2010–2019
Já, við getum og munum sigra!
Apríl 2015


Já, við getum og munum sigra!

Við verðum að halda enn fastar í vitnisburð okkar um fagnaðarerindi Jesú Krists. Þá munum við sigra hinar daglegu orrustur við hið illa.

Kæru bræður, þau forréttindi sem ég fæ hér í dag, að tala til ykkar, prestdæmishafar Guðs í allri kirkjunni, gera mig auðmjúkan.

Thomas S. Monson forseti sagði eitt sinn:

„Heimurinn getur stundum verið skelfilegur að lifa í. Siðferðisþáttur samfélagsins virðist rakna í sundur með ógnvekjandi hraða. Enginn - hvorki ungur né aldinn, né þar á milli - kemst undan því að sjá það sem mögulega getur dregið okkur niður og tortímt okkur. …

… En við þurfum ekki að örvænta. … Við eigum í stríði við syndina.. … Það er styrjöld sem við getum og munum sigra. Faðir okkar á himnum hefur gefið okkur verkfærin sem þarf til sigurs.“1

Við stöndum öll, ung sem aldin, daglega frammi fyrir þessari styrjöld sem Monson forseti minntist á. Andstæðingurinn og englar hans reyna að trufla einbeitingu okkar. Tilgangur þeirra er að hvetja okkur til að beygja af leið frá sáttmálum þeim sem við höfum gert við Drottin, og verða þess valdandi að við missum sjónar á eilífri arfleifð okkar. Þeir þekkja vel áætlun himnesks föður okkar fyrir börn hans, því að þau voru viðstödd í hinu mikla ráði á himnum þegar þetta var allt kynnt. Þau reyna að nýta sér veikleika okkar og breyskleika, og blekkja okkur með hinni „[niðdimmu þoku]“…sem [blindar] augu og [herðir] hjörtu mannanna barna og [leiðir] þau út á breiða vegu, svo að þau farist og séu glötuð.2

Eins og Monson forseti hefur sagt, þrátt fyrir það mótlæti sem við stöndum frammi fyrir þá er þetta styrjöld sem við getum og munum vinna. Drottinn treystir á hæfni okkar og ákveðni til að gera það.

Ritningarnar innihalda óteljandi dæmi um þá sem hafa unnið sínar eigin styrjaldir, jafnvel í mjög fjandsamlegu umhverfi. Eitt slíkra fordæma er Moróní hershöfðingi í Mormónbók. Þessi merkilegi ungi maður hafði hugrekkið til að verja sannleikann á tíma þar sem mikill ágreiningur var, deilur og stríð sem settu tilvist allrar Nefíþjóðarinnar í hættu. Þó að hann væri afburðarsnjall í að sinna skyldum sínum þá var Moróni áfram auðmjúkur. Þetta og aðrir eiginleikar gerðu hann að einstöku verkfæri í höndum Guðs á þeim tíma. Í Bók Alma er það útskýrt að ef allir menn hefðu verið eins og Moróní „þá hefði sjálfu valdi vítis verið ógnað að eilífu. Já djöfullinn mundi aldrei hafa vald yfir hjörtum mannanna barna.“3 Allir eiginleikar Morónís komu vegna hinnar miklu trúar hans á Guð og á Drottinn Jesú Krist.4 og staðfastrar viljafestu hans í að fylgja rödd Guðs og spámanna hans.5

