2010–2019
Hinn heilagi staður endurreisnarinnar
Apríl 2016


Hinn heilagi staður endurreisnarinnar

Palmyra var staður endurreisnarinnar, þar sem rödd föðurins hljómaði að liðnum tveimur árþúsundum.

Góðvinur minn, sem var meðlimur kirkjunnar, reyndi árum saman að kenna mér fagnaðarerindi eilífra fjölskyldna. Það var ekki fyrr en ég sótti opna húsið í São Paulo musterinu í október 1978 og ég fór inn í innsiglunarherbergið að kenningin um eilífar fjölskyldur smaug inn í hjarta mitt. Í marga daga baðst ég fyrir hvort þetta væri hin sanna kirkja.

Ég var ekki trúrækinn en hafði verið alinn af foreldrum sem voru það og höfðu tekið eftir því sem gott var í öðrum trúarbrögðum. Á þeim tímapunkti taldi ég öll trúfélög vera Guði þóknanleg.

Ég leitaði að svari, eftir að hafa heimsótt opna hús musterisins, af trú og sannfæringu að Guð myndi svara mér hvaða kirkja væri hans hér á jörðu.

Eftir andlega baráttu hlaut ég að lokum skýrt svar. Mér var boðið að láta skírast. Skírn mín átti sér stað 31. Október 1978, kvöldið áður en São Paulo musterið var vígt.

Mér varð ljóst að Drottinn þekkti mig og þótti vænt um mig, er hann bænheyrði mig.

Næsta morgun fór eiginkonan mín og ég til São Paulo til að taka þátt í vígsluathöfninni á musterinu.

Við vorum þarna þótt ég kunni í raun ekki ennþá að meta þetta dásamlega tækifæri. Næsta dag sóttum við svæðisráðstefnu.

Við hófum ferðalag okkar í kirkjunni og eignuðumst góða vini sem hjálpuðu okkur í gegnum þetta breytingarskeið í lífinu.

Bekkurinn fyrir nýja meðlimi, sem við sóttum í hverri viku á sunnudagssamkomum var dásamlegur. Hann fyllti okkur af þekkingu og lét okkur óska þess að vikan liði hraðar svo sunnudagur rynni upp fyrr og við gætum fengið meiri andlega næringu.

Eiginkona mín og ég hlökkuðum ákaflega til að sækja musterið heim og innsiglast fjölskyldu okkar um alla eilífð. Það gerðist einu ári og sjö dögum eftir skírn mína og var dásamleg stund. Mér leið eins og eilífðunum hefði verið skipt í tvennt við altarið, það sem kom áður en innsiglað var og svo eftir innsiglunina.

Ég hafði búið löglega á austurströnd Bandaríkjanna og var því kunnugur sumum borgunum, sem voru flestar litlar.

Þegar ég las eða heyrði um atburðina sem áttu sér stað fyrir fyrstu sýnina, þá var mannfjöldi nefndur sem mér fannst ekki passa.

Ýmsar spurningar fóru að láta á sér kræla. Hvers vegna var kirkjan endurreist í Bandaríkjunum en ekki Brasilíu eða Ítalíu, landi forfeðra minna?

Hvar var mannfjöldinn sem tók þátt í uppvakningunni og ringulreið trúarbragðanna – allt þetta hafði gerst á svo friðsælum og rólegum stað?

Ég spurði marga en fékk engin svör. Ég las allt sem ég komst yfir á portúgölsku og síðan á ensku en fékk engin svör sem róað gátu hjarta mitt. Ég hélt áfram að leita.

Í október 1984 sótti ég aðalráðstefnu sem ráðgjafi í stikuforsætisráði. Eftir ráðstefnuna fór ég til Palmyra, New York, ákafur í leit að svarinu.

Ég reyndi að skilja, þegar ég var kominn þangað: Hvers vegna þurfti endurreisnin að eiga sér stað hér og hvers vegna var svona mikið andlegt uppnám? Hvaðan kom allt fólkið sem Joseph Smith nefndi í frásögn sinni? Hvers vegna hér?

Skynsamlegasta svarið, á þessum tíma, var að stjórnarskrá Bandaríkjanna ábyrgðist frelsi.

Þennan morgun fór ég í Grandin bygginguna, þar sem fyrsta útgáfa Mormónsbókar var prentuð. Ég fór í lundinn helga, þar sem ég baðst mikið fyrir.

Það var nánast enginn á götum úti í þessum litla bæ, Palmyra. Hvaðan kom allur mannfjöldinn sem Joseph hafði nefnt?

Ég ákvað, á þessum eftirmiðdegi að skoða Peter Whitmers býlið og þegar ég kom þangað, sá ég mann standa við gluggann. Augu hans ljómuðu ákaflega. Ég heilsaði honum og tók svo til við að spyrja sömu spurninganna.

