2010–2019
Föstulögmálið: Persónuleg ábyrgð að annast fátæka og þurfandi
október 2014


Föstulögmálið: Persónuleg ábyrgð að annast fátæka og þurfandi

Við höfum þá sérstöku ábyrgð, sem fylgjendur frelsarans, að annast fátæka og þurfandi.

Kæru bræður mínir, ég ann prestdæminu og að vera meðal ykkar. Ég er innilega þakklátur fyrir að við getum þjónað saman í þessum mikla málstað.

Við lifum á undraverðum tímum. Miklar framfarir á sviði lækninga, vísinda og tækni, hafa bætt líf svo margra. Þó eru líka ummerki um mikla ógæfu og neyð. Auk styrjalda og orðróm um stríð, hafa náttúruhamfarir aukist – svo sem flóð, eldar, jarðskjálftar og sjúkdómar – og haft áhrif á líf milljóna um allan heim.

Leiðtogar kirkjunnar eru meðvitaðir um og vökulir yfir velferð barna Guðs hvarvetna. Neyðarúrræðum kirkjunnar er beitt, þegar og þar sem það er mögulegt, til að bregðast við hinum nauðstöddu. Fellibylurinn Haiyan fór til að mynda yfir Filippseyjar í nóvember síðastliðnum.

Fellibylurinn Haiyan mældist á styrkleikastigi 5 og skildi eftir sig gríðarlega eyðileggingu og þjáningar. Heilar borgir eyðilögðust, margir týndu lífi, milljónir heimila skemmdust eða eyðilögðust og grunnþjónustur lögðust af, líkt og vatnsveitur, skolplagnir og rafmagn.

Hjálpargögn kirkjunnar voru höfð til reiðu strax í kjölfar þessara hörmunga. Kirkjumeðlimir sem búa á Filippseyjum fylktu liði til að hjálpa bræðrum sínum og systrum, með því sjá bæði fólki í og utan kirkju fyrir matvælum, vatni, klæðum og neyðarpökkum.

Samkomuhús kirkjunnar urðu að athvarfi þúsunda heimilislausra. Ástand og öryggi allra meðlima var metið, undir stjórn svæðisforsætisráðsins og prestdæmisleiðtoga heimasvæða, sem margir hverjir höfðu misst allar sína eigur. Innblásnar áætlanir tóku að mótast, til að hjálpa meðlimum til sjálfsbjargar og að skapa sér ásættanleg lífskjör.

Meðlimum kirkjunnar var séð fyrir hæfilegum birgðum til að endurbyggja tréskýlin sín og heimili. Þetta var ekki aðeins endurgjaldslaus dreifing. Meðlimum var séð fyrir þjálfun og sáu svo um nauðsynlega vinnu fyrir sig sjálfa og síðan aðra.

Þegar meðlimir lærðu trésmíði, pípulagnir og annað verksvit, hlaust af því sú blessun að þeir gátu tryggt sér þýðingarmikil atvinnutækifæri við uppbyggingu nálægra borga og samfélaga.

Að annast fátæka og þurfandi er trúarlegt grundvallaratriði og nauðsynlegur þáttur í hinni eilífu áætlun sáluhjálpar.

Fyrir jarðneska þjónustu sína sagði Jehova, í gegnum spámann sinn:: „Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu. Fyrir því býð ég þér og segi: Þú skalt fúslega upp ljúka hendi þinni fyrir bróður þínum, fyrir þurfamanninum og hinum fátæka í landi þínu.“1

Á okkar tíma er ein af hinum fjóru guðlega tilnefndu ætlunarverkum kirkjunnar, að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur við að búa sig undir upphafningu.2

Umönnun fátækra og þurfandi nær bæði yfir stundlega og andlega sáluhjálp. Hún felur í sér þjónustu hvers einstaks meðlims kirkjunnar, er hann annast persónulega fátæka og þurfandi, sem og formlegt velferðarstarf kirkjunnar, sem framkvæmt er með valdsumboði prestdæmisins.

