2010–2019
„Útvaldir til að bera vitni um nafn mitt“
Október 2015


„Útvaldir til að bera vitni um nafn mitt“

Það er dásamlegt að hafa eldri menn, gædda miklum andlegum þroska og dómgreind, þjónandi í æðstu leiðtogastöðum hinnar endurreistu kirkju Jesú Krists.

Árið 1996 kom Gordon B. Hinckley forseti fram í bandaríska fréttaþættinum 60 Minutes. Mike Wallace, reyndur fréttamaður, tók viðtal við Hinckley forseta um fjölmörg mikilvæg málefni.

Þegar dró að lokum viðtalsins, setti Wallace fram þessa ábendingu: „Sumir segja: ‚Þetta er öldrunarráð. Þetta er kirkja rekin af öldruðum mönnum.‘“

Þessu svaraði Hinckley forseti glaðlega og ákveðið: „Er ekki dásamlegt að hafa þroskaðan mann við stjórnvölinn; mann dómgreindar sem ekki lætur hrekjast af hverjum kenningarvindi?“ (útsending, 7. apríl 1996).

Ég ætla að útskýra af hverju það er dásamlegt að hafa eldri menn, gædda miklum andlegum þroska og dómgreind, þjónandi í æðstu leiðtogastöðum hinnar endurreistu kirkju Jesú Krists – og af hverju okkur ber að hlíta og fylgja (sjá Mósía 2:9) kenningum þessara manna, sem Drottinn hefur útvalið „til að bera nafni [hans] vitni … meðal allra þjóða, kynkvísla, tungna og lýðs“ (K&S 112:1).

Ég bið þess að við njótum öll áhrifa heilags anda, er við ígrundum saman þetta mikilvæga málefni.

Ævilangur lærdómur

Ég ræði um þetta efni út frá ákveðnum og aðgreindum sjónarhóli. Síðustu 11 árin hef ég verið yngsti meðlimur Tólfpostulasveitarinnar hvað lífaldur varðar. Í þjónustutíð minni hefur meðalaldur þeirra manna sem þjóna í Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni verið 77 ár – sem er hæsti meðalaldur postula yfir 11 ára tímabil í þessari ráðstöfun.

Ég hef verið blessaður af sameiginlegri postullegri, kirkjulegri, persónulegri og starfslegri reynslu og með innsýni sveitarmeðlimanna sem ég þjóna með. Atvik sem ég upplifði í samskiptum mínum við öldung Robert D. Hales undirstrikar þau undraverðu tækifæri sem mér bjóðast til lærdóms með því að þjóna með þessum leiðtogum.

Fyrir nokkrum árum varði ég sunnudagssíðdegi með öldungi Hales, þar sem hann var að ná fullri heilsu eftir alvarleg veikindi. Við ræddum um fjölskyldur okkar, sveitarskyldur og merkilegar upplifanir.

Á einhverjum tímapunkti spurði ég öldung Hales: „Þú hefur verið farsæll eiginmaður, faðir, íþróttamaður, flugmaður, framkvæmdastjóri og kirkjuleiðtogi. Hvað hefur lífið kennt þér, sem þú getur miðlað er aldurinn færist yfir og líkamlegir annmarkar verða meiri?“

Öldungur Hales hugsaði sig aðeins um og svaraði: „Þegar maður hættir að geta gert það sem áður þótti sjálfsagt, þá gerir maður bara það sem mestu skiptir.“

Þetta einfalda og skynsama svar hans kom mér á óvart. Mínir ástkæru sampostular miðluðu mér ævilöngum lærdóm – lærdóm sem hlaust með þolraun líkamlegra þjáninga og andlegrar ígrundunar.

Mannlegir annmarkar og brestir

Annmarkarnir, sem eru eðlileg afleiðing þess að eldast, geta í raun orðið dásamleg uppspretta andlegs lærdóms og skilnings. Einmitt þeir þættir sem mörgum finnast vera dragbítur á árangur þessara þjóna, geta einmitt verið þeirra mesti aflgjafi. Líkamlegir annmarkar geta veitt okkur aukna sýn. Takmarkað úthald getur skerpt forgangsröðun okkar. Vangeta til að gera margt getur beint sjónum okkar að því sem mestu skiptir.

