2010–2019
Vernda sjálfræðið, verja trúfrelsið
Apríl 2015


Vernda sjálfræðið, verja trúfrelsið

Trúföst notkun sjálfræðis okkar er háð því að við njótum trúfrelsis.

Þetta er páskasunnudagur: Dagur þakklætis, er við heiðrum frelsara okkar Jesú Krist og minnumst friðþægingar og upprisu hans í þágu alls mannkyns. Við tilbiðjum hann í þakklæti fyrir trúfrelsi okkar, samkomufrelsi, málfrelsi og hinn guðsgefna sjálfræðisrétt.

Líkt og spámenn hafa sagt fyrir um þessa síðari tíma sem við lifum á, þá eru margir ráðviltir um það hver við erum og hverju við trúum. Sumir eru „Rógberandi, … [og] ekki elskandi það sem gott er.“1 Aðrir … „kalla hið illa gott og hið góða illt, [og] gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri.“2

Þegar þeir sem umhverfis eru ákveða hvernig bregðast skuli við trú okkar, megum við ekki gleyma að siðferðislegt sjálfræði er nauðsynlegur hluti af áætlun Guðs fyrir öll börn hans. Sú eilífa áætlun, sem okkur var greint frá í fortilverunni á stórþingi himins, fól í sér gjöf sjálfræðis.3

Á þessu stórþingi notaði Lúsífer, sem kunnur er sem Satan, sjálfræðið sitt til að setja sig upp á móti áætlun Guðs. Guð sagði: „Vegna þess að Satan reis gegn mér og reyndi að tortíma sjálfræði mannsins, sem ég, Drottinn Guð, hafði gefið honum … lét ég varpa honum niður.“4

Hann hélt áfram: „Og þriðja hluta af herskörum himins sneri hann einnig gegn mér vegna sjálfræðis þeirra.“5

Af þessu leiddi, að þau andabörn himnesks föður sem völdu að hafna áætlun hans og fylgja Lúsífer, glötuðu sínum guðlegu örlögum.

Jesús Kristur notaði eigið sjálfræði og sagði:

„Hér er ég, send mig.“6

„Verði þinn vilji og þín sé dýrðin að eilífu.“7

Jesús, sem notað hafði sjálfræði sitt til stuðnings við áætlun himnesks föður, var valinn og útnefndur sem frelsara okkar, forvígður til að framkvæma friðþægingarfórnina í þágu okkar allra. Á líkan hátt, þá fáum við aðeins fyllilega skilið hver við erum og meðtakið allar blessanir okkar himneska föður, með því að iðka sjálfræði okkar og halda boðorðin – þar með talið að fá líkama, þróast, upplifa gleði, eignast fjölskyldu og erfa eilíft líf.

Við þurfum að þekkja hina opinberu kenningu kirkjunnar, til að geta haldið boðorðin, svo við látum ekki hrekjast frá handleiðslu Krists af endalausum duttlungum manna.

Við njótum blessana okkur nú, vegna þess að við ákváðum að fylgja frelsaranum áður en þetta líf varð að veruleika. Við alla sem hlusta á eða lesa þessi orð, hvar sem þið eruð og hver sem fortíð ykkar er, hafið þá þetta í huga: Það er ekki of seint að ákveða að gera það sama aftur og fylgja honum.

Fyrir trú okkar á Jesú Krist, friðþægingu hans, iðrun synda og skírn, getum við síðan tekið á móti hinni guðlegu gjöf heilags anda. Sú gjöf veitir þekkingu, skilning, leiðsögn og styrk til að læra og hljóta vitnisburð, kraft og hreinsun til að sigrast á synd og huggun og hvatningu til að vera trúföst í þrengingum. Þessar óviðjafnanlegu blessanir andans auka frelsi okkar og hæfni til að gera hið rétta, því „þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.“8

Þegar við göngum veg andlegs frelsis á þessum efstu dögum, verðum við að skilja að trúföst notkun sjálfræðis okkar, er undir því komin að við njótum trúfrelsis. Við vitum þegar að Satan vill ekki að við njótum slíks frelsis. Hann reyndi að tortíma siðferðislegu sjálfræði á himnum og nú á jörðu reynir hann allt hvað hann getur til að rýra og skapa ringulreið um trúfrelsið – um merkingu þess og mikilvægi fyrir okkar andlega líf og sáluhjálp.

