2010–2019
Veldu að trúa
Apríl 2015


Veldu að trúa

Frelsarinn veitir fagnaðarerindið sitt þeim sem velja að trúa á hann og fylgja, sem ljós til leiðsagnar

Sailor Gutzler, sjö ára gömul, og fjölskylda hennar voru að fljúga frá Flórída til Illinois í einkaflugvél síðastliðinn janúar. Faðir Sailors var við stjórnvölinn. Vélarbilun kom upp í flugvélinni rétt eftir myrkur og vélin hrapaði niður í kolsvartar hæðir Kentucky fylkis og endaði flugvélin á hvolfi í mjög torfæru landssvæði. Allir létust í slysinu nema Sailor. Úlnliður hennar brotnaði í slysinu. Hún skarst einnig, hruflaðist og týndi skónum. Úti var 3 gráðu hiti – þetta var kalt og blautt vetrarkvöld í Kentucky – og Sailor var einungis í stuttbuxum, stuttermabol og einum sokk.

Hún grét og kallaði á móður sína og föður en enginn svaraði. Hún safnaði saman öllu því hugrekki sem hún bjó yfir og hélt af stað berfætt yfir óbyggðirnar í leið að hjálp. Hún óð læki, fór yfir skurði og gegnum brómberja þyrnirunna. Ofan af lítilli hæð sá Sailor ljós í eins og hálfs kílómetra fjarlægð. Hrasandi í myrkrinu og trjágróðrinum gekk hún í áttina að ljósinu. Að lokum kom hún að heimili góðs manns sem hún hafði aldrei áður hitt sem tók strax að huga að henni. Sailor var nú örugg. Brátt yrði hún færð á sjúkrahús þar sem hún myndi hefja bataferil sinn.1

Sailor lifði af því hún sá ljós í fjarlægð og barðist við að komast þangað – þrátt fyrir ófærur og erfitt landslag, sorglegan harmleik og meiðsli sem hún þurfti að þola. Það er erfitt að ímynda sér hvernig Sailor náði að framkvæma það sem hún gerði þetta kvöld. Hins vegar vitum við að í ljósinu, sem stafaði af húsinu í fjarlægð, sá hún möguleika á björgun. Það var von. Hún öðlaðist hugrekki í þeirri staðreynd að sama hversu slæmt ástandið var þá myndi björgun hennar felast í þessu ljósi.

Fá okkar munu nokkru sinni upplifa eins skelfilega reynslu og Sailor fór í gegnum. Hins vegar munum við öll, á einhverjum tíma, þurfa að þræða okkar eigin andlegu óbyggðir og fara í okkar eigin harðgerðu tilfinningalegu ferðalög. Á slíkum stundum, sama hversu dökkt ástandið er eða algjört vonleysi ríkir, að því virðist, þá mun ætíð vera andlegt ljós sem býður okkur að koma og veitir okkur von um björgun og létti. Ljósið skín frá frelsara mannkyns, sem er ljós heimsins.

Greining andlegt ljós er frábrugðið því að sjá efnislegt ljós. Fúsleiki okkar til að trúa fær okkur til að skynja andlegt ljós frelsarans. Guð krefst þess að í byrjun höfum við, hið minnsta, löngun til að trúa. „Ef þið viljið vakna og vekja hæfileika ykkar … og sýna örlitla trú,“ kennir spámaðurinn Alma, „ jafnvel þótt ekki sé nema löngun til að trúa, látið þá undan þessari löngun, þar til þið trúið nægilega til að gefa hluta orða [frelsarans] rúm.“2

Ákall Alma til okkar allra um að hafa löngun til að trúa og „gefa...rúm“ í hjörtum okkar fyrir orð frelsarans minnir okkur á að trú krefst persónulegs vals og gjörða. Við verðum að „vekja hæfileika [okkar].“ Við biðjum áður en við hljótum, við leitum áður en við finnum, við knýjum á áður en opnað er fyrir okkur. Síðan er okkur gefið þetta loforð: „Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.“3

Sú beiðni um að við myndum trúa, sem hefur haft hvað mestan tilfinningaþunga, kom frá frelsaranum sjálfum er hann dvaldi á jörðunni, þegar hann biðlaði til véfengjandi hlustenda sína:

