2010–2019
Þeir sem halda boðorð Guðs eru blessaðir og hamingjusamir
Október 2015


Þeir sem halda boðorð Guðs eru blessaðir og hamingjusamir

Þeir tálmar sem Drottinn setur upp eru til að gæta öryggis okkar gegn illum og eyðileggjandi áhrifum.

Fyrir nokkru, er ég ferðaðist til Ástralíu, fór ég í fallegan skeifulaga vík sem þekkt er fyrir brimbrettareið. Þegar ég gekk eftir ströndinni dáðist ég að stórum og öflugum öldunum rétt utan við víkina og minni öldunum sem náðu inn fyrir víkina.

Á rölti mínu sá ég hóp af bandarískum brimbretturum. Þeir voru greinilega í uppnámi út af einhverju, töluðu hátt og bentu út fyrir víkina. Þegar ég spurði þá hvað að væri, bentu þeir út fyrir víkina þar sem stóru öldurnar brotnuðu.

„Sjáðu þarna,“ sagði einn þeirra reiðilega. „Sérðu ekki tálmana?“ Þegar ég horfði betur á staðinn, sá ég vissulega tálma sem náðu þvert yfir víkina og girtu hana af rétt innan við staðinn, þar sem hinar stóru og freistandi öldur brotnuðu niður. Tálmarnir voru stór og mikil net sem haldið var uppi með flotholtum. Að sögn brimbrettaranna, þá náði netið alveg niður að sjávarbotni.

Bandaríski brettarinn sagði síðan: „Við erum hér í einstæðri ferð til að takast á við stóru öldurnar. Við getum brimað á minni öldunum í sjálfri víkinni, en tálmarnir gera okkur ómögulegt að brima á þeim stóru. Við skiljum ekki afhverju tálmarnir eru þarna. Við vitum bara að ferðin okkar er algjörlega til einskis.“

Þegar bandaríski brettarinn hafði aðeins hresst upp hugann, barst athygli mín að öðrum nálægum brimbrettara – eldri manni og greinilega heimamanni. Hann virtist verða stöðugt óþolinmóðari við að hlusta á sífelldar kvartanir vegna tálmanna.

Loks stóðst hann ekki mátið og gekk að hópnum. Án þess að segja orð dró hann sjónauka upp úr bakpokanum sínum, rétti hann einum brettaranum um leið og hann benti út að tálmunum. Allir brettararnir horfðu til skiptis í gegnum sjónaukann. Þegar kom að mér, sá ég með hjálp sjónaukans nokkuð sem ég hafði ekki komið auga á áður: Bakugga – stóra hákarla í ætisleit við rifið, hinu megin við tálmana.

Hópurinn varð brátt hljóður. Gamli brettarinn tók sjónaukann og hugðist ganga í burtu. Um leið og hann gerði það, sagði hann nokkuð sem ég aldrei gleymi. „Kvartið ekki of mikið yfir tálmunum,“ sagði hann. „Þeir eru það eina sem kemur í veg fyrir að þið verðið hákarlamatur.“

Viðhorf okkar breystist nú skyndilega, er við stóðum þarna á fallegri ströndinni. Tálmarnir, sem áður voru heftandi og íþyngjandi – og útilokuðu skemmtun og spennu á stóru öldunum – voru nú eitthvað allt annað. Þegar við skildum nú að hættan leyndist rétt undir yfirborðinu, þá urðu tálmarnir okkur til verndar og öryggis og veittu hugarró.

Þegar við tökumst á við lífið og vinnum að draumum okkar, þá er stundum erfitt að skilja boðorð og reglur Guðs – líkt og tálmana. Þau gætu virst heftandi og íþyngjandi, með því að draga úr skemmtun og spennu, sem engu að síður er eftirbreytni margra annarra. Líkt og Páll postuli sagði: „Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá,“1 með svo takmarkaða yfirsýn að við greinum oft ekki hinar miklu hættur sem leynast undir yfirborðinu.

Sá sem hins vegar „[skynjar] alla hluti“2 veit nákvæmlega hvar hætturnar leynast. Hann sér okkur fyrir guðlegri handleiðslu með boðorðum sínum og kærleiksríkri leiðsögn, svo við fáum forðast hætturnar – svo við fáum hagað lífi okkar þannig að við njótum verndar frá andlegum óargadýrum og hákarlakjöftum syndar.3

Við sýnum elsku okkar til Guðs – og trú okkar á hann – með því að gera okkar besta dag hvern við að fylgja markaðri stefnu hans og halda þau boðorð sem hann hefur sett okkur. Við sýnum þá elsku og trú best, ef við erum í þeim aðstæðum að skilja ekki til hlítar það sem að baki boðorða Guðs býr eða hvers vegna hann býður okkur að taka ákveðna stefnu. Það reynist nokkuð auðvelt að halda sig örugglega innan tálmana, þegar við loks vitum að hungruð óargadýr svamla rétt utan við þá. Okkur reynist mun erfiðara að halda okkur innan tálmana, ef við einblínum bara á öldurnar hinu megin. Það er samt á slíkum tímum – er við ákveðum að iðka trú okkar, setja traust okkar á Guð og sýna elsku okkar til hans – að við vöxum og höfum mestan hag af því.

