2010–2019
Í toppstandi að hætti Bristol: Verðug musterisins – í bæði góðu og slæmu árferði
Október 2015


Í toppstandi að hætti Bristol: Verðug musterisins – í bæði góðu og slæmu árferði

Hlýðni við hinar helgu reglur fagnaðarerindisins mun leyfa okkur að vera verðug musterisins, finna hamingju í þessu lífi og leiða okkur tilbaka til himnesks heimilis okkar.

Spámaðurinn Lehi sagði, „Og sé ekkert réttlæti til, þá er heldur engin hamingja til.“1

Andstæðingurinn hefur náð góðum árangri í að gróðursetja mikla goðsögn í hugum margra. Hann og útsendarar hans lýsa því yfir að aðalval okkar sé á milli hamingju og ánægju nú í þessu lífi og hamingju í lífinu hér eftir (sem andstæðingurinn fullyrðir að sé mögulega ekki til). Þessi goðsögn er falskt val,en hún er mjög lokkandi.2

Lokatilgangur hamingjuáætlunar Guðs er að réttlátir lærisveinar og sáttmálsfjölskyldur verði sameinaðar í kærleika, samhljómi og friði í þessu lífi.3 og nái himneskri dýrð í eilífðinni með Guði föðurnum, skapara okkar og ástkærum syni hans, Jesú Kristi, frelsara okkar.4

Þegar ég var ungur trúboði í breska trúboðinu, þá var fyrsta svæðið mitt, það sem þá kallaðist Bristol umdæmið. Einn af kirkjuleiðtogunum á svæðinu lagði áherslu á að trúboðarnir sem þjónuðu á því svæði þyrftu að vera „Í toppstandi að hætti Bristol.“

Ljósmynd
Skip í Bristol-höfn

Í upphafi skildi ég ekki hvað hann var að reyna að segja. Ég komst fljótlega að sögunni að baki þessu og hver merkingin væri á þessu sjómannaorðtaki: „Í toppstandi og að hætti Bristol.“ Einu sinni fyrir löngu þá var Bristol önnur afkastamesta hafnarborg Stóra Bretlands. Skilin milli sjávarfalla voru 13 metrar, þau önnur mestu í heiminum. Við fjöru, þegar vatnið hopaði, þá lentu gömlu skipin á botninum og féllu á hliðina og ef skipin voru ekki vel byggð, þá skemmdust þau. Þess að auki þá hentist allur farmur til í skipinu, sem ekki var bundinn niður, og skemmdist eða eyðilagðist.5 Eftir að ég skildi merkingu þessa orðatiltækis þá var það greinilegt að þessi leiðtogi var að segja okkur að trúboðarnir yrðu að vera réttlátir, fylgja reglunum og vera tilbúnir í erfiðar aðstæður.

Þessi sama áskorun á við um okkur öll. Ég myndi segja að orðin „í toppstandi að hætti Bristol,“ merktu að vera verðugur þess að fara í musterið – í bæði góðu og slæmu árferði.

Þó að sjávarföllin í Bristol séu nokkuð fyrirsjáanleg og hægt sé að búa sig undir þau, þá eru stormar og freistingar lífsins oft ófyrirsjáanleg. Við vitum allavega fyrir víst að þau munu koma! Til þess að sigrast á þeim áskorunum og freistingum sem við verðum öll að takast á við, þá krefst það réttláts undirbúnings og þess að nýta sér þá guðlegu vernd sem boðið er upp á. Við verðum að ákveða að vera verðug musterisins, sama hvað kemur upp á. „Séuð þér viðbúnir þurfið þér ekki að óttast.“6

Hamingja í þessu lífi og hamingja í næsta lífi eru samtengdar réttlæti. Á því tímabili sem er á milli dauða og upprisu „er [tekið] við öndum þeirra, sem réttlátir eru, inn í sæluríki, sem nefnist paradís, ríki hvíldar og friðar, þar sem þeir hvílast frá öllu erfiði, áhyggjum og sorgum.“7

