2010–2019
Gleðin að lifa lífi með Krist að þungamiðju
Október 2015


Gleðin að lifa lífi með Krist að þungamiðju

Líf okkar verður að hafa Krist að nákvæmri þungamiðju ef við eigum að finna sanna gleði og frið í þessu lífi.

Heimurinn sem við lifum í setur mikinn þrýsting á gott fólk alls staðar til að lækka eða jafnvel yfirgefa réttláta lífsstaðla sína. Við getum, þrátt fyrir hið illa og freistingarnar sem umlykja okkur sérhvern dag, fundið sanna gleði með því að lifa lífi sem hefur Krist að þungamiðju.

Stöðugleiki og hamingja kemur inn í líf okkar ef við höfum Jesú Krist og fagnaðarerindi hans að þungamiðju, eins og eftirfarandi dæmi sína.

Öldungur Taiichi Aoba af hinum Sjötíu, sem á heima í litlu fjallaþorpi í Shikoku, Japan, var beðinn að kenna lexíu á ungmennaráðstefnu. „Standið á helgum stöðum“ var þema ráðstefnunnar. Öldungur Aoba ákvað, eftir að hafa íhugað þemað, að nota starf sitt sem tól í kennslu sinni. Hann er leirkerasmiður.

Ljósmynd
Öldungur Aoba býr til leirker með æskufólki

Öldungur Aoba greinir frá því hvernig unglingarnir virkilega vöknuðu til lífsins þegar þau sáu hann, á næstum töfrandi hátt, umbreyta leirklump í höndum sér í diska, skálar og bolla. Hann spurði unglingana, eftir sýnikennslu sína, hvort eitthvert þeirra myndi vilja prófa. Allir réttu upp hönd.

Öldungur Aoba bauð nokkrum unglingum að koma að borðinu og prófa nýja áhugamálið. Þau töldu, eftir að hafa horft á hann, að þetta yrði nokkuð auðvelt. Enginn þeirra náði árangri – náðu ekki einu sinni að gera einfalda skál. Þau lýstu yfir: „Ég get þetta ekki!“ „Af hverju er þetta svona erfitt?“ „Þetta er svo erfitt.“ Þessar athugasemdir komu er leirinn flaug út um allt herbergi.

Hann spurði unglingana af hverju þau áttu svona erfitt með leirkerasmíðina. Svör þeirra voru mismunandi: „Ég hef enga reynslu.“ „Ég hef aldrei hlotið þjálfun,“ eða „Ég hef ekki hæfileika.“ Allt sem þau sögðu var rétt, byggt á niðurstöðunni, en mikilvægasta ástæðan fyrir árangursleysinu var hins vegar sú að leirinn var ekki í miðjunni á snúningsdisknum. Unglingarnir héldu að þeir hefðu sett leirinn í miðjuna en frá sjónarhóli fagmannsins þá sást að leirinn var ekki nákvæmlega í miðjunni. Hann sagði við þau: „Við skulum reyna einu sinni í viðbót.“

Ljósmynd
Öldungur Aoba býr til leirker

Í þetta sinn setti öldungur Aoba leirinn nákvæmlega í miðjuna á snúningsdisknum og tók svo að snúa honum og gerði holu í miðju leirsins. Nokkrir unglingar reyndu aftur. Í þetta sinn tóku allir að klappa er þeir sögðu: „Vá! Leirinn hristist ekkert,“ „Ég gert gert þetta,“ eða „Ég náði því!“ Afrakstur þeirra var auðvitað ekki fullkominn en útkoman var samt algjörlega allt önnur en í fyrstu tilraun. Ástæðan fyrir árangri þeirra var nákvæm miðjusetning leirsins á snúningsdisknum.

Heimurinn sem við lifum í er svipaður snúningsdiski leirkerasmiðsins og hraði disksins er að aukast. Við þurfum að vera nákvæmlega í miðjunni, rétt eins og leirinn á snúningsdiski leirkerasmiðsins. Kjarni okkar, þungamiðja lífs okkar, verður að vera Jesú Kristur og fagnaðarerindi hans. Að lifa lífi með Krist að þungamiðju þýðir að við lærum um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans og síðan fylgjum við fordæmi hans og höldum boðorð hans af nákvæmni.