Hann spurði mig síðan: „Hefur þú tíma?“ Ég svaraði því játandi.

Hann útskýrði að Erie og Ontario vötnin væru á þessu svæði og nokkrum spöl austar væri Hudson áin.

Snemma á nítjándu öld hafði fólkið ákveðið að byggja skurð til að ferðast eftir, sem myndi liggja í gegnum þetta svæði. Hann yrði rúmlega 480 km langur og næði niður að Hudson ánni. Þetta var stórt framtak og fólkið gat einungis reitt sig á mannaflið sem og dýrin.

Palmyra var miðpunktur þessara framkvæmda. Byggingamennirnir þurftu faglært fólk, tæknifólk, fjölskyldur og vini þeirra. Mikið af fólki tók að berast í bæinn úr nágrannabæjum og lengra að, til að mynda frá Írlandi, til að vinna við gerð skurðarins.

Þetta var mjög helg og andleg stund því ég hafði loks fundið mannfjöldann. Fólkið kom með siði sína og trúarskoðanir. Hugur minn varð upplýstur og Guð opnaði andlegu augu mín, þegar maðurinn nefndi trúarskoðanir fólksins.

Á því augnabliki skildi ég hvernig hönd Guðs, föður okkar, í sinni gífurlegu visku, hafði undirbúið í áætlun sinni stað fyrir hinn unga Joseph Smith, mitt í allri trúarbragðaringulreiðinni því þarna, á Kúmórahæð, voru hinar dýrmætu töflur Mormónsbókar faldar.

Þetta var sviðið fyrir endurreisnina, þar sem rödd föðurins heyrðist aftur, eftir nærri 2000 ár, í dásamlegri sýn, að tala við drenginn Joseph Smith, þegar hann fór í lundinn helga til að biðja og heyra: „Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“1

Þar sá hann tvær verur, sem voru svo bjartar og dýrðlegar að ekki verður með orðum lýst. Já, Guð opinberaði sig manninum aftur. Myrkrið sem huldi jörðina tók að dreifast.

Spádómar um endurreisnina tóku að uppfyllast: „Og ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“2

Á fáeinum árum var Joseph leiddur að heimildum um spádóma, sáttmála og helgiathafnir sem fornir spámenn höfðu skilið eftir, okkar ástkæru Mormónsbók.

Kirkja Jesú Krists gæti ekki hafa verið endurreist án hins eilífa fagnaðarerindis sem er opinberað í Mormónsbók, öðru vitni um Jesú Krist, jafnvel son Guðs, Guðslambið sem tók í burtu syndir heimsins.

Kristur sagði við fólkið í Jerúsalem:

„Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi.“3

„Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig.“4

Ég minnist þess ekki að hafa kvatt þegar ég yfirgaf Whitmer býlið. Ég man bara eftir tárunum sem runnu frjálslega niður kinnar mínar. Sólin var að setjast á fallegum himni.

Í hjarta mínu var feikileg gleði og friður róaði sál mína. Ég var uppfullur af þakklæti.

Nú skildi ég greinilega ástæðuna. Enn á ný hafði Drottinn veitt mér þekkingu og ljós.

Á heimleiðinni héldu ritningargreinar að flæða inn í huga minn. Loforðin sem faðir Abraham hlaut að af niðjum hans yrðu allar fjölskyldur jarðarinnar blessaðar.5

Og því yrðu musteri reist til að hægt væri að veita manninum á jörðinni guðdómlegan kraft á ný til þess að fjölskyldur gætu verið sameinaðar. Ekki bara þar til dauðinn aðskilur okkur heldur um alla eilífð.

„Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma.“6

Ef þið, sem heyrið rödd mína, hafið einhverjar spurningar í hjarta ykkar þá hvet ég ykkur til að gefast ekki upp!

Ég býð ykkur að fylgja fordæmi spámannsins Joseph Smith þegar hann las í Jakobsbréfi 1:5: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega.“

Það sem gerðist í Kúmóra var mikilvægur þáttur í endurreisninni þar sem Joseph Smith meðtók plöturnar sem innihéldu Mormónsbók. Þessi bók getur fært okkur nær Kristi en nokkur önnur bók á jörðinni.7

Ég ber vitni mitt að Drottinn hefur alið spámenn, sjáendur og opinberara til að leiðbeina ríki sínu á þessum síðari dögum og í hans eilífu áætlun eiga fjölskyldur að vera saman að eilífu. Hann ber umhyggju fyrir börnum sínum. Hann bænheyrir okkur.

Jesús Kristur friðþægði fyrir syndir heimsins, vegna mikillar elsku sinnar. Hann er frelsari heimsins. Um þetta vitna ég í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.