Í óeiginlegri merkingu þá þurfum við öll að breyta okkur sjálfum í nútíma Moróní hershöfðingja til þess að sigra í styrjöldinni gegn hinu illa. Ég þekki mjög trúfastan ungan djákna sem breytti sér í nútíma Moróní hershöfðingja. Eins mikið og hann hefur unnið að því að fylgja ráðum foreldra sinna og kirkjuleiðtoga þá hefur reynt daglega á trú hans og festu, þrátt fyrir ungan aldur. Hann sagði mér að dag einn var hann óvænt settur í erfiða og óþægilega aðstöðu - vinir hans voru að ná í klámmyndir á farsímum sínum. Á nákvæmlega þessari stundu varð þessi ungi maður að ákveða hvað skipti mestu máli - vinsældir hans eða réttlæti. Á þeim nokkru sekúndum sem fylgdu fylltist hann hugrekki og sagði vinum sínum að það sem þeir væru að gera væri rangt. Ennfremur þá sagði hann þeim að þeir ættu að hætta því sem þeir væru að gera eða að þeir myndu verða þrælar þess. Flestir bekkjarfélaga hans gerðu gys að ráði hans, sögðu að þetta væri hluti af lífinu og að það væri ekkert rangt við það. Hins vegar þá var einn á meðal þeirra sem hlustaði á ráð þessa unga manns og ákvað að hætta því sem hann var að gera.

Fordæmi þessa djákna hafði jákvæð áhrif á allavega einn bekkjarfélaga hans. Eflaust hefur hann og vinur hans þurft að taka á móti háðung og ofsóknum vegna þessarar ákvörðunar. Þeir höfðu hins vegar fylgt ráði Alma til fólks hans er hann sagði: „Yfirgefið hina ranglátu, lifið aðskildir frá þeim og snertið ekki við óhreinum hlutum þeirra.“6

Í bæklingnum Til styrktar æskunni má finna eftirfarandi samþykkta leiðsögn frá Æðsta forsætisráðinu til æsku kirkjunnar: „Þið berið ábyrgð á öllu ykkar vali. Guð veit af ykkur og mun hjálpa ykkur að taka góðar ákvarðanir, jafnvel þó að fjölskylda ykkar og vinir noti valfrelsi sitt á rangan máta. Hafið siðferðilegt þrek til að vera ákveðin í að fylgja vilja Guðs, jafnvel þó að það þýði að þið standið ein. Er þið gerið þetta þá setjið þið fordæmi sem aðrir geta fylgt.“7

Stríðið á milli góðs og ills mun halda áfram allt okkar líf þar sem tilgangur andstæðingsins er að gera alla eins óhamingjusama og hann er sjálfur. Satan og englar hans munu reyna að hylja hugsanir okkar til að ná stjórn með því að freista okkar til að syndga. Ef þeir geta það þá munu þeir spilla öllu því sem er gott. Það er engu að síður nauðsynlegt að skilja að þeir munu einungis hafa vald yfir okkur ef við leyfum þeim það.

Í ritningunum er einnig að finna fjölda dæma um þá sem gáfu andstæðingnum þetta leyfi og enduðu með að verða ráðvilltir og tortímdust, eins og Nehor, Korihor og Sherem. Við verðum að vera vakandi fyrir þessari hættu. Við getum ekki leyft okkur að verða rugluð af vinsælum skilaboðum sem eru auðsamþykkt af heiminum og sem eru í andstöðu við kenningar og sönn kenniatriði fagnaðarerindis Jesú Krists. Mörg þessara skilaboða heimsins eru ekkert annað en tilraun samfélagsin til að réttlæta synd. Við verðum að muna að þegar endirinn kemur þá standa allir frammi fyrir Kristi til að verða dæmdir af verkum sínum hvort heldur þau eru góð eða ill.8 Er við stöndum andspænis þessum veraldlegu skilaboðum þá mun mikils hugrekkis og góðri þekkingu á áætlun himnesks föður vera krafist til að velja rétt.