Kjarninn í áætlun Drottins um umönnun fátækra og þurfandi er föstulögmálið. „Drottinn hefur komið á föstulögmálinu og föstufórnum, til að blessa fólk sitt og sjá þeim fyrir leið til að blessa hina þurfandi.“3

Við höfum þá sérstöku ábyrgð, sem fylgjendur frelsarans, að annast fátæka og þurfandi. Trúfastir meðlimir hvarvetna hjálpameð því að fasta í hverjum mánuði – neyta hvorki matar, né drykkjar í sólarhring – og ánefna kirkjunni síðan föstufórn, hið minnsta jafnvirði þeirra þeirra máltíða sem þeir neituðu sér um.

Þessi orð Jesaja ætti að íhuga vandlega í bænarhug og kenna á hverju heimili:

„Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok,

það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.“4

Jesaja greindi síðan frá hinum undursamlegu blessunum, sem Drottinn lofaði þeim sem hlýða föstulögmálinu. Hann segir:

„Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér.

Þá munt þú kalla á Drottin, og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp, og hann segja: Hér er ég! …

Ef þú réttir hinum hungraða brauð þitt og seður þann, sem bágt á, þá mun ljós þitt renna upp í myrkrinu og niðdimman í kringum þig verða sem hábjartur dagur.

Þá mun Drottinn stöðugt leiða þig og seðja þig.“5

Hvað þessa ritningargrein varðar, þá sagði Harold B. Lee forseti: „Þær undraverðu blessanir sem koma af [föstu], hafa verið vel útskýrðar á öllum ráðstöfunartímum, og Drottinn segir okkur hér með sínum miklu spámönnum, frá tilgangi föstu og blessunum hennar. … Ef þið ígrundið … 58. kapítula í bók Jesaja, munuð þið komast að ástæðu þess að Drottinn vill að við greiðum föstufórnir, ástæðu þess að hann vill að við föstum. Það er vegna þess að með þessari aðferð getum við ákallað Drottin, svo hann svari. Við getum kallað og Drottinn mun segja. ‚Hér er ég.‘“

Lee forseti bætt við: „Viljum við nokkuð lenda í þeim aðstæðum að hann svari ekki, þegar við köllum? Að hann sé ekki með okkur þegar við hrópum í neyð? Ég held að nú sé rétt að hugsa um þessi grundvallaratriði, því þeir dagar eru framundan, þegar við höfum stöðugt meiri þörf fyrir blessanir Drottins, þegar dómum hans verður skilyrðislaust úthellt yfir gjörvalla jörðina.“6

Okkar ástkæri spámaður, Thomas S. Monson forseti, gaf vitnisburð sinn um þessar reglur – vitnisburð út frá persónulegri reynslu. Hann sagði: „Sérhver meðlimur kirkjunnar sem lagt hefur sitt af mörkum til hjálpar hinum þurfandi sér ekki eftir því eða gleymir þeirri upplifun. Vinnusemi, sparsemi, sjálfsbjörg og gjafmildi eru okkur ekki ókunnug.“7

Bræður, meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru fólk sem gerir sáttmála og heldur boðorð. Ég fæ ekki séð að auðveldara sé að hlíta neinu öðru lögmál eða boðorði, en föstulögmálinu, og sem er blessunarríkara, sé lifað eftir því, Þegar við föstum og gefum heiðarlega föstufórn, erum við að auka við forðabúr Drottins, því sem nemur jafnvirði máltíðanna. Það þarf ekki að gefa meira en sem nemur jafnvirðinu. Okkur er samt lofað miklum blessunum, eins áður sagði.

Föstulögmálið á við um alla meðlimi kirkjunnar. Ungum börnum má jafnvel kenna að fasta, með því að byrja á einni máltíð og síðan tveimur, allt eftir skilningi þeirra og líkamlegri getu til að lifa eftir föstulögmálinu. Eiginmenn og eiginkonur, einhleypir meðlimir, unglingar og börn, ættu að hefja föstu með bæn, þakka fyrir fengnar blessanir og leita blessana og styrks Drottins meðan fastað er. Föstulögmálið er fullkomnað með því að afhenda fulltrúa Drottins, biskupinum, föstufórn.

