2010–2019
Hið velþóknanlega orð Guðs
Október 2015


Hið velþóknanlega orð Guðs

Hið velþóknanlega orð Guðs sýnir okkur þörfina fyrir áframhaldandi iðrun í lífi okkar svo að við getum viðhaldið áhrifum heilags anda.

Mörg okkar, sem höfum safnast saman til að taka þátt í þessari ráðstefnu, höfum komið til að „heyra hið velþóknanlega orð Guðs, já, orðið, sem læknar hrjáða sál“ (Jakob 2:8). Þetta orð má finna í ritningunum og í skilaboðum leiðtoga okkar, það glæðir okkur von og huggun í myrkri rauna okkar.

Í gegnum lífsreynslu okkar lærum við að gleðin í þessum heimi er ekki algjör, en í Jesú Kristi er gleði okkar algjör (sjá K&S 101:36). Hann mun veita okkur styrk svo að við munum ekki líða nokkrar þrengingar, nema því aðeins að þær hverfi í fögnuði hans (sjá Alma 31:38).

Hjörtu okkar kunna fyllast angist þegar við horfum á ástvin okkar þjást af hryllilegum sjúkdómi.

Fráfall einhvers sem við unnum getur skilið eftir tómarúm í sálu okkar.

Þegar eitthvert barna okkar leiðist af vegi fagnaðarerindisins, þá finnum við fyrir sektarkennd og óvissu um eilíf örlög þeirra.

Vonin um að eignast himneskt hjónaband og að stofna fjölskyldu í þessu lífi dvínar er tíminn líður hjá.

Slæm meðferð af hálfu þeirra sem eiga að elska okkur getur skilið eftir sársaukafulla áverka á sál okkar.

Hjúskaparbrot maka getur gert að engu samband sem við vonuðumst til að yrði eilíft.

Þessar þrengingar, og svo margar aðrar sem eru eðlislægar þessum reynslutíma, orsaka það að stundum spyrjum við okkur sjálf þeirrar sömu spurningar sem spámaðurinn Joseph Smith spurði: „Ó Guð, hvar ert þú? (K&S 121:1).

Á þessum raunarstundum í lífi okkar, þá færir hið velþóknanlega orð Guðs, sem læknar hrjáða sál, okkur eftirfarandi huggun í hjarta okkar og huga.

„Sonur minn, friður sé með sál þinni. Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund–

Og ef þú stenst það vel, þá mun Guð upphefja þig í upphæðum“ (K&S 121:7–8).

Hið velþóknanlega orð Guðs fyllir okkur von, vitandi að þau sem eru trúföst í mótlæti munu öðlast hin meiri laun í himnaríki og að „eftir mikið mótlæti koma blessanirnar“ (sjá K&S 58:3–4).

Hið velþóknanlega orð Guðs, eins og spámennirnir mæla það, veitir okkur það öryggi að hin eilífa innsiglun, studd af trúfesti okkar gagnvart guðlegum loforðum sem okkur voru veitt, vegna hugdjarfrar þjónustu okkar fyrir málstað sannleikans, mun blessa okkur og afkomendur okkar (Sjá Orson F. Whitney, í Conference Report, apr. 1929, 110).

Það veitir okkur einnig það öryggi, að eftir að við höfum lifað trúföstu lífi, þá munum við ekki tapa neinum blessunum fyrir það að hafa ekki gert vissa hluti, ef okkur var aldrei veitt tækifæri til þess að gera þá. Ef við höfum lifað trúfastlega fram á dauðadag, þá munum við „öðlast allar blessanir, upphafningu og dýrð sem nokkur karl eða kona getur fengið [sem hefur verið gefið það tækifæri]. “ (Sjá The Teachings of Lorenzo Snow, ritst. af Clyde J. Williams [1984], 138).

Nú er það mikilvægt að skilja, að sumar þjáningar og þrengingar geta einnig komið inn í líf okkar ef við iðrumst ekki synda okkar fyllilega. Marion G. Romney, forseti kenndi „Þjáningar þær og raunir sem fólk þolir hér á jörðu, eru afleiðingar af þrotlausum syndum sem ekki hefur verið iðrast af. …“ Á sama hátt og þjáningar og sorg fylgja synd, þá fylgir hamingja og gleði fyrirgefningu syndanna.“ (í Conference Report, apr. 1959, 11).

Af hverju veldur skortur á iðrun, þjáningu og sársauka?

Eitt af mögulegum svörum getur verið að „refsing var ákvörðuð og réttvís lögmál sett, sem færðu manninum samviskubit“ (sjá Alma 42:18; sjá einnig vers 16). Spámaðurinn Joseph Smith kenndi að við erum þau sem dæmum okkur sjálf, að það séu kvalir vonbrigðanna í huga okkar, sem gerir hana jafn gífurlega og hafsjó sem logar af eldi og brennisteini (sjá Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith [2007], 224).

Ef við reynum að friða samvisku okkar með því að „afsaka [okkur sjálf] hið minnsta vegna synda [okkar]“ (Alma 42:30) eða með því að reyna að hylja þær, afrekum við einungis það að misbjóða andanum (sjá K&S 121:37) og að slá iðrun okkar á frest. Fyrir utan að vera tímabundinn þá mun slíkur frestur, á endanum, skapa meiri sársauka og sorg og mun minnka líkur okkar á því að fá fyrirgefningu synda okkar.