„Ef ég vinn ekki verk föður míns, trúið mér þá ekki,

En ef ég vinn þau, þá trúið verkunum, þótt þér trúið mér ekki, svo að þér skiljið og vitið, að faðirinn er í mér og ég í föðurnum.“4

Dag hvern tökumst við á við próf. Það er prófraun lífs okkar: Munum við velja að trúa á hann og leyfa ljósi fagnaðarerindis hans að vaxa innra með okkur eða munum við neita að trúa og krefjast þess að ferðast ein í myrkinu? Frelsarinn veitir fagnaðarerindið sitt þeim sem velja að trúa á hann og fylgja, sem ljós til leiðsagnar

Sailor hafði val eftir hrapið. Hún hefði geta verið áfram hjá flakinu í myrkrinu, alein og hrædd. Hins vegar var löng nótt framundan og það átti einungis eftir að kólna. Hún valdi aðra leið. Hún klifraði upp á hæð og þar sá hún ljós út við sjóndeildarhringinn.

Ljósið varð smám saman bjartara er hún hélt áfram leið sinni í gegnum nóttina. Það hljóta samt að hafa verið stundir þar sem hún sá ekki ljósið. Kannski það hafi horfið úr augnsýn þegar hún var í gili eða bakvið tré og runna en hún hélt samt áfram. Þegar hún gat séð ljósið var það sönnun á því að Sailor væri á réttri leið. Hún vissi enn ekki nákvæmlega hvað þetta ljós væri en hún hélt áfram að ganga í áttina að því, byggt á því sem hún vissi, treystandi og vonandi að hún myndi sjá ljósið aftur ef hún héldi áfram að færa sig í rétta átt. Hún bjargaði eflaust eigin lífi með því að gera það.

Sama á við um líf okkar. Á einhverjum tímapunkti getur verið að einhver hafi sært okkur, við séum þreytt og líf okkar virðist vera myrkvað og kalt. Vera má að á sumum stundum sjáum við ekkert ljós á sjóndeildarhringnum og okkur langi að gefast upp. Ef við erum fús til að trúa, ef við höfum löngun til að trúa, ef við veljum að trúa þá mun kennsla frelsarans og fordæmi sýna okkur veginn framundan.

Veldu að trúa

Á sama hátt og Sailor þurfti að trúa að hún fyndi öryggi hjá ljósinu í fjarska þá þurfum við einnig að velja að opna hjörtu okkar fyrir himneskum raunveruleika frelsarans – fyrir hans eilífa ljósi og læknandi miskunn. Spámenn á öllum tímum hafa hvatt okkur og jafnvel sárbeðið okkur að trúa á Krist. Þeirra hvatning endurspeglar grundvallar staðreynd: Guð neyðir okkur ekki til að trúa. Hann býður okkur þess í stað að trúa með því að senda lifandi spámenn og postula til að kenna okkur, með því að útvega ritningar og með því að veita okkur ábendingu með anda sínum. Það eru við sem verðum að velja að taka á móti þessu andlega boði og kjósa að sjá með innri augum hið andlega ljós sem hann kallar okkur með. Ákvörðunin um að trúa er mikilvægasta ákvörðunin sem við munum nokkru sinni taka. Hún mótar allar aðrar ákvarðanir okkar.

Guð neyðir okkur ekki til að trúa frekar en hann neyðir okkur til að halda einhver boðorð, þrátt fyrir fullkomna löngun sína að blessa okkur. Boð hans til okkar að trúa á hann – að sýna örlitla trú og gefa orðum hans rúm – er enn í gildi í dag. Eins og frelsarinn sagði: „Og ég ber þess vitni, að faðirinn býður öllum mönnum alls staðar að iðrast og trúa á mig.“5

Trú og vitnisburður eru ekki aðgerðalausar reglur. Þær eiga sér ekki bara stað af því bara. Trú er nokkuð sem við veljum – vonumst eftir, vinnum að og fórnum fyrir. Við munum ekki óvart fara að trúa á frelsarann og fagnaðarerindi hans ekki frekar en við munum óvart biðja eða greiða tíund. Meðvitað veljum við að trúa rétt eins og við veljum að halda önnur boðorð.

