2010–2019
Verðug okkar fyrirheitnu blessana
Október 2015


Verðug okkar fyrirheitnu blessana

Við verðum dag hvern að einblína á hinar undursamlegu fyrirheitnu blessanir föður okkar.

Eruð þið ekki hrifnar af þessari systur í myndbandinu? Okkur er ljóst að margar ykkar sem ekki hafið haft tækifæri til að eignast eigin börn, hafið varið lífi ykkar í það að að elska, fræða og blessa börn. Ó, hve himneskur faðir og við, systur ykkar, elskum ykkur fyrir að gera það!

Höfum við allar, þar með talið hinar ungu kæru systur í Barnafélaginu og Stúlknafélaginu, haldið á nýfæddu barni í örmum okkar, sem horfir beint í augu okkar? Höfum við upplifað hina helgu tilfinningu sem stafar frá slíkum himneskum anda, sem svo nýverið var sendur úr návist föður okkar á himnum, í hinn nýskapaða, hreina og smávaxna líkama? Ég hef sjaldan við önnur tækifæri upplifað slíkar ljúfar og andlegar tilfinningar.

Líkami okkar er helg gjöf frá himneskum föður. Hann er okkar eigið musteri. Þegar við höldum honum hreinum og saklausum, getum við verið verðugar þess að hjálpa föður okkar á himnum við að skapa líkama fyrir hans ástkæru andabörn.

Ljósmynd
President Packer speaks

Í síðustu aðalráðstefnuræðu Boyds K. Packer forseta, sem þið gætuð munað eftir sem „köku og kossi,“ ber hann þetta vitni: „Boðorðið um að margfalda og uppfylla jörðin … er nauðsynlegt … og er hamingju-uppspretta mannsins. Með réttlátri notkun þessa sköpunarkraftar, getum við komist nær föður okkar á himnum og upplifað fyllingu gleðinnar, jafnvel guðdóm. Sköpunarkrafturinn er ekki tilfallandi hluti af sæluáætluninni; hann er lykillinn að hamingjunni.“

Hann hélt áfram:

„Sönn ást krefst þess að sú ástúð sem lýkur upp helgum krafti þessarar uppsprettu lífsins sé varðveitt þar til eftir stofnun hjónabands … með því að forðast aðstæður þar sem líkamlegar þrár gætu tekið völdin. …

„… Hamingja okkar í jarðlífinu, gleði okkar og upphafning, er háð því hvernig við bregðumst við þessum stöðugu og sterku líkamlegu þrám.“1

Kæru systur, bæði ungar og aldnar, ég fann til mikils kvíða við að undirbúa þessa ræðu. Líkt og Alma yngri sagði: „Nú óska ég þess … af innstu hjartans rótum … að þér … ákallið hans heilaga nafn [og] vakið og biðjið án afláts, svo að þér freistist ekki um megn fram … svo að yður verði lyft upp á efsta degi.“2

Síðar vitnaði Mormón líka að á tíma Alma, hafi Kóríhor, antikristur, „[prédikað] … og [leitt] hjörtu margra [kvenna] afvega.“3

Systur, Satan hefur með auknum árangri dregið að húni fána Kóríhors á okkar tíma. Hver eru sum verkfæri hans? Lostafullar ástarögur, sjónvarpssápuóperur, giftar konur í sambandi við gamla kærasta á samfélagsmiðlum og klámið. Við verðum að gæta vel að okkur, kæru systur! Við getum ekki leikið okkur með eldörvar Satans án þess að brenna okkur. Ég þekki ekkert sem getur okkur hæfari fyrir stöðugt samfélag við heilagan anda, en dyggðugt líferni!

Margir í heiminum í dag leita stundaránægju og ódýrrar þekkingar á Alnetinu. Ef við aftur á móti iðkum trú og þolinmæði og leitum til himnesks föður, uppsprettu alls sannleika, munum við uppskera miklar blessanir. Mörg svör og staðfestingar geta hlotist með því að kanna og læra ritningarnar daglega og biðja einlægrar og innilegrar bænar, en engin slík loforð gilda um Alnetið. Spámaðurinn Jakob sagði: „Því að andinn segir sannleikann, en lýgur ekki. Þess vegna talar andinn um hlutina eins og þeir í raun eru og eins og þeir í raun munu verða.“4

Þegar við horfum á, lesum eða upplifum eitthvað sem er neðan við staðla himnesks föður, mun það veikja okkur. Hver sem aldur okkar er, ef það sem við horfum á, lesum, hlustum á eða veljum að hafa fyrir stafni, samræmist ekki stöðlum Drottins í Til styrktar æskunni, losum okkur þá við það og segjum endanlega skilið við það.

