2010–2019
Dæmisagan um sáðmanninn
Apríl 2015


Dæmisagan um sáðmanninn

Það er undir hverju okkar komið að forgangsraða og gera það sem þarf til að jarðvegur okkar verði góður og uppskera okkar mikil.

Efni aðalráðstefnuræða er úthlutað, ekki með jarðnesku valdsumboði – heldur með innblæstri andans. Efni margra ræðna fjallar um siðferðismál okkar tíma. Þótt Jesús hafi ekki kennt hvernig leysa eigi stjórnmálakreppu eða siðferðisvanda okkar tíma, þá innblæs hann yfirleitt þjóna sína nú til að ræða um það sem við getum gert til að bæta líf okkar og búa okkur undir að snúa aftur til okkar himnesku heimkynna. Á þessari páskahelgi hef ég fundið mig knúinn til að fjalla um hinar dýrmætu og sígildu kenningar í einni af dæmisögum Jesú.

Dæmisagan um sáðmanninn er ein fárra sem skráð er í þremur guðspjöllum af fjórum. Hún er líka ein af fáum dæmisögum sem Jesús útskýrði fyrir lærisveinum sínum. Sáðkornið sem var sáð er „orðið um ríkið“ (Matt 13:19), „orðið“ (Mark 4:14–15) eða „orð Guðs“ (Lúk 8:11) – kenningar meistarans og þjóna hans.

Hinn mismunandi jarðvegur sem sáðkornið féll í táknar ólíkar leiðir mannanna við að taka á móti og lifa eftir þessum kenningum. Sáðkornið sem „sáð var við götuna“ (Mark 4:4) féll því ekki í góðan jarðveg þar sem það hefði hugsanlega getað vaxið. Það er líkt kenningum sem ekki festa rætur í hörðu og óundirbúnu hjarta. Um það ætla ég ekki að segja meira. Boðskapur minn er til þeirra sem þegar hafa skuldbundið til að fylgja Kristi. Hvernig förum við með kenningar frelsarans í okkar dagalega lífi?

Dæmisagan um sáðmanninn varar okkur við aðstæðum og viðhorfi sem geta varnað hverjum þeim sem tekið hafa á móti sáðkorni fagnaðarerindisins þess að leiða fram guðlega uppskeru.

I. Grýtt jörð, engar rætur

Sumt sáðkorn „féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð. En er sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það“ (Mark 4:5–6).

Jesús sagði þetta einkenna þann sem „tekur orðinu með fögnuði, um leið og hann heyrir það,“ en sá „hefur enga rótfestu … og er þrenging verður eða ofsókn vegna orðsins, bregst hann þegar“ (Mark 4:16–17).

Hvað veldur því að orðið fær „enga rótfestu“ í þeim sem heyra það? Þetta á við um nýja meðlimi sem aðeins laðast að trúboðunum eða mörgu því sem kirkjan hefur upp á að bjóða eða hinum mörgu góðu ávöxtum kirkjuaðildar. Þeir sem ekki hafa orðið rótfast í sér, geta skrælnað og visnað þegar mótlæti kemur. Meira að segja þeir sem alast upp í kirkjunni – meðlimir til margra ára – geta fallið í það ástand að orðið nái ekki að festa rætur í þeim. Ég hef kynnst nokkrum slíkum – meðlimum sem ekki hafa snúist varanlega og örugglega til trúar á fagnaðarerindi Jesú Krists. Ef kenningar fagnaðarerindisins eru ekki rótfastar í okkar og við lifum ekki reglubundið eftir þeim, getur hjarta okkar harðnað, sem væri þá grýtt jörð fyrir hið andlega sáðkorn.

Andleg næring er nauðsynleg til andlegs lífs, einkum í heimi sem er að hverfa frá trú á Guð og algildi rétts og rangs. Á tíma þar sem Alnetið er svo ráðandi og hefur að geyma mikið trúarletjandi efni, þá verðum við að læra betur andlegan sannleika, til efla trú okkar og vera grundvölluð í fagnaðarerindinu.

Ef ykkur unga fólkinu finnst þessi kennsla of víðtæk, þá er hér dæmi. Ef verið er að bera út sakramentið og þið eruð að senda textaskilaboð, hvíslast á, spila tölvuleiki eða gera eitthvað annað sem kemur í veg fyrir að þið nærist andlega, eruð þið að slíta upp ykkar andlegu rætur og færa ykkur nær hinni grýttu jörð. Þið verðið þá varnarlaus gegn því að orðið hverfi úr ykkur, er þið takist á við mótlæti, líkt og einangrun, ógnun eða háðung. Þetta á líka við um hina fullorðnu.

