2010–2019
Að þau hafi hann ávallt í huga
Október 2015


Að þau hafi hann ávallt í huga

Ég ann því að læra um og hugleiða líf hans sem gaf allt fyrir mig og okkur öll.

Ég hef unun af Barnafélagssöngnum sem kennir:

Segðu mér sögur um Jesú, sögum ég ann,

séu þær sagðar um hann, son Guðs og mann.

Sögur af Jesú, segðu mér þær,

Sögur af Jesú, sem er mér kær.1

Ég trúi því að ef við hefjum þá hefð að segja börnum okkar sögur af Jesú, þá sé það mjög sérstök leið til að halda hvíldardaginn heilagan.

Þetta mun sannlega færa sérstakan anda inn á heimili okkar og veita fjölskyldum okkar fordæmi frá frelsaranum sjálfum.

Ég ann því að læra um og hugleiða líf hans sem gaf allt fyrir mig og okkur öll.

Ég ann því að lesa ritningargreinar um syndlaust líf hans og eftir að hafa lesið ritningarnar, sem segja mér frá lífsreynslu hans, þá loka ég augum mínum og reyni að sjá fyrir mér þessa helgu atburði sem kenna mér og styrkja mig andlega.

Atburði eins og:

  • Þegar hann skyrpti á jörðina og smurði augu blinda mannsins með leir sem hann hafði búið til úr munnvatninu, og sagði við hann: „Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam.“ Maðurinn hlýddi því „og þvoði sér og kom sjáandi.“2

  • Þegar hann læknaði konuna sem hafði haft blóðlát og snerti klæðafald hans, trúandi því að með því aðeins að snerta hann, myndi hún læknast.3

  • Þegar hann birtist lærisveinum sínum, gangandi á vatninu.4

  • Þegar hann fór með lærisveinum sínum á veginum til Emmaus og opnaði skilning þeirra á ritningunum.5

  • Þegar hann birtist fólkinu hér í Ameríku og sagði þeim að koma til sín og þrýsti höndum þeirra í síðu hans og lét þau finna örin eftir naglana á höndum sínum og fótum, svo að þau gætu vitað að hann væri „Guð Ísraels og Guð allrar jarðarinnar, … deyddur fyrir syndir heimsins.“6

Ég gleðst í vitneskjunni um að það eru foreldrar sem segja börnum sínum sögur um Krist. Ég tek eftir þessu er ég horfi á börnin í kirkju, í barnafélagsdagskrá og við önnur tækifæri.

Ég er þakklátur fyrir að foreldrar mínir kenndu mér um Krist. Ég held áfram að sjá hvernig fordæmi frelsarans hjálpar elskulegri eiginkonu minni og mér, er við kennum börnum okkar.

Hjarta mitt er fullt gleði þegar ég sé börnin mín segja barnabörnunum mínum sögur af Kristi. Það minnir mig á eina af uppáhalds ritningargreinunum mínum, sem er vers 4 í kapítula 1 í 3. Jóhannesarbréfi : „Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum.“ Af hverju þá ekki barnabörnin líka?

Ég er þakklátur fyrir leiðtoga okkar, sem eru ávallt að kenna okkur um Krist, að halda hvíldardaginn heilagan og að meðtaka sakramentið á hverjum sunnudegi, til heiðurs frelsaranum.

Hvíldardagurinn og sakramentið verða mikið ánægjulegri er við lærum sögurnar um Krist. Þegar við gerum svo, þá sköpum við hefðir sem byggja trú okkar og vitnisburð og vernda einnig fjölskyldur okkar.

Fyrir nokkrum vikum, þegar ég var að kynna mér boðskap Russell M. Nelson forseta, sem hann flutti á síðustu aðalráðstefnu, og íhugaði hvíldardaginn, þá fann ég djúpt þakklæti fyrir þær blessanir og þau forréttindi að geta meðtekið sakramentið. Fyrir mig þá er þetta mjög hátíðleg, heilög og andleg stund Ég nýt sakramentissamkomunnar.

Á meðan ég hugleiddi, þá las ég vandlega bænirnar fyrir brauðið og vatnið. Ég las og íhugaði vandlega bænirnar og helgiathöfn sakramentis. Ég fór í huganum yfir atburðina sem tengdust því.

Í anda hugleiðslu, þá fór ég yfir atburði þess dags, fyrsta dag hátíðar ósýrðu brauðana, þegar hann svaraði spurningu lærisveina sinna um það hvar þeir ættu að undirbúa páskamáltíðina, með því að segja: „Farið til ákveðins manns í borginni, og segið við hann:, Meistarinn segir: Minn tími er í nánd, hjá þér vil ég halda páska með lærisveinum mínum.‘“7

Ég reyndi að sjá fyrir mér er lærisveinarnir voru að kaupa matinn og að undirbúa matarborðið vandlega fyrir máltíðina með honum á þessum sérstaka degi. Borð fyrir 13 manns, hann og 12 lærisveina, sem hann elskaði.

