2010–2019
Stend ég mig nægilega vel? Mun mér takast þetta?
Október 2016


Stend ég mig nægilega vel? Mun mér takast þetta?

Ef þið reynið af einlægni, án sjálfsréttlætingar eða mótþróa – iðrist oft og biðjið um náð – þá munið þið vissulega „standa ykkur nægilega vel.“

Kæru bræður og systur, hve blessunarríkt það er fyrir okkur að koma saman til að læra af þjónum Drottins. Er það ekki dásamlegt á hve margan hátt okkar ástkæri himneski faðir blessar okkur? Hann þráir sannlega að við komumst heim.

Fyrir guðsmildi og röð ljúfra atburða sem ungur læknir, nýútskrifaður úr læknaskóla, fékk ég inngöngu í erfiða og krefjandi verkþjálfun í skólavist í barnalækningum. Þegar ég hitti samnemendur mína, fannst mér þeir bæði gáfaðri og reyndari en ég sjálfur. Mér fannst ég engan veginn samkeppnishæfur við hina í hópnum.

Snemma á þriðja mánuði, sat ég eitt sinn síðla kvölds á hjúkrunarstöðinni, dottandi og hálf kjökrandi á víxl við að reyna að skrifa meðferðarlýsingu á lungnabólgu ungs drengs. Ég hafi aldrei áður upplifað þvílíkt vonleysi. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig meðhöndla ætti lungnabólgu. Ég tók að efast um veru mína þarna.

Einmitt á þessari stundu setti einn eldri nemandinn hönd á öxl mér. Hann spurði hvernig mér liði og ég úthellti yfir hann vonleysi mínu og kvíða. Það sem hann sagði við mig breytti viðhorfi mínu algjörlega. Hann sagði mér frá því hve bæði hann sjálfur og aðrir í vistinni væru ánægðir með mig og töldu mig verða framúrskarandi lækni. Hann hafði sem sagt trú á mér á þeirri stundu sem ég hafði enga trú á mér sjálfum.

Líkt og með þessa reynslu mína, þá heyrum við meðlimi oft spyrja: „Stend ég mig nægilega vel sem manneskja?“ eða „Mun ég í raun ná því að komast alla leið í himneska ríkið?“ Auðvitað á það ekki við í þessu samhengi að „standa sig.“ Ekkert okkar „verðskuldar“ eða „á skilið“ eigin sáluhjálp, en eðlilegt er þó að velta fyrir sér hvort við séum þóknanleg Drottni, og í þeim skilningi legg ég fram þessar spurningar.

Stundum fyllumst við vonleysi þegar við sækjum kirkju, jafnvel þótt við reynum af einlægni að bæta okkur sjálf. Í hjarta hugsum við: „Ég get ekki gert þetta allt saman“ eða „Ég mun aldrei standa mig jafn vel og þetta fólk.“ Við getum kannski upplifað það sama og ég gerði á sjúkrahúsinu þetta kvöld.

Kæru bræður og systur, við verðum að láta af því að bera okkur saman við aðra. Við kveljum okkur sjálf að óþörfu með samanburði og samkeppni. Við leggjum rangan dóm á eigið sjálfsmat út frá því sem við gerum eða höfum ekki og út frá skoðunum annarra. Ef við viljum endilega ástunda samanburð, þá getum við lagt mat á það hvernig við vorum áður og hvernig við erum núna – og jafnvel hvernig við viljum verða á komandi tíð. Álit himnesks föður á okkur er það eina sem skiptir okkur máli. Spyrjið hann af einlægni, hvað honum finnst um ykkur. Hann mun elska og leiðrétta okkur, en aldrei draga úr okkur kjark; það er aðferð Satans.

Ég skal vera skýr og skorinmæltur. Svarið við spurningunum: „Stend ég mig nægilega vel?“ og „Mun mér takast þetta?“ er „Já! Þið munið standa ykkur“ og „Já, ykkur mun takast þetta, svo framarlega sem þið haldið áfram að iðrast og réttlætið ykkur ekki eða sýnið uppreisnaranda.“ Guð himins er ekki harðbrjósta útkastari sem leitar allra leiða til að gera okkur óvirk í leiknum. Hann er okkar kærleiksríki og fullkomni faðir, sem þráir framar öllu að öll börn hans komi aftur heim í faðm fjölskyldunnar til eilífrar dvalar hjá honum. Hann gaf okkur vissulega sinn eingetna son, svo mættum ekki glatast, heldur eignast eilíft líf!1 Trúið þessum eilífa sannleika, setjið von ykkar á hann og látið huggast af honum. Himneskur faðir ætlar okkur öllum að komast á leiðarenda! Það er verk hans og dýrð.2

Ég hrífst af því hvernig Gordon B. Hinckley forseti kenndi þessa reglu. Ég heyrði hann oft segja: „Bræður og systur, Drottinn væntir þess aðeins að þið reynið, en þið verðið þá í raun að reyna!“3

„Að reyna í raun“ er að gera sitt besta, bæta það sem þarf að bæta og síðan að halda áfram að reyna. Með því að gera þetta endurtekið, þá komumst við stöðugt nær Drottni; við skynjum anda hans stöðugt meir;4 og við hljótum aukna náð hans eða hjálp.5

Stundum finnst mér við ekki átta okkur á því hve heitt Drottinn þráir að liðsinna okkur. Ég ann orðum öldungs Davids A. Bednar, sem sagði:

„Flest skiljum við vel að friðþægingin er í þágu syndara. Ég er þó ekki viss um að við skiljum og áttum okkur á að friðþægingin er líka fyrir hina heilögu. …

… Og friðþægingin sér okkur fyrir hjálp til að sigrast á hinu illa og forðast það og verða góð. …

… Það er … fyrir náð Drottins sem menn hljóta …styrk og hjálp við að gera góð verk, sem þeir ekki gætu ella [gert] af eigin rammleik. … Náð þessi er virkjandi kraftur …‘ [Bible Dictionary, „Grace“; skáletrað hér] … eða himneska hjálp sem við öll þurfum sárlega á að halda til að verða hæf fyrir himneska ríkið.“6

Það eina sem við þurfum að gera til að hljóta þessa himnesku hjálp er að biðja um hana og síðan að breyta samkvæmt þeim réttláta innblæstri sem við hljótum.