Við upphaf jarðneskrar þjónustu frelsarans í Ísrael, og síðar á meðal Nefítana, þá ræddi frelsarinn um hamingjuna, bæði í þessu lífi og í eilífðinni. Hann lagði áherslu á helgiathafnir, en líka mikla áherslu á siðferðilega hegðun. Til dæmis þá væru lærisveinarnir blessaðir ef þeir myndu hungra og þyrsta eftir réttlæti, vera miskunnsamir, vera hjartahreinir, friðelskandi og fara eftir öðrum dyggðugum grundvallaratriðum. Drottinn Jesús Kristur undirstrikar greinilega, sem grundvallarkenningu, að bæði ber að vera réttlátur í viðhorfi og hegðun í daglegu lífi. Kenningar hans komu ekki einungis í staðinn fyrir hluta Móselögmálsins og voru yfir það hafnar,8 heldur höfnuðu þær einnig fölskum kenningum manna.

Í margar aldir þá hefur fagnaðarerindi Jesú Krists innblásið trú og lagt grunn að hegðunarstöðlum, svo sem hvað þykir réttlátt, ákjósanlegt og siðferðilegt og leiðir til hamingju, ánægju og gleði. Hins vegar þá eru þær kenningar og grunnsiðferði sem frelsarinn kenndi, undir alvarlegri árás í heiminum í dag. Kristni eru undir árás. Margir trúa því að það sem sé siðferðilegt hafi í raun breyst.9

Við lifum á erfiðum tímum. Það er aukin tilhneiging til að „kalla hið illa gott og hið góða illt.“10 Heimur sem leggur áherslu á sjálfsupphafningu og veraldarhyggju er mikið áhyggjuefni. Velmegandi rithöfundur, ekki okkar trúar, sagði þetta á þennan veg: „Því miður sé ég lítil merki um að fólk sé í raun hamingjusamara á þessum tíma, eða að börnin þeirra hafi það eitthvað betra, eða að samfélagslegu réttlæti sé þjónað, eða að lækkandi hlutfall hjónabands og rýrnandi fjölskyldutré...lofi nokkru nema meiri einmannaleika fyrir meirihlutann og alsherjar stöðnun.“11

Sem lærisveinar frelsarans þá er reiknað með því að við gerum áætlanir og undirbúum okkur. Í hamingjuáætluninni þá er siðferðilegt valfrelsi miðpunktur skipulagsins og val okkar skiptir máli.12 Frelsarinn lagði áherslu á þetta í gegnum þjónustu sína, þar á meðal í dæmisögunum um hinar fávísu meyjar og talenturnar.13 Í hvorri sögunni fyrir sig þá lagði Drottinn áherslu á undirbúning og framkvæmd, og fordæmdi frestunaráráttu og aðgerðarleysi.

Ég geri mér grein fyrir því að hin ómótstæðilega hamingja sem felst í guðdómlegri áætlun Guðs, kann stundum að virðast langt í burtu og ótengd við núverandi aðstæður okkar. Það gæti virst út seilingarfjarlægð fyrir okkur lærisveinana sem erum sífellt að strita. Frá okkar takmarkaða sjónarhóli, þá geta núverandi freistingar og truflanir, virst aðlaðandi. Umbunin fyrir það að forðast þessar freistingar virðist, hins vegar, fjarlægt markmið sem erfitt er að ná. Sannur skilningur á áætlun föðurins upplýsir hins vegar að verðlaun réttlætisins eru fáanleg núna. Vonska, eins og ósiðleg hegðun, er aldrei hluti af svarinu. Alma sagði það greinileg við son sinn Korianton: „Sjá, ég segi þér, að aldrei hefur hamingjan falist í ranglæti.“14

Kenning okkar kemur greinilega fram hjá Amúlek í Alma 34:32 : „Því að sjá. Þetta líf er tími mannanna til að búa sig undir að mæta Guði. Já, sjá. Dagur þessa lífs er dagurinn, sem menn hafa til að leysa verk sitt af hendi.“

Hvernig undirbúum við okkur þá, á svona erfiðum tímum? Auk þess að vera verðug fyrir musterið, þá eru margar kenningar sem stuðla að réttlæti. Mig langar að leggja áherslu á þrjár.