Ég grét er ég sá Krist fyrir mér matast með þeim og segja: „Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig.“8

Ég hugsaði um hina sorgmæddu lærisveina, er þeir spurðu hann: „Ekki er það ég, herra?“9

Þegar Júdas spurði hann sömu spurningar, þá svaraði hann rólega, „Þú sagðir það.“10

Ég gat séð fyrir mér hendurnar sem höfðu læknað, huggað, upplyft og blessað, að brjóta brauðið, er Jesús sagði: „Takið og etið, þetta er líkami minn.“11

Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: „Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.“12

Í huga mínum sá ég lærisveinana, einn af öðrum og sá, í augum þeirra, umhyggjuna fyrir frelsaranum, sem þeir elskuðu mjög. Það var eins og ég sæti þar með þeim og horfði á allt saman. Ég fann stingandi sársauka í hjarta mér, uppfullur af trega og sorg yfir því sem hann var að fara að upplifa fyrir mig.

Sál mín fylltist af þeirri yfirgnæfandi þrá að verða betri persóna. Í iðrun og sorg, óskaði ég þess að geta þurrkað upp, og forðað, að minnsta kosti nokkrum þeim blóðdropum sem hann fórnaði í Getsemanegarðinum.

Ég íhugaði síðan sakramentið sem við meðtökum í hverri viku, í minningu hans. Á meðan ég gerði þetta hugleiddi ég hvert orð í blessun brauðsins og vatnsins. Ég hugleiddi orðin „hafa hann ávallt í huga“ í blessun brauðsins og „hafi hann ávallt í huga“ í blessun vatnsins.13

Ég íhugaði hvað það þýðir að „hafa hann ávallt í huga“:

Fyrir mér þá þýðir það:

  • Að minnast fortilveru hans, þegar hann skapaði þessa plánetu.14

  • Að minnast lítillæti fæðingar hans í jötu í Betlehem í Júdeu.15

  • Að minnast þess að hann var einungis 12 ára gamall drengur er hann kenndi og prédikaði fyrir lærifeðrunum.16

  • Að minnast þess að hann fór afsíðis út í eyðimörkina til að undirbúa sig fyrir jarðneska þjónustu sína.17

  • Að minnast þess að hann umbreyttist frammi fyrir lærisveinum sínum.18

  • Að minnast þess að hann innleiddi sakramentið við síðustu kvöldmáltíðina með þeim.19

  • Að minnast þess að hann fór í Getsemanegarðinn og þjáðist ólýsanlega fyrir syndir okkar, sársauka, vonbrigði, veikindi, svo að blæddi úr hverri svitaholu.20

  • Að minnast þess að hann var svikinn með kossi, af einum lærisveina sinna sem hann kallaði vin,21 eftir svo miklar þjáningar og ákafan sársauka, enn í Getsemanegarðinum.

  • Að minnast þess að hann var tekinn til yfirheyrslu hjá Pílatusi og Heródesi.22

  • Að minnast þess að hann var auðmýktur, barinn, hrækt á, laminn og hýddur með svipu sem reif hold hans.23

  • Að minnast þess að hann var svo grimmilega krýndur með þyrnikórónu.24

  • Að minnast þess að hann varð að bera sinn eigin kross til Golgata og að hann var negldur á kross þar, og þoldi allan líkamlegan og andlegan sársauka.25

  • Að minnast þess að hann var á krossinum, með hjartað fullt af kærleik, horfandi á þá sem krossfestu hann og síðan til himins, biðjandi: „Faðir, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.“26

  • Að minnast þess að hann gaf upp anda sinn í hendur föður síns, föður okkar,27 vitandi að hann hefði uppfyllt ætlunarverk sitt, að bjarga öllu mannkyni.

  • Að minnast upprisu hans, sem tryggir okkar eigin upprisu og möguleikann á því að lifa við hlið hans um alla eilífð, eftir því hvað við veljum.28

Ennfremur, þegar við íhugum sakramentisbænina og þessi sérstöku og þýðingarmiklu bænarorð, hve dásamlegt er ekki að fá það loforð í sakramentisblessununum, að er við munum ávallt hafa hann í huga, þá munum við ætíð hafa anda hans með okkur.29

Ég trúi því að Drottinn hafi sínar eigin tímasetningar með það hvenær hann veitir okkur opinberanir. Ég skildi þetta mjög vel er ég las Prédikarann 3:1, 6, þar sem segir:

„Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma, ...

að leita hefir sinn tíma og að týna hefir sinn tíma, að geyma hefir sinn tíma og að fleygja hefir sinn tíma.“

Sakramentið er einnig tími fyrir himneskan föður til að kenna okkur um friðþægingu síns ástkæra sonar, frelsara okkar, Jesú Krists, og fyrir okkur að meðtaka opinberun varðandi það. Nú er tíminn til að „[knýja] á, og fyrir yður mun upp lokið verða,“30 til að biðja um og meðtaka þessa þekkingu. Nú er tíminn fyrir okkur til að biðja Guð lotningarfullt um þessa þekkingu. Ef við gerum svo, þá efast ég ekki um að við munum öðlast þessa þekkingu, sem mun blessa líf okkar ómetanlega.

Ég ann hvíldardeginum, sakramentinu og því sem það merkir. Ég elska Drottin af öllu hjarta. Í nafni Jesú Krists, amen.