Hinn forni spámaður Jesaja sagði: „En nú, Drottinn! Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir!“1

Ef við höfum Jesú Krist að þungamiðju í lífi okkar þá getur hann á árangursfullan hátt mótað okkur í það sem við þurfum að vera til þess að snúa aftur í návist hans og himnesks föðurs í himneska ríkinu. Gleðin sem við upplifum í þessu lífi mun verða í beinu hlutfalli við hversu nákvæmlega líf okkar snýst um kennslu, fordæmi og friðþægingarfórn Jesú Krists.

Bræður og systur, ég fæddist inn í SDH fjölskyldu sem hefur í margar kynslóðir verið meðlimir kirkjunnar og því hefur sú blessun og gleði að hafa fagnaðarerindi Jesú Krists sem grunninn að fjölskyldumenningu okkar verið samofin daglegu lífi. Það var ekki fyrr en í trúboði mínu, er ég var ungur maður, að mér varð ljóst hin miklu jákvæðu áhrif sem fylling fagnaðarerindis Jesú Krists hefur á þá sem aldrei áður hafa upplifað blessanir þess í lífi sínu. Þetta vers í Matteusi endurspeglar ferlið sem fólk er snýr til trúar á fagnaðarerindi Jesú Krist upplifir: „Líkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.“2

Leyfið mér að deila með ykkur dæmi úr Mormónsbók sem sýnir hvað einn trúskiptingur var tilbúinn að borga til þess að hljóta gleðina sem fylgir því að finna fjársjóðinn sem Jesús talaði um í dæmisögunni um falda fjársjóðinn á akrinum.

Þið munið eftir að Ammon og Lamoní höfðu ferðast til borgarinnar Middoní, í kapítula 20 í bók Alma, í þeim tilgangi að finna og leysa Aron, bróður Ammons, úr fangelsi. Á ferðalagi þeirra hittu þeir föður Lamonís, sem var konungur Lamaníta yfir öllu landinu.

Konungurinn varð mjög reiður yfir því að sonur hans væri að ferðast með Ammon, Nefíta trúboða, sem hann áleit óvin sinn. Hann taldi að sonur sinn ætti að hafa tekið þátt í veisluhöldunum sem hann hafði skipulagt fyrir syni sína og fólk sitt. Konungur Lamoníta varð svo reiður að hann skipaði syni sínum, Lamoní, að drepa Ammon með sverði sínu. Þegar konungurinn tók eigið sverð úr slíðri, er Lamoní neitaði þessu, og ætlaði að drepa son sinn fyrir óhlýðni sakir, þá skarst Ammon í leikinn til að bjarga lífi Lamonís. Að lokum yfirbugaði hann konunginn og hefði getað drepið hann.

Þetta er það sem konungurinn sagði við Ammon, eftir að hafa komist í þessar lífshættulegu aðstæður: „Ef þú hlífir mér, mun ég veita þér hvað sem þú vilt, allt að helmingi konungdæmis míns.“3

Konungurinn var reiðubúinn að greiða gjald sem samsvaraði hálfu konungsríki hans til að bjarga lífi sínu. Konungurinn hlýtur að hafa verið hissa þegar Ammon krafðist eingöngu lausnar Arons, bróður síns, og félaga hans úr fangelsinu og að Lamoní, sonur konungsins, myndi halda ríki sínu.

Síðar, vegna þessara samskipta, var Aron, bróðir Ammons, leystur úr Middoní fangelsinu. Þegar hann var orðinn frjáls, fékk hann innblástur um að ferðast til konungs Lamaníta sem réði yfir landinu. Aron var kynntur fyrir konungnum og fékk tækifæri til að kenna honum reglur fagnaðarerindis Jesú Krists, þar á meðal hina miklu endurlausnaráætlun. Kennsla Arons hafði djúpstæð áhrif á konunginn.

Svar konungsins við kennslu Arons er að finna í versi 15 í bók Alma, kapítula 22 : „Og svo bar við, að þegar Aron hafði útskýrt þetta fyrir honum, sagði konungur: Hvað ber mér að gjöra til þess að geta öðlast þetta eilífa líf, sem þú hefur talað um? Já, hvað á ég að gjöra til að geta fæðst af Guði og fengið þennan illa anda upprættan úr brjósti mér og tekið á móti anda hans og fyllst gleði, þannig að mér verði ekki vísað frá á efsta degi? Sjá, sagði hann. Ég vil fórna öllu, sem ég á. Já, ég vil láta ríki mitt af hendi til þess að hljóta þessa miklu gleði.“

Það er mjög áhugavert að bera saman að áður hafði konungurinn verið reiðubúinn að láta af hendi hálft konungsríki sitt til að halda lífi en nú var hann reiðubúinn að láta af hendi allt konungsdæmið til að upplifa þá gleði sem kemur frá því að skilja, meðtaka og lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists.

