halda áfram hinum daglegu störfum forsætisráðsins. …

„… En öll megin stefnumál, framvinda, verkefni eða kenning, eru af ráðnum hug og í bænaranda tekin fyrir sameiginlega af Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni.“18

Á síðasta ári, þegar Monson forseti hafði náð því marki að þjóna í 5 ár sem forseti kirkjunnar, rifjaði hann upp 50 ára þjónustutíð sína sem postuli og sagði þetta: „Aldurinn tekur sinn toll af okkur öllum. Við tökum þó undir með Benjamín konungi, sem sagði: … ‚Ég er haldinn alls kyns veikleika á sálu og líkama eins og þér sjálfir. Engu að síður hefur [Drottinn] valið mig … og faðir minn vígt mig … og ég hef notið verndar og varðveislu hins óviðjafnanlega kraftar hans til að þjóna yður af öllum þeim mætti, huga og styrk, sem Drottinn hefur léð mér‘ (Mosiah 2:11).“

Monson forseti sagði einnig: „Þrátt fyrir einhvern heilsuvanda, sem á okkur kann að herja, þrátt fyrir einhverja veikleika líkama eða hugar, þá þjónum við eftir bestu getu. Ég fullvissa ykkur um að kirkjan er í góðum höndum. Kerfið sem sett er upp fyrir ráð Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar tryggir að hún verði ætíð í góðum höndum og áhyggjur og ótti eru óþörf, hvað sem að ber. Frelsari okkar, Jesús Kristur, sem við fylgjum, vegsömum og þjónum, er ætíð við stjórnvölinn.“19

Monson forseti, við þökkum þér fyrir þennan sannleika! Við þökkum þér líka fyrir ævilangt fordæmi og dygga þjónustu. Ég hygg að ég tali fyrir munn meðlima kirkjunnar út um allan heim, er ég segi með þeim af einlægu þakklæti til þín. Við heiðrum þig! Við elskum þig! Við styðjum þig, ekki aðeins með handarupplyftingu, heldur líka af öllu hjarta og helgum verkum. Af auðmýkt og eldmóð „við biðjum stöðugt fyrir þér, okkar kæra spámanni“!20 Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „We Thank Thee, O God, for a Prophet,“ Hymns, nr. 19.

  2. Teachings of Presidents of the Church: Joseph F. Smith (1998), 211; skáletrað hér. Þessi staðhæfing var sett fram árið 1898, þegar Smith forseti var annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu.

  3. Til frekari upplýsingar, sjá Spencer J. Condie, Russell M. Nelson: Father, Surgeon, Apostle (2003), 153–56.

  4. Sjá Bible Dictionary, „Dispensations.“

  5. Margir spámenn sögðu fyrir um komu Drottins, þar á meðal Lehí (sjá 1 Ne 1:19), Ne (sjá 1 Ne 11:31–33; 19:7–8), Jakob (sjá Jakob 4:4–6), Benjamín (sjá Mósía 3:5–11, 15), Abinadí (sjá Mósía 15:1–9), Alma (sjá Alma 40:2) og Lamanítinn Samúel (sjá Helaman 14:12). Áður en frelsarinn fæddist í Bethlehem, sáu þeir friðþæginarfórn og upprisu hans í kjölfarið.

  6. Reglan um að styðja leiðtoga er grundvallaratriði í allri kirkju Drottins. Einstaklingur er studdur áður en hann er settur í köllun eða vígður í embætti prestdæmisins.

  7. Kenning og sáttmálar 42:11. Sú framkvæmd að styðja leiðtoga okkar var innleidd 6. apríl 1830, þegar kirkjan var stofnuð og í mars 1836, þegar meðlimir Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar voru studdir sem spámenn, sjáendur og opinberarar (sjá History of the Church, 1:74–77; 2:417).

  8. Mormónsbók varar við hættunum af því að leiða hjá sér spámannlegar kenningar. Í henni lesum við: „Hin stóra og rúmmikla bygging var hroki heimsins. Og hún féll, og fallið var geipilegt. Og engill Drottins talaði og … sagði: Þannig munu allar þjóðir, kynkvíslir, tungur og lýðir tortímast, sem berjast gegn hinum tólf postulum lambsins“ (1 Ne 11:36).

  9. Sjá Dan 9:10; Amos 3:7; Kenning og sáttmálar 21:1, 4–5; 124:45–46.

  10. Jóh 15:16. Fimmta trúaratriðið segir: „Vér trúum, að maður verði að vera kallaður af Guði með spádómi og með handayfirlagningu þeirra sem vald hafa, til að prédika fagnaðarerindið og framkvæma helgiathafnir þess.“

  11. Teachings of Presidents of the Church: George Albert Smith (2011), 64; skáletrað hér. Þessi tilvitnun er úr aðalráðstefnuræðu Georges Albert Smith, frá árinu 1919. Hann varð forseti kirkjunnar 1945.

  12. Sjá Kenning og sáttmálar 1:30, 38.

  13. Sjá Kenning og sáttmálar 107:27.

  14. 3 Ne 13:10; sjá einnig Matt 6:10; Lúk 11:2.

  15. Þegar forseti kirkjunnar deyr, leysist Æðsta forsætisráðið upp og ráðgjafarnir taka sæti sín í Tólfpostulasveitinni. Tólfpostulasveitin er þá í forsæti kirkjunnar, þar til annað Æðsta forsætisráð er skipað. Það tímabil er nefnt postuleg bráðabirgðastjórn. Það tímabil hefur í sögulegu samhengi verið mismunandi, allt frá fjórum dögum upp í þrjú og hálft ár.

  16. Forskrift eftirmanna á auðvitað ekki við um köllun Josephs Smith, sem var forvígður til að vera spámaður endurreisnarinnar og fyrsti spámaður kirkjunnar (sjá 2 Ne 3:6–22; sjá einnig Abraham 3:22–23).

  17. Við vitum að Drottinn sjálfur getur kallað okkur heim hvenær sem honum sýnist.

  18. Gordon B. Hinckley, „God Is at the Helm,“ Ensign, maí 1994, 54; sjá einnig Gordon B. Hinckley, „He Slumbers Not, nor Sleeps,“ Ensign, maí 1983, 6.

  19. „Message from President Thomas S. Monson,“ Church News, 3. feb. 2013, 9.

  20. „We Ever Pray for Thee,“ Hymns, nr. 23.