Komum trúnni í verk

Sailor gat ekki vitað í byrjun hvort það sem hún væri að gera myndi ganga upp, er hún þröngvaði sér í gegnum lágskóginn. Hún var týnd og meidd. Það var myrkur og kalt. Samt yfirgaf hún slysstaðinn og lagði af stað í von um björgun, skríðandi og klöngrandi áfram þar til hún sá ljósið í fjarlægð. Eftir að hún hafði séð það og lagt á minnið hvar ljósið væri þá gerði hún sitt besta í að koma sér í áttina að ljósinu.

Á sama hátt verðum við að veita voninni stað svo við getum fundið andlegt ljós með því að umvefja trúna opnum örmum í stað þess að velja að efast. Gjörðir okkar eru sönnun trúar okkar og verða að innihaldi trúar okkar. Við erum að velja að trúa þegar biðjumst fyrir og þegar við lesum í ritningunum. Við erum að velja að trúa þegar við föstum, þegar við höldum hvíldardaginn heilagan og þegar við tilbiðjum í musterinu. Við erum að velja að trúa þegar við skírumst og þegar við meðtökum sakramentið. Við erum að velja að trúa þegar við iðrumst, leitum eftir himneskri fyrirgefningu og læknandi elsku.

Aldrei gefast upp

Andleg framþróun getur stundum virst hægfara eða slitrótt. Stundum líður okkur eins og við séum að fara aftur á bak, að við höfum gert mistök eða að okkar besta framlag við að nálgast frelsarinn sé ekki að virka. Ef ykkur líður þannig þá bið ég ykkur vinsamlega að gefast ekki upp – aldrei. Haldið áfram að trúa á hann og fagnaðarerindi hans og kirkju hans. Samstillið gjörðir ykkar við þessa trú. Látið von ykkar á elsku frelsarans og náð, sem finnst í fagnaðarerindi hans og kirkju hans, yfirgnæfa efa ykkar á þeim stundum þegar ljós trúar ykkar hefur dofnað. Ég heiti ykkur að hann er reiðubúinn að taka á móti ykkur. Með tímanum mun renna upp fyrir ykkur að þið hafið tekið bestu ákvörðunina sem þið mögulega hefðuð geta tekið. Djörf ákvörðun ykkar um að trúa á hann mun blessa ykkur óumræðilega og að eilífu.

Blessanir trúarinnar

Ég hef skynjað miskunnarfulla elsku frelsarans í lífi mínu. Ég hef leitað hans á dimmum tímum míns eigin lífs og hann hefur teygt sig til mín með læknandi ljósi sínu. Það veitir mér mjög mikla gleði að ferðast með eiginkonu minni, Kathy, út um allan heim og hitta meðlimi kirkjunnar. Þessi dásamlegu kynni hafa kennt okkur um elsku Guðs til barna sinna. Þau hafa sýnt mér þá ótakmörkuðu möguleika fyrir hamingju sem verður blessun þeirra sem velja að fylgja kenningum Drottins Jesú Krists. Ég hef lært að trú á hann og endurlausnarkraft hans er hin sanna leið að „[friði] í þessum heimi og eilíft líf í komanda heimi.“6

Ég ber því vitni að Jesús Kristur er uppspretta ljóss og vonar fyrir alla. Ég bið þess að við munum velja að trúa á hann. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Lindsey Bever, „How 7-Year-Old Sailor Gutzler Survived a Plane Crash,“ Washington Post, 5. jan 2015, washingtonpost.com; „Girl Who Survived Plane Crash Hoped Family Was Just Sleeping,“ 4. jan 2015, myfox8.com; „Kentucky Plane Crash: Four Killed, Little Girl Survives,“ 4 jan 2015, news.com.au; “Young Girl, Sole Survivor of Kentucky Plane Crash,” Associated Press, 3. jan 2015, jems.com.

  2. Alma 32:27; skáletrað hér.

  3. 3 Ne 14:8; sjá einnig vers 7.

  4. Jóh 10:37–38.

  5. 3 Ne 11:32.

  6. Kenning og sáttmálar 59:23.