Það eru fjórir hornsteinar trúfrelsis sem við Síðari daga heilagir verðum að reiða okkur á og vernda.

Í fyrsta lagi er það skoðanafrelsið. Enginn ætti að sæta gagnrýni, ofsóknum eða árásum einstaklinga eða stjórnvalda og ekki heldur fyrir trú sína á Guð. Hún er afar persónuleg og mikilvæg. Áður útgefin yfirlýsing um skoðanir okkar varðandi trúfrelsið segir:

„Vér álítum, að engin stjórnvöld fái starfað í friði, nema lög séu sett og þeim viðhaldið, sem tryggi sérhverjum einstaklingi frelsi til að fylgja samvisku sinni. …

„… Opinber yfirvöld skuli halda afbrotum niðri, en aldrei stjórna samvisku manna … [eða] hefta frelsi sálarinnar.“9

Hið mikilvæga skoðanafrelsi hefur upp frá þessu verið viðurkennt af Sameinuðuþjóðunum í Mannréttindaskrá þess og í öðrum alþjóðlegum réttindaskjölum.10

Annar hornsteinn trúfrelsis er frelsi til að miðla öðrum trú okkar og skoðunum. Drottinn hefur boðið: „Þér skuluð kenna [fagnaðarerindi] börnum yðar … þegar þú ert heima.“11 Hann sagði líka við lærisveina sína: „Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.“12 Sem foreldrar, fastatrúboðar og meðlimatrúboðar, þá reiðum við okkur á trúfrelsið til þess að miðla kenningu Drottins, meðal fjölskyldna okkar og hvarvetna um heim.

Þriðji hornsteinn trúfrelsis er frelsi til að stofna trúarsöfnuð, kirkju, og tilbiðja friðsamlega með öðrum. Ellefta Trúaratriðið segir: „Vér krefjumst þeirra réttinda að fá að tilbiðja almáttugan Guð, eftir því sem eigin samviska býður, og viðurkennum sömu réttindi til handa öllum mönnum. Lofum þeim að tilbiðja, hvernig, hvar eða hvað, sem þeim þóknast.“ Alþjóðleg mannréttindaskjöl og stjórnarskrár ýmissa ríkja styðja þessa reglu.

Fjórði hornsteinn trúfrelsis er frelsi til að lifa samkvæmt trú okkar – ekki aðeins frelsi til að lifa eftir trúnni í kirkju og á heimilum okkar, heldur líka á opinberum stöðum. Drottinn býður okkur ekki aðeins að biðja í einrúmi,13 heldur líka að fara út, svo „þannig lýsi ljós [okkar] meðal mannanna, að þeir sjái góð verk [okkar] og vegsami föður [okkar], sem er á himnum.“14

Sumum er misboðið þegar við miðlum trú okkar meðal almennings, en þó er það einmitt svo, að þeir sömu sem gera kröfu um að samfélagið virði skoðanir þeirra, eru tregir til að sýna hinum trúuðu sama umburðarlyndi, sem auðvitað vilja líka að virðing sé borin fyrir skoðunum, afstöðu og breytni þeirra. Hið almenna virðingarleysi gagnvart trúarskoðunum, er á hraðri leið með að verða að samfélagslegu og stjórnmálalegu umburðarleysi gagnvart trúuðu fólki og stofnunum.