Í Nýja testamentinu skildi Ananías ekki þau fyrirmæli Drottins að leita Sál uppi og blessa hann – mann sem hafði bókstaflega haft umboð til að fangelsa þá sem trúðu á Krist. Þar sem Ananías hlýddi boði Guðs, þá varð hann verkfæri í andlegri endurfæðingu Páls postula.4

Þegar við reiðum okkur á Drottin, iðkum trú okkar, hlýðum boðorðum hans og fylgjum markaðri stefnu hans fyrir okkur, þá líkjumst við meira þeim einstaklingi sem Drottinn vill að við verðum. Það er þessi „endurfæðing“ – þessi viðsnúningur hjartans – sem er allra mikilvægastur. Öldungur Dallin H. Oaks hefur kennt okkur að: „Það nægi ekki að menn séu með látbragð. Boðorð, helgiathafnir og sáttmálar fagnaðarerindisins eru ekki innborganir sem greiða þarf inn á einhverskonar himneskan reikning. Fagnaðarerindi Jesú Krists er áætlun sem sýnir hvernig við getum orðið að því sem himneskur faðir vill að við verðum.“5

Sönn hlýðni er því að helga okkur sjálf algjörlega honum og leyfa að hann marki stefnu okkar, bæði í kyrrum og ókyrrum sjó, meðvituð um að hann megni að gera meira úr okkur en við sjálf fáum nokkurn tíma gert.

Þegar við beygjum okkur undir vilja hans, mun friður okkar og hamingja aukast. Benjamín konungur kenndi að þeir sem héldu boðorð Guðs, myndu hljóta „blessun og hamingju “ í „öllu, jafnt stundlegu sem andlegu.“6 Guð þráir að við njótum gleði. Hann vill að við hljótum frið. Hann vill að við njótum velgengni. Hann vill að við séum örugg og vernduð gegn hinum veraldlegu áhrifum hvarvetna umhverfis.

Með öðrum orðum, þá eru boðorð Drottins ekki íþyngjandi neðansjávar völundarhús, sem við verðum að þola ófúslega í þessu lífi, svo við getum hlotið upphafningu í því næsta. Tálmar Drottins eru settir upp til að tryggja okkur öryggi frá hinum illu og eyðileggjandi áhrifum sem að öðrum kosti myndu draga okkur niður í dýpi örvæntingar. Boðorð Drottins eru gefin af kærleika og umhyggju; þeim er ætlað að stuðla að gleði okkar í þessu lífi,7 ekki síður en gleði okkar og upphafningu í næsta lífi. Þau sýna hvernig við eigum að breyta – og það sem mikilvægara er, þau sýna hvað okkur ber að verða.

Jesús er besta fyrirmyndin í öllu góðu og sönnu. Æðsta fordæmið um hlýðni í allri eilífðinni, var þegar sonurinn beygði sig undir vilja föðurins. Af dýpstu auðmýkt bað hann þess að kaleikurinn yrði frá honum tekinn – að hann mætti ferðast um annan veg en þann sem honum var markaður – en Kristur fór að vilja föður síns og fór þann veg sem honum var fyrirbúinn. Það var vegurinn sem lá um Getsemane og Golgata, þar sem hann þoldi ólýsanlegar þjáningar og var algjörlega einsamall, þar sem faðir hans dró sig í hlé með anda sinn. Þessi sami vegur leiddi til hinnar tómu grafar á þriðja degi, með hrópinu „hann er risinn!“8 sem glumdi í eyrum og hjörtum þeirra sem elskuðu hann. Það fól í sér ólýsanlega gleði og huggun, sem átti sér rætur í friðþægingunni, fyrir öll börn Guðs um alla eilífð. Með því að beygja sig undir vilja föðurins, veitti Kristur okkur von um eilífan frið, eilífa gleði og eilíft líf.

Ég vitna um að við erum börn kærleiksríks Guðs. Ég vitna um að hann þráir að við séum hamingjusöm, örugg og blessuð. Í þeim tilgangi hefur hann markað veginn til sín og sett upp verndartálma á leið okkar. Við munum finna öryggi, sanna hamingju og frið, ef við fylgjum þeim vegi eftir bestu getu. Þegar við svo beygjum okkur undir hans vilja, verðum við það sem hann þráir að við verðum. Í nafni Jesú Krists, amen.