2010–2019
Nú er hún móðir þín
Október 2015


Nú er hún móðir þín

Engin elska í jarðlífinu kemst nær hinni hreinu ást Jesú Krists, en sú óeigingjarna ást sem hin trúfasta móður ber til barnsins síns.

Ég býð velkomna, ásamt ykkur, öldung Ronald A. Rasband, öldung Gary E. Stevenson og öldung Dale G. Renlund og eiginkonur þeirra, í hið mest ljúfasta samstarf sem hugsast getur.

Jesaja spáði um friðþægingu frelsarans og sagði: „Vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli.“1 Undursamleg síðari daga sýn undirstrikar: „[Jesús] kom í heiminn … til að bera syndir heimsins.“2 Bæði fornar og nútíma ritningar bera vitni: „[Hann endurleysti] þá og tók þá á arma sér og bar þá alla forna daga.“3 Kær sálmur hvetur okkur: „Drottinn til þín talar, takið eftir máli hans!“4

Bera, taka á arm sér, bjarga. Þetta eru máttug og hughreystandi guðleg orð. Þau fela í sér von og liðsinni um örugga ferðar, frá okkar stað til hins þráða staðar – sem við náum ekki til án liðsinnis. Þessi orð fela líka í sér byrði, baráttu og áreynslu – orð sem eiga best við um hlutverk hans, sem með ólýsanlegu gjaldi megnar að lyfta okkur upp, er við föllum, bera okkur áfram, er við missum máttinn, leiða okkur örugg heim, er velferð virðist völlt og fjarri. „Faðir minn send mig,“ sagði hann, „til þess að mér yrði lyft upp á krossinum,“ … [og] á sama hátt og [mér var] lyft … [mun] mönnunum [lyft] upp til … [mín].“5

En fáið þið greint af þessum orðum annað svið mannlegra átaka, þar sem í hugann koma orð eins og bera og fæða,ala og lyfta,erfiða og bjarga? Líkt og Jesús sagði við Jóhannes mitt í friðþægingunni: „Nú er hún móðir þín“6, þá býður hann öllum að huga að móður sinni.

Í dag lýsi ég yfir úr þessum ræðustóli nokkru sem áður hefur verið sagt hér: Engin elska í jarðlífinu kemst nær hinni hreinu ást Jesú Krists, en sú óeigingjarna ást sem hin trúfasta móður ber til barnsins síns. Þegar Jesaja lýsti elsku Jehóva, sem Messíasar, dró hann upp mynd af hinni trúföstu móður. „Fær kona gleymt brjóstbarni sínu?“ spurði hann. Hve fjarstæðukennt, gefur hann í skyn, en þó ekki jafn fjarstæðukennt og að spyrja hvort Kristur fái gleymt okkur.7

Slíkur staðfastur kærleikur „er langlyndur og góðviljaður, … leitar ekki síns eigin, … heldur … þolir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.“8 Það sem er mest hvetjandi, er að slík tryggð „fellur aldrei úr gildi.“9 „Því að fjöllin munu færast úr stað og hálsarnir riða,“ sagði Jehóva, „en gæska mín mun eigi hverfa þér.“10 Þannig eru líka orð mæðra okkar.

Þær fæða okkur ekki aðeins, heldur halda áfram að ala önn fyrir okkur. Það er ekki aðeins barnsburðurinn sem gerir móðurhlutverkið að slíku dásamlegu dáðaverki, heldur hin ævilanga umhyggja sem því fylgir. Auðvitað eru til sorglegar undantekningar, en flestum mæðrum er strax eðlislægt að vita það er heilagt traust af æðstu gráðu. Byrðin sem hlýst af slíkri vitneskju er stundum yfirþyrmandi, einkum ungum mæðrum.

