2010–2019
Leiðandi gjöf barns
Apríl 2016


Leiðandi gjöf barns

Hvernig kennum við börnum okkar að leiða hjá sér hin veraldlegu áhrif og reiða sig á andann?

Ungur faðir var bókstaflega að því kominn að sökkva. Hann hafði farið ásamt tveimur börnum sínum og tengdaföður í langan göngutúr í kringum stöðuvatn. Þau voru umkringd tignalegum furuvöxnum fjöllum og himininn var blár, fylltur mjúkum hvítum skýjum, geislandi fegurð og kyrrð. Þegar börnunum var orðið heitt og þau tóku að þreytast, þá ákváðu mennirnir að setja börnin á bak sér og synda hina stuttu leið yfir vatnið.

Það virtist auðvelt – þar til faðirinn fann að hann dróst niður, allt tók að þyngjast. Vatnið dró hann niður að botni og hann varð frávita af hræðslu. Hvernig átti hann að láta sig fljóta – og gera það með dýrmæta dóttur sína á bakinu?

Rödd hans hvarf í fjarskann er hann kallaði upp og tengdarfaðir hans var of langt í burtu til að svara örvæntingarfullu kalli hans um hjálp. Honum fannst hann einn og hjálparvana.

Getið þið ímyndað ykkur hversu einmanna honum fannst hann vera, ófær um að teygja sig í nokkuð til að halda sér í og að berjast um í örvæntingarfullri stöðu fyrir lífi sínu og barnsins síns? Því miður upplifum við öll þessa tilfinningu að einhverju leyti þegar við erum í aðstæðum þar sem við þurfum nauðsynlega að finna hjálp til að lifa af og bjarga þeim sem við elskum.

Næstum því í ofsahræðslu gerði hann sér grein fyrir því að það voru gegnblautir skórnir sem voru að draga hann niður. Á meðan hann barðist fyrir því að fljóta, hóf hann að reyna að sparka þungum skónum af fótum sér. Það var samt eins og þeir hefðu sogast fastir við hann. Reimarnar voru þrútnar af vatni og héldu enn fastar.

Mögulega, á síðustu andartökum örvæntingar, tókst honum að losa skóna af fótum sér, og loksins losnuðu þeir og féllu hratt niður á vatnsbotninn. Frjáls frá þessari miklu þyngd sem hafði verið að draga hann niður, ýtti hann sér og dóttur sinni upp á við. Hann gat nú synt áfram, og hreyft sig örugglega yfir á hinn vatnsbakkann.

Stundum finnst okkur við vera að drukkna. Lífið getur verið þungt. Við lifum í „hávaðasömum og uppteknum heimi. … Ef við erum ekki varkár þá geta hlutir heimsins [drekkt] því sem andans er.“1

Hvernig getum við fylgt fordæmi þessa föður og sparkað af okkur einhverri þyngd heimsins sem við berum, svo að við getum haldið höfðum barna okkar og áhyggjufullum huga okkar upp úr vatninu? Hvernig getum við gert eins og Páll ráðlagði: „[Létt] þá af oss allri byrði.“?2 Hvernig getum við undirbúið börn okkar fyrir þann dag þegar þau geta ekki lengur hangið í okkur og vitnisburði okkar, þegar þau eru farin að synda sjálf?

Svarið kemur þegar við berum kennsl á þessa guðlegu uppsprettu styrks. Þessi uppspretta er oft vanmetin, en samt er hægt að nota hana daglega til að létta byrðar okkar og til að leiða börn okkar. Uppsprettan er hin leiðbeinandi gjöf heilags anda.

Þegar börn eru átta ára geta þau upplifað skírn. Þau læra um og gera sáttmála við Guð. Þeir sem elska þau, umkringja þau þegar þeim er dýft niður og koma upp úr skírnarfontinum með mikilli gleðitilfinningu. Þau hljóta síðan hina óumræðilegu gjöf heilags anda, gjöf sem getur leitt þau stöðugt er þau lifa fyrir þá blessun.

Öldungur David A. Bednar sagði: „Einfaldleiki [staðfestingarinnar] kann að valda því að okkur sést yfir mikilvægi hennar. Þessi fjögur orð – „meðtak hinn heilaga anda“ – eru ekki óvirk yfirlýsing; heldur felast í þeim prestdæmisfyrirmæli – gild áminning um að hafa áhrif en verða ekki aðeins fyrir áhrifum3.

Börn hafa náttúrulega þrá til að gera gott og vera góð. Við getum skynjað sakleysi þeirra, hreinleika þeirra. Þau hafa einnig mikla næmni fyrir hinni hljóðu, kyrrlátu rödd.

Ljósmynd
Þjónustan við börn Nefítanna

Í 3. Nefí, kapítula 26, sýndi frelsarinn okkur andlega getu barna:

„Og hann losaði um tungur þeirra, og þau mæltu til feðra sinna mikla og undursamlega hluti, jafnvel mikilfenglegri en hann hafði opinberað lýðnum. …

„… [sem] bæði sá og heyrði til þessara; Já, jafnvel ungbörn luku upp munni sínum og mæltu af munni fram undursamlega hluti.“4

Hvernig aukum við, foreldrar, við andlega getu barnanna okkar? Hvernig kennum við þeim að sparka af sér veraldlegum áhrifum og að treysta andanum þegar við erum ekki með þeim og þau eru ein í djúpum vötnum lífsins?