Sumir hafa lagt til að meiri þörf sé á yngri og þróttmeiri kirkjuleiðtogum til að takast af krafti á við hin alvarlegu málefni nútímans. Drottinn notast ekki við samtíma heimspeki og úrlausnir leiðtoga við að uppfylla tilgang sinn (sjá Jes 55:8–9). Við getum ávallt gert ráð fyrir að forsetinn og aðrir æðstu leiðtogar kirkjunnar verði eldri og andlega reyndari menn.

Drottinn opinberaði að kirkju hans skyldi stjórnað með ráðum, sem dregur úr áhrifum mannlegs breyskleika. Merkilegt er að jarðneskir annmarkar þessara manna staðfesta í raun hina guðlegu uppsprettu opinberunar sem hlýst með þeim. Þessi menn eru sannlega kallaðir af Guði með spádómi (sjá Trúaratriðin 1:5).

Fyrirmynd að undirbúningi

Með því að fylgjast með bræðrum mínum, hef ég a.m.k. að hluta skilið tilgang Drottins með því að láta eldri, þroskaðri og vitrari menn þjóna í æðstu leiðtogastöðum kirkjunnar. Þessir menn hafa hlotið áralanga kennslu Drottins, sem þeir eru í forsvari fyrir og þjóna og elska. Þeim hefur lærst að skilja hin guðlegu samskipti heilags anda og fyrirmynd Drottins að því að hljóta opinberun. Þessir venjulegu menn hafa gengið í gegnum einstakan þroskaferil sem hefur skerpt sýn þeirra, upplýst huga þeirra, aukið elsku þeirra til fólks allra þjóða og aðstæðna og staðfest raunveruleika endurreisnarinnar.

Ég hef síendurtekið orðið vitni að því að bræður mínir kappkosta af kostgæfni að uppfylla og efla ábyrgð sína á sama tíma og þeir heyja baráttu við alvarlega líkamlega annmarka. Þessum mönnum er ekki eirt að takast á við sorgir. Þeir eru öllu heldur blessaðir og efldir í hugdjörfu lífi sínu, er þeir þjást í sorgum og raunum.

Þegar ég hef þjónað með þessum fulltrúum Drottins, hef ég komist að því að dýpsta þrá þeirra er að finna úrlausnir og fara að vilja okkar himneska föður og hans ástkæra syni. Þegar við höfum ráðgast saman, höfum við öðlast innblástur og tekið ákvarðanir sem endurspegla miklu meira ljósi og sannleika en mannleg viska, rök og reynsla fá ráðið yfir. Með því að starfa saman í einingu við úrlausn erfiðara vandamála, þá höfum við, fyrir kraft heilags anda, hlotið sameiginlegan dásamlegan og aukinn skilning á málefnum.

Ég nýt daglega þeirrar blessunar að upplifa persónugerð, hæfni og göfgi þessara leiðtoga. Sumir láta mannlega annmarka og misbresti bræðranna trufla sig og draga úr trú sinni. Mér finnast þessir annmarkar hvetjandi og trúarstyrkjandi.

Mikilvægar lexíur

Ég hef nú upplifað sex bræðra minna fara héðan með líkamsdauða, til að taka á móti annarri ábyrgð í andaheimum, sem eru: James E. Faust forseti, Gordon B. Hinckley forseti, öldungur Joseph B. Wirthlin, öldungur L. Tom Perry, Boyd K. Packer forseti og öldungur Richard G. Scott.

Þessir hugdjörfu bræður lögðu fram „sálir [sínar] óskiptar,“ (Omní 1:26) til að vitna um nafn Jesú Krists fyrir öllum heiminum. Hin ævilanga kennsla þeirra er ómetanleg.

Þessir þjónar miðluðu okkur mikilvægum andlegum lexíum á síðustu árum þjónustu sinnar, sem þeim lærðust á áratugum trúfastrar þjónustu. Þessir leiðtogar miðluðu okkur dýrmætum sannleika á því æviskeiði sem sumir telja menn hafa minnst fram að færa.

Íhugið síðustu kennslu mikilhæfra spámanna í ritningunum. Nefí lauk skráningu sinni t.d. á þessum orðum: „Því að svo hefur Drottinn boðið mér, og mitt er að hlýða“ (2 Ne 33:15).