Dásamleg ung móðir skrifaði mér nýverið: „Hvernig má það vera að mannleg vera fær elskað barn svo heitt að hún gefur fúslega frelsi sitt að hluta upp á bátinn? Hvernig getur jarðnesk elska verið svo máttug að maður tekur fúslega á sig ábyrgð, vanmátt, áhyggjur og sorgir og heldur áfram að koma eftir meiru af slíku? Hvaða jarðneska elska fær þig til að finna að líf þitt verður aldrei aftur þitt eigið, eftir að maður eignast barn? Móðurástin hlýtur að vera guðleg. Það er engin önnur skýring til. Það sem mæður gera er nauðsynlegur þáttur í verki Krists. Sú vitneskja ætti að nægja til að gera okkur ljóst að áhrif slíkrar elsku munu síendurtekið rokka á milli hins óbærilega og óviðjafnanlega, allt þar til sáluhjálp síðasta barnsins á jörðu verður tryggð og við getum líka sagt með Jesú: ‚[Faðir!] ég hef fullkomnað] það verk, sem þú fékkst mér að vinna.‘11

Með fegurð þessa bréfs í huga, þá ætla ég að segja frá þremur atvikum sem lýsa hinum dásamlegu áhrifum mæðra, sem ég varð vitni að í þjónustu minni fyrir aðeins nokkrum vikum:

Fyrsta frásögnin er aðvarandi og minnir okkur á að ekki fá allar tilraunir mæðra farsælan söguendi, að minnsta kosti ekki þegar í stað. Sú aðvörn á rætur í samtali sem ég átti við kæran 50 ára gamlan vin, sem var á dánarbeði, utan við þessa kirkju, sem hann vissi að væri sönn. Mér virtist ómögulegt að friða hann, þótt ég reyndi mikið til þess. Loks talaði hann hreint út. „Jeff,“ sagði hann, „hversu sársaukafullt sem það kann að verða fyrir mig að standa frammi fyrir Guði, þá fæ ég síður afborið þá hugsun að standa frammi fyrir móður minni. Fagnaðarerindið og börnin hennar voru henni allt. Ég veit að ég hef kramið hjarta hennar og það kremur mitt.“

Ég er algjörlega viss um að eftir dauða hans, hafi móðir hans tekið honum opnum örmum, því það gera foreldrar. Aðvörun þessarar frásagnar felst hins vegar í því að börnin geta kramið hjarta móður sinnar. Í því felst líka önnur guðleg samlíking. Ég þarf vart að minna á að Jesús dó særðu hjarta, lerkaður og lemstraður af því að bera syndir heimsins. Megum við því á stund freistingar minnast móður okkar, líkt og frelsarinn gerði, og hlífa þeim báðum við sorg syndar okkar.

Önnur frásögnin er um ungan mann sem farið hafði verðugur á trúboðsakurinn og síðan ákveðið sjálfur að snúa heim sökum samkynhneigðar og einhvers áfalls sem hann upplifði í því sambandi. Hann var enn verðugur, en trú hans var í hættu og tilfinningar hans og andleg líðan íþyngdu honum stöðugt meira. Hann sveiflaðist á milli þess að vera sár, ráðvilltur, reiður og vansæll.

Trúboðsforseti hans, stikuforseti og biskup vörðu ótal stundum við að skilja, hugga og blessa hann, er þeir reyndu að hjálpa honum, en flest sára hans voru svo persónulegs eðlis að hann byrgði a.m.k. sumt hið innra. Hinn ástkæri faðir í þessari frásögn reyndi af allri sálu að hjálpa þessu barni sínu, en vegna hans krefjandi starfa kom það oftast í hlut móður piltsins að takast á við langar og dimmar nætur sálarinnar. Daga og nætur, fyrst í vikur, síðan í mánuði, sem svo urðu að árum, leituðu þau bata saman. Í gegnum tímabil biturðar (að mestu hans, en stundum hennar) og stöðugs ótta (að mestu hennar, en stundum hans), bar hún – og þar er aftur hið dásamlega, þungbæra orð – syni sínum vitni um mátt Guðs, um kirkjuna, en einkum þó um elsku hans til barnsins síns. Um leið bar hún vitni um þá skilyrðislausu og varanlegu elsku sem hún bar til hans. Í þeirri viðleitni að endurreisa hina tvo bráðnauðsynlegu stólpa sinnar eigin tilveru – fagnaðarerindi Jesú Krists og fjölskyldu sína – þá úthellti hún sál sinni með endalausum bænum. Hún fastaði og grét, grét og fastaði, og ljáði syni sínum stöðugt eyra, er hann sagði henni síendurtekið frá því hvernig hjarta hans væri að bresta. Þannig bar hún hann – aftur – en nú voru það ekki mánuðurnir níu. Í þetta sinn fannst henni sem hríðarnar myndu aldrei taka enda af örvæntingu hans og lemstruðu ástandi.

