2010–2019
Það virkar dásamlega!
Október 2015


Það virkar dásamlega!

Ég bið þess að við munum einblína á einfaldleikann sem er í Kristi og leyfa náð hans að lyfta okkur og bera.

Kæru bræður mínir og systur, kæru vinir, það er mér mikil gleði að vera með ykkur í dag. Það syrgir okkur að horfa á þrjá auða stóla hér á pallinum. Við söknum Packers forseta, öldungs Perry og öldungs Scott. Okkur þykir vænt um þá og við biðjum fyrir velferð fjölskyldna þeirra.

Á þessari ráðstefnuhelgi mun það verða okkar forréttindi að styðja þrjá menn sem hafa verið kallaðir af Drottni til að fylla skarð þeirra í Tólfpostulasveitinni.

Bænir ykkar þeim til handa munu styrkja þá er þeir bera hinn helga mötul lærisveinsins.

Er fagnaðarerindið að virka fyrir ykkur?

Fyrir ekki all löngu sá ég tilvitnun sem fékk mig til að staldra við og hugsa. Hún var á þessa leið: „Segðu við mann að það séu trilljón stjörnur í alheiminum og hann mun trúa þér. Segðu honum að málningin á veggnum sé blaut og hann mun snerta vegginn bara til að vera viss.“

Erum við ekki öll pínulítið svona? Eftir nýlega læknisaðgerð sögðu hæfir læknar mér hvað ég þyrfti að gera til að ná fullum bata. Fyrst þurfti ég hins vegar að endurlæra nokkuð um sjálfan mig sem hef vitað í langan tíma: Ég er ekki mjög þolinmóður sjúklingur.

Í kjölfarið ákvað ég að hraða bataferlinu með því að gera mína eigin rannsókn á Alnetinu. Ætli ég hafi ekki búist við að komast að sannleika sem læknarnir vissu ekki um eða höfðu verið að fela frá mér.

Það leið smá tími þar til mér varð ljóst kaldhæðnin í því sem ég var að gera. Auðvitað er það ekki slæm hugmynd að gera eigin rannsókn. En ég gaf sannleika sem ég gat reitt mig á engan gaum og fann að ég dróst að oft kyndugum Alnets fræðunum.

Stundum virðist sannleikurinn hreinlega vera of vafningslaus, skýr og einfaldur til þess að við getum að fullu notið gildi hans. Þannig setjum við til hliðar það sem við höfum upplifað, og vitum að sé sannleikur, í leit að leyndardómsfullum eða flóknum upplýsingum. Vonandi getum við lært að þegar við eltum skugga þá erum við að elta ólar við málefni sem eru innihaldslítil og án gildis.

Hvernig getum við vitað að við séum á réttum vegi þegar kemur að andlegum sannleika?

Ein leið er að spyrja réttra spurninga – þeirra sem hjálpa okkur að íhuga framþróun okkar og meta hvernig þetta er að virka fyrir okkur. Spurningar eins og:

„Hefur líf mitt tilgang?“

„Trúi ég á Guð?“

„Trúi ég að Guð þekki og elski mig?“

„Trúi ég að Guð heyri og svari bænum mínum?“

„Finn ég fyrir raunverulegri hamingju?“

„Er framlag mitt að færa mig nær æðstu andlegum markmiðum og gildum í lífinu?“

Djúpstæðar spurningar um tilgang lífsins, hafa leitt marga einstaklinga og fjölskyldur, um heim allan, í leit að sannleikanum. Oft á tíðum hefur sú leit fært þau til Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og til hins endurreista fagnaðarerindis.

Ég velti fyrir mér hvort meðlimir kirkjunnar gætu einnig hlotið hagsbót af því að spyrja sjálfan sig, öðru hverju: „Er upplifun mín í kirkjunni að virka fyrir mig? Er hún að færa mig nær Kristi? Er hún að blessa mig og fjölskyldu mína með þeim friði og gleði sem fagnaðarerindið lofar?“

Alma spurði meðlimi kirkjunnar í Sarahemla svipaðra spurninga þegar hann spurði: „Hefur þessi gjörbreyting orðið í hjörtum yðar?” … [og] finnið þér slíkt nú?“1 Slíkar hugleiðingar geta hjálpað okkur að setja aftur í brennidepilinn eða samræma okkar daglega viðleitni við hina himnesku áætlun sáluhjálpar.

Margir meðlimir munu svara af mikili hlýju að upplifun þeirra sem meðlimir kirkjunnar sé að virka fádæma vel fyrir þau. Þeir munu vitna um að hvort heldur á tímum fátæktar eða gnægðar, hvort sem er á tímum notalegheita eða sársauka, þá upplifa þau tilgang, frið og gleði vegna skuldbindingar þeirra við Drottin og dygga þjónustu þeirra í kirkjunni. Á hverjum degi hitti ég meðlimi sem eru uppfullir af geislandi gleði og sem sýna í orði og verki að líf þeirra er ómælanlega auðgað af hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists.