Hið velþóknanlega orð Guðs mun einnig færa slíkri þjáningu huggun og von, sem segir okkur að það sé til lausn frá þeim sársauka sem áhrif syndar veldur. Þessi hvíld kemur frá friðþægingarfórn Jesú Krists og er virkjuð með því að iðka trú á hann, iðrast og hlýða boðorðum hans.

Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að, eins og með fyrirgefningu synda, þá er iðrunin ferli og ekki eitthvað sem gerist á einhverju tilteknu andartaki. Hún krefst einlægni í hverju skrefi.

Við sýnum t.d. Drottni að við ætlum ávallt að minnast hans og halda borðorð hans, þegar við meðtökum sakramentið. Það er tjáning á einlægum ásetningi okkar.

Um leið og við tökum að minnast hans og halda boðorð hans á hverjum degi – ekki einungis á hvíldardegi – fer fyrirgefning synda okkar smám saman að eiga sér stað og það loforð hans tekur að uppfyllast að við höfum anda hans ætíð með okkur.

Án þeirrar einlægu hlýðni, sem verður að fylgja ásetningi okkar, þá munu áhrif fyrirgefningar fljótlega hverfa og það dregur úr samfélagi andans. Við tökum þá áhættu að heiðra hann með vörum okkar á sama tíma og við erum víðsfjarri í hjörtum okkar (sjá 2 Ne 27:25).

Auk þess að hugga okkur, þá varar hið velþóknanlega orð Guðs okkur við því að þetta fyrirgefningarferli geti riðlast þegar við flækjumst í „hégóma heimsins,“ og að það er hægt að hefja það aftur í gegnum trú, ef við iðrumst einlæglega og sýnum auðmýkt (sjá K&S 20:5–6).

Hvaða hégómi gæti truflað fyrirgefningarferlið, sem tengist því að halda hvíldardaginn heilagan?

Nokkur dæmi gætu verið að koma seint á sakramentissamkomu án lögmætrar afsökunar, að koma án þess að hafa skoðað huga okkar áður, að meðtaka brauðið og vatnið óverðuglega, (sjá 1 Kor 11:28); og að koma án þess að játa fyrst syndir okkar og biðja Guð fyrirgefningar á þeim.

Önnur dæmi gætu verið, að sýna óvirðingu með því að skiptast á skilaboðum í gegnum rafræn tæki okkar, að yfirgefa samkomuna eftir að meðtaka sakramentið og að taka þátt í viðburðum á heimilum okkar sem sæma ekki þessum helga degi.

Hvað gæti verið ein ástæða þess að við náum oft ekki að halda hvíldardaginn heilagan, þó að við vitum alla þessa hluti.

Í Jesaja getum við fundið svar sem getur tengst hvíldardeginum, þó að það eigi einnig við um önnur boðorð sem við verðum að halda: „Varast að vanhelga hvíldardaginn, varast að gegna störfum þínum á helgum degi mínum“ (Jes 58:13).

Lykilorðin eru að „varast að gegna störfum þínum,“ eða með öðrum orðum, við þurfum að gera vilja Guðs. Oft skarast vilji okkar við vilja Guðs - mótaður af þrám, löngunum og ástríðum hins náttúrlega manns. Spámaðurinn Brigham Young kenndi að þegar „vilji, ástríður og tilfinningar einhvers, eru fyllilega undirgefin Guði og kröfum hans, þá er sú persóna helguð. Það er að vilji minn verði umlukinn vilja Guðs sem mun leiða mig inn í allt sem gott er og krýna mig að lokum með ódauðleika og eilífu lífi.“ (Deseret News, 7. sept.1854,1).

Hið velþóknanlega orð Guðs býður okkur að nota kraft friðþægingarinnar til að heimfæra hana yfir á okkur sjálf og að sættast við vilja hans og ekki við vilja djöfulsins og holdsins, svo að við getum verið frelsuð fyrir náð hans (sjá 2 Ne 10:24–25).

Hið velþóknanlega orð Guðs sem við eigum sameiginlegt í dag, sýnir okkur þörfina fyrir áframhaldandi iðrun í lífi okkar svo að við getum viðhaldið áhrifum heilags anda eins lengi og mögulegt er.

Það að hafa samfélag andans mun gera okkur að betra fólki. „Hann mun hvísla frið og gleði í sálir [okkar] og afmá illgirni, öfund, erjur, og allt illt úr hjörtum [okkar]; og [við] [munum] aðeins þrá að gera gott, koma réttlæti til leiðar og byggja upp ríki Guðs.“(sjá Teachings: Joseph Smith, 98).

Með áhrifum heilags anda munum við hvorki móðgast, né munum við móðga aðra, við munum vera hamingjusamari og hugur okkar verða hreinni. Kærleikur okkar til annarra mun aukast. Við munum verða fúsari til að fyrirgefa og að dreifa hamingjunni til þeirra sem í kringum okkur eru.

Við munum verða þakklát að sjá hvernig aðrir vaxa og við munum sjá hið góða í öðrum.

Það er bæn mín að við megum upplifa þá gleði sem kemur frá því að kappkosta að lifa réttlátlega og að við megum viðhalda samfélagi heilags anda í lífi okkar í gegnum einlæga og áframhaldandi iðrun. Við munum verða betra fólk og fjölskyldur okkar verða blessaðar. Um þessar reglur vitna ég, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.