Þegar við nú upplifum þann aukna þrýsting að tileinka okkur veraldlega staðla, fórna trúfrelsi okkar og takmarka sjálfræði okkar, hugleiðum þá hvað Mormónsbók segir um ábyrgð okkar. Í Bók Alma lesum við um Amlikí, „sem var mjög slóttugur“ og „ranglátur maður“ er sóttist eftir því að verða konungur yfir fólkinu og „svipta það rétti sínum og réttindum … [sem] ógnaði þetta fólki kirkjunnar.“15 Mósía konungur hafði kennt því að láta rödd sína heyrast um það sem því þótti vera rétt.16 Þess vegna „safnaðist fólkið saman [um gjörvallt landið] í aðskilda hópa, með eða móti Amlikí og deildi ákaft, og ágreiningurinn var ótrúlega mikill.“17

Í þessari umræðu gafst meðlimum kirkjunnar og öðrum tækifæri til að koma saman, upplifa anda einingar og áhrif heilags anda. „Og svo bar við, að rödd þjóðarinnar var andsnúin Amlikí, þannig að hann var ekki gjörður að konungi yfir þjóðinni.“18

Okkur, sem lærisveinum Jesú Krists, ber skylda til að starfa með öðrum trúuðum sem eru sama sinnis, til að láta í okkur heyra um hið rétta. Þótt meðlimir eigi aldrei að staðhæfa eða gefa í skyn að þeir tali fyrir hönd kirkjunnar, þá er okkur öllum boðið, að eigin getu sem borgarar, að miðla vitnisburði okkar af sannfæringu og kærleika – „hver maður að eigin vilja.“19

Spámaðurinn Joseph Smith sagði:

„Ég [fullyrði] djarflega frammi fyrir himnum, að ég er jafn fús til að deyja til varnar réttindum öldungakirkjunnar, baptista eða sérhvers góðs manns einhvers trúarsafnaðar. Því ef troðið væri á réttindum Síðari daga heilagra af einhverjum ástæðum, yrði einnig troðið á réttindum rómverksk kaþólskra, eða einhvers annars trúarsafnaðar, sem þætti óvinsæll og of veikburða til að verja sig sjálfur.

Það er frelsisástin sem innblæs sál mína – hið borgaralega og trúarlega frelsi alls mannkyns.“20

Bræður og systur, okkar er ábyrgðin að standa vörð um þessi helgu frelsisréttindi fyrir okkur sjálf og afkomendur okkar. Hvað getum við gert?

Í fyrsta lagi þá getum við orðið upplýst. Gætið að málum í ykkar samfélagi sem geta haft áhrif á trúfrelsið.

Í öðru lagi þá getum við sem einstaklingar gengið til liðs við þá sem hafa sömu sterku afstöðu til trúfrelsis. Snúið bökum saman og verjið trúfrelsið.

Í þriðja lagi þá getum við verið fyrirmynd trúar okkar – í orði og verki. Hvernig við lifum eftir trú okkar er mun mikilvægara en það sem við segum um trú okkar.

Það dregur nær síðari komu frelsarans. Við skulum ekki fresta þessum málstað. Minnist Morónís hershöfðingja sem hélt frelsistákninu á lofti og sagði: „Í minningu um Guð vorn, trúarbrögð vor og frelsi, og frið vorn, eiginkonur vorar og börn vor.“21 Við skulum minnast viðbragða fólksins: Þar „komu menn hlaupandi,“ iðkuðu eigið sjálfræði og gerðu sáttmála um að bregðast við.22

Kæru bræður og systur, gangið ekki! Hlaupið! Hlaupið eftir blessunum sjálfræðis, með því að fylgja heilögum anda og nýta okkur þau frelsisréttindi sem Guð hefur gefið okkur til að breyta að vilja hans.

Ég gef ykkur mitt sérstaka vitni á þessum sérstaka páskadegi, um að Jesús Kristur notaði sjálfræðið sitt til að breyta að vilja himnesks föður.

Við syngjum um frelsarann: „Hann saklaus vorar syndir bar.“23 Þar sem hann gerði það, þá njótum við þess ómetanlega tækifæris að „velja frelsi og eilíft líf“ fyrir kraft og blessun friðþægingar hans.24 Megum við fúslega ákveða að fylgja honum í dag og alla daga. Það er bæn mín, í hans helga nafni, já, Jesú Krists, amen.