Eiginkona mín, Nancy, er einnig trúskiptingur. Hún hefur oft nefnt við mig, í gegnum árin, þá gleði sem hún hefur fundið fyrir í lífi sínu frá því hún fann, tók á móti, og hóf að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists. Það sem kemur hér á eftir eru hugleiðingar systur Maynes um upplifun sína:

„Ég var rétt rúmlega tvítug kona stödd á þeim stað í mínu lífi að ég vissi að eitthvað þurfti að breytast svo ég gæti orðið hamingjusamari manneskja. Mér fannst ég reka stefnulaust án tilgangs og ég vissi ekki hvar ég gæti fundið það sem til þurfti. Ég hafði ætíð vitað að himneskur faðir væri til og öðru hverju hafði ég farið með bænir í mínu lífi. Mér fannst hann hlusta.

Ég sótti nokkrar mismunandi kirkjur, er ég hóf leit mína, en fann samt alltaf fyrir sömu tilfinningum vonleysis. Mér finnst ég vera mjög blessuð, því að bæn mín um stefnu og tilgang í lífinu var að lokum svarað og fylling fagnaðarerindisins Jesú Krists kom inn í líf mitt. Í fyrsta sinn fannst mér ég hafa tilgang og sæluáætlunin færði raunverulega hamingju inn í líf mitt.

Önnu reynsla frá Mormónsbók sýnir greinilega hvernig líf með Jesú Krist að þungamiðju getur fyllt okkur af mikilli gleði, þrátt fyrir þrengingar allt í kring.

Eftir að spámaðurinn Lehí og fjölskylda hans yfirgáfu Jerúsalem árið 600 f.Kr., ráfuðu þau í um það bil átta ár í óbyggðunum þar til þau að lokum komu inn í landið sem þau kölluðu Nægtarbrunn, sem var nálægt sjónum. Nefí lýsir erfiðu lífi þeirra í óbyggðunum á þennan hátt: „[Við þoldum] þrengingarnar og erfiðleikana … sem meiri voru en svo, að hægt sé að gefa hugmynd um í rituðu máli.“4

Nefí fær fyrirmæli og þá ábyrgð frá Drottni að byggja skip sem mun færa þau yfir vötnin miklu og til fyrirheitna landsins, er þau voru í Nægtarbrunni. Eftir að hafa komist til fyrirheitna landsins þá tók mikill ágreiningur að rísa upp á milli fólksins sem hafði Krist að þungamiðju lífs síns og trúleysingjana sem fylgdu fordæmi Lamans og Lemúels. Að lokum varð áhættan á ofbeldi milli hópanna tveggja það mikil að Nefí og þeir sem fylgdu kenningum Drottins skildu sig frá þeim og flúðu út í óbyggðirnar í leit að öryggi. Á þessum tíma, um 30 árum eftir að Lehí og fjölskylda hans yfirgaf Jerúsalem, skráir Nefí mjög skilmerkilega og í raun undraverða yfirlýsingu, sérstaklega í ljósi þeirra mörgu þrenginga sem þau höfðu gengið í gegnum í svo langan tíma. Eftirfarandi eru hans eigin orð: „Og svo bar við, að við lifðum eftir leiðum hamingjunnar.“5 Þau gátu lifað eftir leiðum hamingjunnar, þrátt fyrir þrautir, vegna þess að Kristur og fagnaðarerindi hans var þungamiðja lífs þeirra.

Bræður og systur, eins og leirinn á snúningshjóli leirsmiðsins þá þarf líf okkar að hafa Krist að þungamiðju, af nákvæmni, ef við eigum að finna sanna gleði og frið í þessu lífi. Dæmin um konung Lamaníta, Nancy, eiginkonu mína, og Nefítana styður þessa sönnu reglu.

Í dag ber ég ykkur vitnisburð minn að við getum einnig fundið þennan frið, þessa hamingju, þessa sönnu gleði ef við veljum að lifa lífi sem hefur Krist að brennidepli, í nafni Jesú Krists, amen.