En ég geri mér einnig grein fyrir því að sumir eru að upplifa ekki eins uppfyllandi líf – sem finnst að aðild þeirra í kirkjunni sé stundum ekki eins og þau höfðu vonast til.

Þetta hryggir mig vegnar þess að ég veit af eigin upplifun hvernig fagnaðarerindið getur endurnært og endurnýjað anda okkar – hvernig það getur fyllt hjörtu okkar af von og huga okkar af ljósi. Ég veit sjálfur hvernig ávextir fagnaðarerindis Jesú Krists geta umbreytt lífum frá því að vera venjuleg og drungaleg yfir í að vera óvenjuleg og göfug.

En af hverju virðist það virka betur fyrir suma en ekki aðra? Hver er munurinn á þeim sem upplifa kirkjuna þannig að sálir þeirra fyllist söng hinnar endurleysandi elsku2 og þeim sem finnst eitthvað vanta uppá?

Er ég íhugaði þessar spurningar þá flæddu hugsanir inn í huga minn. Í dag langar mig að deila með ykkur tveimur.

Einfaldið

Fyrst: Erum við að flækja lærisveinshlutverkið okkar?

Þetta fallega fagnaðarerindi er svo einfalt að barn getur skilið það, samt svo djúpstætt og flókið að það mun taka alla ævi – jafnvel eilífðina – að nema og uppgötva til að skilja það að fullu.

En stundum gyllum við hina fallegu lilju sannleika Guðs með ótal lögum af góðum manngerðum hugmyndum, áætlunum og væntingum. Sérhver þeirra gæti í sjálfu sér verið hjálpleg og viðeigandi á ákveðnum tíma og við ákveðnar aðstæður en þegar við setjum þær í lögum ofan á hver aðra þá geta þær myndað fjall setlaga sem verður svo þykkt og þungt að hætta er á að við missum sjónar á hinu dásamlega blóminu sem eitt sinn var okkur svo kært.

Þar af leiðandi þurfum við sem leiðtogar að vernda vandlega hreinleika og skýrleika kirkjunnar og fagnaðarerindisins og forðast að setja ónauðsynlegar byrðir á meðlimi okkar.

Sem meðlimir kirkjunnar, þá þurfum við öll að leggja okkur meðvitað fram við að helga orku okkar og tíma því sem virkilega skiptir máli, er við styrkjum náunga okkar og byggjum upp ríki Guðs.

Ein systir, leiðbeinandi í Líknarfélaginu, var þekkt fyrir að undirbúa óaðfinnanlegar lexíur. Eitt skiptið ákvað hún að sauma fallegt bútasaumsteppi sem átti að vera bakgrunnur fyrir lexíuna hennar. En svo skall lífið á – sækja þurfti börnin í skólann, nágranna vantaði aðstoð við að flytja, eiginmaður fékk flensu og vinur var einmanna. Dagur lexíunnar nálgaðist og teppið var ekki tilbúið. Hún náði ekki að sofa mikið nóttina áður en flytja átti lexíuna því hún vann alla nóttina við að klára teppið.

Næsta dag var hún úrvinda og gat naumast skipulagt hugsanir sínar en af miklum kjarki stóð hún upp og flutti lexíuna.

Og bútasaumsteppið var glæsilegt – saumurinn fullkominn, litirnir líflegir og hönnunin margbrotin. Í miðjunni á öllum herlegheitunum var eitt orð sem sigrihrósandi endurómaði þema lexíu hennar: „Einfaldið.“

Bræður og systur, það þarf ekki að vera flókið að lifa eftir fagnaðarerindinu.

Í raun er það afar einfalt. Hægt væri að lýsa því á þenna hátt:

  • Við förum að trúa á Guð og treysta loforðum hans þegar við hlýðum á orð Guðs af einlægum ásetningi.3

  • Því meira sem við treystum Guði, því meira mun hjarta okkar fyllast af ást til hans og hvers annars.

  • Við munum þrá að fylgja honum og aðlaga gjörðir okkar að orði hans, vegna elsku okkar til Guðs.

  • Við viljum þjóna Guði, blessa líf annara og liðsinna hinum fátæku og þurfandi vegna þess að við elskum Guð.

  • Því lengur við við göngum á vegi lærisveinsins, því meira þráum við að læra orð Guðs.

Þannig virkar það, sérhvert skref leiðir til þess næsta, sem fyllir okkur af sívaxandi trú, von og kærleika.

Þetta er fallega einfalt og virkar dásamlega.

