2010–2019
Uns við hittumst á ný
október 2014


Uns við hittumst á ný

Megum við íhuga sannleika þess sem við höfum heyrt og megi það hjálpa okkur að verða enn hugdjarfari lærisveinar.

Bræður mínir og systur, við höfum upplifað tvo dásemdar daga með innblásnum skilaboðum. Hjörtu okkar hafa verið snert og trú okkar styrkt á sama tíma og við höfum meðtekið af andanum sem hefur verið viðstaddur á þessum ráðstefnufundum. Um leið og við ljúkum þessu þökkum við himneskum föður okkar fyrir hans mörgu blessanir í okkar garð.

Okkur hefur verið lyft upp og við innblásin af þessari fallegu tónlist sem hefur verið í boði á fundunum. Bænirnar sem fluttar hafa verið, hafa fært okkur nær himnum.

Mig langar að tjá einlægar þakkir allrar kirkjunnar til bræðranna sem hafa verið leystir frá störfum á þessari ráðstefnu. Við munum sakna þeirra. Framlag þeirra til verks Drottins hefur verið gífurlegt og mun hafa áhrif á komandi kynslóðir.

Ég vona að við munum snúa aftur til heimila okkar með þann ásetning í huga að vera aðeins betri en við höfum verið fram að þessu. Megum við vera aðeins vinsamlegri og hugulsamari. Megum við rétta hendina fram til aðstoðar, ekki aðeins til annarra kirkjuþegna heldur einnig til þeirra sem eru annarrar trúar. Þegar við umgöngumst þá, megum við þá sýna þeim virðingu.

Það eru sumir sem berjast daglega við áskoranir. Réttum fram höndina og sýnum þeim umhyggju um leið og hjálparhönd. Við verðum blessuð er við önnumst hvort annað.

Munum eftir þeim sem eldri eru og þeim sem komast ekki út úr húsi. Þegar við tökum tíma til að heimsækja þau, þá munu þau vita að þau eru elskuð og metin verðleikum. „Fylgjum þeirri tilskipun að „[styðja] þá óstyrku, [lyfta] máttvana örmum og [styrkja] veikbyggð kné.“1

Verum heiðarlegt fólk og sýnum ráðvendni, reynum alltaf og í öllum aðstæðum, að gera það sem er rétt. Verum trúfastir fylgjendur Krists, fordæmi um réttlæti og á þann hátt verðum við „ljós í heiminum.“2

Kæru bræður og systur, ég þakka ykkur fyrir bænir ykkar í mína þágu. Þær styrkja mig og lyfta mér er ég vinn að því af öllu mínu hjarta og styrk, að gera vilja Guðs og að þjóna honum og þjóna ykkur

Þegar við nú yfirgefum þessa ráðstefnu, kalla ég blessanir himins yfir hvert og eitt ykkar. Megið þið, sem eruð fjarri heimilum ykkar núna, snúa til þeirra í öryggi og finna allt í lagi þar. Megum við íhuga sannleika þess sem við höfum heyrt og megi það hjálpa okkur að verða enn hugdjarfari en við vorum í upphafi ráðstefnunnar.

Þar til við hittumst aftur eftir sex mánuði þá bið ég um blessanir Drottins yfir ykkur og, sannarlega yfir okkur öllum, og það geri ég í hans heilaga nafni - jafnvel Jesú Krists, Drottins vor og frelsara - amen.