En fyrir náð Guðs, þrautsegju hennar og liðsinni kirkjuleiðtoga, vina, fjölskyldu og fagfólks, fékk þessi þrábiðjandi móðir að sjá son sinn koma heim í fyrirheitna landið. Við játum sorgmædd að slíka blessun upplifa ekki allir foreldrar, hið minnst ekki enn, sem hafa fjölmargar ólíkar áhyggjur af ástandi barna sinna, en hér var von. Ég verð líka að segja að kynhneigð þessa sonar breyttist ekki eins og fyrir kraftavek – engin átti von á því. En smám saman tók hjarta hans að umbreytast.

Hann kom aftur í kirkju. Hann ákvað að meðtaka sakramentið fús og verðugur. Hann fékk aftur musterismeðmæli og tók á móti köllun til að þjóna sem trúarskólakennari árla morguns, þar sem hann náði dásamlegum árangri. Og núna, fimm árum síðar hefur hann að eigin beiðni og með aðstoð kirkjunnar, haldið aftur út á trúboðakurinn til að ljúka þjónustu sinni við Drottin. Ég hef fellt tár yfir hugdirfsku, ráðvendni og ákveðni þessa unga manns og fjölskyldu hans, til að vinna að lausn og hjálpa honum að halda í trú sína. Hann veit að hann á mörgum margt að þakka, en þakklátastur er hann tveimur guðlegum verum í lífi sínu, sem báru hann, héldu honum á floti, börðust með honum og björguðu honum – frelsara sínum, Drottni Jesú Kristi og sinni dásamlegu, einbeittu og frelsandi móðir.

Í þriðja lagi er það frásögn frá endurvígslu musterisins í Mexíkóborg, Mexíkó, en sá atburður gerðist fyrir aðeins þremur vikum. Það var þar sem ég, ásamt Henry B. Eyring forseta, sá mína ástkæru vinkonu, Lisu Tuttle Pieper, standa í hinni hjartnæmu vígsluathöfn. Hún átti í erfiðleikum með að standa, því með annarri hendi hélt hún uppi sinni ástkæru en mikið fötluðu dóttur, Doru, og með hinni hendinni reyndi hún að halda uppi máttvana hægri hönd Doru, svo að þessi hreyfihamlaða en óendanlega dýrmæta dóttir Guðs gæti veifað hvítum vasaklút og hrópað um leið upp með andvarpi, sem aðeins hún sjálf fékk skilið og englar himins: „Hósanna, hósanna, hósanna sé Guði og lambinu.“12

Við allar mæður, hvarvetna, fortíðar, nútíðar og framtíðar, segði ég: „Þakka ykkur fyrir. Þakka ykkur fyrir að fæða sálir og móta persónuleika, og sýna hina hreinu ást Krists.“ Við móður Evu, Söru, Rebekku og Rakel, Maríu frá Nasaret og móður á himnum, segi ég: „Þakka ykkur fyrir ykkar mikilvæga hlutverk, við að framfylgja hinum eilífa tilgangi. Við allar mæður í öllum aðstæðum, þar með talið þær sem heyja baráttu – og það gera þær allar – segi ég: „Haldið ró ykkar. Hafið trú á Guði og sjálfum ykkur. Ykkur gengur betur en þið sjálfar teljið. Þið eruð frelsarar á Síonfjalli,13 og líkt og á við um meistarann sem þið fylgið, þá ‚fellur [elska ykkar] aldrei úr gildi.‘14 ” Engan fæ ég betur lofað. Í nafni Jesú Krists, amen.