Í fyrsta lagi: Réttlátur sjálfsagi og hegðun

Ég trúi því að ástkær faðir okkar á himnum, hljóti að horfa á okkur með sömu kímni og við gerum þegar við horfum á lítil börn okkar er þau læra og vaxa. Við föllum öll við og dettum, er við öðlumst reynslu.

Ljósmynd
Sykurpúða tilraun

Ég kann vel að meta ráðstefnuræðu Dieter F. Uchtdorfs, forseta, sem hann flutti árið 201015 um hina frægu sykurpúðatilraun sem gerð var við Stanford háskólann á sjöunda áratuginum. Þið munið að fjögurra ára börnum var gefið einn stakur sykurpúði. Ef þau biðu í 15–20 mínútur, án þess að borða hann, þá myndu þau fá annan sykurpúða. Myndbönd hafa verið gerð sem sýna vandræðaganginn á mörgum börnunum við að forðast að borða sykurpúðann. Mörgum tókst það ekki.16

Á síðasta ári þá skrifaði höfundur tilraunarinnar Dr. Walter Mischel bók, þar sem hann sagði að könnunin hefði verið gerð, að hluta til, vegna áhyggna hans af eigin sjálfsstjórn og reykingarfíkn. Eftir að herlæknaskýrsla Bandaríkjanna var gefin út árið 1964, hafði hann sérstakar áhyggjur af því að niðurstaða hennar var sú að reykingar yllu lungnakrabbameini.17 Eftir áralangar rannsóknir, greindi einn starfsfélagi hans frá því að „sjálfstjórn væri lík vöðva, því meira sem á hana reyndi, því öflugri yrði hún. Að forðast freistingu í eitt skipti, hjálpar manni að þroska með sér þá getu að standast aðrar freistinga seinna meir.18

Lögmál eilífrar framþróunar er að þjálfa með sér sjálfsaga og réttlátt líferni til að styrkja þann eiginleika að standast freistingar. Þetta er staðreynd, bæði á andlega og stundlega sviðinu.

Trúboðar okkar eru frábær dæmi um þetta. Þeir þroska með sér kristilega eiginleika og leggja áherslu á hlýðni og andlegar gjafir. Það er ætlast til þess að þeir fylgi strangri áætlun og nýti daga sína í þjónustu við aðra. Þeir eru hógværir og hefðbundnir í útliti frekar en að fylgja þeim afslappaða eða ósiðsamlega klæðaburði sem er svo algengur í dag. Hegðun þeirra og útlit bera vott um siðferðileg og alvarleg skilaboð.19

Við erum með um 230.000 ungmenni sem eru starfandi sem trúboðar, eða hafa lokið starfi sínu sem trúboðar á síðustu fimm árum. Þeir hafa þroskað með sér einstakan andlegan styrk og sjálfsaga, sem þarf að halda stöðugt við, eða þessir eiginleikar munu rýrna eins og vöðvar sem ekki eru notaðir. Við þurfum öll að þróa og sýna hegðun og útlit sem lýsir því yfir að við séum sannir fylgendur Krists. Þeir sem yfirgefa annað hvort réttláta hegðun eða heilbrigt, hógvært útlit, opna sig fyrir lífstíl sem færir hvorki gleði né hamingju.

Hið endurreista fagnaðarerindi veitir okkur teikningarnar að hamingjuáætluninni og hvatningu til að skilja og þjálfa upp sjálfsaga og standast freistingar. Það kennir okkur líka að iðrast þegar brot hefur átt sér stað.

Í öðru lagi: Að heiðra hvíldardaginn mun auka réttlæti og vera vernd fyrir fjölskylduna.