Annað sem hugsanlega skemmir hinar andlegu rætur – sem núverandi tækni ýtir undir, en einskorðast ekki við hana – er að skoða fagnaðarerindið í gegnum skráargat. Með slíkri takmarkaðri skoðun er einblínt á ákveðna kenningu eða iðkun eða annmarka í fari leiðtoga og horft framhjá heildarmynd fagnaðarerindisins og þeim persónulegu og samfélagslegu ávöxtum sem af því leiða. Gordon B. Hinckley forseti útskýrði glögglega einn þátt slíkrar skráargatsskoðunar. Hann sagði hlustendum í BYU frá stjórnmálaskýrendum sem voru „hamstola af reiði“ út af nýlegum fréttaviðburði sem þá var. „Af ráðnum hug og kænsku jusu þeir úr reiðiskálum sínum. … Vissulega,“ sagði hann, „er þetta stund og staður útsjónasamra flóna.“1 Við verðum að vera hófsöm og yfirveguð í gagnrýni okkar, til að fagnaðarerindið sé vandlega rótfast í okkur, og alltaf leitast við að skilja hið mikilfenglega verk Guðs í breiðara samhengi.

II. Þyrnar: Áhyggjur heimsins og tál auðæfanna

Jesús kenndi: „Sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það, og það bar ekki ávöxt“ (Mark 4:7). Hann útskýrði: „Það merkir þá sem heyra orðið, en áhyggjur heimsins, tál auðæfanna og aðrar girndir koma til og kefja orðið, svo það ber engan ávöxt“ (Mark 4:18–19). Þetta er vissulega viðvörun sem við öll þurfum að taka mark á.

Fyrst fjalla ég um tál auðæfanna. Hvar sem við erum í okkar andlegu ferð – hvar sem við erum stödd í ferli trúarumbreytingar – þá freistar þetta okkar allra. Einskorðist viðhorf okkar eða forgangur við öflun, notkun eða kaup efnislegra hluta, er það kallað veraldarhyggja. Svo margt hefur verið sagt og skrifað um veraldarhyggju að litlu þarf þar við að bæta.2 Þeir sem reiða sig á það sem kallað hefur verið heimspeki hagsældar, þjást af táli auðæfanna. Eignir og auðæfi eða háar tekjur bera ekki vott um velþóknun himins og skortur á því ber ekki vott um vanþóknun himins. Þegar Jesús sagði trúföstum fylgjanda að hann gæti aðeins erft eilíft líf, ef hann aðeins gæfi fátækum allar sínar eigur (sjá Mark 10:17–24), var hann ekki að vísa til þess að eignarhald auðæfanna væri af hinu illa, heldur hins slæma viðhorf sem þessi fylgjandi hafði til þeirra. Eins og við vitum, þá vegsamaði Jesús miskunnsama Samverjann, sem notaði sömu mynt til að þjóna náunga sínum og Júdas notaði til að svíkja frelsara sinn. Peningar eru ekki rót alls ills, heldur peningaástin (sjá 1 Tím 6:10).

Mormónsbók segir frá tímabili þegar „dró úr framgangi“ kirkju Guðs (Alma 4:10), því að „kirkjunnar fólk tók að hreykja sér upp og girnast auðæfi og hégóma þessa heims“ (Alma 4:8). Hver sem á ofgnótt af hinu veraldlega getur átt á hættu að „dofna“ andlega af auðæfunum og öðru veraldlegu.3 Sem eru viðeigandi inngangsorð að næstu lexíu frelsarans.

Hvössustu þyrnarnir sem loka á öll áhrif hins trúarlega orðs í lífi okkar, eru hin veraldlegu öfl sem Jesús sagði vera „[áhyggjur, auðæfi og nautnir lífsins]“ (Lúk 8:14). Of langt mál er að telja það allt upp. Nokkur dæmi verða að nægja.

Af tilefni nokkru átaldi Jesús Pétur, aðalpostula sinn, og sagði við hann: „Þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er“ (Matt 16:23; sjá einnig K&S 3:6–7; 58:39). Ofneysla þess sem mannsins er, ber vott um að það sem tilheyrir heiminum sé tekið fram yfir það sem Guðs er, með verkum okkar, forgangi og hugsun.

Við gefum okkur á vald „stundaránægju þessa lífs“ (1) með því að ánetjast, sem skaðar hina dýrmætu gjöf Guðs, sjálfræðið, (2) með því að láta tælast af ómerkilegri afþreyingu, sem beinir athygli okkar frá því sem er af eilífu mikilvægi, og (3) með því að telja okkur njóta andlegra forréttinda, sem dregur úr nauðsynlegum andlegum þroska, sem býr okkur undir okkar eilífu örlög.

Við látum sligast af „áhyggjum … lífsins“ þegar við verðum þróttlaus af ótta yfir komandi tíð, sem kemur í veg fyrir að við sækjum áfram í trú og reiðum okkur á Guð og fyrirheit hans. Fyrir tuttugu og fimm árum ræddi minn virðulegi BYU kennari Hugh W. Nipley um hættuna sem í því felst að láta sligast af málefnum heimsins. Í viðtali var hann spurður að því hvort ástand heimsins og sú ábyrgð okkar að boða fagnaðarerindið gæfu tilefni til þess að reyna að finna leiðir til að „aðlagast heiminum betur í athöfnum okkar í kirkjunni.“4

Hann svaraði: „Það hefur verið hinn rauði þráður kirkjunnar, ekki satt?“ Við verðum að vera viðbúin því að einhverjum sé misboðið, við verðum að vera fús til að taka þá áhættu. Það er einmitt þannig sem trúin tengist þessu. … Þess er vænst að reynt sé á skuldbindingu okkar. Þetta á að vera erfitt og óhagkvæmt að hætti heimsins.“5