Bræður og systur, ef þið teljið einhvern tímann að fagnaðarerindið sé ekki að virka vel fyrir ykkur þá býð ég ykkur að taka eitt skref afturábak, horfa á líf ykkar af hærri sjónarhóli og einfalda nálgun ykkar á lærisveinahlutverkinu. Einblínið á grundvallarreglur, kenningar og hagnýtingu fagnaðarerindisins. Ég lofa að Guð mun leiða og blessa ykkur á vegi ykkar til fyllra lífs og fagnaðarerindið mun vissulega virka betur fyrir ykkur.

Byrjið þar sem þið eruð

Önnur uppástunga mín er: Byrjið þar sem þið eruð.

Stundum er kjarkur úr okkur dreginn vegna þess að við erum ekki „meira“ af einhverju – virt meira, andlegri, greindari, heilbrigðari, ríkari, vinalegri eða getu meiri. Auðvitað er ekkert að því að vilja bæta sig. Guð skapaði okkur til að við gætum vaxið og þróast. En munið að veikleikar okkar geta hjálpað okkur að vera auðmjúk og snúa okkur til Krists, sem mun „[láta] hið veika verða styrk [okkar].“4 Satan, hins vegar, notar veikleika okkar til að draga úr okkur kjarkinn svo við hættum að reyna.

Ég hef lært í mínu lífi að við þurfum ekki að vera „meira“ af einhverju til að verða sú manneskja sem Guð ætlaði okkur að verða.

Guð mun taka við ykkur eins og við erum á nákvæmlega þessu augnabliki og hefjast handa. Það eina sem til þarf er viljugt hjarta, þrá til að trúa og traust á Drottin.

Gídeon sá sjálfan sig sem fátækan bónda, hinn smæsta í húsi föður síns. En Guð sá hann sem hrausta hetju.5

Sál reyndi að fá Samúel ofan af því þegar Samúel valdi hann sem konung. Sál var frá einni af minnstu ættkvíslum úr húsi Ísraels. Hvernig gæti hann verið konungur?6 En Guð sá hann sem „fyrirmannlegan og fríðan.“7

Það þyrmdi jafnvel yfir Móse, hinn mikla spámann, á tímabili og kjarkurinn brast honum, svo hann vildi gefast upp og deyja.8 En Guð gafst ekki upp á Móse.

Kæru bræður mínir og systur, ef við horfum eingöngu á okkur sjálf með okkar dauðlegu augum þá kann að vera að við sjáum okkur sjálf sem ekki nægilega góð. En himneskur faðir sér okkur eins og við í raun erum og hver við getum í raun orðið. Hann sér okkur sem syni sína og dætur, sem verur eilífs ljóss með óendanlega möguleika og með himnesk örlög.9

Fórn frelsarans opnaði dyr sáluhjálpar svo allir gætu snúið aftur til Guðs. „Náð [hans] nægir öllum mönnum, sem auðmýkja sig fyrir [Guði].“10 Hans náð er sá virkjandi kraftur sem opnar fyrir aðgang að sáluhjálp í ríki Guðs. Við munum öll rísa upp og frelsast í ríki dýrðar vegna náðar hans.

Jafnvel lægsta dýrðargráðan, jarðneska ríkið, „er ofar öllum skilningi.“11 og óteljandi munu erfa sáluhjálp þar.12

Náð frelsarans getur gert svo miklu meira fyrir okkur. Við, sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, sækjumst eftir nokkru sem er miklu æðra. Það er upphafning í himneska ríkinu. Það er eilíft líf í návist föður okkar á himnum. Það er æðsta gjöf Guðs.13 Í hinni himnesku dýrð meðtökum við „af fyllingu hans og af dýrð hans.“14 Í raun mun allt það sem faðirinn á verða gefið okkur.15

Upphafning er markmið okkar; lærisveinshlutverkið er ferðalagið.

Er þið iðkið örlitla trú og hefjið göngu ykkar sem friðsælir fylgjendur Drottins Jesú Krists, þá mun hjarta ykkar umbreytast.16 Allur líkami ykkar mun fyllast af ljósi.17

Guð mun hjálpa ykkur að verða miklu meira en það sem þið hélduð að væri mögulegt. Og þið munið komast að því að fagnaðarerindi Jesú Krists er í raun að virka í lífi ykkar. Það virkar.

Það virkar!

Bræður og systur, kæru vinir, ég bið þess að við munum einblína á einfaldleikann sem er í Kristi18 og leyfa náð hans að lyfta og bera okkur á ferðalagi okkar frá þeim stað sem við erum á í dag að dýrðlegum ákvörðunarstað okkar í návist föður okkar.

Er við gerum það og einhver spyr okkur: „Hvernig er það að virka fyrir þig að vera meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu?“ þá getum við auðmjúklega en stolt sagt af mikilli gleði: „Það virkar dásamlega! Þakka þér fyrir að spyrja! Viltu fá að vita meira?“

Þetta er von mín, bæn mín, vitnisburður minn og blessun mín, í nafni Jesú Krists, amen.