Leyfið mér að deila með ykkur nokkrum hugmyndum.

Í fyrsta lagi, þá getum við minnt börnin okkar á þegar þau heyra og skynja áhrif andans. Förum aftur til tíma Gamla testamentisins til að sjá hvernig Elí gerð nákvæmlega þetta fyrir Samúel.

Hinn ungi Samúel heyrði rödd í tvígang og hljóp til Elí og sagði: „Hér er ég.“

Elí sagði: „Ég hefi ekki kallað“

En „Samúel þekkti ekki enn Drottin, og honum hafði ekki enn birst orð frá Drottni.“

Í þriðja sinn skynjaði Elí að það væri Drottinn sem kallaði á Samúel og sagði Samúel að segja: „Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.“5

Samúel var að byrja að skynja, þekkja og hlusta á rödd Drottins. Þessi ungi drengur byrjaði samt ekki að skilja fyrr en Elí hafði gert grein fyrir þessari skynjun. Eftir að hafa verið kennt, þá gat Samúel lært að þekkja þessa hljóðu, kyrrlátu rödd betur.

Í öðru lagi, þá getum við undirbúið heimili okkar og börn til að skynja hina hjóðu, kyrrlátu rödd. „Margir kennarar erlendra tungumála trúa því að börn geti best lært tungumál með því að kasta þeim út í djúpu laugina, þar sem þau eru umkringd öðrum sem tala málið og eru beðin þess að tala málið sjálf. Þau læra ekki bara að segja orðin heldur að tala reiprennandi og jafnvel að hugsa á nýja tungumálinu. [Besti] staðurinn fyrir hina andlegu fræðslu ‚í djúpu lauginni‘ er á heimilinu, þar sem andleg lögmál geta mótað grundvöll daglegs lífs.“6

„Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum [orð Drottins] og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar.“7Að sökkva fjölskyldum okkar í andann mun halda hjörtum barna okkar opnum fyrir áhrifum hans.

Í þriðja lagi, þá getum við hjálpað börnum okkar að skilja hvernig andinn talar við þau. Joseph Smith kenndi: „Ef hann kemur til lítils barns, mun hann aðlaga sig að tungumáli og hæfni lítils barns.“8 Ein móðir uppgötvaði að börn læra mismunandi – sum sjónrænt, hljóðrænt, með snerti- eða hreyfiskynjun – því meira sem hún fylgdist með börnum sínum, því betur gerði hún sér grein fyrir því að heilagur andi kennir börnum á þann hátt sem þau læra best.9

Önnur móðir deildi reynslu af því að hjálpa börnum hennar að læra að þekkja andann. Hún skrifaði: „Stundum gera [börn] sér ekki grein fyrir því að endurtekin hugsun, huggun eftir grátur eða upprifjun einhvers á nákvæmlega réttum tíma, eru allt aðferðir heilags anda til að tala [við þau].“ Hún heldur áfram: „Ég kenni börnum mínum að einblína á það sem þau skynja [og framkvæma samkvæmt því].“10

Að skynja og þekkja andann mun færa andlega hæfni inn í líf barnanna okkar og röddin sem þau læra að þekkja verður sífellt skýrari. Það verður eins og öldungur Richard G. Scott sagði: „Ég ber vitni um að þegar þið öðlist reynslu og ykkur gengur vel með leiðsögn andans, mun traust ykkar á áhrifin sem þið finnið verða meira og öruggara en tiltrú ykkar á það sem þið sjáið eða heyrið.“11

Við þurfum ekki að óttast er við sjáum börnin okkar fara út í hin djúpu vötn lífsins, því við höfum hjálpað þeim að losa sig við hina veraldlegu þyngd. Við höfum kennt þeim að lifa fyrir leiðbeinandi gjöf andans. Þessi gjöf mun halda áfram að létta þær byrðar sem þau bera og leiða þau aftur til heimilis þeirra á himnum, ef þau verðskulda hana með eigin líferni og fylgja leiðsögn andans. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Joseph B. Wirthlin, „The Unspeakable Gift,“ Liahona, maí 2003, 27.

  2. Hebr 12:1.

  3. David A. Bednar, „Receive the Holy Ghost,“ Liahona, nóv. 2010, 95.

  4. 3 Ne 26:14, 16.

  5. Sjá 1 Sam 3:4–10.

  6. C. Terry and Susan L. Warner, „Helping Children Hear the Still, Small Voice,“ Tambuli, ágúst 1994, 27.

  7. 5 Mós 6:7.

  8. Joseph Smith, í History of the Church, 3:392.

  9. Sjá Merrilee Browne Boyack, „Helping Children Recognize the Holy Ghost,“ Liahona, des. 2013, 10–12.

  10. Irinna Danielson, „How to Answer the Toughest ‚Whys‘ of Life,“ 30. okt., 2015, lds.org/blog.

  11. Richard G. Scott, „To Acquire Spiritual Guidance,“ Liahona, nóv. 2009, 7.