Þegar dró að lokum lífs Jakobs, aðvaraði hann:

„Ó, iðrist þá heldur, ástkæru bræður mínir, og gangið inn um mjóa hliðið og haldið áfram eftir hinum þrönga vegi, þar til þér öðlist eilíft líf.

Ó, verið vitrir. Hvað meira get ég sagt?“ (Jakob 6:11–12).

Moróní lauk því verki sínu að rita á töflurnar, vongóður um væntanlega upprisu. „Ég geng brátt til hvíldar í paradís Guðs, uns andi minn og líkami sameinast á ný og ég svíf um loftið í sigurgleði til móts við yður frammi fyrir hinum ljúfu dómgrindum hins mikla Jehóva, hins eilífa dómara bæði lifenda og látinna“ (Moró 10:34).

Við erum blessuð að geta lært af trúarkennslu og vitnisburði síðari daga spámanna og postula. Nefí, Jakob og Moróní eru ekki nöfn okkar tíma – heldur Faust forseti, Hinckley forseti, öldungur Wirthlin, öldungur Perry, Packer forseti og öldungur Scott.

Ég er ekki að gefa í skyn að síðustu orð þessara ástkæru manna hafi verið þau mikilvægustu eða merkilegustu í þjónustu þeirra. Allur þeirra andlegi lærdómur og lífsreynsla, gerir þó þessum leiðtogum kleift að undirstrika eilífan sannleika af miklum mætti og myndugleika.

Ljósmynd
James E. Faust forseti

Faust forseti sagði í apríl 2007, á síðustu aðalráðstefnu sinni:

„Frelsarinn hefur boðið okkur öllum dýrmætan frið fyrir friðþægingu sína, en hann hlýst aðeins ef við erum fús til að varpa burtu neikvæðum tilfinningum reiði, illvilja eða hefndar. …

Höfum í huga að við þurfum að fyrirgefa til að hljóta fyrirgefningu. … Af öllu hjarta og allri sálu trú ég á mátt þeirrar lækningar sem við getum hlotið þegar við fylgjum leiðsögn frelsarans um að ‚fyrirgefa öllum mönnum‘ [ K&S 64:10 ]“ („The Healing Power of Forgiveness,“ Liahona, maí 2007, 69).

Boðskapur Faust forseta er mikilvægur ævilangur lærdómur manns sem var mér kær og einn sá fúsasti til að fyrirgefa af þeim sem ég hef kynnst.

Ljósmynd
Gordon B. Hinckley forseti

Hinckely forseti vitnaði á sinni síðustu aðalráðstefnu í október 2007: „Fyrir ykkur staðfesti ég nú vitnisburð minn um köllun spámannsins Josephs, um innsiglun vitnisburðar hans, með blóði hans og píslarvættisdauða, til staðfestingar hinum eilífa sannleika. … Þið og ég stöndum frammi fyrir hinni æpandi áskorun að viðurkenna sannleika Fyrstu sýnarinnar og þess sem í kjölfar hennar fylgdi. Á sannleiksgildi þeirra atburða hvílir trúverðugleiki kirkjunnar. Ef þetta er sannleikur, og ég ber vitni um að svo sé, þá er verkið sem við tökum þátt í hið mikilvægasta á allri jörðu“ („The Stone Cut Out of the Mountain,“ Liahona, nóv. 2007, 86).

Vitnisburður Hinckleys forseta staðfestir ævilanga mikilvæga lexíu manns sem ég unni og veit að var spámaður Guðs.

Ljósmynd
Öldungur Joseph B. Wirthlin

Öldungur Wirthlin flutti síðasta boðskap sinn á aðalráðstefnu í október 2008.

„Ég man ennþá eftir heilræði [móður minnar], sem hún gaf mér á deginum sem liðið mitt tapaði fótboltaleik fyrir svo löngu síðan. ‚Komi það sem koma skal og njóttu þess.‘

… Mótlætið, ef við tökumst rétt á við það, getur verið blessun í lífi okkar. …

Ef við höfum skopskyn, leitum hins eilífa samhengis, skiljum lögmál umbunar og nálgumst okkar himneska föður, getum við staðist erfiðleika og raunir. Við getum þá sagt líkt og móðir mín: ‚Komi það sem koma skal, og njóttu þess‘“ („Come What May, and Love It,“ Liahona, nóv. 2008, 28).