Þessi forgangur fagnaðarerindisins var staðfestur á háskólalóð BYU fyrir fáeinum mánuðum af virtum kaþólskum leiðtoga, Charles J. Chaput, erkibiskupi Fíladelfíu. Hann ræddi um „sameiginleg áhyggjumál SDH og kaþólikka,“ svo sem „hjónabandið og fjölskylduna, eiginleika kynferðis, helgi mannlegs lífs og mikilvægi trúfrelsis,“ og sagði þetta:

„Ég vil undirstrika aftur mikilvægi þess að lifa í raun eftir því sem við segjumst trúa. Það ætti að hafa forgang – ekki aðeins í einka- og fjölskyldulífi okkar, heldur líka í kirkjum okkar, stjórnmálavali, viðskiptum, aðhlynningu fátækra, eða með öðrum orðum, í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur.

Það er mikilvægt einmitt nú,“ sagði hann. „Lærið af reynslu kaþólikka. Við kaþólikkar trúum að okkur beri að vera sem súrdeig í samfélögum okkar. Það er hins vegar hárfín lína á milli þess að vera líkt og súrdeig í samfélagi og að lifa hætti samfélagsins.“6

Sú aðvörun frelsarans um að láta ekki áhyggjur heimsins kæfa orð Guðs í lífi okkar, er okkur vissulega áskorun um að hafa boðorð Guð og leiðandi afl kirkju hans í fyrirrúmi – að stilla hjörtu okkar.

Dæmi frelsarans gæti fengið okkur til að hugsa um þessa dæmisögu sem dæmisögu um jarðvegina. Gæði jarðvegsins fer eftir hjartalagi þess sem boðið er sáðkorn fagnaðaerindisins. Sumir herða hjörtu sín gegn andlegum kenningum og taka ekki á móti þeim, aðrir eru kaldir í hjarta og sýna enga meðaumkun og enn aðrir beina hjörtum sínum að því sem þessa heims er.

III. Féll í góða jörð og bar ávöxt

Dæmisögu Jesú um sáðmanninn lýkur með útskýringu hans á sáðkorninu sem „féll í góða jörð og bar ávöxt,“ af mismunandi magni (Matt 13:8). Hvernig getum við búið okkur undir að verða slík góð jörð og að bera slíkan ávöxt?

Jesús útskýrði: „[Hin] góða jörð, merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi“ (Lúk 8:15). Sáðkorn fagnaðarerindisins er hjá okkur. Það er undir hverju okkar komið að forgangsraða og gera það sem þarf til að jarðvegur okkar verði góður og uppskera okkar mikil. Við verðum að keppa að því að verða kirfilega rótföst og trúarlega grundvölluð í fagnaðarerindi Jesú Krists (sjá Kól 2:6–7). Slíka trú tryggjum við með því að biðja, lesa ritningarnar, þjóna og meðtaka sakramentið reglubundið, svo andi hans sé ávallt með okkur. Við verðum líka að keppa að þeirri gjörbreytingu hjartans (sjá Alma 5:12–14), sem fyllir okkur elsku Guðs og þrá til að þjóna honum og börnum hans og yfirritar illar þrár og eigingjarnan tilgang.

Ég ber vitni um þetta og frelsara okkar, Jesú Krist, sem vísar veginn með kenningum sínum og gerir þetta allt mögulegt með friðþægingu sinni, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Gordon B. Hinckley, „Let Not Your Heart Be Troubled“ (trúarsamkoma í Brigham Young háskóla, 29. okt. 1974), 1; speeches.byu.edu.

  2. Sjá til dæmis Dallin H. Oaks, „Materialism,“ kafli 5 í Pure in Heart (1988), 73–87.

  3. Ég er þakklátur öldungi Neal A. Maxwell fyrir hans minnisstæðu fyrirmynd (sjá „These Are Your Days,“ Ensign, okt. 2004, 26.)

  4. James P. Bell, í „Hugh Nibley, in Black and White,“ BYU Today, maí 1990, 37.

  5. Hugh Nibley, í „Hugh Nibley, in Black and White,“ 37–38.

  6. Charles J. Chaput, „The Great Charter at 800: Why It Still Matters,“ First Things, 23. jan. 2015, firstthings.com/web-exclusives/2015/01/the-great-charter-at-800; sjá einnig Tad Walch, “At BYU, Catholic Archbishop Seeks Friends, Says U.S. Liberty Depends on Moral People,” Deseret News, 23. Jan. 2015, deseretnews.com/article/865620233/At-BYU-Catholic-archbishop-seeks-friends-says-US-liberty-depends-on-moral-people.html. Chaput erkibiskup sagði líka: „Sumar okkar bestu stofnanir hafa annaðhvort glatað eða dregið úr sínu trúarlega gildi. … Brigham Young er framúrskarandi háskóli … því hann er lærdómsmiðstöð sem er auðugur af sínum trúarlegu gildum. Glatið því aldrei“ („The Great Charter at 800“).