2010–2019
Hvar eru lyklar og vald prestdæmisins?
Apríl 2016


Hvar eru lyklar og vald prestdæmisins?

Vald og lyklar prestdæmisins ræsa vélina, ljúka upp gáttum himins, veita kraft himins og gera sáttmálsveginn greiðfæran til að komast aftur til okkar himneska föður.

Þegar síðdegissólin tók að síga aftan við stóra skíðabrekkuna, tók ískalt vetrarloftið að bíta kinnar og nef, svo við tókum að huga að því að leggja af stað að bílastæði skíðasvæðisins. Í þægilegum bílnum væri brátt hægt að ylja kalda tær og fingur. Í hverju skrefi gaf marrandi hljóðið í hörðum snjónum til kynna að afar kalt var orðið.

Fjölskyldan hafði notið dagsins í skíðabrekkunni, en nú var deginum að ljúka í frostinu. Við fórum að bílnum og ég fór í úlpuvasann eftir lyklunum og síðan í einn vasa af öðrum. „Hvar voru lyklarnir?“ Allir biður í ofvæni eftir að ég finndi lyklana! Rafgeymirinn og bíllinn allur var í fínu lagi – þar með talið miðstöðin – allt var til reiðu, en án lykla komumst við ekki inn um læstar dyrnar; án lykla var ekki hægt að ræsa vélina og aka bílnum.

Þegar við vorum þarna hugsuðum við aðeins um það hvernig við gætum komist inn í bílinn og hlýjuna, en ég komst samt ekki hjá því - jafnvel í þessum aðstæðum – að hugsa að í þessu gæti falist lexía. Án lykla var bílinn, hið dásamlega verkfræðiundur, lítið annað en plast og málmur. Þótt bíllinn byggi yfir miklum möguleikum, þá gerði hann ekki sitt tilætlaða gagn án lyklanna.

Því meira sem ég íhugaði þessa reynslu, því dýpri varð merking hennar. Ég furða mig á elsku föðurins til barna sinna. Ég furða mig á hinum himnesku vitjunum og hinni miklu eilífðarsýn sem Guð veitti Joseph Smith. Einkum fyllist ég yfirþyrmandi þakklæti fyrir endurreisn valds og lykla prestdæmisins. Án þessarar endurreisnar kæmumst við ekki inn í hið nauðsynlega farartæki sem flytur okkur heim til okkar himnesku foreldra. Framkvæmd sérhverrar helgiathafnar sáluhjálpar, sem felur í sér sáttmálsveg til að snúa aftur til dvalar í návist föður okkar á himnum, krefst réttmætrar stjórnunar með prestdæmislyklum.

Í maí 1829 birtist Jóhannes skírari Joseph Smith og Oliver Cowdery, veitti þeim Aronsprestdæmið og lykla þess prestdæmis. Stuttu eftir veittu Pétur, Jakob og Jóhannes þeim lykla Melkísedeksprestdæmisins.1

„Drottinn Jehóva birtist í dýrð,“ þeim Joseph og Oliver, aðeins sjö árum síðar, á sunnudegi í Kirtland musterinu, viku eftir vígslu þess, og á eftir honum komu Móse, Elías og Elía, til að „afhenda lykla sína og ráðstafanir.“2 Þetta endurreista vald og lyklar prestdæmisins höfðu verið glötuð um aldir. Á líkan hátt og bíllinn var læstur fjölskyldu minni, þar sem lyklarnir voru glataðir, voru helgiathafnir fagnaðarerindis Jesú Krists læstar öllum börnum himnesks föður – þar til himneskir sendiboðar gerðu guðlega endurreisn að veruleika. Aldrei aftur þurfum við að efast og spyrja: „Hvar eru lyklarnir?“