Ljósmynd
Frelsarinn í Getsemane

Engin okkar er fullkomin, en Packer forseti hefur veitt þessa áminningu, ef við höfum syndgað:

„Loforðið er: ‚Þeim sem hefur iðrast synda sinna er fyrirgefið, og ég, Drottinn, minnist þeirra ekki lengur‘ (K&S 58:42). …

… Friðþægingin, sem megnar að endurheimta okkur, skilur engin ör eftir. Það merkir að hann hefur lofað aflausn, ef við iðrumst, hvað sem við höfum gert af okkur, hvar sem við höfum verið eða hvernig sem eitthvað hefur gerst. Þegar hann því friðþægði, þá voru sakirnar uppgerðar. Svo mörg okkar berjast áfram … full sektarkenndar, án þess að finna útgönguleið. Útgönguleiðin er að meðtaka friðþægingu Krists og hvaðeina sem hrjáir ykkur getur snúist upp í fegurð og kærleika og eilífð.“5

Hvaða annað hefur okkur verið gefið en iðrun til að gera okkur kleift að vera hreinar og dyggðugar? Allar í Barnafélaginu og Stúlknafélaginu þekkja og syngja sönginn „Máttur ritninganna.“6 Getum við bætt við hann „mætti bænar,“ „mætti musteris,“ „mætti sáttmála“, „mætti hvíldardags, „mætti spámanns“og „mætti dyggðar“?

Það eru líka miklar blessanir og loforð um vernd sem tengjast því að íklæðast réttilega musterisnærklæðum okkar. Mér hefur lærst að táknrænt er ég að íklæðast konunglegri hempu frá mínum himneska föður. Ég vitna, systur, um að þegar við reynum að íklæðast nærklæðunum á réttan hátt, þá ber ég vitni um að faðir okkar viðurkennir það sem mikilvægt tákn um elsku og tryggð til hans. Þau eru táknræn um sáttmálana sem við höfum gert við Drottin og hann hefur sagt: „Ég, Drottinn, er bundinn, þegar þér gjörið það sem ég segi, en þegar þér gjörið ekki það sem ég segi, hafið þér engin loforð.“7

Nýlega ræddi ég við gamla vinkonu sem hafði gengið í gegnum tvo hjónaskilnaði, vegna ánetjunar og ótryggðar eiginmanna sinna. Hún og börnin hennar þrjú hafa þjást mikið. Hún sárbað: „Ég hef lagt svo hart að mér að vera réttlát. Hvers vegna hafa raunir mínar verið svo miklar? Hvað hef ég gert rangt? Hvað vill himneskur faðir að ég geri? Ég bið oft og les í ritningunum, hjálpa börnum mínum og fer oft í musterið.“

Þegar ég hlustaði á þessa systur, langaði mig til að hrópa: „Þú ert að gera það!“ Þú ert að gera allt sem himneskur faðir vill og vonar að þú gerir!“

Margir hafa skiljanlega sagt að „of langt“ sé í hinar fyrirheitnu blessanir föðurins, einkum þegar erfiðleikarnir eru yfirgengilegir í lífi okkar. Amúlek kenndi: „Þetta líf er tími … til að búa sig undir að mæta Guði.“8 Þetta er ekki tími til að hljóta allar blessanir okkar. Packer forseti útskýrði að orðin: „‚Þau lifðu hamingjusöm upp frá því,‘“ væru aldrei höfð í öðrum leikþætti. Þau orð eru í þriðja leikþætti, þar sem leyndardómar eru gerðir ljósir og allt er leiðrétt.“9 Við verðum samt dag hvern að hafa skýra sýn á hinar undursamlegu fyrirheitnu blessanir föður okkar – sem og meðvitund um hina„[miklu miskunn hans],“10 sem við upplifum á degi hverjum.

Ég veit ekki af hverju raunir okkar eru svo miklar, en það er mín tilfinning, kæru systur, að launin verði svo mikil, svo eilíf og ævarandi, svo gleðirík og utan okkar skilnings, að á degi umbunar munum við segja við okkar miskunnsama og kærleiksríka föður: „Er þetta allt sem krafist er?“ Ég trúi að ef við gætum haft í huga og skynjað hinn mikla kærleika sem himneskur faðir og sonur hans bera til okkar, yrðum við fúsar til að gera hvaðeina sem þeir bæðu okkur um, til að komast aftur í návist þeirra, umluktar elsku þeirra að eilífu. Hverju skipta þjáningar okkar hér, kæru systur, ef slíkar raunir leiða að lokum til þess að við verðum fullgildar til eilífs lífs og upphafningar í ríki Guðs, með föður okkar og frelsaranum?

Ég ber vitni um að líkami okkar er helg gjöf frá himneskum föður og ef við höldum okkur hreinum og saklausum með friðþægingu frelsara okkar og einblínum dag hvern á hinar fyrirheitnu blessanir föður okkar, munum við dag einn hljóta „allt það sem föðurins er.“11 Í nafni hins helga nafns, Jesú Krists, amen.