Boðskapur öldungs Wirthlins felur í sér mikilvægan ævilangan lærdóm manns sem var mér kær og lifandi sönnun um sigur á erfiðleikum fyrir trú á frelsarann.

Ljósmynd
Öldungur L. Tom Perry

Öldungur Perry stóð hér í þessum ræðustól fyrir aðeins sex mánuðum. Á þeim tíma hvarflaði ekki að okkur að vitnisburðurinn sem hann gaf þá yrði hans síðast á aðalráðstefnu.

„Ég lýk máli mínu á því að gefa vitnisburð minn (og mínir níu áratugir á þessari jörðu gera mig hæfan til að segja þetta) um að því eldri sem ég verð, því ljósari verður manni að fjölskyldan er þungamiðja lífsins og lykill að eilífri hamingju.

Ég færi þakkir fyrir eiginkonu mína, fyrir börnin mín, barnabörnin mín og barnabarnabörnin mín, og alla … frændur og frænkur og tengdafólk og stórfjölskyldu, sem hafa svo auðgað líf mitt, já, eilíflega. Um þennan eilífa sannleika ber ég mitt örugga og helga vitni“ („Why Family and Marriage Matter – Everywhere in the World,“ Liahona, maí 2015, 42).

Boðskapur öldungs Perry er mikilvægur ævilangur lærdómur manns sem var mér kær og bjó yfir mikilli reynslu og þekkingu á mikilvægi fjölskyldusambands og eilífrar hamingju.

Ljósmynd
Boyd K. Packer forseti

Á aðalráðstefnu fyrir sex mánuðum lagði öldungur Packer áherslu á sæluáætlun föðurins, friðþægingu frelsarans og eilífar fjölskyldur:

„Ég ber vitni um að Jesús er Kristur og sonur hins lifandi Guðs. Hann er höfuð kirkjunnar. Sökum friðþægingar hans, og valds prestdæmisins, þá geta fjölskyldur sem verða til í jarðlífinu verið saman um eilífðir. …

Ég er innilega þakklátur fyrir … friðþæginguna, sem megnar að hreinsa öll óhreinindi, sama hversu mikil, langvarandi eða þrálát þau eru. Friðþægingin megnar að veita okkur lausn að nýju til að halda áfram, hrein og verðug“ („The Plan of Happiness,“ Liahona, maí 2015, 28).

Hinsti boðskapur Packers forseta er ævilangur lærdómur manns sem var mér kær og sem stöðugt og endurtekið staðhæfði að tilgangur „allra athafna í kirkjunni væri að stuðla að því að karl og kona væru, ásamt börnum sínum, hamingjusöm á heimili sínu, innsigluð saman um tíma og eilífð“ ( Liahona, maí 2015, 26).

Ljósmynd
Öldungur Richard G. Scott

Öldungur Scott sagði á sinni síðustu aðalráðstefnu, í október 2014: „Við komum til jarðar nákvæmlega til þess að læra af raunum og reynslu. Áskoranir hjálpa okkur við að verða líkari himneskum föður og friðþægingarfórn Jesú Krists gerir okkur kleift að þola þessa erfiðleika. Ég ber vitni um að ef við vinnum ötullega að því að koma til hans, þá getum við sigrast á hverri freistingu, hjartasorg og áskorun sem við stöndum frammi fyrir“ („Make the Exercise of Faith Your First Priority,“Liahona, nóv. 2014, 94).

Boðskapur öldungs Scotts er mikilvægur ævilangur lærdómur manns sem var mér kær og var elskaður sem sérstakt vitni um nafn Krists (sjá K&S 107:23).

Fyrirheit og vitnisburður

Frelsarinn sagði: „Hvort sem það er sagt með minni eigin rödd eða með rödd þjóna minna, það gildir einu“ (K&S 1:38). Megum við hlusta á og hlíta hinum eilífa sannleika sem réttmætir fulltrúar Drottins hafa kennt. Ef við gerum það, þá heiti ég ykkur því að trú okkar mun eflast á himneskan föður og Jesú Krist og við hljótum andlega handleiðslu og vernd í okkar sérstöku aðstæðum og neyð.

Af allri sálu ber ég vitni um að hinn upprisni og lifandi Kristur stjórnar málefnum sinnar endurreistu og lifandi kirkju með þjónum sínum, sem útvaldir eru til að vitna um nafn hans. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.