Ljósmynd
Endurreisnarsvæði prestdæmisins
Ljósmynd
Susquehanna-áin

Á fallegum haustdegi í fyrra fór ég í friðsælt skóglendi í norðausturhluta Pennsylvaníu, nefnt Harmony í ritningunum, þar sem Jóhannes skírari birtist Joseph Smith og Oliver Cowdery og endurreisti Aronsprestdæmið. Ég stóð líka á bökkum Susquehanna árinnar, þar sem Joseph og Oliver, sem hlotið höfðu vald og lykla, voru skírðir. Ekki fjarri þessari sömu á, birtust Pétur, Jakob og Jóhannes og endurreistu Melkísedeksprestdæmið og lykla þess.3

Ljósmynd
Heimili Josephs og Emmu Smith
Ljósmynd
Gestamiðstöð endurreisnarsvæðis prestdæmisins
Ljósmynd
Gestamiðstöð endurreisnarsvæðis prestdæmisins

Þessir staðir, sem og endurbygging fyrsta heimilis Josephs og Emmu, þar sem Mormónsbók var að mestu þýdd; nærliggjandi heimili foreldra Emmu; og gestamiðstöðin, sem var felld inn í nýtt samkomuhús, myndar endurreisnarsvæði prestdæmisins, sem allt var vígt af Russell M. Nelson í september á síðasta ári. Þar upplifði ég kraft og raunveruleika þeirra himnesku atburða sem áttu sér stað á þessari helgu grund. Þessi reynsla fékk mig til að ígrunda og biðja og læra um vald og lykla prestdæmisins og fyllti mig þrá til að segja piltum og stúlkum kirkjunnar frá því hvernig endurreistir lyklar og vald prestdæmisins geta blessað þau.

Áður en það er gert, getur verið gagnlegt að skilja þetta ákvæði. Prestdæmið eða prestdæmisvaldið hefur verið skilgreint sem „kraftur og vald Guðs“4 og „fullkomnunarkraftur á þessari jörðu.“5 Prestdæmislyklar hafa líka verið skilgreindir fyrir okkur: „Prestdæmislyklar er valdið sem Guð hefur veitt prestdæmisleiðtogum til að leiðbeina, stjórna og stýra notkun prestdæmis hans á jörðu.“6 Prestdæmislyklar eru stjórntæki til að nota prestdæmisvaldið. Helgiathafnir sem skráðar eru í kirkjunni krefjast lykla og verða ekki framkvæmdar án valdsumboðs. Öldungur Dallin H. Oaks sagði: „Allir lyklar prestdæmisins eru í höndum Drottins Jesú Krists, því prestdæmið tilheyrir honum. Hann er sá sem ákveður hvaða lyklum skal úthluta til manna og hvernig nota skal þá lykla.“7

Ég hef ígrundað þrjú atriði fyrir ykkur piltana og stúlkurnar til að „finna lyklana“ eða nota lykla og vald prestdæmisins sjálfum ykkur og öðrum til blessunar.

Í fyrsta lagi að búa sig undir trúboðsþjónustu

Kæru ungu bræður og systur, ekki er víst að þið vitið að lyklar samansöfnunar Ísraels, sem Móse endurreisti, gera trúboðsstarf mögulegt í okkar ráðstöfun. Hugleiðið alla fastatrúboðana sem eru um það bil 75.000 að tölu sem þjóna á trúboðsakrinum undir stjórn þessara lykla. Með það í huga, þá er aldrei of snemmt að búa sig undir trúboðsþjónustu. Í bæklingnum Til styrktar æskunni er ritað: „Ungu menn Aronsprestdæmisins, … keppið af kostgæfni að því að búa ykkur undir að vera fulltrúar Drottins sem trúboðar.“8 Ungar konur geta líka undirbúið sig, en „þið eruð ekki undir sömu tilskipun um slíka þjónustu.“9 Allur ykkar undirbúningur, hvort sem þið þjónið sem fastatrúboðar eða ekki, mun gagnast ykkur alla ævi sem meðlimatrúboðar.

Í öðru lagi að fara í musterið til að „finna lyklana“

Lyklar innsiglunar, sem Elía, spámaður Gamla testamentisins, endurreisti, gerir helgiathafnir mögulegar í hinum helgu musterum. Helgiathafnir sem framkvæmdar eru í þessum musterum gera einstaklingum og fjölskyldum kleift að snúa aftur til dvalar í návist okkar himnesku foreldra.