Góðu tíðindin eru þau að fyrri syndir munu ekki koma í veg fyrir upphafningu, ef við höfum iðrast af einlægni. Moróní sagði okkur frá hinum syndugu á hans tíma: „En þeim var fyrirgefið jafn oft og þeir iðruðust og báðust einlæglega fyrirgefningar.“7

Drottinn sjálfur sagði um hinn synduga:

„Játi hann syndir sínar fyrir þér og mér og iðrist af hjartans einlægni, skalt þú fyrirgefa honum, og ég mun einnig fyrirgefa honum.

Já, og jafnoft og fólk mitt iðrast, mun ég fyrirgefa því brot þess gegn mér.“8

Ef við iðrumst af einlægni, mun Guð í raun fyrirgefa okkur, jafnvel þótt við höfum endurtekið drýgt sömu synd. Eins og öldungur Jeffrey R. Holland sagði: „Þótt þið teljið … að tækifærin séu glötuð, að þið hafið gert of mörg mistök … þá ber ég vitni um að þið eruð ekki utan guðlegrar elsku. Þið fáið ekki sökkið neðar geislum hins óendanlega ljóss friðþægingar Krists.“9

Þetta felur ekki á nokkurn hátt í sér að syndin sé ásættanleg. Syndinni fylgja alltaf afleiðingar. Syndin er alltaf skaðleg og meiðir bæði hinn synduga og þá sem verða fyrir áhrifum af syndum hans. Sönn iðrun er aldrei auðveld.10 Áttið ykkur ennfremur á því að jafnvel þótt Guð létti af okkur sektarkendinni og óhreinindum syndar, þegar við iðrumst einlæglega, þá er ekki víst að hann geri þegar í stað að engu allar afleiðingar synda okkar. Stundum loða þær við okkur alla ævi. Versta tegund syndar er sú sem drýgð er af ráðnum hug, er menn segja: „Ég get syndgað núna og iðrast síðar.“ Ég álít að með því séu menn að hæðast að fórn og þjáningum Jesú Krists.

Drottinn sagði sjálfur: „Því að ég, Drottinn, get ekki litið á synd með minnsta votti af undanlátssemi.“11

Alma sagði líka: „Sjá, ég segi þér, að aldrei hefur hamingjan falist í ranglæti.“12

Ein ástæða þess að þessi orð Alma eru vissuega sönn, er sú að með endurtekinni synd, þá fjarlægjumst við andann. Ég endurtek þó að sökum friðþægingar frelsarans, þá getum við iðrast og hlotið fullnaðar fyrirgefningu, um leið og iðrun okkar er einlæg.

Við ættum að iðrast, en ekki réttlæta eða hagræða. Það mun ekki gagnast að réttlæta sjálf okkur í syndum okkar, með því að segja: „Guð veit að mér reynist þetta of erfitt, svo í hans augum er ég ásættanlegur eins og ég er.“ „Að reyna af einlægni“ er að halda áfram þar til við höfum fyllilega náð stöðlum Drottins, sem greinilega eru settir fram með spurningunum sem tengjast því að öðlast musterismeðmæli.

Annað sem vissulega mun halda okkur frá himnum og allri nauðsynlegri aðkallandi hjálp, er uppreisnarandi. Í Mósebók er greint frá því að Satan hafi verið varpað af himni sökum uppreisnar.13 Við ölum á uppreisnaranda í hvert sinn sem við segjum í hjarta okkar: „Ég hvorki þarfnast Guðs, né þarf að iðrast.“

Þar sem ég hef verið barnalæknir, þá veit ég að hafni menn björgunarmeðferð, getur það leitt til óþarfa dauða. Á líkan hátt, getur það leitt til andlegs dauða er við setjum okkur upp á móti Guði og höfnum okkar einu hjálp og von. Ekkert okkar fær gert þetta á eigin spýtur. Ekkert okkar mun nokkurn tíma „standa sig nægilega vel,“ nema fyrir náð og miskunn Jesú Krists,14 en sökum þess að Guð virðir sjálfræði okkar, þá munum við ekki frelsast án þess að keppa að því sjálf. Þannig virkar jafnvægið á milli náðar og verka. Við getum átt von á Krist, vegna þess að hann þráir að hjálpa og bæta okkur. Hann er í raun þegar að hjálpa okkur. Staldrið aðeins við og ígrundið hvernig hann hjálpar ykkur.

Ég ber ykkur vitni um að – ef þið iðrist oft af einlægni, án sjálfsréttlætingar, og biðjið um náð eða liðsinni Krists – þá munið þið vissulega „standa ykkur nægilega vel,“ njóta velþóknunar Drottins; þið munið þá ná að komast í himneska ríkið, gerð fullkomin í Kristi; og þið munið hljóta þær blessanir og dýrð og gleði sem Guð þráir fyrir hvert sinna dýrmætu barna – og einkum fyrir mig og þig. Ég ber vitni um að Guð lifir og þráir að við komum heim. Ég ber vitni um að Jesús lifir. Í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.