Biskupar, þið sjáið um velferðarmál í deild ykkar. Þið hafið það guðlega hlutverk að finna og annast hina fátæku. Markmið ykkar er að hjálpa meðlimum til sjálfshjálpar, með stuðningi forseta Líknarfélagsins og sveitarleiðtoga Melkísedeksprestdæmisins, Þið annist stundlegar og andlegar þarfir meðlima, með því að nota föstufórnir gætilega, sem stundlegan aukastuðning og úrræði fyrir utan þann sem kemur frá fjölskyldum og samfélagi. Þegar þið í bænaranda notið lykla prestdæmisins og eigin dómgreind til að hjálpa fátækum og þurfandi, mun ykkur verða ljóst að rétt notkun á föstufórnum er til að veita lífsnauðsynjar, en ekki til að viðhalda lífsstíl.

Sveitarforsetar Aronsprestdæmisins, þið hafið lykla og valdsumboð til að þjónusta ytri helgiathafnir. Þið starfið með biskupi og fræðið sveitarmeðlimi um skyldur þeirra í prestdæminu og leitið til kirkjumeðlima til að gefa þeim tækifæri til að leggja af mörkum til föstunnar. Þegar Aronsprestdæmishafar efla sig í ábyrgð prestdæmisins og færa öllum meðlimum þetta tækifæri, munuð þið gera þeim, sem þarfnast þessa mest, kleift að hljóta hinar lofuðu blessanir föstu. Þið munuð sjá að andi umönnunar hinna fátæku og þurfandi, hefur mátt til að milda hjörtu og blessa þá sem ekki koma oft í kirkju.

Monson forseti sagði: „Þeir biskupar sem skipuleggja Aronsprestdæmissveitir sínar, til að safna saman föstufórnum, munu finna aukinn árangur í þessari helgu ábyrgð.“8

Biskupar, gætið að því að aðstæður eru afar mismunandi, frá einu svæði til annars og frá einu landi til annars. Ekki er víst að það henti á ykkar svæði að meðlimir Aronsprestdæmissveitar fari hús úr húsi til að hafa samband við fólk. Við hvetjum ykkur samt til að íhuga hina spámannlegu leiðsögn og leita innblásturs til að finna réttar leiðir til þess að Aronsprestdæmishafar í deild ykkar geti eflt sig í prestdæminu, með því að taka þátt í samansöfnun föstufórna.

Í 27. kapítula í 3. Nefí, spurði hinn upprisni Drottinn: „Hvers konar menn ættuð þér því að vera?“ Hann svaraði: „Alveg eins og ég er.“9 Þegar við tökum á okkur nafn Krists og reynum að fylgja honum, mun mynd hans greypast í svip okkar og við verðum líkari honum. Að annast fátæka og þurfandi, er hluti af þjónustu frelsarans. Það er allt sem hann gerir. Hann nær til okkar og hefur okkur upp. Hans ok er ljúft og byrði hans létt. Ég býð okkur öllum að líkjast frelsaranum meira, með því að annast hina fátæku og þurfandi, lifa trúfastlega eftir föstulögmálinu og greiða rausnarlega föstufórn. Af auðmýkt ber ég vitni um að trúföst umönnun fátækra og þurfandi, sýnir andlegan þroska og mun blessa bæði gefandann og þiggjandann. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. 5. Mós 15:11.

  2. Sjá Handbook 2: Administering the Church (2010), 2.2.

  3. Handbook 2, 6.1.2.

  4. Jes 58:6–7.

  5. Jes 58:8–11.

  6. Harold B. Lee, „Listen and Obey“ (velferðarsamkoma landbúnaðarmála, 3 apríl 1971, afrit af handriti, 14); Church History Library, Salt Lake City.

  7. Thomas S. Monson, „Are We Prepared?“ Ensign eða Liahona, sept. 2014, 4.

  8. Thomas S. Monson, á fundi með Yfirbiskupsráðinu 28, feb. 2014.

  9. 3 Ne 27:27.