Við hvetjum pilta og stúlkur til að leita heimilda og finna nöfn áa sinna, til að láta skírast staðgengilsskírn fyrir þá í musterinu. Við bendum á að fordæmislaus fjöldi víða um heim hefur farið eftir þessari leiðsögn! Skírnarsalir margra mustera eru þéttskipaðir piltum og stúlkum, allt frá morgni til kvölds. Lyklum er snúið, sem gerir fjölskyldum kleift að innsiglast, með framkvæmd helgiathafna í musterinu.

Getið þið séð samhengið á milli lykla prestdæmisins og blessana? Þegar þið takið þátt í þessu starfi, munuð þið líklega uppgötva að Drottinn er hluti af því. Hér er tilvik sem staðfestir það. Ég heyrði nýlega af móður sem nýverið fór með börnin sín í musterið til að taka þátt í staðgengilsskírnum. Á þessum sérstaka degi kom maður nokkur inn í skírnarsalinn, er fjölskyldan hafði lokið skírnum sínum og var á leið út úr musterinu, með mörg nöfn sinna eigin ættmenna. Þegar ljóst var að engin var eftir í skírnarsalnum til að aðstoða við nöfn þessa ættmenna, þá kom musterisþjónn að máli við fjölskylduna, sem var á leið út, og spurði börnin hvort þau gætu hugsað sér að fara aftur í skírnarfötin til að aðstoða við skírnirnar. Þau voru fús til þess og fóru aftur til baka. Þegar börnin tóku þátt í skírnunum og móðir þeirra heyrði nöfnin, tók hún að bera kennsla á þau, og öllum til mikillar furðu, þá uppgötvaðist að nöfn ættmenna mannsins voru þau sömu og látinna ættmenna fjölskyldu hennar. Þetta var þeim ljúf og dásamleg reynsla.

Fyrir tveimur vikum var Provo City Center musterið vígt sem 150. starfrækta musteri kirkjunnar á jörðu. Við bendum á að þegar Thomas S. Monson forseti var studdur sem postuli árið 1963, voru 12 musteri starfrækt í kirkjunni. Musterin eru stöðugt að koma nær ykkur. Þau ykkar sem búið þar sem fjarlægðir eða aðstæður koma í veg fyrir að reglulega sé farið í musterið, ættuð ætíð að keppa að verðugleika ykkar til að fara þangað. Þið getið framkvæmt mikilvægt verk fyrir utan veggi musterisins er þið leitið að látnum fjölskyldumeðlimum ykkar og sendið nöfn þeirra í musterið.

Loks, í þriðja lagi: Að sækja fram í trú

Abraham, spámaður Gamla testamentisins, hlaut dásamlegar blessanir frá Drottni í hans ráðstöfun, sem oft er vísað til sem sáttmála Abrahams. Öldum síðar voru blessanir ráðstöfunar fagnaðarerindisins á tímum Abrahams endurreistar. Það átti sér stað þegar spámaðurinn Elía vitjaði Josephs Smith og Olivers Cowdery í Kirtland musterinu.

Sökum þessarar endurreisnar, þá hefur hvert okkar aðgang að þeim dásamlegu blessunum sem lofaðar voru Abraham. Þær blessanir geta orðið ykkar, ef þið eruð trúföst og verðug. Í bæklingnum Til styrktar æskunni er ykkur séð fyrir afar gagnlegum leiðbeiningum um hvernig skuli „sækja fram í trú.“ Ég dreg hér saman eitthvað af þeirri leiðsögn: „Krjúpið kvölds og morgna í bæn til himnesks föður, til að hljóta hjálp við að verða það sem Drottinn ætlar ykkur að verða. … Lærið ritningarnar dag hvern og hagnýtið það sem þið lærið. … Verið hlýðin dag hvern. … Lifið eftir kenningum spámannanna í öllum aðstæðum. … Verið auðmjúk og fús til að hlusta á heilagan anda.“