Frumkirkjan breytti hvíldardeginum frá laugardegi yfir á sunnudag til að heiðra upprisu Drottins. Önnur grunnatriði hvíldardagsins héldust óbreytt. Hvað Gyðinga og kristna varðar þá er hvíldardagurinn táknrænn fyrir hin miklu verk Guðs.20

Eiginkona mín og ég, ásamt tveimur samstarfsaðilum mínum og eiginkonum þeirra tókum nýlega þátt í hvíldardegi gyðinga, í boði kærs vinar okkar, Robert Abrams og eiginkonu hans, Diane, á heimili þeirra í New York.21 Þetta byrjaði á upphafi hvíldardags gyðinga, föstudagskvöldinu. Aðalatriðið var að heiðra Guð sem skaparann. Það byrjaði með blessun á fjölskyldunni og hvíldardagssálmi.22 Við tókum þátt í hinum táknræna handþvotti, blessun á brauðinu, bænunum, máltíðinni að hætti gyðinga, ritningarlestri og söng á hvíldardagssálmum til hátíðarbrigða. Við hlustuðum á hebresk orð og fylgdumst með enskum þýðingum. Áhrifaríkasta ritningargreinin sem lesin var úr Gamla testamentinu, er einnig okkur kær, var úr Jesaja, þar sem hvíldardeginum er lýst sem feginsdegi,23 og frá Esekíel að hvíldardagurinn sé „sambandstákn milli mín og yðar, til þess að menn viðurkenni, að ég er Drottinn, Guð yðar.“24

Sú yfirgnæfandi tilfinning sem fylgdi þessu kvöldi var fjölskyldukærleikur, trúfesta og ábyrgð gagnvart Guði. Er ég hugsaði um þennan atburð þá hugleiddi ég þær öfgafullu ofsóknir sem Gyðingar hafa upplifað í gegnum aldirnar. Það er greinilegt að það að halda hvíldardaginn heilagan hefur verið „stöðugur sáttmáli,“sem hefur varðveitt og blessað Gyðinga sem uppfylling ritningar.25 Það hefur einnig lagt sitt af mörkum fyrir hið einstaka fjölskyldulíf og hamingju sem er augljós í lífi margra Gyðinga.26

Fyrir kirkjuþegna Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu þá er það að heiðra hvíldardaginn, siður réttlætis sem mun blessa og styrkja fjölskyldur, tengja okkur við skapara okkar og auka hamingju. Hvíldardagurinn getur hjálpað okkur að aðskilja okkur frá því sem er léttúðugt, óviðeigandi eða siðlaust. Hann leyfir okkur að vera í heiminum, án þess að vera af heiminum.

Merkileg breyting hefur komið yfir kirkjuna á síðustu sex mánuðum. Þetta hefur verið svar kirkjuþegna við endurnýjaðri áherslu Æðsta forsætisráðsins og hinna Tólf á hvíldardeginum, og við áskorun Russell M. Nelson að gera hvíldardaginn að feginsdegi.27 Margir kirkjuþegnar skilja að það, að halda hvíldardaginn sannarlega heilagan, er skjól frá stormum lífsins. Það er einnig tákn um hollustu okkar við himneskan föður okkar og aukinn skilningur á heilagleika sakramentissamkomunnar. Við eigum enn langt í land, en við eigum yndislegt upphaf. Ég skora á okkur öll að halda áfram að umvefja þetta ráð og að auka hvíldardagstilbeiðslu okkar.

Í þriðja lagi: Veitt er guðleg vernd þegar við erum réttlát.

Sem þáttur í guðdómlegri áætlun Guðs, þá erum við blessuð með gjöf heilags anda. Þessi gjöf „er rétturinn að hafa félagskap heilags anda með sér, þegar maður er verðugur.“28 Þessi meðlimur guðdómsins þjónar sem hreinsiefni, ef fagnaðarerindið er í fyrsta sæti í lífi okkar. Hann er einnig rödd viðvörunar gegn hinu illa og rödd verndar á móti hættum. Þegar við siglum um höf lífsins, þá eru hughrif heilags anda nauðsynleg. Andinn mun hjálpa okkur að standast freistingar og forðast hættur og huggar og leiðir okkur í gegnum áskoranir. „En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska.“29

Hlýðni við hinar helgu reglur fagnaðarerindisins mun leyfa okkur að vera verðug musterisins, finna hamingju í þessu lífi og leiða okkur tilbaka til himnesks heimilis okkar.