Við getum öll fengið styrkinn til að velja rétt ef við leitum Drottins og leggjum allt okkar traust og trú á hann. Eins og ritningarnar kenna okkur hins vegar þá verðum við að hafa „hjartans einlægni“ og „[einbeittan] huga“ Þá mun Drottinn „opinbera [okkur]“ sannleiksgildi allra hluta fyrir kraft heilags anda. „Og fyrir kraft heilags anda getið þér fengið að vita sannleiksgildi allra hluta.“9

Þessi þekking er ekkert annað en vitnisburður okkar, ef hún kemur fyrir atbeina heilags anda, sem knýr trú okkar og einbeitni áfram til að fylgja kenningum endurreists fagnaðarerindis á þessum síðari dögum, sama hvaða eftirsóttu skilaboð heimurinn sendir okkur. Vitnisburður okkar verður að vera skjöldur okkar til verndar gegn eldspjótum andstæðingsins í tilraunum hans að ráðast að okkur.10 Hann mun leiðbeina okkur örugglega í gegnum myrkrið og glundroðann sem er í heiminum í dag.11

Ég lærði þetta lögmál þegar ég þjónaði sem ungur trúboði. Félagi minn og ég þjónuðum í mjög lítilli og afskekktri grein kirkjunnar. Við reyndum að tala við alla í borginni. Þeir tóku mjög vel á móti okkur en höfðu gaman að því að rökræða ritningarnar og báðu okkur að sýna sér áþreifanlegar sannanir fyrir því sem við vorum að kenna.

Ég man að í hvert sinn sem við félagarnir reyndum að sanna eitthvað fyrir fólkinu þá yfirgaf andi Guðs okkur og við upplifðum okkur algerlega týnda og ráðvillta. Okkur fannst að við ættum að laga vitnisburð okkar meira að sannleika þess fagnaðarerindis sem við vorum að kenna. Eftir þetta minnist ég þess þegar við bárum vitnisburð af öllu hjarta, þá kom hljóðlátur staðfestandi kraftur frá heilögum anda sem fyllti herbergið og það var ekkert rúm fyrir glundroða eða rökræður. Ég uppgötvaði að það eru ekki til þau illu öfl sem geta ruglað, blekkt eða grafið undan einlægum vitnisburði sanns lærisveins frelsarans Jesú Krists.

Eins og frelsarinn kenndi sjálfur þá þráir andstæðingurinn að sáldra okkur eins og hveiti og verða þess valdandi að við missum getuna til að hafa jákvæð áhrif á heiminn.12

Kæru bræður mínir, vegna þeirrar bylgju glundroða og efa sem dreifist um allan heiminn í dag, þá verðum við að halda enn fastar í vitnisburð okkar um fagnaðarerindi Jesú Krists. Þá mun hæfni okkar til að verja sannleikann og réttlætið aukast verulega. Við munum sigra í hinum daglegu orrustum við hið illa og fylkja liði undir fána meistarans frekar en að falla á orrustuvelli lífsins.

Ég býð öllum að uppgötva öryggið í kenningum sem finna má í ritningunum. Moróní hershöfðingi stillti trú sinni á Guð og vitnisburði sínum um sannleikann upp með þekkingu og vísdómi sem finna má í ritningunum. Á þennan máta treysti hann því að hann myndi meðtaka blessanir Drottins og vinna marga sigra, sem var og það sem gerðist.

Ég býð öllum að uppgötva öryggið í orðum spámannsins okkar í dag. Thomas S. Monson forseti sagði: „Við sem höfum verið vígðir prestdæmi Guðs, getum skipt sköpum. Þegar við varðveitum persónulegan hreinleika okkar og heiðrum prestdæmið, verðum við réttlátar fyrirmyndir sem aðrir geta tileinkað sér… [og] hjálpa til við að lýsa upp sífellt myrkari heim.“13

Ég býð öllum að treysta á gildi og kraft friðþægingar Jesú Krists Í gegnum friðþægingarfórn hans getum við öðlast hugrekkið til að vinna allar styrjaldir okkar tíma, áskoranir og freistingar, jafnvel í hringiðu erfiðleika okkar. Treystum á kærleika hans og kraft til að frelsa okkur. Kristur sjálfur hefur sagt:

„Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“14

„Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“15

„Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“16

Um þetta vitna ég í helgu nafni Jesú Krists, amen.