Þessari leiðsögn fylgir loforð sem bundið er fyrirheitinu sem veitist fyrir blessanir Abrahams: „Ef þið gerið þetta, mun Drottinn gera miklu meira úr lífi ykkar en þið megnið á eigin spýtur. Hann mun auka tækifæri ykkar, hugsýn og styrk. Hann mun veita ykkur þá hjálp sem þið þurfið til að sigrast á mótlæti og erfiðleikum. Þið munuð finna sanna gleði er þið komist til þekkingar á föður ykkar á himnum og syni hans Jesú Kristi, og skynjið elsku þeirra til ykkar.“10

Í samantekt: gerið undirbúning fyrir trúboðsþjónustu, farið í musterið og sækið fram í trú.

Lokaorð

Við skulum nú ljúka þar sem við byrjuðum, sem strandaglópar á hinu kalda bílastæði, spyrjandi: „Hvar eru lyklarnir?“ Meðan ég man, þá get ég sagt ykkur að síðar um kvöldið fann ég lyklana á einhvern furðulegan hátt, en þeir höfðu fallið úr vasa mínum í brekkunni. Drottinn hefur sýnt okkur að hann skilur okkur ekki ein eftir í nístings kulda, án lykla eða valdsumboðs til að komast örugg heim til hans.

Ef þið eruð eins og ég, þá gætuð þið oft spurt ykkur í daglegu lífi: „Hvar eru lyklarnir“ að bílnum, skrifstofunni, húsinu, íbúðinni? Þegar það gerist hjá mér, brosi ég ósjálfrátt hið innra, því þegar ég leita að lyklunum, þá kemst ég ekki hjá því að hugsa um hina endurreistu lykla prestdæmisins og Thomas S. Monson forseta, sem við styðjum sem „spámann, sjáanda og opinberara“11 og þann eina á jörðu sem hefur alla lykla prestdæmisins og hefur vald til þess að nota þá. Já, lyklarnir eru öruggir í höndum spámanna, sjáenda og opinberara. Þeir eru veittir og úthlutaðir öðrum, samkvæmt vilja Drottins, undir leiðsögn forseta kirkjunnar.

Ég ber vitni um að vald og lyklar prestdæmisins ræsa vélina, ljúka upp gáttum himins, veita kraft himins og gera sáttmálsveginn greiðfæran til að komast aftur til okkar kærleiksríka himneska föður.

Ég bið þess að þið, hin upprennandi kynslóð pilta og stúlkna, munuð „sækja fram, [staðföst] í Kristi,“12 að þið fáið skilið hin helgu forréttindi ykkar að geta starfað undir leiðsögn þeirra sem hafa prestdæmislyklana, sem ljúka upp fyrir ykkur blessunum, gjöfum og krafti himins.

Ég ber vitni um Guð föðurinn, um frelsara okkar og lausnara, Jesú Krist, um heilagan anda og endurreisn fagnaðarerindisins á þessum síðari dögum, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Joseph Smith—Saga 1:68–72.

  2. Kenning og sáttmálar 110, kaflafyrirsögn.

  3. Sjá Kenning og sáttmálar 128:20.

  4. Handbook 2: Administering the Church (2010), bls. 8.

  5. Boyd K. Packer, „Priesthood Power in the Home“ (heimsþjálfunarfundur leiðtoga, 20. febr. 2012), lds.org/broadcasts; sjá einnig James E. Faust, „Power of the Priesthood,“ Ensign, maí 1997, 41–43.

  6. Handbook 2, 2.1.1.

  7. Dallin H. Oaks, „The Keys and Authority of the Priesthood,“ Liahona, maí 2014, 50.

  8. For the Strength of Youth (bæklingur, 2011), 43.

  9. Thomas S. Monson, „Welcome to Conference,“ Liahona, nóv. 2012, 5.

  10. For the Strength of Youth, 42–43.

  11. Sjá formið Embættismenn studdir á árlegri ráðstefnu deildar og stiku.

  12. 2 Ne 31:20.