Bræður mínir og systur, lífið er ekki auðvelt, né var því ætlað að vera það. Það er tími reynslu og rauna. Eins og gömlu skipin í Bristol höfninni, þá munu koma tímar þegar fjarar út og það virðist eins og allt sem heldur manni á floti í heiminum hverfi. Við lendum kannski á botninum og veltum jafnvel á hliðina. Í slíkum raunum þá lofa ég ykkur, að með því að lifa og viðhalda musterisverðugleika, þá mun allt haldast saman sem raunverulega skiptir máli. Hin ljúfa tilfinning friðar, hamingju og gleði, ásamt blessunum eilífs lífs og himneskrar dýrðar með himneskum föður okkar og syni hans, Jesú Kristi, mun vera raunveruleg. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. 2 Ne 2:13. Þessi ritning er hluti af samsvörun í Mormónsbók. Það er áhugavert að margir spámannana sem eiga skrif og ræður í Mormónsbók, nota þessa bókmenntalegu nálgun til að leggja áherslu á mikilvæg kenningarleg hugtök. Sjá, til dæmis, 2 Ne 9:25 (Jakob) 2 Ne11:7 (Nefí).

  2. Sjá 2 Ne 28.

  3. Sjá 4 Ne 1:15–17.

  4. Sjá Kenning og sáttmálar 59:23.

  5. Sjá Wiktionary, “shipshape and Bristol fashion.” wiktionary.org.

  6. Sjá Kenning og sáttmálar 38:30.

  7. Alma 40:12; skáletrað hér.

  8. Sjá Matt 5, samantekt kafla.

  9. Sjá Carl Cederstrom, “The Dangers of Happiness,” New York Times, júlí 19, 2015, Sunday Review section, 8.

  10. 2 Ne 15:20.

  11. Ross Douthat, “Gay Conservatism and Straight Liberation,” New York Times, júní 28, 2015, Sunday Review section, 11.

  12. Sjá 2 Ne 2.

  13. Sjá Matt 25:1–30.

  14. Alma 41:10.

  15. Sjá Dieter F. Uchtdorf, “Continue in Patience,” Liahona, maí 2010, 56.

  16. Sjá Walter Mischel, The Marshmallow Test: Mastering Self-Control (2014), 136–38; sjá einnig Jacoba Urist, “What the Marshmallow Test Really Teaches about Self-Control,” Atlantic, 24. sept. 2014, theatlantic.com.

  17. Sjá Mischel, The Marshmallow Test, 136–38.

  18. Sjá Maria Konnikova, “The Struggles of a Psychologist Studying Self-Control,” New Yorker, 9. okt. 2014, newyorker.com, citing Roy Baumeister, heimspekiprófessor við Florida State háskólann sem leggur stund á rannsóknir um viljastyrk og sjálfsaga.

  19. Sjá Malia Wollan, “How to Proselytize,” New York Times Magazine, júlí 19, 2015, 21. Hún vitnar í Mario Dias frá trúboðsskólanum í Brasilíu.

  20. See Bible Dictionary, “Sabbath.”

  21. Elder Von G. Keetch og kona hans, Bernice og John Taylor og kona hans, Jan, komu með mér og konu minni í ljúfan hvíldardagskvöldverð hjá Robert Abrams og konu hans, Diane, 8 maí, 2015. Hr. Abrams hefur þjónað sem dómsmálaráðherra fyrir New York ríki í fjögur tímabil og hefur verið vinur kirkjunnar í mörg ár. Hr. Abrams hafði einnig boðið tveimur vinum sínum sem voru Gyðingar, og konum þeirra.

  22. Hvíldardags borðsálmurinni Shalom Aleichem („Friður sé með yður“) var sunginn.

  23. Sjá Jes 58:13–14.

  24. Esek 20:20.

  25. Sjá 2 Mós 31:16–17.

  26. Sjá Joseph Lieberman, The Gift of Rest: Rediscovering the Beauty of the Sabbath (2011). Hin ánægjulega bók Lieberman þingmanns, lýsir hvíldardegi Gyðinga og veitir andlega innsýn.

  27. Sjá Jes 58:13–14; sjá einnig Russell M. Nelson, “The Sabbath Is a Delight,” Liahona, maí 2015, 129–32.

  28. Bible Dictionary, “Holy Ghost.”

  29. Galatians 5:22.